08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2474)

177. mál, unglingafræðsla utan kaupstaða

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með flm. og frsm, þessarar till. um nauðsyn þess, að sett verði reglugerð um unglingafræðslu utan kaupstaða, því að vissulega er rétt að styðja þá viðleitni, sem víða er um það að reyna að skapa unglingum aðstöðu til fræðslu í dreifbýlinu, án þess þó að þar sé um sérstaka skóla að ræða. En þetta mál allt er miklu stærra en svo, að það verði leyst með slíkri reglugerð einni. Það vantar skólahús í mörgum héruðum landsins, til þess að hægt sé að fullnægja skyldunámi unglinganna, og það er raunar alveg óviðunandi aðstaða, sem unglingar dreifbýlis eiga við að búa í þessu efni, og þess vegna er nauðsynlegt að taka málið allt upp til meðferðar og athugunar, og þess vegna hefði ég viljað beina þeim tilmælum til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til umsagnar, hvort ekki væri ástæða til þess, að Alþingi gerði ráðstöfun til þess, að skipulag unglingafræðslu almennt utan þéttbýlisins yrði tekið til athugunar og gerðar nýjar ráðstafanir til úrbóta, þannig að tryggt verði, að fullnægt verði skyldunámi unglinga alls staðar, hvar sem er á landinu, og líka sköpuð betri aðstaða til miðskólanáms en núna er viða. Ég ætla, að það væri í mörgum héruðum suðveldast að leysa þetta með því að byggja heimavistarbarnaskóla fyrir börnin og hafa skyldunámið allt í þeim skólum. En sums staðar mundi þurfa að byggja sérstaka skóla, héraðsskóla og aðra slíka skóla, til þess að hægt væri að koma þessu í viðunandi horf. En málið er stórt, og þess vegna er nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að það verði leyst.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, vegna þess að fundartíminn er búinn. Ég vildi aðeins beina þeim tilmælum til hv. n., sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, að hún athugi, hvort þetta er ekki rétt leið.