15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2504)

211. mál, vegáætlun 1964

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hæstv. samgmrh. gerði það að till. sinni i dag, þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði, að því yrði vísað til síðari umr. og fjvn. Nú vildi ég leyfa mér að gera þá till., að fyrri umr. yrði ekki lokið, áður en málinu verður vísað til fjvn., þannig að framhald fyrri umr. yrði, eftir að n. hefur fjallað um málið. Þetta er í samræmi við það, sem gert er, þegar fjárlög eru á ferð, eins og við vitum, að þá er fjárlagafrv. ætíð vísað til n. áður en 1. umr. er lokið. Og till., sem samþ. var í dag um að hafa tvær umr. um málið, nær ekki fyllilega tilgangi sínum, nema þessi háttur sé á hafður. Ég minntist á þetta við hæstv. ráðh., og hann kvaðst láta það afskiptalaust, þannig að hann fyrir sitt leyti hefur ekkert á móti því, að þessi háttur verði á hafður, og ég held, að þetta sé heppilegra vegna þess, hvað hér er um stórt mál að ræða.

Ég ætla ekki að þess u sinni að ræða almennt um þetta mál, en í sambandi við það vil ég gera eina framkvæmd í vegamálum að umtalsefni í fáum orðum, sem er sérstaklega þýðingarmikil fyrir margt fólk í Norðurl. v. Það er lagning Siglufjarðarvegar ytri, öðru nafni Strákavegar.

Það var fyrir u.þ.b. ári, sem ríkisstj. lagði fram þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963–66, og er ákvæði í þeirri áætlun um þessa vegagerð. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp stutta málsgrein úr þeirri bók, bls. 55. Þar segir svo:

„Þá er einnig ætlunin að vinna á þessu og næsta ári að byggingu Strákavegar á milli Siglufjarðar og Fljóta og ljúka byggingunni að fullu á árinu 1965. Aðalkostnaður við þessa framkvæmd er fólginn í jarðgöngum. Ráðgert er, að bygging þeirra hefjist vorið 1964, en hún krefst rækilegs tæknilegs undirbúnings. Lagning vegar úr Fljótum að göngunum mun halda áfram á þessu sumri, og er áætlað að verja til þess 3 millj. kr. Sá vegur mun síðar fullbyggður sumarið 1964 og göngunum lokið í ágústmánuði 1965. Heildarkostnaður allrar framkvæmdar er áætlaður um 21 millj. kr.“

Þannig segir í þessari áætlun. En nýlega hefur komið upp orðrómur um, að meiri dráttur geti orðið á hví að ljúka vegargerðinni, og ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. samgmrh. að því, hvort horfur séu á, að ekki verði staðið við fyrirheitið um að ljúka vegargerðinni sumarið 1965. Takist ekki að standa við þetta fyrirheit, mun það valda ákaflega miklum vonbrigðum hjá Siglfirðingum og einnig hjá Skagfirðingum. Menn þar norður frá hafa lengi beðið eftir þessari nauðsynlegu samgöngubót. Þeir leggja fyllstu áherzlu á, að allt sé gert, sem unnt er, til að ljúka vegargerðinni á næsta ári.

Ég minni á, að árið 1959 voru gerðar tilraunasprengingar í Strákafjalli Siglufjarðarmegin, og voru þá sprengdir um 25 m i jarðgöngunum. Síðan er nú liðið hátt á fimmta ár, og hefði sá tími átt að nægja til að gera allar nauðsynlegar rannsóknir í sambandi við jarðgangagerðina.

Ég vona, að orðasveimurinn um, að vegargerðinni muni ekki lokið sumarið 1965, sé ástæðulaus, en vildi óska upplýsinga hæstv. ráðherra um þetta þýðingarmikla mál.