20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samvinnunefnd samgöngumála hefur eins og jafnan undanfarin ár unnið að undirbúningi till. um fjárveitingar ríkissjóðs til flóabáta og vöruflutninga. Hefur nefndin einnig samkvæmt venju haft nána samvinnu um þetta starf við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, Guðjón Teitsson, sem látið hefur nefndinni í té mjög ýtarlega skýrslu um rekstur og afkomu þessara samgöngutækja. Sá háttur hefur vanalega verið á hafður að prenta þessa skýrslu með nál. samvn., en vegna prentaraverkfallsins, sem nú stendur yfir, og erfiðleika við fjölritun þskj. taldi n. sér ekki fært að láta skýrsluna fylgja með áliti sínu að þessu sinni.

Á þessu ári hefur orðið mjög veruleg hækkun rekstrarkostnaðar hjá flóabátunum. Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa verulegar kauphækkanir orðið á árinu, ýmsar rekstrarvörur bátanna hafa einnig hækkað og þá fyrst og fremst olíur, þannig að n. taldi, að ekki yrði hjá því komizt að leggja til, að framlög til flóabáta og vöruflutninga á landi í nokkur héruð yrðu hækkuð allverulega. Niðurstaða n. hefur orðið sú, að hún leggur til, að styrkirnir verði hækkaðir úr 4.8 millj., sem þeir eru samkv. fjárlögum yfirstandandi árs, í 6 millj. kr. Um það hefur verið rætt og var sérstaklega á síðastliðnu ári í samvn. samgm., að nauðsyn bæri til þess að endurskoða rekstur flóabátanna með tilliti til þess, að verulegar breytingar hafa orðið á flutningum vegna aukins og bætts vegakerfis, aukinna flugsamgangna o. s. frv. Var svo komið á s.l. ári, að samvn. hafði ákveðið að flytja um þetta till. Þetta bar einnig á góma í n. nú, ekki sízt vegna þeirrar hækkunar, sem nauðsynlegt var talið að gera á flutningastyrkjunum. Var þá á það bent, að fyrir 5 eða 6 árum fór einmitt fram mjög ýtarleg rannsókn og endurskoðun á þessum rekstri. Fyrir liggur skýrsla um þá endurskoðun. Ég vil engan veginn halda því fram, að óþarft sé að láta að nýju fara fram endurskoðun á rekstri flóabátanna, en ég tel, að mögulegt sé að fá ýmiss konar upplýsingar og leiðbeiningar um þennan rekstur úr þeirri skýrslu og eftir þá endurskoðun, sem framkvæmd var á þessum málum fyrir tiltölulega fáum árum.

Um rekstur hinna einstöku flóabáta tel ég ástæðu til þess að taka þetta fram:

Lagt er til varðandi Norðurlandssamgöngur, að styrkur til Norðurlandsbátsins Drangs hækki úr 800 þús. kr. í 900 þús. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir, að framlag til Strandabáts verði óbreytt, 160 þús. kr., og er þá miðað við, að báturinn haldi upp ferðum um farsvæði sitt, sem er frá nyrzta hreppi Strandasýslu suður til Hólmavíkur og staðanna þar á milli, eigi skemur en 6 mán. á árinu. Gert er ráð fyrir því, að 20 þús. kr. af þessari 160 þús. kr. fjárveitingu renni til þess að styrkja flugferðir að Gjögri í Arneshreppi. Þessar ferðir hafa fyrir nokkru verið teknar upp og hefur orðið að þeim stórmikil samgöngubót fyrir þetta eitt afskekktasta og einangraðasta byggðarlag landsins.

Þá er lagt til, að framlag til Haganesvíkurbáts verði óbreytt, framlag til Hríseyjarbáts hækki um 5000 kr. og stuðningur við flugferðir til Grímseyjar verði aukinn um 5000 kr.

Þá er lagt til, að styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda verði hækkaður um 15 þús. kr. Að því er snertir Austfjarðasamgöngur, þá eru þær breytingar helztar, að n. leggur til, að heildarstyrkur til Mjóafjarðarbáts verði 150 þús. kr., þar af 50 þús. kr. vegna vélakaupa. Þá er lagt til, að styrkur haldist 50 þús. kr. til rekstrar snjóbifreiðar, sem heldur uppi ferðum frá Seyðisfirði um Fjarðarheiði á Hérað.

Á Suðurlandi er lagt til, að framlag vegna vöruflutninga í Vestur-Skaftafellssýslu hækki um 30 þús. kr., upp í 300 þús. kr. Vestur-Skaftfellingar eiga eina lengstu leið til aðdrátta, og þess vegna hefur áratugum saman verið veitt nokkur fjárveiting til þess að borga niður flutningskostnað á nokkrum vörutegundum. Vegna hækkunar flutningskostnaðar var talið eðlilegt, að styrkur til þessara vöruflutninga yrði hækkaður, eins og ég sagði, um 30 þús. kr. Enn fremur er lagt til, að framlag til vöruflutninga til Öræfa hækki um 10 þús. kr., upp í 140 þús. kr.

Um Faxaflóasamgöngur vil ég segja það, að forráðamenn Skallagríms h/f, sem rekur vélskipið Akraborg, hafa óskað allverulega aukins stuðnings vegna mikils hallarekstrar skipsins. N. taldi, að ekki yrði hjá því komizt að koma nokkuð til móts við þessar óskir, og leggur nefndin því til, að styrkur til h/f Skallagríms verði hækkaður um 300 þús. kr., þannig að heildarfjárveitingin til þessa flóabáts verður nú samkvæmt till. n. 1250 þús. kr. Framlag til Mýrabáts verður hins vegar óbreytt.

Um Breiðafjarðarsamgöngur er það að segja, að n. taldi óhjákvæmilegt að hækka framlag til Flateyjarbáts á Breiðafirði um 20 þús. kr. vegna mjög erfiðrar rekstrarafkomu þessa báts. Farsvæði hans er, eins og hv. þm. vita, milli eyjanna á norðanverðum Breiðafirði og upp að landi til miðhluta og vesturhluta Barðastrandarsýslu. Þessi héruð búa við mjög erfiðar samgöngur, sérstaklega að vetrarlagi. Aðeins fjórar af Breiðafjarðareyjum eru nú í byggð. Það er Flatey, Hvallátur, Svefneyjar og Skáleyjar, og flóabátaferðirnar eru að sjálfsögðu meginsamgönguæð þessara byggðarlaga. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að halda þessum ferðum uppi, enda þótt fólki hafi fækkað þarna allverulega, en þörf þess fólks, sem enn lifir og starfar á þessum stöðum, verður ekki minni fyrir það, nema síður sé, að íbúum byggðarlaganna hefur fækkað. Það er gert ráð fyrir því, að af þeirri upphæð, sem veitt er til Flateyjarbáts á Breiðafirði, þ.e.a.s. 310 þús. kr., verði varið 20 þús. kr. til að styrkja vetrarferðir, sem Bjarni Hákonarson bóndi í Haga annast af Barðaströnd yfir Kleifaheiði til Patreksfjarðar. Hann hefur fengið beltadráttarvél til þess að annast þessar ferðir með í stað snjóbíls, sem áður var á förum um Barðaströnd, en hefur nú verið seldur burt. N. taldi eðlilegt, að sá styrkur, sem áður var ætlaður til rekstrar snjóbílnum, yrði nú veittur til fyrrgreindra vetrarferða.

Þá er lagt til, að framlag til Stykkishólmsbáts hækki um 175 þús. kr., þar sem stjórn flóabátsins hefur sýnt fram á, að afkoma hans hafi verið mjög erfið á þessu ári. Þetta fyrirtæki á nú nýjan bát í smíðum, og má búast við, að ný viðhorf skapist til þessa rekstrar, þegar hann hefur verið tekinn í ferðirnar. Þá er lagt til, að styrkur til Langeyjarnesbáts hækki um 20 þús. kr., úr 40 þús. upp í 60 þús.

Um Vestfjarðasamgöngur er það að segja. að h/f Djúpbáturinn hefur nú eignazt nýtt og myndarlegt 140 tonna járnskip, sem það notar til ferða sinna um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðarkaupstaðar og til kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu. En allþung skuldabyrði hvílir fyrst í stað á Djúpbátnum h/f, sem rekur þetta skip, og það hefur því sótt um mjög mikla hækkun á rekstrarstyrknum. N. féllst einróma á það að hækka framlagið til Djúpbátsins mjög verulega, þ.e.a.s. um 450 þús. kr., en þá ekki nærri eins mikið og sótt var um. N. taldi nauðsynlegt, að reynsla fengist af rekstri hins nýja flóabáts, og ætti vitneskja um hana að liggja fyrir á næsta ári, þegar skipið hefur verið rekið í um það bil eitt ár.

Þá er lagt til, að framlög til Patreksfjarðarbáts, Dýrafjarðarbáts og Skötufjarðarbáts verði óbreytt.

Samkv. framansögðu leggur samvn. samgm. til, að heildarfjárveiting til flóabátanna á næsta ári verði 6 millj. kr., þ.e.a.s. 1200 þús. kr. hærra en á yfirstandandi ári. Fylgir áliti n. sundurliðuð skipting á styrkjunum til hinna einstöku flóabáta og flutningafyrirtækja.