26.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það varð uppi fótur og fit á Alþingi hinn 5. febr. árið 1960. Forsrh. ríkisstj., sem þá var rúmlega 2 mánaða gömul, lýsti hennar stóra máli, frv. til l. um efnahagsmál. Ráðh. lýsti ástandi efnahagsmálanna, eins og hann taldi það þá vera. Hann lýsti því miklu verr en efni stóðu til, hann sagði m.a.:

„Hér var fárra kosta völ og í rauninni um ekkert val að ræða. Aðeins ein leið getur talizt fær, sú að játa með nýrri breytingu á gengisskráningunni, hvert sé sannvirði íslenzku krónunnar.“

Hann fordæmdi uppbótakerfið svonefnda með þungum orðum og sagði um það að lokum:

„Í þessu felst í raun og veru alger dauðadómur uppbótakerfisins, og eru þó margir stórgallar þess ótaldir enn. Það væri óðs manns æði að reyna að halda við slíku kerfi.“

Og enn kvað hann:

„Er niðurstaðan óumflýjanlega sú, að það verði að afnemast og taka verði upp nýja stefnu.“

Síðan tók hæstv. forsrh. að gera grein fyrir því, sem hann nefndi meginatriði í stefnu ríkisstj., og hóf þá grg. á þessa leið: í fyrsta lagi er leiðrétting gengisskráningarinnar. Uppbótakerfið verði lagt niður með öllu og útflutningssjóður gerður upp, en í stað þess skráð raunhæft gengi íslenzku krónunnar. Þetta átti að hans sögn m.a. að skapa útflutningsatvinnuvegunum viðunandi rekstrargrundvöll. Og enn kvað hann:

„Uppbótakerfið hlýtur fyrr en varir að leiða yfir þjóðina geigvænlegt atvinnuleysi. Til úrbóta er um ekkert val að ræða. Aðeins eitt kemur til greina, rétt skráning krónunnar.“

Síðan þetta gerðist eru liðin 4 ár. Sama ríkisstj. er hér enn að heita má, þó að einn ráðh. hafi farið, en annar komið og skipt hafi verið um forsrh., sömu flokkar og áður standa að stjórninni. Hvað hefur gerzt á þessum 4 árum?

Meiri sjávarafli hefur borizt á land á Íslandi en nokkru sinni áður. Það gengur vel að selja framleiðsluvörurnar, og hagstætt verð fæst fyrir þær. Sjávarútvegurinn leggur til meginhlutann af útflutningsvörum landsmanna, eins og kunnugt er. En fyrst svona vel hefur gengið með framleiðsluna og sölu hennar, er ástæða til að athuga, hvort ekki sé góð afkoma hjá þeim atvinnuvegi. Stendur hann nú ekki á traustum og heilbrigðum grundvelli, eins og heitið var með efnahagsráðstöfunum ríkisstj. forðum? Frv., sem hér liggur fyrir, gefur svar við þeirri spurningu. Er hið fordæmda uppbótakerfi alveg úr sögunni fyrir löngu? Svo hefði átt að vera, ef staðið hefði verið við fyrirheitin. Nei, því hefur verið haldið við allan tímann. Niðurgreiðslurnar á vöruverði innanlands eru stór þáttur í uppbótakerfinu, og þeim hefur verið haldið áfram. Þá hafa á undanförnum árum verið greiddar miklar uppbætur af ríkisfé til togaranna. Og nú, eftir að hafa verið við völd í 4 ár. kemur ríkisstj. með frv. sitt um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl. Hvað hefur komið fyrir? Þarf nú sérstakar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins á 4 ára afmæli hins nýja kerfis, sem var svo hátt lofað, þegar það var upp tekið? Ekki er það vegna aflabrests. Uppgripaafli hefur verið undanfarin ár, eins og ég hef áður vikið að. Stjórnin segir, að nýjar ráðstafanir séu óhjákvæmilegar, þrátt fyrir þetta. Og hún mun segja satt í þetta sinn, hæstv. stjórn. Það er full þörf fyrir nýjar aðgerðir vegna þess, hve stjórnarstefnan hefur leikið atvinnuvegina ákaflega illa. En hvað vill ríkisstj. gera samkv. frv.? Er hún ekki enn á þeirri einu leið, sem hún sagði fyrir 4 árum að væri fær? Nei, nú er ekki minnzt einu orði á þá leið. Það, sem þá var talið sáluhjálparatriði, er nú grafið og gleymt. Í staðinn er lagt til að auka mjög verulega við uppbótakerfið, sem fyrrv. forsrh. dæmdi algerlega til dauða fyrir fjórum árum.

Það var eftirtektarvert, að þegar hæstv. forsrh. var að mæla fyrir stjfrv. þessu hér á þingi s.l. föstudag og var að tala um nýju uppbæturnar, vatt einn utanþingsmaður sér inn um dyrnar á þingsalnum. Sá hafði myndavél að vopni. Þar var kominn ljósmyndari frá Morgunblaðinu, aðalmálgagni ríkisstj. Þeir hafa fundið það, stuðningsmenn stjórnarinnar og þeirra á meðal blaðamenn í þeim hópi, að nú var að gerast sögulegur atburður. Forsrh. var að flytja útfararminningu hér í þessum ræðustól um eitt helzta stefnuskráratriði ríkisstj. Það var vel til fundið hjá þeim að ljósmynda þennan atburð. Hin ágæta mynd birtist í Morgunblaðinu næsta dag.

Á fjögurra ára valdaferli er ríkisstj. búin að lækka íslenzka krónu svo gífurlega, að erlendur gjaldeyrir er nú 70% dýrari í íslenzkum peningum en fyrir valdatíma stjórnarinnar. Hún er búin að gera betur en þrefalda ríkisútgjöld á fjárlögum. Og hún er búin að auka dýrtíðina stórkostlega. Og nú kemur stjórnin til Alþingis með frv. um enn nýjar uppbætur og um nýjar álögur á þjóðina til viðbótar öllum þeim, sem fyrir voru. Hækkun söluskattsins nemur fast að 300 millj. kr. á einu ári.

Eitt af stóru atriðunum á stefnuskrá stjórnarinnar fyrir 4 árum var loforðið um viðskiptafrelsi handa þjóðinni. Er þetta frelsi komið? Nei, allur vöruflutningur héðan til annarra landa er háður leyfum yfirvalda og öll gjaldeyrisverzlunin einokuð. Verulegur hluti af innflutningnum er einnig ófrjáls. Þannig er mikill meiri hl. af verzlun landsmanna enn höftum bundinn.

Þannig mætti rekja hvert atriðið af öðru í stefnuskrá ríkisstj., þar hefur allt gengið öfugt.

Skyldi nokkurs staðar í veröldinni vera hægt að finna þjóðfélag annað en hið íslenzka, sem talið er að búi við lýðræðisfyrirkomulag, þar sem það gæti komið fyrir, að ríkisstj., sem hefði svo gersamlega hlaupið frá stefnuskrá sinni og stefnuyfirlýsingum sem íslenzka ríkisstjórnin hefur gert, væri áfram við völd? Mér þykir ólíklegt, að slíkt ríki finnist annars staðar.

Ríkisstj. hefur jafnan viljað afsaka ófarir sínar með því, að hér hafi verið gerðar og séu gerðar óhóflegar launakröfur. Af hennar hálfu hefur ætíð verið lögð á það rík áherzla, að kaupgjald mætti ekki hækka, því að þá væri efnahagskerfið í voða. Til að árétta þetta sérstaklega bar ríkisstj. fram frv. til laga um að lögbinda kaupið fyrr á þessu þingi. Sú lagasetning náði ekki fram að ganga, en eigi að síður er flutningur frv. ótvíræð vísbending um vilja valdhafanna í þessu efni. Og þó að lögbindingin, sem stefnt var að, mistækist, ber þróun kaupgjaldsmálanna að undanförnu glögg merki stjórnarstefnunnar. Um það vil ég nefna dæmi.

Í októbermánuði 1958 var dagvinnukaup verkamanna kr. 21.85 á klst. Samkv. því voru árslaun fyrir 8 klst. vinnu alla virka daga ársins 52 440 kr. Nú er dagvinnukaupið kr. 32.20 á klst. eða 77 280 kr. á ári, reiknað á sama hátt. Allir vita og viðurkenna og finna, að kaupmáttur þessarar launafjárhæðar er nú miklu minni en í okt. 1958, áður en núv. stjórnarflokkar komu til valda. Þó vill ríkisstj. enn skerða kaupmáttinn með nýjum álögum samkv. frv., sem hér liggur fyrir. Þegar þess er gætt, að umrædd þróun í kaupgjaldsmálum hefur gerzt á sama tíma og sjávarafli landsmanna hefur verið meiri en nokkru sinni áður, sala á útflutningsvörum hefur gengið greiðlega og verð þeirra farið hækkandi, þá er ómögulegt að komast hjá því að álykta, að orsök þess, hvernig til hefur tekizt, sé röng stjórnarstefna. Það er líka mála sannast, að stjórnin á málefnum þjóðarinnar hefur tekizt ákaflega illa síðustu 4 árin. Stjórnarstefnan var dauðadæmd frá upphafi, vegna þess að hún byggðist á því að hækka allt verðlag gífurlega, ná jafnvægi, sem svo var kallað, með því að hækka verðlagið, en halda niðri kaupgjaldi til verkafólks og afurðaverði til bænda.

Með till. hæstv. ríkisstj. um nýjar stórfelldar álögur er stefnt í fullkomið óefni. Menn rekur í rogastanz, þegar þeir sjá þessar till., og það er ekkert undarlegt, þótt menn verði undrandi, þegar þetta liggur fyrir. Allir hljóta að sjá, hverjar afleiðingarnar verða, enn stóraukin dýrtíð, nýjar kröfur um hækkað kaup og þannig áfram koll af kolli. Og það er fleira en framfærslukostnaðurinn, sem hækkar. Framleiðslukostnaðurinn hækkar líka af þessum sökum, og innan skamms má búast við, að hæstv. ríkisstj. komi með nýtt frv. um nýjar uppbætur til atvinnuveganna til þess að standa undir þessum hækkunum, sem koma.

Hér er vissulega mikil þörf, að leitað sé nýrra úrræða. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., þegar hann mælti fyrir þessu frv. við 1. umr. þess, að þær ráðstafanir, sem þar er fjallað um, væru aðeins til þess að firra vandræðum í bili. Hann lét einnig orð falla um það, að íhuga þyrfti allt þetta mál frá rótum og reyna að finna úrræði, sem ætla mætti að dygðu til nokkurrar frambúðar. Við í minni hl. fjhn. lítum einnig svo á, að brýn þörf sé á að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi um úrlausnir í efnahagsmálunum. í því sambandi vil ég minna á, að þegar efnahagsmálafrv. ríkisstj. var til meðferðar á Alþ. 1960, bar Framsfl. fram till. um, að skipuð yrði nefnd manna frá öllum þingflokkum til að reyna að finna úrræði í þeim málum. Á þá till. var því miður ekki fallizt á þeim tíma, en við teljum rétt að freista þess að fá nú samkomulag um skipun slíkrar nefndar. Minni hl. ber því fram brtt. við frv. um, að fyrsta ákvæði þess verði um skipun 8 manna n. til að rannsaka efnahagsmál þjóðarinnar og leita samkomulags um aðkallandi ráðstafanir í þeim efnum, er miði að því að hindra vöxt dýrtíðarinnar, halda atvinnulífinu í gangi, auka framleiðni og framleiðslu og tryggja öllu vinnandi fólki viðunandi tekjur fyrir hæfilegan vinnutíma. Við leggjum til, að hver þingflokkur tilnefni tvo menn í nefndina.

Till. þessi um 8 manna n. er 1. brtt., sem minni hl. ber fram við frv., og hann vill vænta þess, að samkomulag geti náðst um að gera þá tilraun, sem í till. felst, til að ráða fram úr þeim stóra vanda, sem þjóðin á nú við að fást. En þá verður að sjálfsögðu um leið að hætta við þá miklu skattlagningu, sem 5. gr. frv. fjallar um. Það mundi torvelda mjög viðunandi lausn málsins, ef slíkt skref væri stigið til að stórauka álögur og dýrtíð, um leið og n. tæki til starfa. Málið liggur líka þannig fyrir, að engin þörf er fyrir þessar nýju álögur, hækkun á söluskattinum.

Síðustu árin hefur ríkissjóður haft greiðsluafgang, sem nemur hundruðum millj., og allt bendir til þess, að ríkistekjurnar á þessu ári fari einnig mikið fram yfir áætlun fjárlaga. Minni hl. lítur því svo á, að kostnað við þær ráðstafanir, sem ætlunin er að gera samkv. frv., eigi að greiða af umframtekjum ríkissjóðs í stað þess að auka enn dýrtíðarbálið með nýjum álögum, og því er það till. minni hl., að 5. gr. verði felld úr frv.

Brtt. okkar í minni hl. n. eru bornar fram á sérstöku þskj. Ég hef ekki orðið var við, að því væri útbýtt enn þá. Er það komið? Það er ekki komið, en ég held, að það hljóti að vera hér á næsta leiti. (Gripið fram í.) Já, ég mun gera grein fyrir þessum brtt. okkar með nokkrum orðum.

Ég hef þegar lýst 1. till. okkar um nefndarskipunina, er hafi það hlutverk að reyna að leita samkomulags um ráðstafanir í efnahagsmálunum.

2. brtt. okkar er við 1. gr. frv., og sú brtt. er í þremur liðum. Í fyrsta lagi leggjum við til, að í stað 43 millj., sem segir í frvgr. að ríkissjóður skuli leggja fram á árinu 1964 og varið skuli til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðni freðfisks, komi 60 millj. Ástæðan fyrir því, að við flytjum þessa hækkunartill., er sú, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Samlag skreiðarframleiðenda hafa sent fjhn. bréf, þar sem þau benda á, að það muni engu minni þörf framleiðniaukningar og annarra umbóta í þeim vinnslustöðvum, sem framleiða saltfisk og skreið, heldur en hjá frystihúsunum. Fulltrúar frá Sölusambandinu komu einnig á fund fjhn. í gær til að ræða við hana um þetta mál. Þeir telja það ósanngjarnt, að þessar framleiðslugreinar verði algerlega útundan, þegar þessum uppbótum verður úthlutað. Minni hl. getur fallizt á þessi sjónarmið, og því er það, að við berum fram þessa brtt. um að hækka þessa fjárveitingu um 17 milljónir króna, og jafnframt berum við þá fram breytingartillögu um, að inn í greinina, á eftir orðinu „freðfisks“, bætist: „saltfisks og skreiðar“, þannig að heimilt sé að greiða þetta til endurbóta í framleiðslu þeirra vörutegunda einnig.

Þá leggjum við til, að við 1. gr. bætist ný mgr., þannig:

„Heimilt er að verja á árinu 1964 allt að 15 millj. kr. úr ríkissjóði til að greiða þeim vinnslustöðvum, sem hafa lakasta rekstraraðstöðu, vegna þess að hráefni þeirra er sérstaklega dýrt í vinnslu, en nauðsynlegt er að starfi vegna hlutaðeigandi byggðarlaga, uppbætur á sumarveiddan bátafisk annan en síld, samkv. reglum, er rn. setur, að fengnum till. Fiskifélags Íslands og Landssambands Ísl. útvegsmanna.“

Það er alkunnugt, að rekstraraðstaða frystihúsa og annarra vinnslustöðva er ákaflega misjöfn. Vinnslustöðvar á smærri útgerðarstöðum, sem hafa lítið framleiðslumagn, standa miklu lakar að vígi en stóru stöðvarnar, en þó er rekstur þessara minni stöðva lífsnauðsynlegur fyrir þau byggðarlög, þar sem þær starfa. Eitt m.a., sem gerir rekstur þessara smærri frystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva óhagstæðan, er vinnsla þeirra á sumarveiddum bátafiski, þar sem smáfiskur er mikill hluti aflans. Það er miklu dýrara að vinna úr smáum fiski en stórum, og þetta veldur miklum kostnaðarauka og erfiðleikum fyrir þau frystihús og þær stöðvar, sem fá hlutfallslega mikið af smáfiski. Og til þess að bæta lítið eitt aðstöðu þessara vinnslustöðva, sem hafa lökust rekstrarskilyrði af þeim ástæðum, sem ég hef hér greint, flytur minni hl. þessa brtt. um, að heimilt skuli vera að verja allt að 15 millj. kr. á þessu ári úr ríkissjóði til að greiða uppbætur á sumarveiddan bátafisk til þessara vinnslustöðva, sem hafa lakasta rekstraraðstöðu.

Ég hef þegar gert grein fyrir 3. brtt. minni hl., sem er um það, að 5. gr., sem fjallar um hækkun á söluskattinum, verði felld í burtu. Eins og ég hef áður sagt, teljum við þessar álögur alveg óþarfar og leggjum því áherzlu á það, að greinin verði niður felld.

Í 6. gr. frv. fer ríkisstj. fram á heimild til að fresta verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til á fjárl. fyrir árið 1964, og taka á þann hátt fjárveitingavaldið af Alþingi. Þessi heimild á að verða ótakmörkuð, svo að ríkisstj. geti frestað öllum slíkum framkvæmdum eða einhverjum þeirra, allt eftir eigin geðþótta. Hún fer einnig fram á heimild til að fresta greiðslum til framkvæmda annarra aðila, sem ákveðnar eru í fjárlögum. Meiri hl. fjhn. hefur nú borið fram brtt. um umorðun á þessari grein, þar sem að því er vikið, að ríkisstj. beiti sér fyrir, að aðrir aðilar geri slíkt hið sama. Ég vil benda á, að þetta er haldlaust ákvæði, meðan engin lög eru um það, að ríkisstj. geti haft afskipti af þessum málum hjá öðrum en þeim ríkisstofnunum, sem undir hana heyra. Það eru margir aðilar í þessu landi, sem ráða yfir fjármagni, sem þeir geta notað til framkvæmda og þurfa, eins og nú stendur, engan að spyrja leyfis til að ráðstafa sínu fé með þeim hætti eða öðrum.

Í þessari frvgr. kemur fram sú stefna ríkisstj., að framkvæmdir hins opinbera, sem ákveðnar eru af Alþ. í fjárl., svo sem vega- og brúagerðir, hafnargerðir, byggingar sjúkrahúsa og skóla og framkvæmdir í raforkumálum, eigi að sitja á hakanum og þoka fyrir framkvæmdum annarra aðila, sem yfir fjármagni ráða, svo sem byggingum bankahúsa, verzlunar- og skrifstofuhúsa og öðrum slíkum framkvæmdum, sem mikið hefur verið um að undanförnu. Minni hl. telur það háskalega stefnu að fella niður nauðsynlegar ríkisframkvæmdir í almannaþágu, til þess að aðrir aðilar geti framkvæmt allt það, sem þeim þóknast, án tillits til þess, hvort það er þarflegt eða að meira eða minna leyti óþarfi fyrir þjóðfélagið. Minni hl. mótmælir því harðlega ákvæðum 6. gr. og flytur till. um, að efni hennar verði fellt úr frv.

4. brtt. okkar er um það, að í stað þessa ákvæðis, sem nú er í 6. gr., komi nýtt efni í þá gr. og hún verði orðuð þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hlutist til um, að afurðalán Seðlabanka Íslands verði 67% af fob. verði sjávarafurða og 67% af óniðurgreiddu heildsöluverði landbúnaðarafurða. Vextir af afurðavíxlum, sem Seðlabankinn endurkaupir, mega ekki vera hærri en þeir voru á árinu 1959, 5–5½%. Verðlagsráð sjávarútvegsins skal reikna út fiskverð fyrir árið 1964, er miðist við það, að lækkun á vaxtakostnaði fiskvinnslustöðva samkv. þessari gr. gangi til hækkunar á fiskverðinu.“

Eitt af því, sem hefur valdið erfiðleikum fyrir sjávarútveg og landbúnað, er sú lækkun á afurðalánum frá Seðlabankanum, sem orðið hefur síðustu árin. Fyrir nokkrum árum námu afurðalánin 67% af verði framleiðslunnar, en eru nú aðeins 55%. Lækkun afurðalána er ástæðulaus með öllu. Seðlabankinn hefur meiri möguleika nú en áður til að veita slík lán, þar sem hann hefur nú mörg hundruð millj. kr. af sparifé frá innlánsstofnunum á bundnum reikningum. Slíkt fé hafði hann ekki áður, meðan afurðalánin námu 67% af verði framleiðslunnar. Minni hl. leggur því til, eins og ég hef þegar lýst, að afurðalánin verði hækkuð upp í 67% af verði framleiðsluvörunnar.

Þá leggur minni hl. til einnig í þessari gr., að veltir af afurðavíxlum hjá Seðlabankanum verði færðir niður í 5% — og 5½% af framlengingarvíxlum, eins og þeir voru 1959. Þetta er í samræmi við þá till., sem við framsóknarmenn höfum áður lagt fram hér á Alþ. því, er nú situr, í frv, um vaxtalækkun o. fl. Með vaxtalækkuninni væri stigið verulegt skref til að draga úr kostnaði við framleiðsluna.

Þá er það till. okkar, að hagnaði fiskvinnslustöðvanna af vaxtalækkuninni verði varið til hækkunar á fiskverði samkv. útreikningi verðlagsráðs sjávarútvegsins. Ef á þetta væri fallizt, kæmi sú fiskverðshækkun til viðbótar þeirri, sem hv. meiri hl. fjhn. gerir till. um í brtt. sínum.

Þá er enn ein brtt., sem við berum fram, og hún er við bráðabirgðaákvæði frv. Við leggjum til, að við það bætist nýr stafl., þannig:

„Þegar eftir gildistöku laga þessara skal ríkisstj. skipa 7 manna nefnd til að gera tillögur um stofnun og rekstur fiskiðnskóla. N. sé skipuð fiskmatsstjóra og einum manni tilnefndum af hverjum eftirgreindra aðila: ferskfiskeftirlitinu, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sambandi ísl. samvinnufélaga, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Samlagi skreiðarframleiðenda og síldarútvegsnefnd. N. skal skila till. sínum til ríkisstj. fyrir 1. sept. þ. á. og ríkisstj. síðan leggja fram frv. til l. um stofnun skólans fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Fyrir Alþ. liggur nú till. til þál. um þetta mál, að stofna fiskiðnskóla. Hún er flutt af hv. 5. þm. Norðurl. e. og þremur öðrum þm. Till. um þetta hefur einnig verið flutt á undanförnum þingum án þess að hljóta fullnaðarafgreiðslu. Þegar málið lá hér fyrir síðasta Alþingi, bárust þinginu meðmæli með till. frá mörgum aðilum, frá fiskmatsstjóra, ferskfiskeftirlitinu og öllum helztu samtökum fiskframleiðenda. Hér er vissulega um mjög stórt hagsmunamál sjávarútvegsins að ræða, og því flytur minni hl. till. um, að inn í þetta frv. verði tekið ákvæði um undirbúning slíkrar skólastofnunar, er fram fari þegar á þessu ári, og að ríkisstj. leggi lagafrv. um stofnun skólans fyrir næsta reglulegt Alþ. Það er áreiðanlegt, að stofnun slíks skóla er mikið hagsmunamál og getur haft mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn í framtíðinni, og ætti ekki að fresta því lengur að undirbúa slíka skólastofnun og koma skólanum upp.

Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir þeim brtt., sem minni hl. flytur, og við leggjum til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum.

Ég vil að lokum taka þetta fram: Aðalatriðin í brtt. minni hl. eru, að reynt verði að koma á samstarfi allra þingflokka um leit að úrræðum í þeim stóru efnahagslegu vandamálum, sem brýn þörf er á að ráða fram úr með skynsamlegum hætti. Við teljum, að það muni því aðeins takast, að um það náist sem víðtækust samvinna. Jafnframt verði hætt við að hækka söluskattinn, því að þess er ekki þörf, og jafnframt leggjum við til, að felld verði niður úr frv. heimild til handa ríkisstj. til að fresta opinberum framkvæmdum. Þó að ekki tækist samstaða um þetta í fjhn., vill minni hl. með flutningi á brtt, gera sitt til að ná samkomulagi um þessa lausn málsins.