29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

186. mál, ráðstafanir gegn tóbaksreykingum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir undirtektir hans í sambandi við þennan tillöguflutning og fyrir það, sem hann þegar hefur gert til þess að hafa áhrif til upplýsinga meðal æskufólks í landinu varðandi hætturnar af tóbaksreykingum. Mér sýnist, að hæstv, menntmrh. hafi þegar gert allþýðingarmikla hluti í þessum efnum, sem stefna í rétta átt. En það er áreiðanlegt, að það er svo, eins og hann sagði, að það þarf þó að gera enn þá miklu meira en þegar hefur verið gert. Ég held, að það þurfi að senda menn, sem ferðast á milli skólanna í landinu, menn, sem eru vel fróðir um þessi efni og vel til þess fallnir að halda uppi upplýsingum og fróðleik um þessi atriði, og ég efast ekkert um, að það verður að leggja í talsverðan kostnað til þess að fá t.d. kvikmyndir, sem mættu veita auknar upplýsingar í þessum efnum, og það er mjög sennilegt, að það þurfi einnig að leggja í nokkurn kostnað til að fá góða fyrirlesara til að flytja fyrirlestra í útvarp varðandi þessi mál. Ég held því, að það sé nauðsynlegt að samþykkja till. svipaða þeirri, sem hér er flutt, og útvega nokkra fjárveitingu til þessarar starfsemi, vegna þess að ég held, að þó að áhugamennska nokkurra manna sé út af fyrir sig góðra gjalda verð, nái hún of skammt, hér þurfi á svo stóru átaki að halda, að það ætti að koma til bein samþykkt á Alþingi og nokkur bein fjárveiting, til þess að hægt sé að gera sér vonir um það, að nokkur teljandi árangur geti fengizt. En sem sagt, ég þakka fyrir þann áhuga, sem fram hefur komið hjá hæstv. menntmrh. í þessum efnum, og vil vænta þess, að hann reyni að hafa áhrif á það, að áfram verði haldið eins og mögulegt er, til hess að hafa góð áhrif í þessum efnum.