27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

801. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hafa verið gerðir samningar um smíði rannsóknarskips í þágu sjávarútvegsins?“ Svarið er nei. í öðru lagi: „Hve mikið fé er fyrir hendi til smíði skipsins?“ Því er til að svara, að um næstu áramót munu vera til um 9 millj. í sjóði í þessu skyni. í þriðja lagi er spurt: „Hvað er talið, að vel búið rannsóknarskip kosti nú?“ Forstöðumaður fiskideildar atvinnudeildar háskólans hefur talið, að óvarlegt væri að áætla hann öllu minni en 50 millj. kr. með öllum búnaði.

Ég tel raunverulega, að fyrirspurnunum öllum sé svarað með þessu og skal ekki fara langt út í að ræða málið sjálft, eins og hv. fyrirspyrjandi gerði í alllöngu máli. En hvað viðvíkur þeirri breytingu, sem hann óskaði eftir að gera á fyrstu spurningunni, — ég held ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi viljað orða hana þannig: Hafa verið gerðir samningar eða ákvörðun tekin af ríkisstj. um smíði rannsóknarskips í þágu sjávarútvegsins, — þá verður svarið það sama og við fyrirspurninni í upphafi, að það er nei, það hefur ekki verið tekin enn endanleg ákvörðun um málið.

Ég skal svo aðeins, þó að ég telji eins og ég sagði, fyrirspurnunum fullsvarað með þessu, aðeins bæta nokkrum orðum við til upplýsingar fyrir hv. fyrirspyrjanda og hv. alþm.

Það er alveg rétt, að þetta mál á sér langan aðdraganda, og hafa verið uppi um það ýmsar till. T.d. kom hingað skipaverkfræðingur frá FAO árið 1958, sem gerði ekki fullkomna teikningu, heldur eingöngu bráðabirgðateikningu, fyrirkomulagsteikningu af þessu skipi, og vitanlega var ekki hægt að leggja hana til grundvallar smíði skipsins, heldur var þar um algera frumgerð að ræða. Nú hefur verið ákveðið að leita eftir því við erlenda skipaverkfræðinga og skipasmíðastöð, að fullkomin teikning verði gerð af skipinu og hún siðan endanlega yfirfarin og athuguð af fiskifræðingum fiskideildar, skipaskoðunarstjóra og fleiri aðilum, sem þar verða til kvaddir, þannig að hægt sé að ganga endanlega frá teikningunni til útboðs. Ef þá verður talið, að fjárhagslegur grundvöllur hafi fengizt undir smíði skipsins, þá verður það væntanlega boðið út þegar á eftir og samningur þá gerður við þann, sem lægst býður. Skipasmíðastöð sú, sem fengin hefur verið til þessara verka, er mjög þekkt og fræg skipasmíðastöð í Bremerhaven, sem einmitt er að ljúka nú við smíði tveggja þýzkra fiskileitar- og rannsóknarskipa, annað hefur verið tekið í notkun nú fyrir nokkrum dögum, en hinu er langt komið smíði á. Verkfræðingarnir, sem vinna að störfum við endanlega teikningu skipsins, hafa haft hliðsjón af þeim till., sem áður hafa legið fyrir í málinu, og haft samráð við fiskifræðinga fiskideildarinnar, sem hafa verið á staðnum og rætt málið við verkfræðingana, og sömuleiðis hefur fiskimálastjóri tekið þátt í þeim hlutum.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég vildi almennt segja um málið. Það hefur verið tekin ákvörðun um það eitt í ríkisstj. eða a.m.k. í sjútvmrn. að ganga nú úr skugga um það; hvort skilyrði séu fyrir hendi til þess að hefja byggingu skipsins, svo fljótt sem auðið er, eftir að nákvæm rannsókn á möguleikunum, bæði tekniskum og fjárhagslegum, hefur farið fram, og undirbúningur er sem sagt í fullum gangi nú og verður væntanlega lokið — ja, ég skal ekki nefna dag eða stund, en lokið á næstunni, vildi ég segja.