19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í D-deild Alþingistíðinda. (3346)

147. mál, herlið, herflugvélar og hernaðarmannvirki

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir einkar skýr og stuttorð og góð svör. Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði hér áðan, að í öllum umr, um þessi mál er mjög nauðsynlegt að hafa réttar og sannar upplýsingar fyrir hendi. T.d. er það óhjákvæmilegt fyrir þá þm., sem hafa kannske í huga tillöguflutning í sambandi við hernámsmálin, en hér virðist ekki hafa verið neinu sérstöku að leyna, og þakka ég þess vegna fyrir þessi skýru svör.

Í sambandi við 3. liðinn, þ.e.a.s.: hafa flugvélar með kjarnorkuvopn haft aðsetur eða viðdvöl á Íslandi? vil ég taka það fram, að ég skal að vísu játa, að mér þóttu svör ráðh. ekki vera algerlega fullnægjandi varðandi þennan lið. Að vísu fullyrðir hann, að kjarnorkuvopn séu ekki hér staðsett og hafi ekki verið það. En hitt er annað mál, að í erlendum blöðum hefur hvað eftir annað komið fram, að Keflavíkurflugvöllur væri notaður sem varalendingarflugvöllur fyrir flugvélar, sem bera kjarnorkuvopn. Ég þarf varla að taka það fram, að í þessu efni er ég ekki neitt „átoritet“ og get ekkert um það rætt, en ég vil aðeins spyrja að því, ef ég hef skilið ráðh. nógu vel, hvort það sé óhugsandi, að flugvélum með kjarnorkuvopn sé leyft að lenda hér og flugvöllurinn sé þannig notaður sem varalendingarvöllur fyrir flugvélar, sem borið geta kjarnorkuvopn. Að öðru leyti þakka ég ráðh. fyrir skýr svör við þessum spurningum, sem ég taldi nauðsynlegt að fá svör við, og þakka fyrir.