04.03.1964
Sameinað þing: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í D-deild Alþingistíðinda. (3365)

174. mál, skipting framkvæmdalánsins

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. í l. nr. 86 frá 24. nóv. 1962 var hæstv. ríkisstj. veitt heimild til lántöku í Bretlandi að fjárhæð 2 millj. sterlingspunda. Þessi lántökuheimild var notuð þá um haustið, og var lánið greitt inn á gjalddögunum 15. des. 1962, 15. febr. 1963 og 15. maí 1963. í 2. gr. laganna í 2. mgr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. ákveður skiptingu lánsfjárins í samráði við fjvn. Alþ., áður en reglulegu Alþ. 1962 lýkur.“`

Með bréfi hinn 8. apríl 1963, sem ríkisstj. ritaði hv. fjvn. Alþ., gerir hún grein fyrir málinu og enn fremur hvernig hún leggi til, að því verði skipt til 8 málaflokka, sem eru þessir og til þeirra þessar fjárhæðir, sem ég nú skal greina: 1) Til fiskiðnaðarins í landinu 50 millj. kr., og segir þar um, að megináherzla verði lögð á það að stuðla að betri nýtingu og verðmætisaukningu fiskaflans. 2) Til iðnaðarins 10 millj. kr. og verði því varið til iðnaðarbygginga eftir nánari ákvörðun. 3) Til raforku- og jarðhitamála vegna framkvæmda fyrir árslok 1962 40 millj. kr. 4) Til raforkuframkvæmda samkv. 10 ára áætluninni 44 millj. kr. til framkvæmda á árinu 1963. 5) Til Sogsvirkjunar 10 millj. og skyldi sú lánsfjárhæð notast til þess að ljúka stækkun Írafossstöðvarinnar. 6) Virkjunarrannsóknir 6 millj. kr., og átti að nota þá fjárhæð á árinu 1963 til rannsókna. 7) Byrjunarframkvæmdir við raforkuver 20 millj. kr., og var þá gert ráð fyrir að nota það til að hefja byrjunarframkvæmdir við raforkuver á Suður- eða Vesturlandi. 8) Til hafnargerða 50 millj. kr. eftir nánari skiptingu og ákvörðun ríkisstj. í samráði við vitamálastjóra.

Eins og sést af þessu bréfi, var hér lögð til skipting fjárins í stórum dráttum, og samþykkti meiri hl. fjvn. þessa skiptingu á fundi sínum 20. apríl s.l. En eins og skiptingin ber með sér, segir hún takmarkað um það, hvernig fénu hefur verið varið, og var gert ráð fyrir því af hendi okkar minni hl. í fjvn., að samráð við fjvn. færi fram með öðrum hætti. Vegna þess að hér er mjög takmarkaðar upplýsingar að finna, höfum við hv. 6. þm. Sunnl. leyft okkur að flytja á þskj. 321 fsp. til hæstv. fjmrh. um skiptingu á framkvæmdaláninu. í fyrsta lagi spyrjum við: „Til hvaða framkvæmda á vegum ríkisins var fé varið af þessu láni og hve mikilli fjárhæð varið til hverrar framkvæmdar.“ í öðru lagi: „Hvaða aðilar, fyrirtæki og einstaklingar, fengu hluta af láninu? Hve háa fjárhæð fékk hver aðili, til hvaða verks og með hvaða kjörum?“

Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. fjmrh. gefi upplýsingar um þetta.