11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) sagði hér áðan, — og hann mun vera formaður stjórnar atvinnubótasjóðs, — að enn þá hafi ekki verið haft samráð við stjórn atvinnubótasjóðs um rannsókn þessa máls. Þar kemur að nokkurri vanrækslu frá annaðhvort félmrn. eða Framkvæmdabanka Íslands, en það voru aðilarnir, sem áttu að framkvæma þessa rannsókn, og hafði þá tillögumönnum sýnilega ekki dottið í hug Parísarmaðurinn, því að þeir héldu sig við innlenda aðila. Hér kemur svo hv. 1. þm. Austf. (EystJ) og segir, að hann hafi ekki orðið var við þetta mál í stjórn Framkvæmdabankans. Þá fer nú að verða nokkuð opinbert, hversu föstum tökum málið hefur verið tekið hér innanlands. Það hefur náttúrlega verið hnykkt enn þá betur á suður í París. En m.ö.o., það hefur ekki frétzt af málinu hjá stjórnendum Framkvæmdabankans og ekki heldur hjá formanni atvinnubótasjóðs.

Hæstv. ráðh. talaði hér, eftir að Magnús Jónsson hafði lokið máli sínu, og gerði enga aths. við þessar upplýsingar. Ég spurði um það, hvenær bæjarstjórn Ísafjarðar hefði verið skrifað og sýslunefndunum á Vestfjörðum, og dagsetningin á því fæst ekki upplýst, en fullyrt af frsm., að málið hafi aðeins borizt til þeirra mjög seint. Þetta upplýsir það, að það hefur verið af lítilli alvöru og mikilli linkind og hæglæti unnið að málinu, og skal ég þá þar með ekki sýkna félmrh., þó að ég gerði það að mestu í fyrri ræðu, áður en upplýsingarnar komu fram.

Það er fjarri því, að ég harmi afdalakotin, sem Magnús Jónsson minntist á. Þau mega leggjast í eyði, ef þau veita ekki góð lífskjör því fólki, sem þar býr. Það eru ekki þau, sem ég er að harma. Það er, þegar blómlegar byggðir með góð lífsskilyrði leggjast í auðn, það ber að harma. Og það eiga ekki alþm., sízt af öllu alþm. kjördæmisins, að horfa á aðgerðalausir ár eftir ár og áratug eftir áratug. Það er of mikið sinnuleysi. Það var hér á Alþ. í fyrra till. um það að sporna við eyðingu byggðar í Snæfjallahreppi. Eyðingin er komin gegnum Sléttuhrepp, Grunnavíkurhrepp og í miðjan Snæfjallahrepp, og þar er Æðey, stórbýlið Unaðsdalur og stórbýlið Bæir til landvarnar, ef fólkið fær þar hjálp. En hún fékkst ekki, Alþingi svaf. Þarna er ungt, glæsilegt, atorkumikið fólk, sem vill veita viðnám, og ef viðnámið verður ekki veitt þarna í Norður-Ísafjarðarsýslu, verður það ekki veitt annars staðar.

Hvað er það, sem þarf að gera, og hverja þarf að spyrja? Það þarf að létta lífsbaráttu fólksins, sem þarna býr, og það liggur ekki nær að spyrja mann suður í París eða neina vísindastofnun þar, hvað eigi að gera, heldur en fólkið, sem hefur lífsreynsluna af þeirri lífsbaráttu, sem þarna hefur verið háð. Við fáum viturlegri svör frá fólkinu, sem hefur lifað við þessi kjör, sem þarf að bæta, heldur en spyrja sprenglærðan Parísarbúa um það. Það er mín afstaða a.m.k. Vita ekki Norðmenn vel um þetta? Jú, þeir hafa lífsreynslu líka og við af byggðum NorðurNoregs, sem voru að eyðast, en þá svaf Stórþingið ekki. Og við þurfum ekki að fara til Noregs og við þurfum ekki að biðja um Norðmann hingað, við vitum um Norður-Noregsplanið, við höfum það fyrir okkur á bókum og við höfum kynnt okkur það, og við eigum sjálfir, sem þekkjum aðstæðurnar hér, að geta bezt dæmt um það, hvað þar eigi við af aðgerðunum, sem Norðmenn beittu. Norðmenn vita það síður en við, hvað hér eigi við. Við vitum ósköp vel, að það þarf að jafna aðstöðu fólksins í þessum byggðarlögum við aðra landsmenn, veita þeim jafnréttisaðstöðu í atvinnumálum. Það á að byggja hafnir á Vestfjörðum. Það þarf að opna vegasambönd. Heil byggðarlög hafa verið einangruð fram á þetta ár og eru það enn. Það þarf að opna sambandið milli Ísafjarðarkaupstaðar og sveitanna vestur á bóginn, það þarf að opna vegasambandið norður á bóginn, inn um Djúp frá Ísafirði við sveitirnar þar. Þetta vitum við. Það þarf að sjá fyrir góðum flugsamgöngum, og það þarf umfram allt að tryggja öruggar sjósamgöngur við Vestfirði. Það þarf að veita Vestfirðingum jafnréttisaðstöðu í menningarmálum og heilbrigðismálum, veita Þeim öryggi og aðstöðu til að lifa í sínum landshluta, sem er eins gjöfull og hver annar landshluti, og þm. Vestf. mega sízt af öllu lúta flokksræðinu um það að svíkja hin vestfirzku mál, þegar þau liggja hér fyrir Alþingi.