29.01.1964
Efri deild: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Sjálfsagt er því ekki að neita, að þetta frv. feli í sér tilraun af hálfu hæstv. ríkisstj. til að leysa til algerra bráðabirgða aðsteðjandi vanda, sem hún kemst ekki hjá að glíma við og finna nokkra lausn á. Það fer að vísu ekki hjá því, að ef þeirri bráðabirgðalausn vandans, sem hæstv. ríkisstj. leggur til, verður fylgt í öllum atriðum, þá hljóta afleiðingar þess að eiga eftir að reynast uppspretta enn nýrra vandamála, og kem ég að því nánar síðar. Hitt er sjálfsagt að meta og virða að maklegu, að nú kemur hæstv. ríkisstj. viðreisnarinnar í fyrsta skipti fram fyrir þing og þjóð með þá viðurkenningu á vörum, að hún hafi ekki í fórum sér annað en bráðabirgðaúrræði, og ekki verða ummæli hæstv. forsrh., sem hann mælti í nýbyrjaðri ræðu sinni, þegar hann fylgdi máli þessu úr hlaði í hv. Nd., og prentuð eru í Morgunblaðinu s.l. laugardag, skilin öðruvísi en svo, að ríkisstj. skorti nú öðru fremur svigrúm til þess að íhuga allan vanda efnahagsmála okkar frá rótum og leita um lausn hans haldgóðra úrræða, sem þó því aðeins fáist að hans dómi, að víðtækt samkomulag náist milli höfuðatvinnustéttanna og ríkisvaldsins.

Það verður vissulega að segja, að hér kveður við nokkuð annan tón en í ársbyrjun 1960, við upphaf viðreisnarinnar, þegar þjóðinni var heitið því, að komið skyldi á traustum og heilbrigðum grundvelli fyrir atvinnulíf þjóðarinnar og nú skyldi ekki farið að sem áður hefði tíðkazt, að búa þyrfti við efnahagsráðstafanir, sem ekki stæðust nema stuttan tíma í senn. Nú væri megintilgangurinn með hinum nýju ráðstöfunum og þeirri stefnubreytingu, sem lögð væri til, að skapa atvinnulífinu traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en áður, og lengur mætti það ekki eiga sér stað, að árlegar breytingar yrðu á aðstöðu atvinnuveganna. Eitt helzta ráðið til að koma þessari nýju og heilbrigðu skipun á var svo að afnema bótakerfið, sem við höfðum búið við í ýmsum myndum í tæpan áratug, og tryggja með stórfelldri gengisfellingu, að útflutningsframleiðslan yrði rekin án bóta og styrkja.

Enn var svo öllu þessu heilbrigða, ágæta kerfi til enn frekari tryggingar afnumið vísitölukerfið, og átti þannig að hindra, að sjálft höfuðvandamálið, sem talið var hjá okkur, kapphlaupið milli launa og verðlags, riði okkur til falls að nýju. Og enn var hert á fullyrðingunum, m.a. í þeirri frægu hvítbók ríkisstj., Viðreisn, og sagt: Nú mun nýtt viðhorf skapast, útflytjendur verða framvegis að sæta ríkjandi gengi og geta ekki fengið aukinn launakostnað endurgreiddan í hækkuðum útflutningsbótum. Þá er það ætlun ríkisstj. að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana. — Svo mörg eru þau orð og þó miklu fleiri, þó að ég fari ekki að rekja þau frekar hér. En því skal aðeins bætt við, sem menn þó sjálfsagt muna jafnvel og það, sem hér hefur verið tilfært, að gjaldið, sem launastéttirnar áttu að greiða fyrir að fá þessa nýju skipun mála í gott horf og í kjölfar hennar síðan síbætt lífskjör, átti að vera það, að lífskjör launafólks, eins og vísitala framfærslukostnaðar mælir þau, áttu að skerðast um tæp 3%. En þetta átti þó ekki að standa til langrar frambúðar, heldur átti aðeins að þurfa svolítillar biðlundar við, e.t.v. ekki nema í nokkra mánuði, í allra hæsta lagi eins árs bið, þá færu menn að njóta ávaxta fórna sinna.

Ég ætla ekki að þessu sinni að rekja þá sögu ýtarlega, hvernig tekizt hefur til í þeim meginatriðum, sem ég hér hef aðeins minnt á, enda blasa staðreyndirnar við, hver annarri augljósari, og er nú orðið þarflaust með öllu um það að deila, hversu viðreisnarstefnan hefur reynzt, hvern vanda hún hefur leyst af þeim, sem fullyrt var að hún mundi ráða bót á. Drættir þeirrar myndar, sem sýna ætti traustleika þess grundvallar, sem atvinnulífið hvílir á, verða næsta skýrir, þegar það skeður, að þrem dögum eftir að hæstv. ríkisstj. lagði þetta frv. fram hér á hv. Alþingi sem eins konar bráðabirgðabót á slitið fat viðreisnar sinnar, neyðist hún til að skella annarri bótinni ofan á hina fyrri, svo að allt fatið gliðni ekki í sundur. Það ber auðvitað ekki að lasta, að hæstv. ríkisstj. opnar augun í hálfa gátt og viðurkennir, að fiskverðið, sem svokallaður yfirdómur ákvað með einu atkv., væri of lágt, til þess að útgerð héldist og sjómenn yfirgæfu ekki bátana. En hitt hljóta menn að undrast, að hæstv. ríkisstj., sem frá upphafi hefur talið það, a.m.k. í orði, sitt meginverkefni að skapa útflutningsatvinnuvegunum örugg starfsskilyrði, skyldi vera svo fákunnandi um hina raunverulegu stöðu þeirra, að hún hefur ekki virzt gá svo mikið sem til veðurs, fyrr en sjómennirnir voru unnvörpum teknir að flýja af skipunum og alger stöðvun þorskveiðiflotans blasti við. Og það er að vísu svo, að enn er óséð, hvort sú bót, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú sett á þetta fat, dugir til þess, að vertíð gangi truflunarlaust. Bendir fremur margt til þess, að svo verði ekki, heldur muni verulegur hluti bátaflotans liggja á þorskvertíðinni, og væri fróðlegt að fá t.d. réttar upplýsingar um það nú, hvernig ástandið er í þeim efnum, t.d. úr stórum verstöðvum eins og Vestmannaeyjum, hve mikið af bátaflotanum er raunverulega gangandi og hve mikið liggur í höfn. Og það er líka augljóst, að óeðlilega stór hluti flotans mun fremur hætta á síldveiðar í gúanó, meðan þær gefa einhverja raun eða einhverjar vonir til þess, enda er þar um að ræða atvinnugrein, sem hæstv. ríkisstj. hefur öðrum atvinnugreinum fremur dálæti á og hefur sífellt eytt meira og meira fjármagni þjóðarinnar til þeirrar atvinnugreinar, bæði í verksmiðjuframkvæmdir og til skipa, sem sérstaklega eru byggð til veiða í slíka frumstæða og tiltölulega verðlitla vinnslu.

Myndin af efndunum á öðru meginloforði viðreisnarflokkanna frá 1960, því að afnema bótakerfið og láta útflutningsatvinnuvegina ganga án allra bóta og styrkja, ætti líka að liggja sæmilega skýr fyrir nú eftir framlagningu þessa frv., því að ekki er nú lengur dregin nein dul yfir nýtt uppbótakerfi, sem í engu tekur hinu fyrra fram hvað ókostina snertir, en virðist einnig á góðum vegi með að slá það fyrra út líka að því er til umfangsins kemur, ef það hefur ekki þegar gert það. Hæstv. ríkisstj. afnam að vísu hið svonefnda vísitölukerfi, sem hún taldi frumorsök verðbólgunnar og flestra þeirra efnahagslegu meina, sem af henni leiddi. En reynslan af þeim aðgerðum hefur einnig orðið allt önnur og lakari en látið var í veðri vaka að hún yrði, því að hvorki hefur sú ráðabreytni hindrað öra og sívaxandi verðbólguþróun né tryggt öryggi atvinnuveganna og enn síður þau batnandi lífskjör vinnustéttanna, sem átti að verða afleiðing allra hinna aðgerðanna, sem stjórnarflokkunum hefur tekizt að láta fara út um þúfur, heldur hefur sú aðgerð aukið á alla erfiðleika, jafnt launafólks sem helztu greina atvinnulífsins, enda mun nú svo komið, að þeir sérfræðingar, sem í upphafi hvöttu ákafast til þessara aðgerða gegn launastéttunum, viðurkenni nú mistök sín og haldleysi þessara aðgerða, a.m.k. að því marki, að litlu skipti, hvort launafólk hafi verðtryggingu á launum eða ekki, því að reynslan sanni, að í síðara tilvikinu sé ávallt um að ræða þá reynslu, að hækkað verðlag nauðþurfta brjótist fyrr eða seinna fram í hækkuðu kaupgjaldi. Hér er því í raun um það tvennt að ræða, að launastéttirnar fái sínar verðlagsbætur til samræmis við verðlag með friðsamlegum hætti eftir umsömdum reglum eða sífelldar deilur og barátta í kjaradeilum hafni að lokum í svipaðri niðurstöðu.

Þannig verður naumast lengur um það deilt, að fyrirheit núv. stjórnarflokka frá 1960 hafa farið út um þúfur hvert af öðru, og smám saman hefur það leitt til þess ástands, sem núv. hæstv. forsrh. hefur lýst svo, að til hreinna vandræða horfi og leiða hljóti til stöðvunar útflutningsatvinnuveganna, ef ekki komi til gagnráðstafanir, í fyrstu til algerra bráðabirgða og síðan til meiri frambúðar. Um hitt er deilt, hverju og hverjum sé um að kenna. Hjá slíkum deilum verður heldur naumast komizt með öllu. Þótt það eitt fyrir sig stoði lítið, þá er það þó að einhverju leyti a.m.k. óhjákvæmilegt, vegna þess að haldgóð úrræði fást tæplega, nema reynt sé að grafa fyrir rætur vandans.

Af hálfu stjórnarliðsins, ekki sízt í blöðum þess, en einnig að nokkru í öllum málflutningi þess hér á hv. Alþ., og örlaði m.a. á því nú áðan í framsöguræðu hæstv. forsrh., þá er því haldið fram, að vandi efnahagsmála okkar og atvinnuvega þjóðarinnar eigi að skrifast á reikning verkalýðssamtakanna. Hann sé því að kenna, að þau hafi hrifsað of mikið til skjólstæðinga sinna í kaupgjaldsbaráttunni á síðustu árum, og það vandamál, sem hér er sérstaklega um rætt, er svo beinlínis kennt lægst launuðu stétt þjóðfélagsins, verkamönnunum, og urðu ummæli hæstv. forsrh. nú áðan varla skilin á annan veg, þegar hann sagði, að einmitt þessar ráðstafanir væru nauðsynlegar vegna kauphækkananna, sem hefðu orðið í desembermánuði s.l.

Ég hef hér fyrir mér útreikninga frá Efnahagsstofnuninni, útreikninga, sem e.t.v. eru ekki óvefengjanlegir fremur en flestir aðrir reikningar, sem byggðir eru á hinum ófullkomnu tölulegu upplýsingum í okkar landi, en varpa þó áreiðanlega nokkru ljósi á það, hvort hlutur t.d. verkamanna, sem nú eru sérstaklega hafðir fyrir sök um allan vanda, hefur batnað um skör fram á viðreisnarárunum. En þær tölur, sem ég hér nefni úr þessum útreikningum, eru í fyrsta lagi árleg aukning hreinna þjóðartekna á mann árin 1960, 1961 og 1962, og hins vegar árleg breyting atvinnutekna verkamanna í Reykjavík sömu ár, og í þriðja lagi breytingar á kaupmætti almenns verkamanns í Reykjavík einnig þessi sömu ár. En þessar tölur sýna okkur eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, að árið 1960 minnkuðu hreinar þjóðartekjur á mann frá fyrra ári um 0.9% , en á sama tíma minnkuðu atvinnutekjur reykvískra verkamanna ekki um 0.9% , heldur um 7%, og kaupmáttur almenns verkamannakaups rýrnaði ekki um 0.9%, heldur um 9%, eða tíu sinnum meira. En þessir reikningar sýna einnig í öðru lagi, að á næsta ári, árið 1961, uxu hreinar þjóðartekjur frá fyrra ári á mann um 5.1%, en það ár minnkuðu atvinnutekjur reykvískra verkamanna, sem árið áður höfðu minnkað um 7%, enn þá um 10% og kaupmáttur tímakaups þeirra rýrnaði um 5.4%. Þriðja viðreisnarárið, 1962, uxu þjóðartekjurnar um 1.6%, og það ár rétta atvinnutekjurnar nokkuð við, atvinnutekjur verkamanna, eða rösklega um 10%, en það gerist einvörðungu eða a.m.k. svo til einvörðungu fyrir aukið vinnuálag og lengri vinnutíma, sem auðsætt er á því, að á sama tíma stendur kaupmáttur tímakaups algerlega óbreyttur, og það getur þess vegna ekki verið um neina aðra ástæðu að ræða en aukið vinnuálag. Það er svo alveg víst, að fjórða viðreisnarárið, sem nú er nýliðið, hefur þróunin ekki verið miklu hagstæðari en á þessum árum, því að þótt ekki liggi fyrir sömu tölulegar upplýsingar um það, þá var svo komið í desembermánuði á s.l. ári, að kaupmáttur almenns verkamannakaups var kominn niður í 80 stig, miðað við 100 1945, eða það langlægsta, sem orðið hefur frá styrjaldarlokum, og töluvert lægra en hann hafði áður komizt á tímabili viðreisnarstjórnarinnar. Og á því ári var einnig um að ræða stórfellda dýrtíðaraukningu.

Ég nefni þessar tölulegu staðreyndir einkum vegna þess, að því er sérstaklega haldið á lofti af talsmönnum hæstv. ríkisstj., að eðlilegt sé, að launamenn fái laun sín bætt í hlutfalli við auknar þjóðartekjur. Ég tel að vísu, að þetta sé engan veginn einhlítur mælikvarði, en hann má þó a.m.k. prófast, og vissulega ber að taka nokkurt tillit til þess, hvernig sú þróun mála er. En ef við athugum þessar tölur ofur lítið betur, en notum þessa formúlu á þróunina í þessi þrjú umgetnu viðreisnarár með því að útfæra þær stærðir, sem ég áðan nefndi, ofur lítið öðruvísi, þá kemur í ljós, að á þessum þremur árum hafa hreinar þjóðartekjur vaxið um 10.4%. Og þá vaknar sú spurning, ef réttmætt væri, að t.d. atvinnutekjurnar — að við tölum nú ekki um kaupmáttinn — hefðu átt að vaxa um sama, þá hefðu í samræmi við þetta atvinnutekjurnar átt að standa í 121 stigi, miðað við 100 1948, í árslok 1962. En skyldu þær hafa staðið í því? Nei, þær stóðu í 102.9, eða tæpum 103 stigum, og þar skorti því rösk 18 stig á, að sjálfar atvinnutekjurnar ykjust að sama skapi í þessi 3 ár eins og aukning þjóðarteknanna hafði orðið. Með sömu reglu, þ.e.a.s. aukningu eftir vexti hreinna þjóðartekna í þessi 3 ár, hefði kaupmáttur almenns tímakaups verkamanna átt að standa í 112 stigum á sama tíma í árslok 1962, en kaupmátturinn stóð þá raunar ekki í 112 stigum, miðað við 100 1948, heldur var hann kominn niður í 86.6 stig. Það skorti þess vegna 25 stig á, að fullnægt væri reglunni um launabætur, þ.e.a.s. raunverulegar launabætur auðvitað, í samræmi við vöxt þjóðartekna.

Hliðstæður samanburður, gerður á milli áranna 1958 og 1962, sýnir að vísu ekki alveg sömu hryggðarmynd af breytingunni vegna þess, hve árið 1959 kom vel út á margan hátt, en sé sömu viðmiðunarreglu beitt milli þessara ára, verður vöxtur þjóðarteknanna 10.2%, hreinna þjóðartekna á mann, en vöxtur atvinnutekna verkamanna í Reykjavík verður á þessu tímabili ekki 10.2%, eins og hann hefði átt að vera, heldur 3.8%. En við það er þó það að athuga, að sá vöxtur byggist enn allur á meira vinnuálagi, því að á þessu tímabili hrapaði kaupmáttur tímakaupsins niður um rösk 12%. Það skal tekið fram, að hér er ekki, eins og t.d. í þeim tölum, sem hæstv. forsrh. fór með í umr. í hv. Nd. og prentaðar eru í Morgunblaðinu og ég hef lesið þar, reiknað með skattabreytingunum og fjölskyldubótunum sem hagsbótum í þessu sambandi, enda mun það vera almennt viðurkennt af flestum, ef ekki öllum, sem eitthvert skyn bera á meðferð slíkra talna, að það sé mjög hæpið, að ekki sé meira sagt, að reikna t.d. með skattabreytingum og öðru slíku, vegna þess, hve viðmiðunin er hæpin í þeim efnum og hve þau mál taka örum breytingum. En þó svo að heildarmyndin, sem fengist með því að taka þær breytingar inn í og reikna til hagsbóta, væri viðurkennd, þá væri a.m.k. jafnsjálfsagt, ef ekki miklu sjálfsagðara, að taka með í reikninginn þær stórfelldu kjaraskerðingar, sem verkamenn og aðrir launþegar hafa orðið fyrir og ekki eru mældar í neinum útreikningum, og hygg ég ekki hallað á neinn, þótt það sé látið mætast. En þar á ég alveg sérstaklega við hækkun húsaleigukostnaðar, sem kemur að sama og engu leyti inn í vísitöluna, og raunar byggingarkostnaðar og einnig aðrar lítt mældar útgjaldaaukningar á fleiri sviðum, svo að eitthvað sé nefnt, t.d. hitunarkostnaður. Það er því meira en öruggt, fullyrði ég, að sú mynd, sem ég hér hef dregið upp af því, hvernig kjör verkamanna, þeirra sem nú er kennt um vandann, sem fyrir hendi er, hafa versnað á þremur fyrstu viðreisnarárunum, — að er því meira en öruggt, að sú mynd, sem ég hef dregið upp af því, er fremur of björt en of dökk.

Auðvitað er það svo og hlýtur alltaf að verða, að það, sem verkalýðssamtökin fyrst og fremst sækjast eftir í kjarabaráttu sinni, er ekki aukin krónutala launa, heldur aukið verðgildi launanna, aukið verðgildi miðað við vinnuframlag eða vinnu fyrir ákveðna tímaeiningu. Þegar þau því gera kjarasamninga, er þeim fyrir öllu, að vitað sé um það, hvað raunverulega er verið að semja um. Grundvallarskilyrðið til þess er svo auðvitað aftur það, að annað tveggja sé tryggt, að verðlag lífsnauðsynja eða lífsþurfta breytist lítið eða ekki, eða þá, að samið sé um verðtryggingu kaupsins fyrir tiltekna tímaeiningu eða tiltekið vinnuframlag. Og auðvitað ætti slík verðtrygging ekki að saka, þótt verðlag væri tiltölulega stöðugt. Það hefur áreiðanlega verið ein af höfuðsyndum núv. hæstv. ríkisstj. að meina verkalýðssamtökum og atvinnurekendum nú í 4 ár að semja um raunveruleg laun. En í skjóli þess banns, sem lagt var við slíku við upphaf viðreisnarinnar, hefur hún talið sig geta sleitulaust framkvæmt árlegar aðgerðir, sem hafa hækkað verðlag stórkostlega og því hraðar sem valdaskeiðið hefur orðið lengra. Tvennar gengisfellingar, margfaldaðir verðhækkunarskattar, jafnvel hundruð millj. kr. umfram þarfir ríkissjóðs, eða öðru nafni söluskattur og tollar, hafa ýtt verðbólguskriðunni á undan sér, að því ógleymdu, að verkalýðssamtökunum hefur verið gerður sá kostur einn og nauðugur að berjast fyrir hækkuðu kaupi að krónutölu án nokkurra trygginga fyrir því, hverju gildi þær krónutölur héldu eða hve lengi.

Verkin sýna líka merkin. 80% hækkun á matvöru á 4 árum og fast að 70% meðaltalshækkun á neyzluvörum er þegar orðin staðreynd. Aðeins á s.l. ári hækkaði vísitala neyzluverðlags, frá jan. 1963 til jan. nú í ár, um 23 stig eða um tæp 16%. Og í árslokin síðustu, áður en kjarasamningar voru gerðir um 20. des., var vísitalan, eins og ég sagði áðan, vísitala kaupmáttar verkamannakaups, komin niður í 80 stig, miðað við 100 1945, eða miklu lengra niður en nokkru sinni áður á öllu tímabilinu frá stríðslokum.

Í sambandi við þetta og í sambandi við það, að það er mjög vefengt, að vísitala kaupmáttar almenns Dagsbrúnarkaups sé nokkur mælikvarði á kaupmátt tímalauna yfirleitt, vil ég aðeins benda á það, að kaup í almennri vinnu hefur yfirleitt hækkað meira en sértaxtar hjá verkamannafélögunum, þannig að ef viðmiðunin væri gerð við aðra taxta, yrði þarna, miklu óhagstæðari útkoma. Að vísu hafa nokkrar tilfærslur átt sér stað milli kauptaxta, en þær eru áreiðanlega ekki meiri yfir heildina en sem munar því, að hærri taxtarnir hafa hækkað hlutfallslega minna á síðustu árum.

Í sambandi við þetta er svo eðlilegt, að menn spyrji um, hvað sé nú fram undan, eins og nú er komið málum í þróun verðlagsmálanna. Það skiptir kannske mestu máli, eins og nú er komið. En það var a.m.k. ekki séð um miðjan desember, þegar samningar stóðu þá yfir, að mikil birta væri þá í hugum ríkisstjórnarmanna um það, að stöðvun verðlagshækkana væri í aðsigi. Og ég vil í því sambandi taka það fram, að ég mun ekki halda því fram, að með hækkun söluskattsins sé nú komið að nokkru leyti aftan að verkalýðssamtökunum, því að það er rétt, sem hæstv. forsrh. skýrði frá í þeim efnum, þó að undarlega vilji til, að okkur var tilkynnt það í samninganefndunum og gefnar um það upplýsingar, að það yrði að hækka söluskattinn a.m.k. upp í 5%, þó að kaup hækkaði ekki nema um 8%, og jafnvel að það yrði að hækka hann verulega, þótt engin kauphækkun yrði, því að það var reiknað með í þeim upplýsingum, sem við fengum, að það ætti að hækka söluskattinn í 5%, eða um 220 millj., má ég segja, og af því áttu 175 millj. að fara til tekjuþarfa ríkissjóðs, eins og þær voru, áður en nokkrar kauphækkanir gengu í gildi, en aðeins 45 millj. til lækkunar á útflutningsgjöldum, svo að ég sé ekki betur en það hafi þá verið bjargföst ákvörðun hæstv. ríkisstj. að hækka söluskattinn í 5%, þótt engar kauphækkanir yrðu. Að öðrum kosti fæ ég ekki hlutina heim og saman. Og það er svo auðvitað í nokkru samræmi við þann málflutning, sem síðar er fram haldið hér, að raunverulega þyrfti að hækka söluskattinn, þótt engin þörf sé fyrir hann vegna þeirra aðgerða, sem nú standa fyrir dyrum. Söluskattshækkunin var ákveðin, áður en til nokkurrar kauphækkunar kom.

En svo að ég víki aftur að því, sem var í huga hæstv. ríkisstj. í sambandi við verðlagsþróunina um þetta leyti, þ.e.a.s. um miðjan desember, er frá því að segja, sem ég tel ekkert launungarmál, að þá fengu samninganefndir þær upplýsingar frá þeim ríkisstofnunum, sem gerst mega um vita, að fram undan væru þá vísitöluhækkanir á framfærsluvísitölu upp á hvorki meira né minna en 9–10 stig, miðað við óbreytt kaupgjald og óbreytt útsvar og tekjuskatt. En hins vegar var reiknað með, ef fallizt væri á þá lausn á kaupdeilunni, sem ríkisstj. hafði lagt til, þ.e.a.s. með 8% kauphækkun á dagvinnu og 4% kauphækkun til iðnaðarmanna og hærri taxta verkamanna, að af þeim kauphækkunum leiddi 2.6 stiga hækkun. En þá var líka, eins og ég sagði áður, gert ráð fyrir, að söluskattur yrði hækkaður, að vísu nokkru minna eða hálfu prósenti minna en nú er ráð fyrir gert.

Miðað við það, sem síðan hefur gerzt, og þá reglu, sem miðað var við í öllum þessum útreikningum frá Efnahagsstofnuninni, sem okkur voru fengnir í hendur í samninganefndunum, þá reglu að hleypa öllum kauphækkunum eins og þær lögðu sig út í verðlagið, — og menn minnast nú kannske fyrirheitsins, sem gefið var í upphafi viðreisnarinnar, að það skyldi aldrei ske á hennar valdatíð, að atvinnurekendur fengju að velta neinu af því yfir í verðlagið, fyrir það yrði alveg tekið, — en miðað við þessa reglu, sem þarna var beitt og ríkisstj. virtist vera ákveðin í og hefur þess vegna ekki að því leyti komið á nokkurn hátt í bakið á verkalýðssamtökunum, þá verður þarna gert ráð fyrir því, að allt að 15 stiga hækkun á framfærsluvísitölunni og e.t.v. meiri sé á næstu grösum að óbreyttri stefnu hæstv. ríkisstj. í verðlagsmálum og skattamálum. Og gefur þá auga leið, að tekin verður aftur á skömmum tíma, e.t.v. ekki lengri tíma en 3–5 mánuðum, öll sú kauphækkun, sem um var samið í des. eða gekk þá í gildi.

Það er svo augljóst, að með þessu frv. er fetað dyggilega í dýrtíðarslóðina. Hér er gert ráð fyrir því að hækka hinn almenna söluskatt, einn allra verst ræmda skattinn og það af mörgum ástæðum, um hvorki meira né minna en 83%, eða 280–300 millj. kr. á ári, enda þótt það liggi fyrir, svo að varla verður um deilt, að unnt væri að mæta þeim útgjöldum, sem nú eru talin óhjákvæmileg vegna verðbólgustefnunnar á undanförnum árum, með öðrum hætti án nýrrar skatthækkunar, sem óhjákvæmilega leiðir í fyrsta lagi til mikillar beinnar, almennrar verðhækkunar og kemur síðar til með ásamt öðru fleira að ýta undir aðrar verðhækkanir óbeint og þar af leiðandi áframhaldandi verðbólguskrúfu. Það liggur fyrir, að beinn. greiðsluafgangur tveggja síðustu ára er hjá ríkissjóði sjálfsagt yfir 300 millj. kr. og rekstrarafgangur raunar stórkostlega miklu meiri, en þetta eru í rauninni upphæðir, sem ofheimtar hafa verið af þjóðinni algerlega að ástæðulausu og hafa valdið algerlega óþörfum verðhækkunum.

Ég minnist þess í því sambandi, þegar ég lagði það til hér á síðasta hv. Alþingi, sem raunar voru till. beint frá verkalýðssamtökunum og mjög í samræmi við þær kröfur, sem þau hafa gert oft í þessum efnum, að lækkaðir yrðu söluskattar á nokkrum vörutegundum, sem hefði verið metið mjög mikils af almenningi, þá var því svarað til af formanni hv. fjhn., Ólafi Björnssyni, að það væri ekki fært, vegna þess að það væri teflt á tæpasta vað með fjármál ríkisins á s.l. ári. Þá var það ekki látið í veðri vaka, að það væri nauðsynlegt að hækka skatta bara vegna ofþenslunnar. Nei, það var talið, að það væru svo ógætilega áætluð fjárlög, að það væri ekki vogandi að minnka ríkistekjurnar um 90 millj. kr., en frv. mitt hefði verið nálægt því að kosta þá upphæð. En eftir á, þegar það sýnir sig, að það er stórkostlegur greiðsluafgangur, þá er þetta orðið sjálfsagt vegna þenslunnar í þjóðfélaginu. Hvernig er nú svona röksemdum komið heim og saman? Það er sagt nákvæmlega sama núna, að fjárlög séu ekki afgreidd þannig, að það sé vogandi að leggja neinar nýjar byrðar á. En langlíklegast þykir mér nú, að reynslan verði ekki ósvipuð og á s.l. ári, að um mjög mikla ofheimtu verði að ræða.

Það liggur líka fyrir, að það hefði mátt létta mikið byrðar sjávarútvegsins með vaxtalækkun, jafnt stofnlána sem afurðalána, og með hagkvæmari tryggingastarfsemi. En í þeim efnum hefur dregizt úr hömlu, eins og öllum er kunnugt, að bæta um skipulagið. Enda þótt því hafi verið lofað, m.a. af hæstv. núv. sjútvmrh. fyrir mörgum árum, að gera þar gagngera breytingu á, þá hefur ekkert orðið úr framkvæmdum. Og það er allra dómur, að tryggingastarfsemin sé bæði allt of dýr og þar að auki orðin heilt spillingarfen.

Það liggur líka fyrir, að sú skattheimta, sem hér er lagt til nærri því að tvöfalda án brýnnar nauðsynjar eða jafnvel án nokkurrar nauðsynjar, er þess eðlis, að hún kemur að allra dómi illa til skila í ríkiskassanum og ótalinn hluti hennar er talinn lenda hjá ýmsum í þeim ærið mislita hópi, sem trúað er fyrir innheimtu hans af almenningi. Það er að vísu öruggt, að almenningur fær að borga skattinn, en hitt er tvísýnna, hver rýrnun verður á honum á leiðinni í ríkiskassann. Með aukningu söluskattsins er svo enn stigið verulegt skref til dýrtíðaraukningar, eins og ég áður sagði, og einnig í þá átt, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa gengið með skattabyltingu sinni á undanförnum árum og hefur leitt til þess, að sennilega má nú leita víða um lönd, ef á að finna hliðstæðu við hið íslenzka skattakerfi, eins og það er nú orðið, og þá sérstaklega hvað hlutfallið snertir milli beinna og óbeinna skatta. Hér er aðeins um tíundi hlutinn af sköttum og tollum ríkisins tekinn með beinum sköttum, en allt að 90% með óbeinum sköttum. Til samanburðar er fróðlegt að athuga það, að t.d. í Noregi hafa um fjölda ára skattar til ríkisþarfa verið teknir nokkuð að jöfnu með beinum sköttum og óbeinum. Þannig voru t.d. óbeinir skattar árið 1962 í Noregi 5 milljarðar, en beinir skattar 4.9 milljarðar, og þannig hefur þetta verið um mörg ár. Það er því alveg öruggt, að ef skattapatent hæstv. ríkisstj. er fengið erlendis frá, er það ekki frá frændum vorum Norðmönnum. Þar í landi þykir það enn góð latína að nota skattakerfið, a.m.k. að nokkru leyti, til auðjöfnunar og tekjujöfnunar, en hér er slík stefna fordæmd. Hér eru þeir skattar einir hafðir í hávegum, sem nefna mætti kauplækkunarskatta, vegna þess að þeim er stefnt beint að því marki að hækka verðlagið og skerða þannig launatekjur almennings. Þeirra tilgangur er fyrst og fremst að lækka hin raunverulegu laun, og vegna þess og af fleiri ástæðum koma þeir tiltölulega þyngst niður á hinum lægst launuðu, en skerða ekki á nokkurn hátt þann gróða, sem fyrir er í þjóðfélaginu og aðeins verður tekinn með beinum sköttum.

Ég verð að segja, að það er því vissulega ekki góð byrjun á framkvæmd þess ásetnings, sem hæstv. forsrh. hefur látið í ljós að byggi með stjórn hans, að leita skuli samráðs við verkalýðssamtökin, þá er það ekki góð byrjun á þeim ásetningi að tvöfalda söluskattinn án brýnnar eða jafnvel án nokkurrar nauðsynjar, og væri þess vissulega óskandi, að frekari framkvæmd á þeim ásetningi yrði með öðrum og betri hætti. Við Alþb. menn álítum, að ekki verði nú komizt hjá nokkurri aðstoð ríkisins við sjávarútveginn og að í heild sé ekki um neina sérstaka ofrausn að ræða í þessu frv. hvað snertir þá aðstoð, sem þar er gert ráð fyrir. Það verður þó að segja, að einstök frumvarpsákvæði, önnur en ákvæðin um söluskattinn og um heimild til hallærisráðstafana í sambandi við þegar lögfestar framkvæmdir ríkisins, eru þó langt frá því hafin yfir gagnrýni, þó að ég ræði þau ekki frekar að sinni. En tekjuöflunarleið frv. og hallærisheimildinni erum við algerlega andvígir og teljum hvort tveggja — og þó alveg sérstaklega tekjuöflunarleiðina — hreina fásinnu, til þess eins fallna að auka á allan vanda og ýta okkur enn lengra á óheillabraut dýrtíðar og verðbólgu.