18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

806. mál, fjarskiptastöðvar í íslenskum skipum

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Snemma árs 1960 var samþykkt hér í sameinuðu Alþingi þáltill., sem ég flutti, þess efnis, að Alþingi ákvæði að endurskoða lög og reglur um fjarskiptastöðvar í íslenzkum skipum. í framsöguræðu minni fyrir þessu máli rakti ég nokkuð sögu þessara mála. Ég benti á ákveðið dæmi, um ákveðinn atburð, sem nýlega hafði átt sér stað, er mjög studdi þessa ósk, og einnig benti ég á þær framfarir, sem orðið hefðu á tæknisviðinu í þessum málum, og taldi, að það gæti ekki verið vansalaust fyrir Alþingi að láta þetta mál afskiptalaust öllu lengur. Í lok ræðu minnar sagði ég frá því, að Þótt þessi endurskoðun laga og reglugerða um þetta ákveðna atriði fjarskiptalaganna væri tímabær, svo tímabær, að skjótra aðgerða væri þörf, og einnig það, að ég hefði í þessu máli bundið mig við þá hlið, sem vissi að öryggi sjómanna, þá benti ég einnig á, að heildarendurskoðunar fjarskiptalaganna væri mikil þörf, og benti á því til stuðnings fullyrðingar ýmissa fagmanna um, að þessi lög mundu beinlínis vinna gegn tæknilegum framförum á þessu sviði hér á landi. Hv. alþm. munu hafa veitt athygli nú upp á síðkastið, að um þetta hafa spunnizt nokkrar umr. Nú langar mig að vita með þessari fsp., sem ég hef lagt fram við hæstv. samgmrh., hvað liði framkvæmd þessarar þál. frá 9. marz 1960, um endurskoðun laga og reglugerða um fjarskiptastöðvar í íslenzkum skipum.