08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar verið var að undirbúa svör við þessum fsp., átti ég von á því, að kæmi fram gagnrýni á þessari aðferð, að lesa ekki orði til orðs allt, sem í þessum upplýsingum felst. Hins vegar er mér það gleðiefni, að mér skilst, að allir ræðumenn, sem hér hafa talað, séu nú í rauninni farnir að viðurkenna, að það hafi ekki verið óeðlilegt að svara með skriflegri skýrslu, eins og sakir standa. Og ég býst við því, að ef fsp. koma framvegis, t.d. þar sem spurt er eða óskað upplýsinga um hella kafla úr væntanlegum ríkisreikningi, þá verði að hafa svipaðan hátt á, að veita skriflegar upplýsingar, en ekki lesa það allt hér orði til orðs. Um þetta virðast menn vera sammála.

Þá er hitt atriðið, hvort í slíkum tilfellum ætti að senda öllum hv. alþm. slíka skýrslu. Í þessu tilfelli þótti rétt að láta skýrsluna nú þegar í té fyrirspyrjendum og hv. fjvn. En eins og ég tók fram, er að sjálfsögðu öllum hv. alþm. heimilt að fá skýrsluna. Nú hefur komið fram ósk frá hv. 3. þm. Norðurl. e. um, að öllum hv. þm. verði send þessi skýrsla, hvort sem þeir beiðast þess sérstaklega eða ekki, og mér finnst sjálfsagt að verða við þeirri ósk. Út af hinu, sem kom fram frá hv. 5. þm. Reykn., hvort á að senda hana einnig út fyrir raðir alþm., tel ég, að þurfi nánar athugunar við og hversu mörgum aðilum utan Alþingis ætti þá að senda hana. En ég vil bæta hinu við, að því fer svo fjarri, að hér sé um nokkurt launungar- eða pukursmál að ræða, að hvert einasta nafn og hver einasta tala, sem í þessari skýrslu felst, kemur síðar á þessu ári í hinum prentaða ríkisreikningi, sem er opinbert plagg.

Varðandi fsp. hv. 3. þm. Reykv. um framkvæmdina á ákvæði 3. gr. laganna um ríkisábyrgðir, vil ég svara því til, að þessu ákvæði er, eftir því sem ég bezt veit, stranglega framfylgt, þannig að engum aðila er veitt ný ríkisábyrgð, ef hann hefur áður verið í vanskilum, nema hann hafi greitt þau vanskil eða náð samningum við ríkisábyrgðasjóð um þau. Það. sem hv. þm. kom hér inn á, var spurningin um það, hvernig væri hægt að fara í kringum lögin. Ég tel ekki ástæðu til þess hér, að við förum að skeggræða um það, hverjar leiðir kunni helzt að vera til að fara í kringum þetta lagaákvæði eða önnur. En ef svo virðist sem einhver aðili, í þessu tilfeili eða öðru, sé að gera tilraun til þess að sneiða fram hjá lögum, þá verður það auðvitað að grandskoðast í hverju tilfelli, og ég býst við, að stjórn ríkisábyrgðasjóðs muni hafa fullar gætur á slíku. Varðandi það, sem hann sagði um hlutafélög, ef hlutafélag væri í vanskilum, en hluthafar þess stofnuðu þá nýtt hlutafélag, í því sambandi er aðeins rétt að benda á þau ákvæði íslenzkra laga, að hluthafar í hlutafélagi bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum hlutafélagsins, nema þeir hafi tekizt þær á hendur alveg sérstaklega.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara frekar út í málið að sinni.