29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í D-deild Alþingistíðinda. (3450)

911. mál, lánveitingar úr byggingarsjóði ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er vissulega rétt, að það er mikilla peninga þörf, mikils fjár þörf til húsbygginga á okkar landi, og litill vandi að benda á það. Hitt er öllu meiri vandi, að sjá leiðir til þess að útvega allt það fé, sem þarf. í þessu sambandi vildi ég þó benda á, að samkvæmt yfirliti, sem gert hefur verið, bæði af innlendum sérfræðingum og erlendum, er talið, að þörf landsmanna í heild fyrir íbúðabyggingar sé um 1500 íbúðir á ári. Þar af er gert ráð fyrir, að húsnæðismálastjórn eða hið almenna veðlánakerfi útvegi lán til helmings þessara íbúða eða 750 talsins, lífeyrissjóðirnir standi undir lánum til 500 íbúða og verkamannaþústaðir og íbúðir, sem byggðar eru til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, séu 150 og veðlánakerfi sveitanna sjái um 100, eða samtals 1500. Með þeim hámarkslánum, sem nú eru lánuð, sem ég vissulega viðurkenni að eru ónóg, ættu lánveitingar húsnæðismálastjórnar til 750 íbúða að nema rúmum 112 millj. kr. eða þar í kring. Og það liggur ákaflega nærri, að þessari fjárhæð hafi verið úthlutað á árinu sem leið, en þá er talið, að lán húsnæðismálastofnunarinnar hafi numið á því ári 110 millj. auk þeirra lána, sem gengu til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, og vitaskuld án þess, að þar sé tekið tillit til þess fjár, sem veitt var til verkamannabústaða.

Ég veit og viðurkenni, að hvort tveggja er, að upphæð hinna einstöku lána er of lág, og einnig hitt, að fleiri eru í gangi með byggingar en sem svarar því, sem sérfræðingar telja eðlilegt, þ.e.a.s. miklu fleiri, sem hafa leitað húsnæðismálastjórnar, heldur en þeir 750, sem gert er ráð fyrir að ætti að vera normalt. Ríkisstj. mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að greiða úr þessu og leitast við að útvega viðbótarfé, til þess að lánveitingar geti orðið sem allra mestar, og liggur þá náttúrlega einnig nærri að ákveða hærri hámarkslán. Ég vil líka geta þess, að eitthvað getur það dregið úr spennunni hjá húsnæðismálastjórn, ef lífeyrissjóðirnir taka á sig alla fyrirgreiðslu sinna manna, en hingað til mun það hafa tíðkazt, að ýmsir, sem eru meðlimir lífeyrissjóðanna og hafa fengið lán hjá þeim, hafa einnig fengið talsvert lán hjá húsnæðismálastjórn. En þar sem þeir vilja ekki taka neinn þátt í hinu almenna veðlánakerfi, er ekki óeðlilegt, að þeir standi sjálfir undir lánveitingum til sinna manna eingöngu og a.m.k. komi ekki til greina við úthlutun húsnæðismálastjórnar fyrr en þeir hafa fengið fyrirgreiðslu, sem enga von eða getu hafa til þess að fá lán annars staðar. Þetta verður líka til þess að lækka þá tölu, sem hér hefur verið nefnd, að bíði eftir lánum.

Ég skal viðurkenna, að það er þörf á meiri fyrirgreiðslu en þeirri, sem veitt hefur verið, en ég vil ekki segja, að það sé átöluvert eða ámælisvert, eins og hv. fyrirspyrjandi vildi vera láta, hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Það hefur verið í sívaxandi mæli veitt fyrirgreiðsla hjá húsnæðismálastjórn og verður leitazt við að gera það enn betur á þessu ári, sem kemur.