30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil láta ánægju mína í ljós yfir þeim umr., sem hér hafa fram farið. Ég tel, að þær hafi í heild verið málefnalegar, og þó að mönnum sýnist sitt hvað um orsakir þess ástands, sem nú hefur skapazt og við þurfum úr að leysa í bili, þá er það ekki tiltökumál, og skal ég ekki fara að rekja þá sögu frá mínu sjónarmiði. Ég hef gert það oft áður og tel, að það sé eðlilegast, að við höldum okkur nú að því umræðuefni, sem fyrir liggur, og geymum allsherjaruppgjör til annarra tíma. Ekki svo að ég skorist undan þeim umr., en hvert mál verður að skoðast fyrir sig, og nú erum við allir sammála um, að hér séu ákveðin úrlausnarefni, sem þurfi nú þegar að ráða fram úr og þá er eðlilegt að fást við að þessu sinni. Ég vil einungis geta þess út af því, sem fram hefur komið, að ef menn vilja rekja orsakir verðbólgunnar, þá verður að fara lengra aftur en til myndunar núv. ríkisstj. Hér er við að etja viðfangsefni, sem þjakað hefur íslenzka þjóð a.m.k. í nær aldarfjórðung og við verðum að játa að ekki hefur tekizt enn að ráða á neinn viðhlítandi hátt bót á. Og ég tek náttúrlega undir það með hv. síðasta ræðumanni, að hér er mikið verkefni fram undan, sem menn verða að beina hug sínum að, eins og ég raunar gat um, þegar ég lagði þetta frv. fyrir hv. Nd.

En það eru aðeins örfáar aths., sem ég vildi gera og sé ekki ástæðu til að fjölyrða ýkjamikið um, þótt ég telji rétt, að þær aths. komi nú fram.

Það kemur fram í nál. hv. minni hl. og var endurtekið af hv. frsm. minni hl., að það væri fyrir álögur hins opinbera, að vísitalan hefði hækkað um 5 stig í ágústmánuði s.l. Hv. frsm. minni hl. gat þarna um stærsta liðinn, 2.76%, sem ég hygg að sé kallað opinber gjöld eða eitthvað þvílíkt í skýringum hagstofunnar. Hv. frsm. drap á það í þessu sambandi, að það væri síður en svo eingöngu að kenna verðlagningu á landbúnaðarvöru, að verðlagið hefði hér hækkað, og vitnaði til þessa sérstaka liðar í því sambandi. Um það atriði get ég verið honum fyllilega sammála. En ég vil sérstaklega gera þetta atriði að umræðuefni, vegna þess að það sýnir nokkuð, hvernig vandinn er til kominn.

Hv. þm. gerði grein fyrir kauphækkunum fyrst á árinu 1961 og síðan árinu 1962. Þessar kauphækkanir, ásamt vafalaust einnig vaxandi tekjum sakir aukinnar atvinnu í landinu, urðu til þess, að tekjur almennings urðu mun meiri á árinu 1962 en á árinu 1961. Þetta leiddi aftur til þess, að skattar og þá ekki sízt útsvör urðu hærri á árinu 1963 en á árinu 1962, án þess að ríkið eða sveitarfélög hefðu breytt þeim reglum, sem höfðu áhrif á álagninguna. Það var ekki vegna þess, að skattstigar höfðu verið hækkaðir eða væru almenningi óhagstæðari 1963 en 1962, sem þessi hækkun hinna opinberu gjalda varð, a.m.k. aðallega. Liðurinn er samsettur, en hér tala ég um hann í heild. Hér er því dæmi þess, hvernig vaxandi tekjur, ýmist raunverulegar eða sökum verðbólguáhrifa að nokkru leyti, beinlínis leiða til alveg óvefengjanlega hækkandi verðlags í landinu, en ekki neinar nýjar ráðstafanir ríkisvaldsins eða sveitarfélaganna.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að varðandi vaxtalækkun hefur því verið haldið fram, — ég heyrði nú ekki hv. frsm. meiri hl. gera það, en því hefur verið haldið fram, að sú till. um vaxtalækkun, sem hv. minni hl. fjhn. gerir till. um, mundi samsvara 2% hækkun á fiskverði. Ég hygg, að óvefengjanlegar tölur sýni, að þetta mundi ekki nema meira en 1%. Það munar einnig um þá fjárhæð, það skal ég játa, en eins og ég gerði nokkra grein fyrir í hv. Nd., er hér um nokkuð flókið mál að ræða. Það krefst vaxtabreytinga hjá viðskiptabönkunum í einstökum atriðum, auk þess sem hugmyndir manna um einhvern ofsagróða Seðlabankans fá ekki staðizt, hvorki varðandi afkomu hans 1962 og að því er ég hygg enn þá síður varðandi 1963. Á það er auðvitað einnig að líta, að ef menn vilja, að Seðlabankinn geti greitt fyrir með endurkaupum afurðavíxla, eins og hugur allra manna stendur til, þá þarf hann auðvitað að safna einhverju fjármagni, auk þess sem hann þarf að hafa fjármagn á móti hinum erlendu gjaldeyrisinnstæðum, sem hann nú, sem betur fer, á í bili. Þetta er allt atriði, sem verður að taka tillit til. Ég vonast til þess, að þau útiloki ekki, að vaxtalækkun geti átt sér stað. Það er mál, sem er til íhugunar, þó að ekki þætti ástæða til né fært að taka það inn í þetta frv.

Ég ætla mér ekki að fara að ræða um ágæti viðreisnarinnar að þessu sinni. Um hana hefur verið rætt áður og verður vafalaust lengi rætt enn. Menn vita, að þetta frv. þarfnast skjótrar afgreiðslu, og þess vegna hef ég haldið mér sem mest frá almennum umr. að þessu sinni. En ég get þó ekki varizt því, að þegar því er haldið fram, að viðreisnin hafi t.d. ekki haft nein áhrif á verzlun hér í landinu, þá er það nú öllum almenningi augljóst, að vöruúrval er miklu meira nú en áður var. Og almenningur hefur þess vegna miklu betra færi á því að velja, hvað hann telur sér bezt henta sjálfur, heldur en verið hafði um langt árabil. Og sem betur fer hefur einnig komið í ljós á þessum síðustu árum, að vöruverð er að ýmsu leyti sízt óhagkvæmara hér en í ýmsum nágrannalöndum. En það eiga sér stað, ég veit það, vörukaupaferðir til útlanda, og vafalaust er eitthvað af smygli, sem vissulega ber að standa á móti, en allt er það þó smáræði miðað við það, sem verið hafði undanfarinn áratug.

Þá vildi ég einnig í því sambandi minna á, að því fer fjarri, að hagur almennings hafi þrátt fyrir allt versnað hér á landi á síðasta 5 ára bili. Það hefur áður verið bent á það af mér, að ef gerður er samanburður þjóðartekna á mann og atvinnutekna kvæntra launþega og tekið tillit til beinna skatta og fjölskyldubóta og miðað við annars vegar atvinnutekjur 1958 og tekin vísitalan 100, þá hafa verkamenn nú vísitöluna 108.7 og verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn vísitöluna 116.3. Þetta er raunveruleg lífskjarabót. Því hefur að vísu verið haldið fram, að þessar bætur hafi fengizt með óhæfilega mikilli aukavinnu. Það er að vísu órannsakað mál til nokkurrar hlítar, hvort aukavinna er nú meiri en var á árinu 1958. En jafnvel þótt gert væri ráð fyrir því, sannar það einungis það, sem ég hef áður tekið fram og ég veit að þm. greinir ekki á um og eru mér allir sammála um, að eitt okkar mest aðkallandi vandamál er að reyna að stytta vinnutíma með óbreyttu kaupi, og þetta á að vera hægt og hlýtur að vera hægt með svipuðum hætti á Íslandi og annars staðar, ef menn gefa sér tíma til þess að sinna því verkefni. Það er ekki auðleyst, en það hlýtur að vera hægt að leysa það. En það verður auðvitað ekki leyst, nema menn gefi sig að verkefninu, og það hlýtur undir öllum kringumstæðum að taka nokkurt árabil.

Þá mætti spyrja, hvort hlutfall þessara launastétta, sem ég hef nú vitnað til, miðað við þjóðartekjur, hefði versnað frá árinu 1958. Hv. 4. þm. Norðurl. e. las hér upp nokkrar tölur í gær varðandi þetta efni. Ég skal ekki vefengja þær að neinu leyti. Ég játa, að ég áttaði mig ekki til hlítar á þeim. Töluröðin og hundraðshluti fer auðvitað nokkuð eftir því, hvar byrjað er og við hvað er miðað á hverjum tíma. Og árin 1959, 1960 og 1961 eru öll að ýmsu leyti óvenjuleg, m.a. vegna mikils verðfalls, sem varð á íslenzkri framleiðsluvöru fyrri hluta þessa tímabils, og einnig vegna langvinns verkfalls á árinu 1961. Þess vegna er hægt að fá nokkuð mismunandi hundraðshluta út úr dæminu eftir því, við hvað er miðað. Og auðvitað má segja, eins og hv. þm. raunar gat um, að tölurannsóknir í þessu efni eru e.t.v. ekki alveg fullnægjandi, þannig að menn vantar óyggjandi grundvöll til að reisa ályktanir á. Ef við miðum t.d. við árið 1958 og berum afstöðu atvinnutekna saman við þjóðartekjur og tökum allt landið, þá er það svo, að ef við teljum þetta hlutfall vera 100 1958, er það varðandi verkamennina eina á árinu 1962 98.6, þannig að verkamenn hafa þá orðið nokkuð aftur úr miðað við þær tölur, sem ég hef hér vitnað til. Aftur á móti ef verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn eru taldir og miðað við 100, hefur allur hópurinn fengið 100.5, þannig að þeirra hlutfall er mun betra í heild og hlutur þessara fjölmennu stétta hefur batnað, þegar á heildina er litið.

Ef þessar tölur sanna nokkuð, sýna þær, að full ástæða hefði verið til þess, sem ég raunar hygg að ég og hv. þm. séum sammála um, þó að leiðir skildi, þegar til úrslita kom, að full ástæða hefði verið til að bæta hag verkamanna hlutfallslega meira í kaupsamningunum fyrir jólin heldur en annarra stétta. Og ég viðurkenni fyllilega, að það er eðlileg krafa verkamanna, að þeirra hlutur í þjóðartekjum versni ekki, þegar til lengdar er litið. Og það er vissulega eitt af þeim verkefnum, sem menn ættu að geta sameinazt um að finna einhverja lausn á.

Það má vel vera, eins og hv. frsm. minni hl. sagði, að það hafi verið óhyggilegt að afnema vísitölubindinguna 1960, að reynslan hafi skorið úr um, að það hafi orðið til vaxandi ófriðar í landinu. Mér kemur ekki til hugar að vefengja þau rök, sem að því eru færð. Hitt verður að játa, að þáv. ástand stóðst ekki, þegar voru nærri því árlega samfara vísitölugreiðslum knúnar fram miklar kauphækkanir, langt umfram greiðslugetu atvinnuveganna. Það var ekkert nýtt fyrirbæri á síðasta ári vinstri stjórnarinnar, heldur hafði þetta átt sér stað æ ofan í æ undanfarinn áratug og ég vil segja allt frá árinu 1942. Hér var því úr vöndu að ráða, og ég hygg, að þótt að því ráði verði hnigið, eins og ríkisstj, í haust lýsti sig reiðubúna til viðræðna um, að fallast á einhverja verðtryggingu kaups, verði að taka hana upp í öðru formi og með öðrum hætti en vísitöluna gömlu. Það er sannarlega eitt af þeim atriðum, sem til íhugunar hljóta að verða og kanna þarf betur á þeim mánuðum, sem nú eru fram undan og e.t.v. veita nokkurt hlé, þótt ég taki undir það með hv. síðasta ræðumanni, að svo miklar kaupbreytingar eru nú í vændum alveg á næstu vikum, að alveg óvíst er, hver friður verður til mikillar umhugsunar eða til annars en ráða fram úr þeim vanda, sem að steðjar þá og þá. Vonandi verður hann nú samt einhver. En án þess að ég vilji fara að bítast um orð, þá gat ég ekki annað en brosað með sjálfum mér, þegar hv. frsm. minni hl. í öðru orðinu ávítaði ríkisstj. fyrir að hafa breytt vísitölukerfinu án samráðs við verkalýðinn, en ávítaði hana einnig fyrir að binda ekki togarastyrkinn nú skilyrði um það, að úreltu vinnufyrirkomulagi um borð í togurunum yrði breytt. Ég hygg, að það fái ekki staðizt að halda þessu hvoru tveggja fram samtímis. Það hefur þegar komið fram í þessum umr. af hálfu ríkisstj., að við bindum styrkinn ekki skilyrðum af þessum sökum, vegna þess að við teljum nauðsynlegt, að þetta mál verði kannað til hlítar með samningsumleitunum, svo að báðir aðilar megi vel við una, eins og mér skildist t.d. af orðum hv. 5. þm. Reykn., að hann teldi engan veginn útilokað að hægt væri að ná.

hv. þm. skoraði á mig að gefa frekari yfirlýsingar en enn hafa verið gefnar varðandi 1. gr. frv. Ég vil einungis ítreka það, sem ég og hæstv. sjútvmrh. höfum áður um þetta sagt, og jafnframt mótmæla því, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að þetta væri með öllu gagnslaust, vegna þess að ekki væri samhliða eða samtímis hægt að verja þessu til að borga meira fyrir fisk og til endurbóta á rekstri. Nú veit ég, að hv. þm. er mér sammála um, að það tilheyrir góðum og heilbrigðum rekstri að verja nokkru fé til endurbóta, og það er ekki sízt í slíkum rekstri sem þessum, þar sem játað er af öllum, að það geri úrslitabreytingu á afkomu frystihúsanna, hvort rekstrinum er komið í það horf, sem unnt er að gera, eða ekki. Það er því eðlilegt, að ríkisstj. vilji nokkuð hlutast til um, að slíkar endurbætur eigi sér stað, og það er sú heimild, sem veitt er með greininni, eins og hún nú stendur.

Út af 6. gr. frv. vil ég einungis taka fram, að hvað sem menn segja um fjárfestingar almennt og hvort sem þeir telja, að ríkið eigi að takmarka framkvæmdir hjá sér eða einungis heimta það, að aðrir takmarki sínar framkvæmdir, og hvort sem menn telja, að ríkisstjórn fái nógu sterkt vopn í hendur gagnvart öðrum með gr., eins og hún nú er orðuð, þá er það misskilningur, sem fram hefur komið. að hér væri um einhverja algera nýjung að ræða, verið væri að svipta Alþ. á fáheyrðan hátt því valdi, sem það hefði, það væri óþingræðislegt og ýmislegt fleira, sem haldið hefur verið fram, raunar með vægari orðum í þessari hv. d. en í Nd. T.d. í fjárlögum nr. 35 frá 1947 er í 22. gr. 37. liður svo hljóðandi: „Að fresta fjárframlögum til framkvæmda, sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárlögum, ef atvinnuástandið í landinu eða fjárhagur ríkisins gerir það nauðsynlegt. Ef fé er hins vegar fyrir hendi, en fresta verður framkvæmdum af öðrum ástæðum, skal það fé geymt, er til þeirra framkvæmda var ætlað, en þær að öðrum kosti látnar sitja í fyrirrúmi á árinu 1948.“

Þetta er mjög hliðstæð heimild fyrir ríkisstjórnina og nú er veitt, og ég minnist hennar sérstaklega vegna þess, að þessi heimild var veitt þeirri ríkisstj., sem ég átti fyrst sæti í ásamt hv. þáv. menntmrh., núv. formanni Framsfl., Eysteini Jónssyni, og þáv. landbrh. Bjarna Ásgeirssyni, og minnist ég ekki annars en það væri mikill bróðurhugur okkar á milli um að fá þessa heimild og engum okkar kæmi þá til hugar, að við værum að níðast á rétti þingsins eða taka okkur nokkurt einræðisvald í hendur, eins og skilja mátti á hv. 1. þm. Norðurl. e. í gær, að núv. ríkisstj. hefði löngun til.

Ég er því sammála, að viðureigninni við verðbólguna er engan veginn lokið með þessu frv. Þetta er einungis til þess að firra bráðum vanda, og málið allt þarfnast mikillar íhugunar umfram það, sem nú er færi á. Segja mætti e.t.v., að hv. framsóknarmenn bentu á leið til þeirrar íhugunar með nefndaskipuninni, sem þeir gera till. um. En þeir segja jafnframt, að engar sættir geti á komizt, ef haldið sé fast við það að afla tekna til þeirra óhjákvæmilegu ráðstafana, sem nú þarf að gera, enda vilja þeir efnislega lát.a nefndarskipunina koma í staðinn fyrir tekjuöflunina, eins og hv. frsm. minni hl. rækilega tók fram. Af hálfu stjórnarinnar er ekki með nokkru móti hægt að fallast á þessa skoðun. Við teljum, að hér sé um ráðstafanir að ræða, sem ekki megi dragast, og það hlyti að auka á okkar vanda, magna verðbólguna, gera málið enn þá síður viðráðanlegt, ef látið væri vera að afla þess fjár, sem nauðsynlegt er til að taka á sig þær skuldbindingar, sem allir eru í meginatriðum sammála um að verði nú að inna af höndum.