18.02.1964
Neðri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

131. mál, jarðræktarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur haldið því fram m.a. í umr. um þetta mál, sem hér er á dagskrá, að lánasjóðir landbúnaðarins, ræktunarsjóður og byggingarsjóður, hafi verið gjaldþrota, þegar núv. stjórn kom til valda. Þetta er ekki rétt. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að segja, að ráðh. segi ósatt í þingræðum, en hjá því verður ekki komizt. Þegar athugaðir eru reikningar sjóðanna í árslok 1959 og yfirfærslugjaldinu, sem þá gilti, bætt við þau erlendu lán, sem tekin höfðu verið vegna sjóðanna, kemur fram, að báðir sjóðir, ræktunarsjóður og byggingarsjóður, áttu þá eignir umfram skuldir. Sá, sem á meiri eignir en skuldum hans nemur, er ekki gjaldþrota. Samanlagðar hreinar eignir sjóðanna í árslok 1959, reiknaðar á þennan hátt, eins og rétt er, námu yfir 40 millj. kr. Ríkisstj. og ýmsir hennar stuðningsmenn hafa oft áður sagt þessa skröksögu um gjaldþrot sjóðanna í ræðu og riti. Oft hefur hún verið rekin ofan í þá, en henni skýtur alltaf upp aftur. E.t.v. eru þeir sjálfir farnir að trúa sínum eigin ósannindum, búnir að fá þetta á heilann, sem svo er nefnt, og þá getur lækningin orðið erfið.

En hvers vegna bjuggu þeir til þessa skröksögu? Eins og kunnugt er, fann núv. ríkisstj. upp á því snemma á sínum valdaferli að leggja sérstakan skatt á eina stétt manna, bændastéttina. Þetta athæfi var óverjandi með öllu, og þegar engar frambærilegar ástæður var hægt að finna til stuðnings ákvörðuninni um aukaskattinn á bændurna, var skröksagan búin til um gjaldþrot sjóðanna. Sagt var, að vegna þess hefði þurft að skattleggja bændur sérstaklega. Þetta eru ljótar aðfarir.

Sagan um gjaldþrot lánasjóða landbúnaðarins, þegar núv. stjórn kom til valda, er skröksaga, og hún heldur áfram að vera það, hve oft sem hún er endurtekin í ráðherraræðum og í blöðum stjórnarflokkanna.