23.01.1964
Neðri deild: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

110. mál, sjúkrahúsalög

Þórarinn Þóarinsson:

Herra forseti. Mér finnst hæstv. heilbrmrh. hafa haldið hér svo merka ræðu, að það eigi við að segja nokkur orð að henni lokinni, þó að ég hefði hins vegar ekki ætlað að taka þátt í umr. um þetta mál að þessu sinni.

Ég hygg, að það frv., sem hér liggur fyrir, stefni í rétta átt og eigi þess vegna skilið að ná framgangi á þinginu. En ég ætla hins vegar ekki að ræða það sérstaklega að þessu sinni, heldur víkja að þeirri skýrslu um sjúkrahúsmálin, sem hæstv. heilbrmrh. gaf þinginu, og ég vil segja í þessu sambandi, að ég tel, að það sé mjög vel við eigandi, að ráðh. gefi öðru hverju slíkar skýrslur um einstök mál, sem þeir hafa til meðferðar, eins og hæstv. heilbrmrh. hefur nú gert um þessi mál. En þá ályktun finnst mér að megi draga af þeirri skýrslu, sem hann gaf þinginu, að það hafi verið allt of mikill seinagangur í þessum málum, sjúkrahúsmálunum hjá okkur, á undanförnum árum og þó kannske alveg sérstaklega í sambandi við þær stórbyggingar, sem hafa verið á döfinni hér í bænum, viðbótarbyggingunum við landsspítalann og bæjarsjúkrahúsinu, því að þótt aðrar framkvæmdir, sem hafa einnig staðið á þessu sviði, séu mjög aðkallandi, hygg ég, að ekki verði um það deilt, að þessar séu þó kannske mest aðkallandi, og hef ég þá ekki eingöngu Reykjavík í huga eða það svæði, sem að henni liggur, heldur landið allt, því að þessar stofnanir eru raunverulega fyrir landið allt miklu meira en það svæði, sem að þeim liggur, þ.e.a.s. Reykjavik og nágrenni hennar, því að t.d. landsspítalann verða að sækja sjúklingar af öllu landinu, vegna þess að í mörgum tilfellum er ekki hægt að fá bót meina sinna nema þar og helzt þar. Og satt að segja finnst mér, þegar maður hefur sérstaklega í huga þau snjöllu niðurlagsorð, sem hæstv. heilbrmrh. lét falla hér, þá hafi nokkuð mikill hægagangur verið á þessum málum á undanförnum árum, því að ekki verður því borið víð, að við hófum ekki haft getu til þess að gera betur í þeim efnum en gert hefur verið. Ég vil t.d. minna á það, að á undanförnum árum hafa safnazt fyrir í seðlabanka landsins upphæðir, sem skipta mörgum hundruðum millj. kr. og hafa legið þar frystar og ekki komið framkvæmdum í landinu að neinu gagni. Þó að ekki hefði verið varið nema litlum hluta af þeirri upphæð til að auka hraðann í þessum málum, sjúkrahúsmálunum, værum við að sjálfsögðu lengra á veg komin núna en raun ber vitni um og skýrsla hæstv. ráðh. sýndi. Og sama er það, að á t.d. tveimur undanförnum árum hafa umframtekjur ríkisins numið um 300 millj. kr. á hverju ári, og þó að ekki hafi verið notaður nema nokkur hluti a! þeim upphæðum til sjúkrahúsmálanna, værum við nú betur staddir í þessum efnum en draga mátti ályktun af þeirri skýrslu, sem hæstv. ráðh. gaf.

Mér finnst ekki úr vegi að rifja það upp í þessu sambandi, að fyrir tveimur árum flutti ég ásamt nokkrum þm. öðrum frv. um það, að ríkisstj. væri heimilað að taka sérstakt lán til þess að fullgera þær viðbótarbyggingar, sem eru í smíðum við landsspítalann, og miðað við það, að því verki yrði lokið ekki síðar en í árslok 1962, sem talið var af kunnugum mönnum þá, að hægt væri, ef nægilegur hraði væri hafður á gangi verksins og ekki stæði á fjármagni. Það fór nú þannig, að þetta frv. okkar náði ekki fram að ganga. En ef það hefði verið samþykkt á sínum tíma, mundi óneitanlega vera betur ástatt nú í þessum efnum. Þá mundu þessar byggingar, sem hafa staðið yfir á landsspítalalóðinni á undanförnum árum, vera komnar að fullum notum, og þá hefðu þær ekki heldur orðið jafndýr framkvæmd og þær munu verða samkv. skýrslu heilbrmrh. vegna þess, hve byggingarkostnaður hefur aukizt stórlega á undanförnum árum. En þetta er nú orðinn hlutur, svo að það þýðir ekki að sakast um það að sinni, heldur snúa sér þá að því, með hvaða hætti hægt verður að koma mestum hraða á gang þessara mála. Og í framhaldi af því vildi ég spyrja hæstv. heilbrmrh., hvort ekki megi treysta því, að þótt ríkisstj. t.d. samkv. því nýja frv., sem hér hefur verið lagt fram um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, fái heimild til þess að draga úr framkvæmdum ríkisins á þessu ári, þá muni þó sú heimild ekki verða látin ná til spítalabygginganna, heldur muni þeim verða haldið áfram, eins og fjárlög og aðrar áætlanir gera ráð fyrir á þessu ári. Ég vildi spyrja hæstv. heilbrmrh. að því, hvort það megi ekki örugglega treysta því, að þessar framkvæmdir verði látnar hafa fullkominn forgangsrétt hvað þetta snertir, því að mér finnst, að þótt þannig geti staðið á, og getur kannske stundum staðið þannig á, að fresta megi einhverjum framkvæmdum, sem ríkið hefur áætlað, vegna sérstakra ástæðna, þá megi það alls ekki ná til jafnríkt aðkallandi framkvæmda og umræddar spítalabyggingar eru, og vildi ég þess vegna spyrja hæstv. heilbrmrh. að því, hvort ekki megi treysta því, að þessi heimild, ef samþykkt verður, verði ekki látin ná til spítalabygginganna.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. heilbrmrh. um það, hve langan tíma það muni taka að fullgera byggingarnar við landsspítalann og borgarsjúkrahúsið í Reykjavík, ef reiknað er með þeim framlögum, sem nú eru ætluð til þessara framkvæmda, — hve langan tíma það muni taka að koma þessum byggingum upp, miðað við þau framlög, sem nú eru veitt til þeirra og ráðgert er að veita til þeirra á næstu árum. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta atriði, — ég tók ekki eftir, að það kæmi fram í ræðu hæstv. ráðh., — því að mér finnst verða að leggja allt kapp á það, að þessar framkvæmdir verði fullgerðar sem allra fyrst og þær ekki látnar standa ónotaðar lengur árum saman, eins og átt hefur sér stað að undanförnu. Og ef þessi framlög sýna það, að ekki sé hægt að koma þeim upp á hæfilega stuttum tíma, verður að gera sérstakar ráðstafanir til að flýta þeim og tryggja fjármagn í því skyni.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta mál að þessu sinni, enda mun gefast tækifæri til þess síðar við umr: þessa máls.