30.04.1965
Neðri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Á því stigi, sem mál þetta er nú komið, skal ég ekki lengja umr. um það. En ég vil aðeins segja, að það gerist nú æ tíðara, að ríkisvaldið grípi inn í vinnudeilur með valdboði, lögþvinguðum gerðardómum, banni við verkföllum og öðru slíku. Ég vil aðeins minna á, að það er ekki í fyrsta sinn, sem flugmenn verða fyrir þessu. Verkfræðingar og læknar hafa einnig fengið að kenna á þessu og einnig verkamennirnir. Ég minnist þess, að þegar verkamenn hér í Reykjavík stóðu í verkfalli 1961 og alveg var séð, að samningar voru að takast, búið að semja við stóra aðila, sem hlutu að marka þá samninga, sem koma skyldu, þá sá ríkisstj. sér leik í því að banna þetta verkfall hjá flugfélögunum, enda þótt verkamannafélagið Dagsbrún hér í Reykjavík hefði þá gefið lengri frest, til þess að hægt væri að leysa deiluna við þessi flugfélög, en var gert við aðra aðila. Það er þess vegna sjáanlegt, að það er ekki aðeins þegar um hátekjumenn er að ræða, eins og nú er mjög haft á orði í öllum áróðri, að þá eigi að beita slíkum þrælatökum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, heldur hefur það einnig verið gert og getur að sjálfsögðu einnig komið til, þegar þeir lægst launuðu eiga í hlut, eins og var 1961, þegar aðeins var um að ræða 10% kauphækkun til lægst launuðu starfsmanna þessara félaga.

Það virðist eins og flugfélögin hugsi sér að leysa sín vandamál við sitt starfsfólk mjög eftir þeim leiðum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það hefur verið sagt hér og í blöðum, að flugmenn séu nú með mjög háar kröfur og ekki skal ég neita því, að kröfur þeirra eru háar. Það hefur verið sagt, að þeim bæri að taka tillit til íslenzkra aðstæðna og ekki aðeins að bera sig saman við laun manna í öðrum löndum, starfsbræðra sinna í öðrum löndum, þar sem öll skilyrði væru allt önnur. Já, að sjálfsögðu verða flugmenn að gera þetta, svo framarlega sem þeir vilja lífa og starfa í þessu landi. En jafnframt held ég, að það sé hollt fyrir alla, líka löggjafarvaldið í landi okkar, að gera sér ljóst, að við verðum að kaupa vinnu þeirra, sem hafa slíka alþjóðlega menntun eins og flugmenn, eins og verkfræðingar og geta gengið að hvar sem er í heiminum, við verðum að greiða þetta vinnuafl, svo framarlega sem við ætlum okkur að nota það, nokkurn veginn á heimsmarkaðsverði. Ég held, að við komumst ekki fram hjá þessari staðreynd og verðum að gera okkur hana ljósa. En það væri áreiðanlega ekki síður nauðsynlegt að segja það við íslenzku flugfélögin og þó fyrst og fremst við þá, sem ráða ferðinni í þessum málum, þ.e.a.s. Vinnuveitendasambandið, að þeir verða einnig að læra að fara að íslenzkum lögum og íslenzkum leikreglum, þegar um vinnudeilur er að ræða, en ekki að heimta sérstök lög fyrir sig hverju sinni sem til átaka kemur við launþega þessara fyrirtækja, en þannig virðist nú yfirleitt haldið á málunum.

En mér er það ljóst, eins og hér hefur verið fram tekið, að það eru ekki fyrst og fremst þessi félög, sem hér eiga sökina, nema að því leyti sem þau hafa bundið sig Vinnuveitendasambandinu, því valdi í landinu, sem ræður ferðinni hjá atvinnurekendunum. Það er fyrst og fremst áreiðanlega Vinnuveitendasambandið og svo hæstv. ríkisstj. sjálf, sem hér eiga hlut að máli. Ég reikna með, að höfuðorsökin fyrir því, að þeir telji ekki rétt að semja við flugmenn um þær kröfur, sem þeir hafa sett fram vegna þess, sé sú, að það sé hættulegt fordæmi, kannske alveg sérstaklega nú, þegar fyrir dyrum standa samningar við launþega almennt í landinu. Nú er það svo, að kannske yrði einhverjum hugsað til slíkra samninga, ég skal ekki fortaka það. En við höfum tekjuháa menn í launþegastétt. Ég vil nefna síldarskipstjórana t.d. og líka jafnvel bátshafnirnar almennt. En þekkja menn yfirleitt dæmi þess, að almennir launþegar jafni til þeirra? Ég hef ekki heyrt það. En ég hef hins vegar heyrt ýmsa embættismenn ríkisins jafna til þeirra og líta það öfundaraugum, en yfirleitt ekki almenna launþega í landinu. Og það vil ég segja, að sem fordæmi er það margfalt meira og hættulegra sjálfsagt út frá sjónarmiði ríkisstj. og atvinnurekenda, að gerðardómur settur af hæstarétti á ábyrgð ríkisstj. ákveði atvinnuflugmönnum 500 þús. kr. árslaun, en þó að þeir næðu 800 þús. kr. árslaunum með frjálsum samningum, — alveg tvímælalaust út frá bæjardyrum þessara manna séð væri þetta hættulegra. Þá væri það hreinlega orðið ríkisvaldið sjálft, sem bæri ábyrgð á slíkum kjörum.

Það frv., sem hér liggur fyrir, snertir tvö atriði, sem verkalýðshreyfingin telur og hefur talið sinn helgasta rétt. Það er samningsrétturinn og verkfallsrétturinn. Og þó að hér sé nú um að ræða menn, sem kannske standa ekki svo nákvæmlega í röðum hinna almennu verkalýðsfélaga í landinu, þá lítur verkalýðshreyfingin á slíkt mál sem þetta sem hatramma árás á þennan rétt, sem er helgasti réttur launþeganna í landinu og ég vil sérstaklega minna menn á, hvernig nú er málum háttað, að fyrir dyrum standa samningar við almennu verkalýðsfélögin í landinu. Það er enginn efi á því, að setning slíkra laga sem hér um ræðir eitrar andrúmsloftið fyrir þá samninga, sem nú eru í vændum og skaðinn af slíkri lagasetningu getur orðið alveg ómælanlegur. Og það verð ég að segja, að í þessum efnum finnst mér afstaða Alþfl. alveg furðuleg. Ég ætla ekki að rekja fyrri afstöðu þess flokks til gerðardómsmála, það hefur verið gert og mönnum er það kunnugt. En að einmitt núna, þegar þannig stendur á, eins og ég ræddi um og þegar jafnt Alþýðuflokksmenn sem aðrir í verkalýðshreyfingunni snúa nú bökum saman til að ná kjarabótum, að þá skuli Alþfl. hér á þingi beita sér fyrir slíku máli sem þessu, það finnst mér alveg furðulegt. Og ég verð að segja það, að ég mundi telja að það væri þeim flokki og verkalýðshreyfingunni þá um leið fyrir beztu, að hann geti lokið stuðningi sínum við þetta mál á því stigi, sem það nú er.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að vara hæstv. ríkisstj. við því að knýja fram slíka lagasetningu sem hér um ræðir. Verkalýðshreyfingin telur það tvímælalaust fjandskap við sig og slik lagasetning mundi torvelda lausnir þeirra vandasömu samningamála, sem nú bíða úrlausnar. Ég veit, að það er ekki vilji margra manna, sem hér hafa lýst fylgi sínu við þetta frv., að standa að slíku, en ég vil fullvissa menn um, að þetta verður til þess að torvelda slíka lausn. Ég vildi því mjög eindregið í fyrsta lagi skora á hæstv. ríkisstj. að láta þetta mál ekki fara lengra og beita sér fyrir heiðarlegum og alvarlegum samningatilraunum við flugmennina. Ef hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að lýsa slíku yfir, þá verði það hlé, sem nú verður á þessu máli hér, þótt stutt sé, notað til virkilegra samningatilrauna. Og ég er viss um, að ef þannig yrði staðið að málum, þá er áreiðanlega heill íslenzku þjóðarinnar meiri en að þetta mál sé knúið fram með alveg ófyrirsjáanlegum afleiðingum.