08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

138. mál, læknaskipunarlög

Hannbal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ræddi nokkuð um frv. það til læknaskipunarlaga, sem hér er til umr., við upphaf umr. og gerði það á þann hátt, að ég viðurkenndi fyllilega hæfni þeirra manna, sem hæstv. ráðh. hefði til þess valið að endurskoða þessa löggjöf. Ég viðurkenndi einnig, að ýmis ákvæði væru í þessu frv., sem væru til bóta. Þó að það kunni að hafa farið fram hjá einhverjum hv. þm., gerði ég það nú samt. En hins vegar gagnrýndi ég harðlega þau ákvæði þessa frv., sem miða þvert ofan í það, sem sagður er tilgangur með þessu frv., að bæta læknisþjónustu í dreifbýlinu. Það var sagður tilgangurinn. En þau atriði gagnrýndi ég, sem eru um það að leggja niður fimm læknishéruð, sem hafa verið ákveðin í gildandi lögum, leggja þau niður með lögum, þ.e.a.s. Flateyjarhérað á Breiðafirði, Suðureyrarhérað í Súgandafirði, Djúpavíkurhérað, þ.e.a.s. í Árneshreppi og Raufarhafnarhérað og Bakkagerðishérað. Þetta eru héruðin, sem eiga að leggjast niður með lögum.

Þetta getur á engan hátt þjónað tilgangi frv., að bæta læknisþjónustuna í dreifbýlinu. Eða hver getur bent á það, að læknisþjónustunni sé betur borgið með því að leggja þessi læknishéruð niður? Það hafa komið fyrir tímar, þegar ekki hafa fengizt læknar í þessi héruð, en stundum aftur fengizt þangað læknar og þá hefur þjónustunni verið hagað þannig, að nágrannalæknir skyldi þjóna þessu læknislausa héraði. Læknisþjónustan verður vitanlega engu betri, þó að það sé embættisskylda læknisins í nágrannahéraðinu að gegna hinu læknislausa héraði, sem þá er orðinn hluti af héraði. Það situr nákvæmlega við það sama. Og þá þarf vitanlega að gæta að því, hvort landfræðilegar aðstæður eru þannig, að hægt sé að koma forsvaranlegri læknisþjónustu við frá nágrannahéraði. Það var það, sem ég undirstrikaði sérstaklega, að væri torvelt í öllum þessum tilfellum, að því er snertir hin þrjú læknishéruð, sem leggja á niður í Vestfjarðakjördæmi.

Það er Flateyjarhreppur á Breiðafirði, hann hefur ekki góðar samgöngur við land,og þess vegna er full ástæða til þess, að það sé lögheimilað læknishérað, jafnvel fyrir það fáa fólk, sem þar býr, vegna þess að það býr við erfið samgönguskilyrði. Það er meira að segja tekinn af þessu fólki sá lagalegi réttur, sem það hefur til þessa haft til að fá þjónustu frá Reykhólahéraði. Það á ekki að eiga þess kost. Það á bara að verða að sækja suður yfir allan Breiðafjörð til Stykkishólmslæknis. Þannig er gagnstætt tilgangi frv. verið að rýra núgildandi lagalegan rétt fólksins í Flateyjarhreppi.

Að því er Djúpavíkurhérað snertir eða áður Árneshérað, held ég, að það lægi ekki svo mikið á að leggja það læknishérað niður með l., að það mætti ekki bíða eftir því, að Árneshreppur kæmist í akvegasamband við Hólmavík, en frá Hólmavík á að þjóna þessu læknishéraði. Það mætti a.m.k. bíða að leggja læknishéraðið niður, þangað til akvegasamband væri komið milli Árneshrepps og Hólmavíkur, hvað ekki er enn þá.

Og Suðureyrarhérað, um það vita nú allir a.m.k. nema hv. 2. þm. Norðurl, v., Gunnar Gíslason, hann virðist ekki hafa neina hugmynd enn þá, þrátt fyrir þær umr., sem hér hafa átt sér stað, um það, hvernig landfræðileg staða Súgandafjarðar sé. En hún er þannig, að staðurinn er umluktur fjöllum. Þar eru mjög ógreiðar samgöngur yfir þann fjallgarð frá Flateyri til Suðureyrar að vetrarlagi, vetrarmánuðina og sjóleiðin oft og tíðum ekki greiðfær, þótt þarna sé aðeins á milli nágrannafjarða. Ég vík að því síðar. Um Bakkagerðishérað hefur verið rætt af staðkunnugum manni, hv. 2. þm. Austf., Halldóri .Ásgrímssyni. Skal ég engu við það bæta. En auðséð er, að þar stendur mjög svipað á og um Súgandafjörð og sízt betur, ef það rétt, að akvegasambandið til Egilsstaða, sem á nú að verða miðstöð læknisins, sem þar á að þjóna, er ekki nema 4 mánuði á ári og svo sjóleiðin torveld oft og tíðum.

Raufarhafnarhérað ber ég nokkur kennsl á, hvernig aðstaðan er þar, en það á nú að leggja niður. Það var stofnað fyrir nokkrum árum, þegar auðsætt var, að Raufarhöfn var í örum vexti og gífurlegt fjölmenni þar saman komið við all áhættusaman atvinnurekstur á sumrin. Þar er búið að byggja upp læknisbústað og sjúkraskýli, en nú á að leggja það niður. Þetta kalla ég hálfgerðan hringlandahátt. En mér er nú sagt, að íbúðum Raufarhafnar hafi orðið all mikið um, rétt eins og þeim Súgfirðingum, þegar þeir fréttu af því stjórnarfrv., sem færi fram á að leggja þarna læknishéraðið niður. Það má kannske segja, að það sé ekki torveldur fjallgarður milli Kópaskers og Raufarhafnar, en það er 55 km vegalengd. Síminn er opinn 6 klst. á sólarhring milli þessara staða. Og mér er tjáð, að í þremur stórslysum, sem hafi átt sér stað núna á síðustu árum, hafi ekki náðst í lækni frá Kópaskeri gegnum síma, og það varð því að fara, þrátt fyrir að illviðrasamt væri og vegur torfær, þá varð að fara eftir lækninum til Kópaskers. Það er 110 km vegalengd fram og aftur, eins og menn sjá, og í tveimur tilfellum kom læknirinn nógu snemma, en í þriðja tilfellinu var um banaslys að ræða, maðurinn var dáinn, þegar læknirinn kom. Ég undrast það, ef nokkur hv. þm. getur verið algerlega skilningslaus á aðstöðu þessa fólks og undrast ekki að það heyrist óánægjuraddir úr öllum þessum héruðum, að það eigi að leggja þau niður með lögum.

Hv. 2. þm. Norðurl. v., séra Gunnar Gíslason, sagðist vera alveg hissa á ræðum okkar hv. 3. þm. Vestf. við upphaf umr. Hvað gerðum við? Við viðurkenndum það, sem til bóta er í frv., en andmæltum mjög ákveðið þessum ákvæðum um að leggja læknishéruðin niður. Hann sagði þó, hv. þm., að illt sé að vera vegalaus, verra að vera læknislaus. Það var nú einmitt það, sem við snerumst öndverðir gegn. En hvað segir hann um þau héruð, sem eru bæði vegalaus og læknislaus? Það hygg ég, að við yrðum þá sammála um, að verst væri að vera bæði læknislaus og vegalaus. Það eru þeir í Flateyjarhreppi á Breiðafirði að heita má. Það eru þeir hálft árið í Súgandafirði. Það eru þeir einnig í Bakkagerðishéraði. Og það eru ærnar torfærur á milli Kópaskers og Raufarhafnar, það hefur reynslan sýnt. Og samt getur hann verið hissa á ræðum okkar um þetta mál.

Ég held, að það sé óverjandi með öllu að leggja þessi læknishéruð niður, jafnvel Flateyjarlæknishérað. Það á ekki að leggja það niður með lögum. Hvað vinnst við það? Er það fjárhagslegur ávinningur? Nei, ekki einu sinni það. Þó að væri nú verið að líta á krónurnar og tilgangurinn að spara þær, er það ekki. í 6. gr. frv. segir nefnilega, að Reykhólahérað, Hólmavíkurhérað, Flateyrarhérað og Kópaskershérað eigi öll að vera með hálfum öðrum læknislaunum. Eftir breytinguna verður þess vegna greitt nákvæmlega sama fé fyrir þjónustu í þessum tveimur héruðum og nú er gert að óbreyttum lögum. Nú eru greidd hálf önnur læknislaun, þegar nágrannahéraði er þjónað. Það er ekki einu sinni fjárhagslegur ávinningur að þessu. Það er ekkert verið að spara fé ríkisins með þessu? Og hverju er þá verið að þjóna? Engin betri læknisþjónusta er tryggð, það sér hver heilvita maður, með því að leggja læknishéruðin niður.

Það var þessi gagnrýni, sem ég og hv. 3. þm. Vestf. höfðum hér uppi við upphaf þessarar umr., og brá þá svo við, að hæstv. heilbrmrh. þaut upp ofsareiður, vildi ekki hafa svona undirtektir undir þetta merka mál og missti stjórn á sér, jós yfir okkur fúkyrðum, sérstaklega mig. Ég kveinka mér ekki við slíkt. En hitt þótti mér miður sæmandi, að hann jós niðrandi orðum og fúkyrðum yfir hreppstjórann í Suðureyrarhreppi, Sturlu Jónsson, alsaklausan, sem aðeins hafði látið þau boð berast hingað, að honum og íbúum Suðureyrarþorps litist ekki á blikuna við það, að leggja ætti læknishéraðið þeirra niður. Ég skal nú ekki fara fleiri orðum um þetta. Það er gleymt af minni hendi a.m.k., og hæstv. heilbrmrh. þar að auki fjarrverandi í dag.

Súgfirðingar höfðu um áratugi búið við það, að Suðureyri væri hluti af Flateyrarlæknishéraði. Og þeir höfðu fengið læknisþjónustu þaðan, eins og unnt var að veita hana og það var þeim löngu ljóst, að það var alls ófullnægjandi. Þeir sóttu það mjög fast, að Suðureyri yrði gerð að læknishéraði, og það var gert 1958. Meðan þeir voru hluti af Flateyrarhéraði, voru þeir svo heppnir um áratugi, að það var einstæð kona í Suðureyrarþorpi, sem var vel að sér í ýmiss konar læknisfræðilegum efnum og var hún trúnaðarmaður Flateyrarlæknis og hafði umboð frá honum til þess að veita margs konar minni háttar læknisaðstoð á Suðureyri. Þetta var Súgfirðingum til mikils öryggis. En svo féll hún frá og þá versnaði þeirra aðstaða verulega. Þegar heiðarnar voru lokaðar, urðu Súgfirðingar, hinir vösku sjómenn Súgandafjarðar, að sækja lækni á sjó. Það gekk oft slysalaust og vel. En hreppstjórinn á Suðureyri, hreppstjóri Súgandafjarðar, Sturla Jónsson, minnist þess líka, að Súgfirðingar urðu tvívegis að sjá á bak þeim mönnum, sem fóru upp á líf og dauða til að sækja lækni til Flateyrar eða Ísafjarðar og hér fær hann svo glósur um það, að þessi hreppstjóri ætti að hugsa betur viðvíkjandi þessu máli og það frá hæstv. ráðh. Nei, Súgfirðingar vita vel, hvers virði þeim er að hafa lækni í þorpinu. Þeir fengu þegar í stað lækni, þegar læknishéraðið hafði verið stofnað, góðan lækni, sem féll þeim vel í geð og undi þar vel í ein 5 ár. Þeir sýndu ekkí tómlæti sinum lækni. Þeir sáu honum þegar í stað fyrir fyrsta flokks íbúð, rýmdu ágæta íbúð í kauptúninu, en áður en ár var liðið, voru þeir búnir að koma upp fullkomnasta og bezta læknisbústað og sjúkraskýli, sem er til á Vestfjörðum. Og svo ætti nú að svara þeim með því að leggja læknishéraðið niður. Ég held, að það væri algerlega rangt og a.m.k. algerlega ómaklegt, þegar héraðsbúar hafa snúizt svo við sem Súgfirðingar hafa gert.

Menn segja, að það séu ekki fyrst og fremst launamálin, sem hér sé um að ræða, sem valdi læknaleysinu í dreifbýlinu. Ég held, að launamálin séu þar mjög ríkur þáttur í. Þess vegna er ég síður en svo andvígur ákvæðunum um þessar staðaruppbætur, sem hér er lagt til að upp verði teknar í nokkrum læknishéruðum í þessu frv. Ég tel það vera fullkominnar tilraunar vert, hvort það ráði ekki bót á og undirstrika það enn, að ég sé enga ástæðu til þess að leggja læknishéraðið niður með lögum, fyrr en reynsla er fengin af því, hvernig gefast þær ráðstafanir, sem í þessu frv. eru og miða að því að reyna að tryggja lækna í héruðin. Ég sé ekki, að það liggi neitt á að leggja þau niður með lögum, fyrr en reynslan er fengin.

Af hverju er það, að 80–90 íslenzkir læknar eru í Svíþjóð við framhaldsnám eða störf? Það er í mörgum tilfellum af því, að launakjör lækna á Íslandi eru ekki sambærileg við laun lækna í Svíþjóð, alveg óefað. Og ég held, hvort sem okkur er það ljúft eða leitt, að íslenzk stjórnarvöld verði að gera sér það ljóst, að vissar sérfræðingastéttir a.m.k., — tilnefni ég þar sérstaklega lækna og verkfræðinga, — eru á heimsmarkaðnum. Það er sótt eftir þeim hvaðanæva að úr heiminum. Og þess vegna eigum við einskis annars úrkosta, ef við ætlum að halda læknunum hér hjá okkur að störfum, en að sníða laun þessara stétta á þann veg, að þau séu sambærileg við laun stéttarbræðra þeirra í nágrannalöndunum. Meðan við gerum það ekki, annaðhvort segjum, að við höfum ekki efni á því eða viljum það ekki, þá höldum við þeim ekki, þá eru þeir úti í löndum. Það má hver sem vill álasa þeim fyrir það að þjóna ekki heldur sínum landsmönnum fyrir eitthvað minni laun, en ég geri það ekki, ég tek ekki undir með þeim kór. Ég veit ekkert nema við sjálfir mundum haga okkur alveg eins, ef við værum í þeirra sporum. Það er líka auðséð á þeim mætu mönnum, sem stóðu að endurskoðun löggjafarinnar og eru höfundar þessa frv., að þeir telja, að staðaruppbæturnar séu reynandi til þess að fá lækna í þessi héruð og þar með viðurkenna þeir, að það sé tvímælalaust launaspursmálið, sem hafi þýðingu að því er það varðar, hvernig okkur auðnast að leysa þessi mál. Ég álit, að misstig þeirra sé það að hafa farið af stað með till. um að leggja læknishéruðin niður, fyrr en reynsla væri fengin af því, hvort þessi bættu kjör dreifbýlislæknanna orkuðu ekki í þá átt, að þeir fengjust út í dreifbýlið. Og ég á nú eftir að sjá það, að þm. almennt fallist ekki á að fresta þessum ákvæðum, um að leggja fimm læknishéruð niður. Fólkið hefur þegar sagt til sín og mun enn þá ákveðnar segja til sín og láta í ljós andúð sína úr því, að það væri gert og það verða þá að koma fram einhver sterk rök, sem enn eru ekki komin fram, sem réttlæti það að, að því sé flanað einmitt nú að leggja læknishéruðin niður, 3 á Vestfjörðum og 2 á Norðausturlandi.

Hv. 2. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, lýsti sig eindregið andvígan þessu áðan, eins og við aðrir Vestfjarðaþm., að læknishéruðin, sem hér um ræðir, sérstaklega Suðureyrarhérað, yrðu lögð niður. Og hv. 2. landsk. þm., Birgir Finnsson, vék að því líka, að hann felldi sig illa við, að Suðureyrarhérað yrði lagt niður. En þó heyrðist mér á honum, að hann teldi það nægilegt að auglýsa læknishéraðið þrisvar og svo mætti það fara, svo mætti leggja það niður. Ég bendi nú til þess, sem er upplýst í grg. frv., að það eru ein 16 læknishéruð, sem hafa verið auglýst hvað eftir annað og gengið mjög illa að fá í þau lækna, þó að þau séu mann fleiri en þessi, sem hér er um að ræða. Ég held því, að það að ákveða með lögum, að það sé heimilt að leggja þau niður, þegar búið sé að auglýsa þau þrisvar, sé nokkurs konar Pílatusarþvottur og hefði ekki mikla þýðingu aðra en þá, að því yrði frestað að leggja þau niður, þangað til búið væri að auglýsa í þriðja sinn. En ég held, að það sé miklu alvarlegri hlutur, sem hefur gerzt með því að leggja læknishérað niður með lögum, heldur en það, að það eigi að afgerast með þremur auglýsingum, þegar menn vita, að læknaskortur er svo mikill, að litlar líkur eru til, að þessar þrjár auglýsingar beri árangur.

Ég tel, að það eigi raunar ekki að leggja neitt af þessum læknishéruðum niður og sízt af öllu Suðureyrarlæknishérað, bæði sökum aðstöðu staðarins, þess að plássið er í örum vexti, þar eru um 600 manns að staðaldri að vetrinum, einmitt þegar plássið er hvað mest einangrað og Súgfirðingar hafa sýnt það í verki, að þeir hafa gert allt, sem þeim var skylt og mun meira til þess að búa vel að lækni og þannig undirstrikað það, að þeir telja sig ekki án læknis mega vera.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta. En ég vil, að það sé skýrt, að ég tel það tilræði við hin fámennu læknishéruð að leggja þau niður með lögum og það sé algerlega ótímabært nú. Hverjum sem vill má finnast þetta undarleg afstaða, en þetta er mín afstaða. Hinu mótmæli ég, að ég hafi haft nokkur óþingleg ummæli um hæstv. ráðh. í minni fyrri ræðu, og tel því, að hann hafi rokið upp á nef sér að tilefnislausu.