09.03.1965
Neðri deild: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

138. mál, læknaskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. vék nokkrum orðum að því, sem ég hafði sagt, í ræðu sinni hér í gær. Ég vildi segja það við hæstv. ráðh., að þegar þm. gagnrýna ákveðnar stofnanir eða embættismenn í þjóðfélaginu, er rétt, að ráðh. athugi þá hluti mjög gaumgæfilega. Þrátt fyrir það prentfrelsi, sem á að heita í okkar þjóðfélagi, er það svo, að embættismenn eru svo harðvítuglega verndaðir í hegningarlöggjöfinni, að það er ekki einu sinni hægt að segja satt um þá, án þess að lenda í sekt. Því var það, þegar hegningarlöggjöfin var samþ. hér á þingi, að ég man eftir, að Bjarni Ásgeirsson orti vísu um það:

Þó maður brigzli manni

um megnað svínarí

og allar sakir sanni,

hann sektast fyrir því.

Og hann átti við embættismenn með því. Það er þess vegna faktískt eingöngu úr þessum stól, sem hægt er að tala þannig um ákveðnar stofnanir þjóðfélagsins og embættismenn þess, að þeir verði fyrir gagnrýni og fer maður þó venjulega mjög mildilega í það, sökum þess að þeir hafa ekki sjálfir sem slíkir aðstöðu til þess að svara á sama máta. Þess vegna er það, að þegar svo og svo margir þegnar í þjóðfélaginu eru varnarlausir gagnvart embættismönnum, verða einhverjir að vera til þess að taka málstað þeirra. Svo er það m.a. um þá ungu menn og konur, sem gjarnan vilja verða læknar. Manni finnst, að þegar menn vilja leggja það starf fyrir sig að verða læknir, eigi þjóðfélagið að hjálpa til, þá eigi þjóðfélagið að ýta undir, þá eigi þjóðfélagsstofnanirnar að gera það, sem þær geta, til þess að þeir menn, sem vilja taka svo göfugt starf að sér, geti bæði efnahagslega klofið það og það sé ekki verið að setja óþarfar þvinganir í veg fyrir það.

Hæstv. ráðh. nefndi nokkrar tölur um, hve mikið hefði verið fellt af læknisstúdentum, sem hér hefðu innritazt, tók til samanburðar, hvernig þetta væri á Norðurlöndum, sums staðar væru takmarkanir beinlínis við háskóla, sums staðar væri líka fellt allmikið. Það er engin fyrirmynd. Það er ekki til neins að vitna í Norðurlönd hvað slíkt snertir. Mér er ósköp vel kunnugt um, að Ísland stendur hvað læknatölu snertir tiltölulega vel gagnvart Norðurlöndum. En Norðurlönd eru bara engin fyrirmynd í heiminum í þessu efni, þvert á móti. Norðurlönd eru því miður allmikið aftur úr þarna, eins og þau eru framarlega á mörgum öðrum sviðum.

Það er þess vegna, að við hér á Íslandi verðum að ræða þessi mál út frá því sjónarmiði, hvað okkar þjóðfélagi hentar bezt og hvernig við getum hlutazt til um það, að hér sé betur bætt úr neyð manna, en annars staðar. Og ég veit, eins og fram hefur komið hjá þeim hv. þm., sem rætt hafa um aðstöðu dreifbýlisins, að þar er um beina neyð að ræða, beinlínis neyð, neyð og lífshættu, sem menn eru stöðugt í. Það eru vissir erfiðleikar hér í Reykjavík. Það er þannig hér í Reykjavík, að það er ekkert úrval orðið af sjúkrasamlagslæknum. Það er þannig, að fólk verður að sitja klukkutímum saman í biðsölunum hér hjá læknunum og fær samt ekki afgreiðslu og það er varla hægt að fá lækna til að koma heim stundum til fólks, sem er þó nokkuð sjúkt, af því að þeir eru svo störfum hlaðnir, nema þá aðeins sérfræðingana. Það er orðinn skortur á sjúkrasamlagslæknum í Reykjavík, en það er ekki neyð. Við búum við allt önnur og betri kjör, en þeir úti á landi, sem búa í beinni neyð og lífshættu. Þegar ástandið er svona, hlýtur maður að líta svo á, að fyrir utan allt annað, sem gert er og það er mjög margt lofsvert í þessu frv., sem hér liggur fyrir, beri alveg sérstaklega Háskóla Íslands og þeim yfirvöldum ríkisins, sem hafa með Háskóla Íslands að gera, að hlutast til um, að þarna sé breytt um. Ég skil það vel, að hæstv. menntmrh. er mjög upptekinn, hann hefur kannske bara talað við nokkra prófessora í þessum efnum og ég vil taka það fram, að mín gagnrýni í þessum hlutum er síður en svo árás, hvorki á prófessora háskólans né læknastéttina. Ég veit ósköp vel, að við eigum hér á Íslandi með beztu læknum, jafnvel á heimsmælikvarða og þeim læknum þrælum við út eins og vitleysingar og borgum þeim ekki almennileg laun, þó að þeir mundu vera settir hátt á sérstök laun hjá flestum eða öllum öðrum þjóðum. Ég er aðeins að gagnrýna hér fyrirkomulag og þá er það ósiður líka af viðkomandi prófessorum að taka hverja gagnrýni, sem fram kemur, ekki sízt ef hún er hér á Alþingi, sem árás eða harðvítugar ádeilur. Ég hef áður orðið var við slíkan anda, því miður, hjá læknadeildinni, þegar hér var verið að gera á þingi sérstakar samþykktir um læknalögin og m.a.var þar sett inn í ákvæði viðvíkjandi lyfjafræði lyfsala, og l. voru samþ. án þess að vissir prófessorar í læknadeildinni væru samþykkir því. Ég varð var við það, að það átti að hindra menn í því að læra þarna á eftir, og það varð að fara í mál fyrir dómstólunum til þess að fá það í gegn. Og mér er nær að halda, að nú sé svo komið þrátt fyrir það, að hæstv. ráðh. hafi sagt, að það væru hér engar takmarkanir, að lyfjafræðideildin sé lokuð og jafnvel þeir, sem eru að nema þar, séu látnir hætta í miðju kafi, jafnvel eftir tveggja ára nám og verði jafnvel að fara til annarra landa til þess að halda áfram.

Ég vil þess vegna vonast til þess, eins og ég mæltist til í þeim fáu orðum, sem ég sagði hér í þessum umr., að hv. heilbr.- og félmn. rannsaki þetta mál frá öllum hliðum. Ég vil síður en svo meina prófessorunum við læknadeildina að koma fram sinni skoðun og ég vona, að hv. heilbr.- og félmn. kalli nokkra þeirra fyrir sig til þess að yfirheyra þá um þessi mál. En ég vil vonast til þess líka, að hv. heilbr.- og félmn. kalli fyrir sig nokkra stúdenta úr læknadeildinni og spyrji þá, sem þegar hafa verið stöðvaðir og þá, sem þar eru enn, hvort þeir geti haldið áfram námi.

Hæstv. menntmrh. talaði um, að það væru ekki takmarkanir hér, eins og væri sums staðar á Norðurlöndum. Hér eru þó takmarkanir í tannlæknanámi og hér eru núna, takmarkanir í lyfjafræðinámi. Ég er hræddur um, að þar sem ekki eru opinberar takmarkanir, sé beitt öðrum aðferðum til þess að takmarka. Ég er hræddur um, að það sé farið þannig að að hækka þar kröfur um einkunnir meira, en góðu hófi gegnir. Hafa ekki fyrir nokkru verið hækkaðar t.d. kröfurnar úr 5 upp í 7? Og ég vil benda á, að það getur oft verið gott að heimta góð próf af mönnum, en það er ekki alltaf, að allir beztu læknar í sögu Íslands hafi endilega haft sérstaklega há próf. Það getur oft farið saman, en það þekkjum við allir úr skóla, að það er ekki alltaf endilega, að þeir, sem hæstar einkunnir hafa, verði farsælustu mennirnir í þjóðfélaginu. Vissulega er gott að ganga tryggilega frá því, að læknar kunni heilmikið, en það eru ekki einhlítar einkunnirnar í slíku.

Það er fleiri takmörkunum beitt í þessu sambandi. Það er beitt alls konar tímatakmörkunum. Og hvað þýða þær tímatakmarkanir? Ef menn hafa ekki staðizt þessi próf á þessum tíma og annað slíkt, skulu menn verða að hætta. Hvað þýðir það? Það þýðir, að þeim nemendum, sem eru fátækastir og kannske stundum a.m.k. eins efnilegir og hinir, ef ekki efnilegri og verða að vinna fyrir sér um leið hér í Reykjavík, verða jafnvel að kenna sem kennarar, á meðan þeir eru að stúdera læknisfræði, þeim er gert erfiðast fyrir. Og til hvers er verið að setja þessar takmarkanir? Hvaða ástæða er til þess? Það er engin ástæða, ekki nokkur. Það á að lofa mönnum að reyna að læra að verða læknar og standast sín próf. Það á ekki að vera að gera þetta að einhverjum hindrunarhlaupum. Og í öðru lagi, það á að haga kennslunni þannig í þessu, að það sé fyrst og fremst reynt að búa menn undir það að vera góðir læknar, en ekki að kunna svo og svo mikið utanbókar. Það á ekki að leggja til grundvallar, að menn kunni utanbókar handbækur, t.d. á þýzku, sem menn geta haft hjá sér, þegar þeir eru orðnir læknar, en gefa þeim í staðinn tækifæri og möguleika il þess að stunda verklegt nám, eins og gert er í flestöllum læknaskólum veraldar núna. Utanbókarlærdómurinn, ekki sízt á fyrsta stiginu, hrindir mönnum bókstaflega frá því að halda áfram og veldur því m. a., hve margir efast upp, enda er það svo hér, að þetta ná er orðið 7–8 ára nám, 1–2 árum lengra a.m.k en eðlilegt er og er annars staðar. Þess vegna sagði ég hér, að það yrði að rannsaka kennsluhættina.

Læknadeildin er orðin langt á eftir tímanum á vissum sviðum þrátt fyrir ágætismenn þar ýmsa. Og þetta eru hlutir, sem verða að breytast. Í núgildandi læknalögum er ákveðið, að menn verði helzt að vera útskrifaðir frá Háskóla Íslands, frá læknadeildinni hér, til þess að öðlast rétt til lækninga. Ég verð að segja það, að ef ekki verða neinar breytingar á læknadeildinni, bæði hvað snertir að draga úr þessum takmörkunum, raunverulegu takmörkunum, sem þar eru og með kennsluhætti, þá mundi ég fyrir mitt leyti leggja til hér á þingi, að læknapróf víðar úr heiminum væru tekin jafngild og það án þess, að læknadeild eða læknafélög væru að því spurð. Það er engin ástæða til þess að fara að skapa slík einkaréttindi hér. Við getum þá útskrifað lækna annars staðar í heiminum, ef læknaskólinn á Íslandi álítur það sitt hlutverk að reyna frekar að hindra menn í því að útskrifast, heldur en hitt með þeim hindrunarhlaupum, sem eru innleidd.

Þess vegna vil ég segja það, að það er engin ástæða fyrir hæstv. ráðh. að fara eingöngu að taka hér einhverja varnarafstöðu gagnvart háskólanum. Ég er ekki að segja þar með, að læknadeildin sé eina deildin, sem þurfi gagnrýni við í háskólanum, síður en svo. En það verður ekki komið fram þeim endurbótum, sem þarf, svo framarlega sem reynt er að leggjast á hverja gagnrýni, sem fram kemur og reynt að einhverju leyti að túlka hana sem árás. Ég veit, að ungir og efnilegir menn, sem langar til að verða læknar og fara hér inn, þeir eru felldir hvað eftir annað og stíað frá með öllum mögulegum aðferðum. Það er hart, á sama tíma sem þjóðina vantar miklu fleiri lækna, en hún hefur. Við mættum fá tvöfalt fleiri lækna, en við höfum. Hvað höfum við marga? 222. Við eigum því að ýta undir það, að það séu útskrifaðir miklu fleiri læknar frá Háskóla Íslands, en nú er. Svo er hitt annað mál, hver er orsökin til þess. að það eru einhverjir, ég skal ekki segja hverjir, sem eru með þessar takmarkana tilhneigingar í þessum efnum, ég skal ekki fullyrða um það. Ef til vill er þarna þessi gamli andi lifandi í einhverjum, að það sé um að gera að útskrifa sem allra fæsta menntamenn, það sé hættulegt, að þjóðin eigi mikið af menntuðu fólki. Við þekktum þessar raddir hér fyrir 30 árum í mjög ríkum mæli á Íslandi, og ef einhverjir ganga með slíkt enn þá, eru það hættulegustu menn þjóðfélagsins, því að það, sem mest ríður á nú í íslenzka þjóðfélaginu sem öðrum þjóðfélögum er, að það verði sem allra mest af menntuðum mönnum á öllum sviðum, sem útskrifast.

Ég kemst ekki hjá því að minnast á annan hlut og ég vil taka það fram fyrir fram, að með honum er ég ekki með neinar dylgjur til neinna manna, hvorki embættismanna né annarra. En það snertir almenna tilhneigingu í öllu okkar þjóðfélagi, eins og það er. Við tölum alltaf um læknaþjónustu og við litum á læknisstarfið fyrst og fremst sem þjónustu og lítum á það að halda uppi læknadeild og útskrifa lækna sem þjónustu við okkar þjóð og ekki sízt til þess að veita, eins og hér hefur verið komizt að orði af ýmsum þm. dreifbýlisins, að veita mönnum frumstæðustu mannréttindi, öryggi fyrir því að geta haft lækni einhvers staðar í námunda við sig, þegar á þarf að halda. En sú tilhneiging, sem hefur vaxið og er ólík því sem upphaflega var um lækna í okkar þjóðfélagi og ort var um á sínum tíma um Svein Pálsson, — sú tilhneiging, sem hefur vaxið í okkar þjóðfélagi og víðar því miður, er að það er farið að líta á læknisstarfið sem „bisness“, ef ég má svo að orði komast. Sú tilhneiging að gera allt að verzlunarvöru og gera alla menn að verzlunarþjónum, sú tilhneiging fylgir venjulega auðvaldsskipulaginu og hér á Íslandi hefur hún því miður verið að magnast og það er hættuleg tilhneiging. Ég skal ekkert fullyrða, en þegar farið er að vinna að því hér á Íslandi og annars staðar í hámenntuðum löndum á ýmsan máta að draga úr því, að ungir menn og konur, sem vilja verða læknar, séu studdir að því og ýtt undir þá að læra þetta nám, þá liggur manni stundum við að halda: Eru einhverjir, sem vilja hafa sem fæsta menn í þessari stétt? Er einhver almenn tilhneiging að útiloka í staðinn fyrir að reyna að fjölga alveg eins og hægt er? Hvaðan kemur áhugi á því að draga úr því, að það séu útskrifaðir sem flestir læknar? Hvaðan kemur sá áhugi? Hvaðan kemur sá áhugi, að þar séu takmarkanir, hvort sem það er í Svíþjóð, Noregi eða annars staðar? Ég álít, að yfirvöld í viðkomandi þjóðfélagi og í þessu tilfelli t.d. hæstv. ríkisstj. eigi einmitt að verða á verði um hagsmuni almennings, að það sé tryggt, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að ýta undir, að menn verði læknar. Ég álít, að Háskóli Íslands eigi einmitt að standa fremst í flokki í því að vinna að því að útskrifa sem flesta lækna, reyna að gera þá sem bezta, en líka um leið sem flesta, hann eigi að líta á það sem skyldu sína, hann eigi að varast að setja þarna takmarkanir, sem orðið geta efnalitlum mönnum eða öðrum slíkum að falli, hann eigi að varast það. Og ég vil t. d, spyrja: Hvernig stendur á því, að í læknadeild háskólans skuli af 157 stúdentum, sem eru þar núna, vera aðeins 12 stúdínur, 12 stúlkur? Læknisstarf er starf, sem maður gæti ætlað, að kvenfólkið yfirleitt alveg sérstaklega mundi sækjast eftir. Og sú hefur verið reyndin í þeim þjóðfélögum, þar sem það er ekki gert að „bisness“ að vera læknir, heldur að þjónustu við þjóðfélagið og þar sem stúdentar fá frá upphafi námslaun, þannig að engar efnahagslegar kringumstæður hindra þá í því að verða læknar. Þar er kvenfólkið í yfirgnæfandi meiri hluta á meðal læknanna.

Hæstv. menntmrh. svaraði ýmsu, sem ég hafði minnzt á. En hann minntist ekki á eitt atriði, sem var aðalatriðið í því sem ég kom með og það var, hvort það væri ekki þess vert að byrja á því í læknadeild Háskóla Íslands að innleiða námslaun fyrir læknastúdenta, hvort það væri ekki skynsamlegt af íslenzka ríkinu að segja við þá ungu menn og konur, sem útskrifast úr menntaskólunum og vilja verða læknar: Ef þú vilt verða læknir og ganga í þjónustu ríkisins, þá skulum við frá upphafi veita þér þau laun, að þú getir lifað af þeim og helgað þig þínu starfi frá því fyrsta að þú byrjar að stúdera í háskólanum. — Ég vil taka fram, að þetta er það eina, sem vit er í og gæti leyst þau vandamál, sem hér er um að ræða og þetta er mál, sem bæði hæstv. menntmrh. og aðrir þeir ráðherrar, sem með þetta hafa að ger, og alveg sérstaklega læknadeild Háskóla Íslands á að gera svo vel að taka til athugunar og það nú þegar. Og ef prófessorarnir í læknadeild Háskóla Íslands taka ekki svona mál til athugunar og tala bara við hæstv. menntmrh, um, að það sé verið að deila á þá hér á Alþingi, en hugsa ekki um svona mál, þá er einhver galli á þeirra áhuga fyrir því að útskrifa lækna á Íslandi. Því segja þessir prófessorar ekki undir eins: Okkur væri ánægja að því, ef hér væru innleidd námslaun við læknadeild háskólans undir eins? Ég vil helzt biðja hæstv. menntmrh., áður en hann svarar mér aftur, ef hann gerir það, að tala við þá prófessora, sem hann hefur talað við og tilkynna okkur afstöðu þeirra til þessa máls. Hafa þessir prófessorar áhuga á því, að þeim, sem vilja stúdera til að verða læknar, sé gert það sem auðveldast?

Ég býst við, að ýmsir hv. þm. hafi fylgzt nokkuð með því, hvernig er fyrir unga menn og konur að læra hér nú. Það er stundum talað um, að þetta unga fólk hafi það svo óskaplega gott og ég veit ósköp vel, að það fær nóg að borða, fyrsta kynslóðin, sem fær nóg að borða á Íslandi, frá því að hún fæðist. En þetta unga fólk verður að þræla og það unga fólk, sem á ekki auðuga menn að hér í Reykjavík, leggur mikið á sig við að reyna að læra. Það eru ekki fáir stúdentarnir hérna núna, sem reyna að hafa fullt starf með námi, t.d. fullt kennslustarf. Ég þykist vita, að það mundu verða margar stúdínurnar, sem mundu gjarnan vilja verða læknar, ef þær fengju frá upphafi námslaun til þess. Ég veit ósköp vel, að það eru margir stúdentar nú og stúdínur, sem eru gift og eru í miklum vandræðum með sitt nám og mér er sem ég sjái, hvort slíkt fólk mundi ekki fagna því, ef það fengi námslaun frá fyrsta degi, og fara einmitt í greinar eins og læknisfræði. Af þeim 12 stúdínum, sem hér eru í læknadeildinni nú, eru 5, sem eru komnar yfir fyrstu prófin, býst ég við, en það eru 7, sem enn þá hafa ekki tekið sitt fyrsta próf, þ.e. nýútskrifaðar frá menntaskólunum. Ef ég man rétt, er upp undir helmingur af öllum þeim stúdentum, sem útskrifast árlega, stúlkur. Ég efast ekki um, að fjöldi af þessum stúlkum mundi vilja leggja þessa grein fyrir sig, og við þekkjum dæmi þess og ekki sízt hæstv. menntmrh., hve farsælt það er meira að segja, ef bæði maður og kona eru læknar, ekki sízt tala ég nú um, þegar um héraðslækna væri að ræða, hvílík öryggisbót það mundi vera.

Ég álít, að þarna eigi að gera stórbreytingu nú þegar. Við eigum ekki bara að tala um ríkislán, eins og gert er í þessu frv. Við eigum ekki bara að tala um þau litlu námslaun, sem veitt eru kannske á 3. eða 4. ári, þegar menn eru búnir að stúdera tvö fyrstu árin, og kannske duga í hæsta lagi fyrir helmingi námskostnaðar. Við eigum að tala um námslaun, sem þýða, að menn eru fulllaunaðir, þurfa ekki að vinna fyrir sér, á meðan þeir eru við háskólann og það er slíkt, sem ég kalla námslaun. Ég á ekki við námsstyrki eins og þá, sem við höfum núna. Ég held, að ef við ætlum að leysa úr þessu vandamáli, sem hér liggur fyrir, að við hér á Íslandi höfum allt of lítið af læknum, eins og er annars staðar á Norðurlöndum og víðar, verðum við að leysa úr þessu með því að kosta fyllilega til náms, veita þeim, sem vilja verða læknastúdentar, full námslaun, launa þá að fullu frá fyrsta degi, þegar þeir byrja að stúdera. Og þá semjum við um leið við þá, að þeir séu starfsmenn ríkisins upp frá því. Þetta er sú eina rétta aðferð, sem getur tryggt okkur bæði héraðslækna, sjúkrasamlagslækna og nægilegt af læknum útskrifað, til þess að hér sé nokkurn veginn sómasamlegt ástand.

Ég veit ósköp vel, að t.d. eins og í Svíþjóð, sem borgar ákaflega há laun fyrir sína lækna, mjög há laun og tekur lækna m.a. frá okkur, þar er ástandið miklu verra, en hér á Íslandi, miklu verra. Og ég er hræddur um, að Svíarnir mættu gjarnan athuga sinn gang, hvort þeir þyrftu ekki að gerbreyta um einmitt viðvíkjandi því skipulagi að taka þar upp námslaun.

Ég hafði ekki búizt við því, þegar ég sagði þessi fáu orð hér um þetta mál, að það mundu verða einhverjar stórdeilur um þetta. Ég hafði ekki búizt við því. Ég hafði búizt við, að hv. heilbr.- og félmn. mundi taka þessar hugmyndir, sem ég setti fram, til vinsamlegrar athugunar, athuga þær við prófessora læknadeildarinnar og við læknastúdenta og flytja okkur svo sínar niðurstöður. Ef það er hins vegar svo, að einhverjir háttsettir embættismenn í þjóðfélaginu þola ekki, að það sé gagnrýnt, sem álítið er aflaga fara hjá þeim, heldur stofna til stórdeilna út af því, þá mun ég gera mínar ráðstafanir líka til þess að reyna að sjá um, að þessir hlutir verði fullkomlega rannsakaðir.