29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

16. mál, orlof

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Nú að undanförnu hafa orlofslög nágrannalanda okkar verið endurskoðuð og yfirleitt í þá átt að lengja orlofið, bæði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur orlofstíminn verið nokkuð lengdur. Og það hefur verið hér til umr. hjá okkur og til nokkurrar athugunar hjá félmrn., hvað gera skyldi í þessu máli.

Þegar samkomulagið var gert við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands í júnímánuði s.l., var þetta mál einnig á dagskrá. Og í samkomulaginu, sem gert var milli þessara aðila, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun þegar beita sér fyrir lagasetningu um lengingu orlofs verkafólks úr 18 dögum í 21 dag, sem svarar hækkun orlofsfjár úr 6% í 7%.“

Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er eingöngu að uppfylla þetta loforð, sem ríkisstj. gaf í sambandi við samkomulagið í júnímánuði s.l.

Í frv. segir aðeins, að í staðinn fyrir „6%“ orlofsfé komi: 7%, og í stað orðanna „1 1/2 dag fyrir hvern unninn mánuð“ komi: 1 3/4 dagur. Þetta þarf ekki frekari skýringar við að mínu áliti.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.