06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

138. mál, læknaskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það, sem veldur því, að ég lagði ríka áherzlu á, að við samþykktum þessa brtt., sem ég hef lagt fram núna er, að það er greinilegt, að við erum orðnir langt á eftir í þessum málefnum og það er ekki eftir neinu að bíða. Aðrar þjóðir, bæði Svíar og Norðmenn, eru að verða þarna á undan okkur. Síðar mun ég upplýsa líka, að við erum orðnir nokkuð langt á eftir því, sem við vorum einu sinni sjálfir, en áður ætla ég rétt að minnast á það, sem hæstv. forsrh. var að tala um. Mér skildist hann helzt líta svo á sem það væri raunverulega verið að hneppa stúdenta í þrælahald með minni till. Allt, sem mín till. fer nú fram á, er að fara að launa læknana, þegar þeir byrja í skólanum. Sem sé, þeir sem vilja taka að sér að verða héraðslæknar á eftir, vilja verða starfsmenn ríkisins, geta fengið laun strax, frá því er þeir byrja í háskólanum. Munurinn er sá, að hæstv. ríkisstj. vill hneppa læknastúdenta í þetta þrælahald gegn því, að þeir fái bara lán, fái sérstök ríkislán, þá eiga þeir að vera skuldbundnir til þess að vinna sem héraðslæknar seinna meir. Ég vil hins vegar veita þeim full laun. Þetta er nú allur munurinn á því, sem snertir frjálsræði í þessum efnum. Það er alveg jafnmikið og meira eftir minni till., vegna þess, eins og ég hef margoft tekið fram, að ef þessir læknastúdentar, sem hefðu fengið sín fullu námslaun frá upphafi vega gegn þessari skuldbindingu, vildu breyta til og fara yfir í einhverja sérfræði á eftir og vilja vera lausir við þetta allt saman, er hægt í reglugerðinni að ákveða, að svo og svo mikið af þeirra námslaunum skuli þá skoðast sem námslán, þannig að við skulum ekki fara að reyna að snúa neitt út úr þessu. Mín till. er orðuð alveg nákvæmlega eins og till. ríkisstj., nema með þessum tveim breytingum. Annars vegar legg ég til, að það séu námslaun, þar sem ríkisstj. talar um námslán, og ég legg til, að það sé frá fyrsta ári, strax í háskólanum, en ríkisstj. leggur til, að það sé frá því þeir hafi lokið fyrsta prófinu, þannig að við skulum ekki vera að fá menn til þess að greiða atkv. á móti minni till. á þessum forsendum. Hún er að öllu leyti fullkomlega samboðin fullu frjálsræði í slíku efni og gengur í því enn þá lengra, en till. ríkisstj., þannig að við skulum ekki fara að ráðast á hana frá því sjónarmiði.

Það sem hins vegar kom fram í umr. milli hæstv. menntmrh. og hv. 5. landsk. þm. var, að hv. 5. landsk. þm. sýndi fram á, hvernig þetta væri algerlega ófullnægjandi, það ástand, sem núna ríkir. En hæstv. menntmrh. talaði hins vegar um, hve mikil framför hefði orðið frá 1950. Og ég hef tekið undir það við hann, vegna þess að ég vissi ósköp vel, hvað ástandið var slæmt 1950 og undirstrikaði það, að námslánin og annað slíkt væri þarna mikil framför. En ástandið var bara það, ef við viljum leita ofurlítið lengra aftur, að það var viss forsmán í þessu 1950, miðað við það, sem áður var. Það þjóðfélagsástand, sem skapast hjá okkur eftir stríð, þýðir raunverulega, að það er miklu fleira fólk en áður, sem treystir sér til þess að kosta börn sín til náms, það er þessi þjóðfélagslega breyting. Hér áður fyrr gerði ríkið stærri kröfur í þessum efnum. Og ég skal taka sem dæmi það, sem ég þekki sjálfur. Námslaunin eða námsstyrkir, eins og það var kallað þá, sem við fengum 1922 og 1923 og þar í kring, sem vorum stúdentar við nám erlendis, voru 100 kr. á mánuði frá ríkinu. Ríkið lét okkur fá 100 kr. á mánuði. Og hvað þýða 100 kr. á mánuði þá, ef við viljum á einhvern máta reyna að umreikna það í verðgildi peninga nú á tímum? Við skulum segja, að við reiknuðum það t.d. eftir vinnulaunum. Mér reiknast til, að 100 kr. á mánuði mundu þýða, — við skulum miða við Dagsbrúnarkaup, eins og vant er, það var í kringum 1.20 kr., sem kaupið var þá, — það eru 83 vinnustundir á mánuði. Fyrir þessar vinnustundir eru nú greiddar 35 kr. eða svo. Það þýðir, að 100 kr. á mánuði þá, 1922– 1923, samsvarar 2.900 kr. á mánuði nú, þannig að á ári fer þetta þó nokkuð yfir 30 þús. kr., sá námsstyrkur, sem það fátæka íslenzka ríki veitir sínum stúdentum, sem stunduðu nám við erlenda háskóla 1922—1923 og var þetta samt ekki fullnægjandi, svo að ýmsir okkar urðu að hætta þá af efnahagslegum ástæðum, vegna þess að efnahagur manna í landinu var slíkur, að menn höfðu ekki ráð á að bæta miklu við slíkt. En þetta þýðir m.ö.o., að námslaun til stúdenta, sem stúderuðu erlendis 1922–1923, voru hærri, en námslán og námsstyrkir núna, sem ég held, að sé rétt, að séu um 26 þús. kr. á ári. (Gripið fram í.) Við skulum ekki endilega reikna með þeim löndum, sem eru dýrust. Ég veit t.d., hvað það er í Noregi, 26 þús. kr., og ég veit, að það er dýrara í Ameríku. En þótt menn vilji kasta 35 eða 40 þús. kr. út fyrir að læra í Ameríku, er ekki vert að bera saman við það. En svona er nú ástandið, að námslaun fyrir 40 árum til íslenzkra stúdenta, sem stúderuðu við erlenda háskóla, voru hærri ,en öll námslán og námsstyrkir eru núna. (Forsrh.: En fjöldinn, sem nýtur?) Fjöldinn, jú, við skulum koma að því. Þegar ég útskrifaðist sem stúdent 1921, held ég, að við höfum verið eitthvað í kringum 20. Núna voru það yfir 300, það er 15-faldað. Og ég geng út frá því, að það væri sjálfsagður hlutur, að núverandi íslenzka ríki treysti sér áreiðanlega til þess að 15-falda a.m.k. það, sem þá var,og kann að hafa gert, ég skal ekki segja um það, ég hef ekki reiknað það út. (Forsrh.: En ég spyr: Voru ekki einungis örfáir, sem fengu þennan styrk á þessum árum?) Ég býst við því. Ég gæti trúað, að 1923 og 1924 hafi verið við skulum segja 30 stúdentar, — þetta var eingöngu við erlenda háskóla, — 30 stúdentar, gæti ég trúað, allt í allt. Ég veit ekki, hve þeir eru margir núna, það veit máske hæstv. menntmrh. Það ættu að vera 450 núna, ef það er eitthvert samsvarandi hlutfall. (Menntmrh.: Þeir eru 330.) 330, er það ekki meira? Það eru 15 sinnum fleiri stúdentar útskrifaðir núna en var 1921 og þótt það væru 450 stúdentar erlendis, sem fengju þetta, væri það ekki meira en það, sem íslenzka ríkið lét í té 1920.

Ég minnist hérna aðeins á þetta til þess að sýna fram á, að íslenzka ríkið 1920 gerir allmikið í þessum efnum, þótt það sé fátækt þá, og það var mjög lítið, sem var veitt á fjárl. Ég sé, að það er mun meira á ríkisreikningnum, sem borgað er. En svona var það nú þá. M.ö.o.: við skulum ekki vera allt of montnir af því, sem við höfum gert. Það er vissulega framför frá því 1950, en það er ekki meiri framför en það, að ef við ætlum að komast nokkuð jafnfætis því með tilliti til allra breytinga, mættum við gjarnan innleiða núna námslaun. (Gripið fram í) Ég veit það, þeir eru hærri, þeir eru bara handa 7 manns, ef ég man rétt, þannig að við skulum setja þá handa a.m.k. 30 sinnum það, sem mannfjöldinn á Íslandi hefur vaxið síðan. Við erum lélegir í þessu enn sem komið er, svo að ég held, að við eigum að taka okkur þarna mjög alvarlega á og ég held, að hæstv. ríkisstj. þurfi ekki að óttast neitt þrælahald af því að samþykkja mína till. og ég held, að hún megi líta 40 ár til baka í tímann og sjá, að þá hafi líka verið hugsað nokkuð stórt í þessum efnum, þótt ýmislegt afturkast kæmi seinna. Ég vildi þess vegna eindregið, eftir að ég nú er búinn að upplýsa hæstv. ráðh., bæði hæstv. forsrh. og menntmrh., um þessa hluti, þá vil ég eindregið vonast til þess, að þeir sjái, að það sé tími til kominn að stíga þetta spor til viðbótar þeirri framför, sem þó hefur verið frá því 1950, að samþykkja mína tillögu.