29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

16. mál, orlof

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég gerði aldrei ráð fyrir, að mál mitt fengi almennar undirtektir. Yfirleitt er það þannig með þingmenn, að þeir reyna að tala eins og þeir halda að kjósendunum þóknist, þó að það sé ekki viturlegt, því miður. Og vitanlega þykir öllum gott að fá peningana. En það verður einhvers staðar að taka þessa peninga. Og nú er það þannig, að skattarnir hafa alltaf verið að hækka, þó að Vísir segi, að þeir hafi alltaf verið að lækka. Og svo fá menn þessa útgjaldamiða sína í ofanálag á óbeina skatta, sem hirða um 40% af öllu vöruverðinu. Það sagði mér atvinnurekandi, að það væru ekki nema fáeinar krónur, sem sumir starfsmenn fengju útborgað nú, hitt færi í opinber gjöld.

Við verðum að gera okkur ljóst, að orlofspeninga þarf einhvers staðar að taka. Það er enginn að tala um það, að sjómenn eigi ekki að hafa orlof. Vitanlega eiga þeir að hafa orlof eins og aðrir menn og af eðlilegum launum. Og þeim eru tryggð nokkurn veginn eðlileg laun með tryggingunni, eða 9—10 þús. kr. á mánuði. Og það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir hafi það. En þegar farið er að borga orlof á kaup, sem allir viðurkenna, sem vilja tala af sanngirni um það, að er meira en einstaklingurinn þarf til að lifa af og meira í mörgum tilfellum heldur en útgerðin getur greitt og útgerðin þarf þess vegna að leita til ríkisins um aðstoð, eins og gert var s.l. ár, og sú aðstoð er greidd af neytendum, sem margir hverjir eru fátækir, með söluskatti og öðru, þá finnst mér ekki vera um neitt skynsamlegt jafnrétti að ræða.

Það er þægilegt að segja: Þið eigið að fá hærra orlof og orlof á hvað hátt kaup sem er. — Það má vera, að það falli vel í eyru. En það er hvorki karlmannlegt né viturlegt. Ég álít, að það eigi að leggja eðlileg laun til grundvallar öllu orlofi, bæði hjá sjómönnum og öðrum.

Þá kom það fram hjá hv. síðasta ræðumanni, — maður man nú ekki alltaf númerin á hv. þm., — að þetta hefði breytzt svo mikið við það, að sjómenn hættu að borga olíu og beitu á línuveiðum, — þeir borguðu olíu og beitu áður, nú fyrir nokkrum árum, — þannig að nú væru þetta ekkert annað en launþegar, en áður hefði kannske mátt segja, að þeir hefðu tekið þátt í atvinnurekstrinum. Þetta kom einnig fram hjá hv. 5. þm. Austf., að sjómenn væru bara einfaldir launþegar. Ef þeir væru einfaldir launþegar, þá væru þeir upp á fast kaup, vist mánaðarkaup, það eru hinir einföldu launþegar. Það er allt annað með akkorðsmenn, sem eru að salta síld í tunnu og annað slíkt. Þeir hafa visst fyrir tunnuna, hvort sem veiðist mikið eða lítið. Sjómaður fær visst á tonnið, en hann fær bara meira, ef illa veiðist. Það má segja, að vinnan verði lengri hjá fólki, ef mikið veiðist, heldur en þegar lítið veiðist. En það er óneitanlegt, að hafi þeir tekið þátt í atvinnurekstrinum, meðan þeir borguðu beitu og olíu, sjómennirnir, þá skiptir það engu máli, hvort hlutur þeirra lækkar um 2% eða 3%, og er það ekkert atriði í þessu sambandi. Hafi þeir fengið 45% áður, en 40% nú, skiptir það engu máli, þeir taka þátt í atvinnurekstrinum.

Nú er samband milli útgerðarmanna og sjómanna þannig, að það hefur gengið illa að skapa misskilning og úlfúð þeirra á milli, því að þetta er sameiginleg barátta, og ef gengur vel fyrir öðrum, þá gengur vel fyrir hinum. Það vita allir sjómenn, að undirstaða undir því að þeir hafi góðar tekjur, er, að útgerðin hafi efni á að gera bátana vel út hvað snertir veiðarfæri og önnur tæki. Þetta er undirstaðan, þannig að vitanlega þarf alltaf að finna sanngjarna leið til að skipta því, sem aflast. En þráður mun alltaf liggja milli þessara aðila, þess, sem gerir út bátinn, og sjómannanna, sem heyja sína lífsbaráttu á honum.

Það skiptir engu máli út af fyrir sig, hvort orlofið er 7% eða 9%, því að það er ekki nema takmarkað, sem atvinnureksturinn getur borgað, það vita allir, og hvort það kemur fram í hækkuðu kaupi eða hækkuðu orlofi, það skiptir launþega litlu máli. Hitt er dálítið annað með dagafjölda fastlaunaðra skrifstofumanna. Það má vel vera, ef þjóðfélagið hefur efni á að lengja það, að þá sé ekki nema gott um það að segja, að þeir fái löng frí. En þetta er þannig, að það skiptir atvinnuvegina engu máli, hvort orlofið er 1% hærra og kaupið 1% lægra eða kaupið 1% hærra og orlofið 1% lægra. Það skiptir engu máli. En hitt gefur bara auga leið, að það að borga orlof á miklu meira en almennar tekjur í landinu, eins og gert er með yfirmenn á t.d. skipunum, sem mest veiða, miðar ekki að jöfnum lífskjörum. Nú er það þannig — við vitum það — með þessa hálaunuðu menn á skipunum, þeim sem veiða mikið, að skipstjórarnir eru hættir að kæra sig um að vinna allt árið. Þeir segja, að það sé ekki til neins, það sé allt tekið í skatta. Og þeir fá sér frí, fara út í lönd. Bátarnir hvíla sig þá á meðan eða fá einhverja, sem ekki eru eins góðir að fiska, þannig að þarna er kominn líður í okkar atvinnuvegi, sem ekki verður til þess að auka þjóðartekjurnar og ekki til að auka jafnan efnahag borgaranna. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að borga þeim vel, sem vinna vel, og það er ekki nema sjálfsagt að borga góðum vélamönnum og góðum skipstjórum mjög gott kaup, en það eru náttúrlega takmörk fyrir öllu.

Þetta var áhending frá mér í upphafi, sem ég vildi skjóta fram til n., áður en hún tæki til starfa. Og það er svo með allt, sem eitthvert vit er í, að það fær sjaldan miklar undirtektir í byrjun, en svo kemur þetta með tímanum, með hægðinni, og maður má aldrei vera hræddur við að standa einn uppi í bili. Ég vil taka það fram, að ég tala hér persónulega, en ekki fyrir hönd flokksins. Þetta er mín persónulega skoðun, en ég hef ekkert verið við umr. um það í flokknum. Það má líka vel vera, að ríkisstj. sé þannig búin að semja um þetta nú við launþegana, að það sé ekki hægt annað en gera þetta í þetta skipti. En þetta er ábending frá mér, sem ég hygg að í framtíðinni muni verða viðurkennd, hvað sem gert verður nú.