30.11.1964
Efri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

6. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur þegar verið samþ. í hv. Nd. og með þeirri breytingu, að sú fjölgun, sem samkv. frv. átti einungis að ná til nefnda í deildum, skyldi einnig ná til kjörbréfanefndar í sameinuðu þingi, og má segja, að það hafi verið eðlileg breyting og í samræmi við meginefni frv. Um frv. varð að öðru leyti enginn ágreiningur í hv. Nd., og vonast ég til þess, að það hljóti einnig greiðan framgang hér, enda má segja, að þau afbrigði frá þingsköpum, sem veitt voru við upphaf þings um að kjósa í nefndir í deildum eftir sömu reglum og ákveðnar verða samkv. þessu frv., sýni einhuga stuðning hv. alþm. við frv. En eðlilegt er, að nú sé fjölgað í nefndum frá því, sem ákveðið var 1915, því að þá voru þm. einungis 40, en nú eru þeir 60. Þegar af þeirri ástæðu er eðlilegt, að þessi breyting sé gerð. Þar að auki sýndi það sig á síðasta þingi, að það var ekki heppilegt, að einn af 4 þingflokkum skyldi ekki eiga menn í nefndum, því að það varð samkomulag um það, a.m.k. í hv. Nd., ég hygg einnig hér, að fjölga í nefndum eða kalla til fulltrúa frá þeim flokki í nefndir, þegar um mikils háttar mál var að ræða. Það hníga því öll rök að samþykkt þessa frv., og legg ég til, að það verði afgr. til 2. umr. og sent til hv. allshn.