10.05.1965
Neðri deild: 87. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

201. mál, Landsvirkjun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, að ég hef sjálfur átt sæti í landsvirkjunarnefnd, skipaður af hálfu ríkisstj. og í Sogsvirkjunarstjórn, sem þetta mál fjallar um. Ég vil leyfa mér alveg sérstaklega að taka undir þá hörðu gagnrýni, sem hv. 5. þm. Austf, hefur komið hér með á þetta frv. Sannleikurinn er, að það er fullkomið hneyksli að ætla að setja svona frv. í gegn og setja það í gegn á síðustu dögum þingsins. Þetta er eitt af þeim málum, sem Alþ. á virkilega að fá tækifæri til þess að geta fjallað um og á að vera hægt að ræða lið fyrir lið, ekki sízt þegar þannig er að þessu máli unnið, að við, sem höfum t.d. átt sæti í stjórn Sogsvirkjunarinnar, átt sæti í raforkuráði, átt sæti í landsvirkjunarnefnd, höfum aldrei fengið þau gögn, sem við höfum beðið um í sambandi við þessa hluti og ég er viss um, að af þessum stofnunum hefur aldrei verið um þetta mál rætt. Ég er þeirrar skoðunar, sem hér kom fram, sérstaklega hjá hv. 5. þm. Austf., að hér sé verið að framkvæma algera stefnubreytingu frá því, sem var ákveðið með l. frá 1946, sem voru raunverulega þjóðnýtingarlög í sambandi við raforkuna. En nú er verið að reyna að stefna með öllu þessu meira yfir í að gera þetta þannig, að það sé sem óháðast ríkinu sjálfu, þótt ríkið eigi þarna að vera að hálfu leyti eigandinn. Ég vil enn fremur undirstrika það, að það væri algerlega rangt að afgreiða þetta mál frá Alþ. öðruvísi en svo að heimila ríkisstj. aðeins 70 þús. kw virkjun og hana því aðeins, að það sýndi sig, þegar þetta er fullkomlega rannsakað, að það væri hægt að ráða við þessi ísvandamál, en að hafa hins vegar möguleika, ef það sýndi sig, að það yrði ekki mögulegt, að geta lagt í aðrar smærri virkjanir, meðan verið er að ganga frá því til fullnustu, hvort hægt væri að leggja í Þjórsá. Ég skal viðurkenna hitt, að Búrfell mundi vera langbezti virkjunarstaðurinn, svo framarlega sem ísvandamálið er fullleyst.

Þá er stefnubreyting viðvíkjandi álagningunni. Í gömlu l. um Sogsvirkjunina var bundið við 5% og það var gert vegna þess, að það var gengið út frá því og það var á sama árinu, sem l. um Sogsvirkjunina voru sett og raforkul., þá var gengið út frá því, að þetta ætti fyrst og fremst að vera þjónusta við almenning, en ekki fyrirtæki, sem fyrst og fremst ætti að vera til auðsöfnunar og gróða. Og það er sú stefnubreyting, sem hér er framkvæmd, að það á að reyna að losa þetta sem mest úr tengslum við ríkið, gera það að fyrirtæki, sem eigi að vera sem allra sjálfstæðast, þannig að það þurfi sem minnst tillit að taka til almennings, en sem mest tillit til hins að safna auði.

Þá er eitt atriðið, þótt það sé ekki mjög stórt, sem ég vildi benda alveg sérstaklega á í sambandi við þetta og er týpískt fyrir það, hvernig reynt er að losa þetta sem mest undan því beina eftirliti ríkisins og gera þetta eins og að hálfgerðu einkafyrirtæki. Það hefur alltaf verið svo í sambandi við raforkul., að það hefur verið falið sérstaklega í 8. og 9. gr. í raforkul. raforkumálaskrifstofunni að undirbúa áætlanir. Þegar þessi lög voru lögð fyrir, var meiningin að fela Landsvirkjuninni þetta. Það var gerð ofurlitil breyting á þessu í Ed. En hvað þýðir raunverulega sú breyting á 3. gr.? Hún þýðir, að raunverulega raforkumálaskrifstofan og Landsvirkjunin vinna að nokkru leyti sama verkið. Þ.e.a.s., það virðist vera meiningin, að Landsvirkjunin, sem á að vera óbundin af öllum launakjörum ríkisins og öðru slíku, eigi að hafa þarna ýmiss konar aðstöðu, kannske líka til þess að láta menn vinna fyrir sig bara eftir reikning og annað slíkt til þess að geta framkvæmt þannig ýmsa hluti, sem gera aðeins þetta að öllu leyti hvað alla starfsháttu snertir að miklu meiri einkarekstri og að nokkru leyti skapar þarna alveg tvöfalt kerfi hjá ríkinu. Eftir að þessi lög væru samþykkt, er jafnt hægt á raforkumálaskrifstofunni eftir sem áður að vinna að undirbúningi við ýmsar raforkuveitur, það er greinilegt, þetta er í 8. og 9. gr. og þar er heimild til þess sama í sambandi við landsvirkjunarlögin. M.ö.o.: það er verið að reyna að svipta raforkumálaskrifstofuna vissum þætti af hennar verkefnum, sem hún hefur unnið fyrir ríkið og hefur unnið vel og það er með þessu alveg sláandi út frá Parkinsonslögmálinu verið að reyna að koma upp enn þá fleiri fyrirtækjum, enn þá dýrari fyrirtækjum og enn þá vitlausari fyrirtækjum í sambandi við þetta. Þegar Sogsvirkjunin var stofnuð, þótti rétt að hugsa út frá því sjónarmiði að reyna að spara fyrir ríkið og reyna að spara fyrir Reykjavíkurbæ í þessum efnum. Þess vegna fannst Sogsvirkjuninni það rétt að fela Rafmagnsveitu Reykjavíkur reikningshald og alla stjórn á þessu fyrirtæki og það var aldrei neitt aðskilið. Núna aftur á móti, þegar þetta landsvirkjunarfrv. er lagt fyrir, er gengið inn á þá braut, að það á endilega að vera sjálfstætt fyrirtæki, sem þarna er rekið, sem nálgist það sem allra mest að vera eins og hálfgert einkafyrirtæki í rekstri. Ég álít þetta algerlega rangt. Það var vel hægt og ætti enn þá að setja inn í þessi landsvirkjunarlög, að það væri heimild til þess, a.m.k. fyrir ráðh. og fyrir stjórn Landsvirkjunarinnar, að fela raforkumálaskrifstofu ríkisins að annast stjórnina á þessu fyrirtæki. Hvaða ástæða er til þess að fara að mynda sérstakt fyrirtæki um þetta? Það er engin ástæða til þess. Raforkumálaskrifstofan getur að öllu leyti gert þetta. Þetta er gert beinlínis með það fyrir augum að skapa alls konar aðstöðu þarna í, sem ég að svo komnu máli ætla ekki að fara nánar út í, en kemur kannske betur fram, þegar þetta fyrirtæki byrjar að starfa, eins og þarna er lagt til.

Þá vil ég í sambandi við ísvandamálið leggja áherzlu á, að sú skýrsla, sem hér er með fskj. 5 frá Gunnari Sigurðssyni, þó að nafn raforkumálastjóra standi þar á það er ekki rétt skýrsla, og ég vil óska eftir því, að fjhn. alveg sérstaklega rannsaki þá skýrslu og fái aðrar skýrslur um þetta efni, sem þegar hafa legið fyrir borgarráði Reykjavíkur og það er hart, að hér skuli boðið upp á það, að alþm. skuli samþykkja lög um þessa hluti án þess að fá að rannsaka til fulls alla þá hluti, sem þarna eru og hafa komið fram.

Hér hefur verið spurt að því, hvernig standi á því, að rekstraráætlun fáist ekki. Ég bað um slíka rekstraráætlun, þegar ég var í þessari landsvirkjunarnefnd ríkisins og gat aldrei fengið hana. Af hverju er hún þetta leyndarplagg? Af hverju fæst ekki reiknað með því, að þær aðstæður, sem var upplýst áðan að þyrfti að skapa til þess að gera þetta öruggt, mundu kosta um 700 millj. kr.? Og af hverju fæst ekki reiknað út, hvernig framleiðslukostnaðurinn yrði á raforkunni frá Búrfellsvirkjuninni, þegar þetta væri allt saman tekið með? Er verið alveg vísvitandi að reyna að blekkja þm., þegar verið er að setja þetta frv. í gegn? Er vísvitandi búið að neita okkur um upplýsingar, sem verið hafa í öllum þeim stofnunum ríkisins, sem hafa undirbúið þetta? Hvers konar frágangur er á þessum hlutum? Ég býst við, að það sé talað eitthvað betur við Alþjóðabankann og aðra slíka, en það er þó þessi stofnun hér, Alþingi Íslendinga, sem á að gera út um þessi mál.

Þetta vildi ég aðeins segja til þess ð taka undir það, sem hér hefur þegar komið fram. Ég álít það fullkomið hneyksli, hvernig á að setja þetta mál gegnum þingið nú og ég álít, að það geti þó ofurlítið orðið til þess að bæta úr því, ef fjhn. væri gefið tækifæri til þess að fá að athuga þetta mál nú almennilega, en ekki virðist heldur eiga að gefa neinn tíma til þess. Svona mál á ekki að setja í gegnum þingið á svona stuttum tíma. Það er ósköp vel hægt að framlengja þingið. Það er búið að hanga það lengi aðgerðalaust vegna sleifarlags ríkisstj., vegna þess að hún hefur ekki komið þeim frv. frá sér, sem hún þurfti að koma frá sér, bæði skattal og þessum, en svo er heimtað af Alþ., að þetta sé allt saman afgreitt á 1–2 dögum. Hæstv. ríkisstj. er með slíkri aðferð að gera þingið að druslu í sínum höndum. Hennar eigin þm., hennar stjórnarstuðningsmenn sitja ekki einu sinni til þess að hlusta á nein rök eða reyna að skapa sér einhverja sjálfstæða hugmynd um það, sem hér er verið að gera. Og svo veit maður eftir á, að þegar hneykslin koma í ljós, sem svona afgreiðsla veldur, þá er reynt að þyrla upp slíku ryki fyrir almenning, að hann fái aldrei hugmynd um, hvers konar hneyksli það eru, sem hér hafa verið gerð. Það hefur verið ræt hérna nokkrum sinnum um það núna hvernig farið var með áburðarverksmiðjuna, þegar hún var sett í gegn 1949, á síðustu dögum þingsins líka. Það er smáræði — og hefur þó verið slæmt — í samanburði við það, sem nú er verið að reyna að gera. Þess vegna vildi ég aðeins hér, fyrst þetta mál hefur komið allmikið við þær n, og stjórnir, sem ég hef verið í, mótmæla þessari afgreiðslu.