10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Þegar líður að þinglokum, verður manni fyrst fyrir að hugsa um, hverju þingið hafi komið í verk, hverju það hafi afkastað, hvaða lög það hafi sett.

Ég tel, að þetta þing hafi verið með hinum merkari þingum og unnið að mörgu leyti gott og mikið starf. Ber þar hæst nú málin, sem verið er að afgreiða og ganga frá, lög um landsvirkjun í Þjórsá hjá Búrfelli og einnig má nefna í því sambandi lög um Laxárvirkjunina. Orkan í fallvötnum landsins er önnur mesta auðlind íslenzku þjóðarinnar, en talið er, að 3–4 millj. kr. sé þar hægt að virkja. Orkan er undirstaða hagnýts iðnaðar og til heimilisnota er hún einnig mjög nytsamleg til að létta störfin. Enn hafa ekki verið virkjuð nema rúmlega 100 þús. kw. af þessari miklu orku, eða aðeins 3–4%. Það gefur því auga leið, hversu gífurlegt átak það er að ráðast nú í að virkja 210 þús. kw., eins og landsvirkjunarfrv, gerir ráð fyrir eða nærri því að þrefalda hið virkjaða afl í einu átaki, þó að í nokkrum áföngum sé, enda er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn verði a.m.k. um 1.400 millj. kr. En það má líka til tíðinda telja, að allar líkur benda til, að tekizt hafi að útvega það fjármagn, sem þarf til þessara miklu framkvæmda og enn fremur til að tryggja kaupendur að þeim hluta orkunnar, sem við þurfum ekki sjálfir að nota.

Ríkisstj. hefur, eins og kunnugt er, staðið í samningum við svissneskt fyrirtæki um að stofnsetja hér alúminíumverksmiðju, sem mundi þurfa á að halda um það bil rúmum helmingi þessarar orku og þó að þessum samningum sé ekki lokið, virðist mega ganga út frá því, að samningar muni um þetta takast. Við þetta vinnst margt. Í fyrsta lagi það, að þá er hægt að haga tilhögun virkjunarinnar þannig, að virkjunarkostnaðurinn verður miklum mun minni, en hann gæti orðið á nokkurn hátt annan og nemur sá sparnaður, sem af þessu leiðir, hundruðum millj. kr. Við þurfum ekki sjálfir, Íslendingar, á að halda á næstu árum nema nokkrum hluta þessarar orku, en ef svo smátt væri virkjað, mundi kostnaðurinn á virkjað hestafl eða virkjað kw, verða mjög miklu meiri en hann verður, ef svo stór áfangi er tekinn sem nú er ráðgert. Nemur kostnaðarmunurinn allt að 80–100% á virkjað kw. samkv. þeim áætlunum, sem fyrir liggja.

Í öðru lagi má gera ráð fyrir því, að stóriðnaðarfyrirtæki eins og hér er um að ræða gefi þjóðinni gjaldeyristekjur, sem verulega munar um í þjóðarbúskapnum. Samkv. áætlunum, sem um þetta hafa verið gerðar, eiga þessar gjaldeyristekjur að geta numið 300–350 millj. kr. á ári, en ekki um 100 millj. kr. rúmum, eins og sagt var hér áðan, þ.e.a.s. þegar verksmiðjan er fullbyggð og má öllum vera ljóst, að um slíkt munar verulega.

Í þriðja lagi má segja, að með þessu stóriðjufyrirtæki sé skotið nýjum og styrkum stoðum undir íslenzkt atvinnulíf til tryggingar afkomu almennings í landinu. Eftir því sem atvinnulífið í landinu verður fjölbreyttara og styðst við fleiri stoðir, er það vitaskuld tryggara. Orkulindir okkar eru því aðeins einhvers virði, að þær séu notaða, og hæst þróuðu þjóðirnar með beztu afkomuna fyrir þegna sína eru þær, sem styðjast við iðnaðarstarfsemina.

Þó að þetta mál um alúminíumverksmiðjuna hafi verið allmikið rætt nú á Alþingi undir lokin og unnið hafi verið að því af hálfu ríkisstj, um alllangt skeið, hefur ekki komið til ákvörðunar nú af hálfu þingsins, heldur hefur það eingöngu verið flutt til upplýsingar fyrir þm. og kemur ekki til ákvörðunar fyrr, en á næsta þingi. Flokkarnir hafa þó allir verið að móta stefnu sina í því að undanförnu og er afstaða þeirra athyglisverð.

Alþb, hefur brugðizt hart gegn því, að erlendu fyrirtæki verði gefinn kostur á að reisa þessa verksmiðju hér og telur, að af því geti stafað hætta fyrir íslenzka þjóð. Er þessi afstaða þeirra Alþb.-manna að mörgu leyti athyglisverð, í fyrsta lagi vegna þess, að þeir vita, af ef hinu erlenda fyrirtæki verður ekki veitt þetta leyfi, verður engin slík starfsemi sett á laggirnar hér, því að Íslendingar sjálfir eru alls ómegnugir að gera það. Kemur þar margt til. Í öðru lagi vegna þess, að nágrannar okkar, sem eiga yfir fallvatnaorku að ráða, eins og t.d. Norðmenn, hafa gert allt sem þeir mega til þess að fá erlenda aðila, sem yfir fjármagni hafa að ráða, til þess að stofnsetja fyrirtæki í landi sínu. Verður þessi afstaða Alþb. tæpast skýrð á annan veg en þann, að þeir vilji koma í veg fyrir, að tengslin milli Íslendinga og vestrænna þjóða styrkist, og offra fyrir það hagsmunum okkar, þó að annað sé haft að yfirvarpi.

Afstaða Framsfl. er þó sýnu athyglisverðari. Þeir framsóknarmenn virðast í hvoruga fótinn geta stigið. Þeir telja sig í öðru orðinu vera því meðmælta, að til þessarar stóriðju sé hér stofnað, en í hinu setja þeir þau skilyrði fyrir því, sem tæpast verða skilin á annan hátt en þann, að þeir séu að undirbúa sig til þess að verða á móti því. Ræður þar annars vegar tækifærissinnuð hentistefna, en hins vegar hræðsla þeirra við almenningsálítið.

Sjálfstfl. hefur tjáð sig málinu fylgjandi og það hefur Alþfl. einnig gert, en vill, að tryggt sé, að gætt verði hagsmuna okkar við samningagerðina, þannig að hinu erlenda félagi verði ekki veitt nein önnur réttindi hér en þau , sem eðlileg má kalla. Um þetta verður sjálfsagt mikið rætt á næsta þingi, en því má þegar slá föstu, að með byggingu alúminíu verksmiðjunnar, ef samþykkt verður, fáist hin hagkvæmustu virkjunarskilyrði og þau ódýrustu, sem völ er á.

Þó að raforkumálin og stóriðnaðurinn séu stærst í sniðum og hafi sennilega mesta þýðingu fyrir þjóðarbúið í heild og mest áhrif á afkomu alls almennings, ber þó ekki að gleyma hinum smærri málunum, sem minni eru í sniðum og snerta þó að ýmsu leyti þá, sem eiga erfiðast uppdráttar óstuddir. Ég á þar við fatlaða menn og öryrkja. Þetta þing hefur afgreitt þrenn lög, sem snerta afkomu þessa fólk sérstaklega.

Í fyrsta lagi hefur blindu fólki verið útvegað nokkurt starfsfé, sem væntanlega á að geta numið 1/2 millj. kr. árlega. Í öðru lagi hefur verið tryggt, að veita megi úr erfðafjársjóði styrk og lán til þess að koma upp endurhæfingarstöð fyrir fatlaða, en það er eitt þýðingarmesta mál fatlaðra að gera þá aftur vinnufæra, sem nokkurn möguleika hafa til þess að geta orðið það. Í þriðja lagi var svo frá gengið í lögum um húsnæðismálastjórn, að veita megi Öryrkjabandalaginu lán til húsbygginga, sem bandalagið byggi og leigi síðan meðlimum sínum íbúðir við þeirra hæfi. Því minnist ég þessa, að það er sjaldnar og minna rætt um þau mál, sem samkomulag er um, en hin, sem deilum valda og rifizt er um.

Lögin um húsnæðismálastjórn eru annars í heild hin merkasta lagasetning og var um þau einnig samstaða að mestu. Húsnæðismálin eru, eins og kunnugt er, eitt allra erfiðast viðfangsefni alls almennings. Byggingarkostnaður hefur farið hraðvaxandi og fæstir hafa yfir þeim fjármunum að ráða, að ekki þurfi þeir einnig á miklu lánsfé að halda. Ein af ástæðunum fyrir því, að byggingarkostnaður er hér raunar meiri á íbúð en annars staðar, er sá, að hér er yfirleitt byggt stærra en annars staðar. Flestar íbúðir hér, sem nú eru byggðar, munu vera í kringum 100 m2 og stærri og margar miklu stærri. Til samanburðar má geta þess, að í nágrannalöndum okkar eru íbúðir byggðar yfirleitt miklu minni. Í janúarhefti tímarits, sem Sameinuðu þjóðirnar gefa út, er skýrsla um íbúðabyggingar í heiminum 1963. Þar segir, að meðalstærð nýrra íbúða hafi það ár verið í Noregi 83 m2, í Bretlandi 75 m2, í Svíþjóð, hinu efnaða landi, 71 m2, í Finnlandi 59 m2 og í Sovétríkjunum 38 m2. Sést á þessum samanburði, hversu miklu stærri íbúðir eru byggðar hér en þar og tilkostnaður vitaskuld tilsvarandi hærri.

Þörfin fyrir íbúðabyggingar er auðvitað mjög mismunandi í hinum ýmsu löndum og af ýmsum ástæðum. Hér hefur verið talið að vandlega athuguðu máli, að um 1.500 nýjar íbúðir á ári væri hæfilegt fyrst um sinn til að fullnægja okkar þörfum og við það miðuð lagasetningin um húsnæðismálastjórn, sem þetta þing hefur gengið frá. En það svarar til 8 nýrra íbúða á hverja 1.000 íbúa. Til samanburðar má geta þess, að í þessari sömu heimild, sem ég nefndi, er talið, að árið 1963 hafi verið byggðar í Sovétríkjunum 11 íbúðir á hverja 1.000 íbúa, í Svíþjóð 10, í Vestur-Þýzkalandi 9, í Finnlandi 9, í Noregi 7.8, í Danmörku 7.1 og í Bretlandi 5.9, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Af þessari upptalningu sést, að ef hægt verður að fylgja áætluninni, sem ég nefndi, um 1.500 íbúðir á ári eða sem svarar 8 íbúðum á 1.000 íbúa, er okkar hlutfall mjög sambærilegt við hin Norðurlöndin og þau önnur lönd, sem næst okkur liggja.

Segja má, að þar sem hér er aðeins um áætlun að ræða, sé hún ekki enn orðin veruleiki, og til þess að komast nær veruleikanum, er því rétt að líta á, hvernig framkvæmdir hafa raunverulega orðið síðustu ár. Samkv. upplýsingum frá Efnahagsstofnuninni hafa framkvæmdir við íbúðabyggingar umreiknaðar í fullgerðar íbúðir orðið sem hér segir: 1962 1.200 íbúðir, 1963 1.500 íbúðir og 1964 1.600 íbúðir. Sést af þessu, að ekki ætti að vera óvarlegt að reikna með 1.500 íbúðum á ári, þegar tillit er tekið til þess, að lánsupphæðin á íbúð hefur verið nærri tvöfölduð eða hækkuð úr 150 þús. í 280 þús. kr., auk nokkurrar hækkunar til viðbótar fyrir þá, sem ætla má, að minnst fjárráð hafi.

Helztu breytingarnar á húsnæðismálastjórnarlögunum, sem samþykktar hafa verið á þessu þingi, eru þessar: Árlegar tekjur byggingarsjóðs hafa verið auknar mjög verulega. í fyrsta lagi með því að leggja á almennan launaskatt, 1% af greiddum launum, sem launagreiðendur borga. Er talið líklegt, að hann muni nema um 60 millj. kr. á ári. Auk þess hefur verið ákveðið, að ríkissjóður leggi fram í sjóðinn 40 millj. kr. á ári. Eru þarna fengnar um 100 millj. kr. á ári til aukningar á eigin fé sjóðsins. Auknir lánamöguleikar hans eru líka mjög verulegir. Skyldusparnaðurinn hefur verið aukinn úr 6% í 15% og er gert ráð fyrir, að með þeirri hækkun fái sjóðurinn til umráða um 50 millj. kr. næstu árin. Þá hefur einnig verið ákveðið, að árlegu framlagi ríkissjóðs til atvinnuleysistryggingasjóðs verði varið til kaupa á vaxtabréfum húsnæðismálasjóðs, en sú upphæð nemur tæpum 50 millj. kr. Eru sjóðnum þar með tryggðar 200 millj. kr. árlega, helmingurinn sem framlag, en hinn helmingurinn sem lán. Til viðbótar þessu kemur svo eigið fé sjóðsins og framlag ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, sem í fjárl. er áætlað 25 millj. kr., þannig að húsnæðismálastjórn á nú að hafa árlega til úthlutunar 260–270 millj. kr.

Til samanburðar skulu hér tilfærðar þær upphæðir, sem húsnæðismálastjórn hefur haft til úthlutunar undanfarin ár. 1956 hafði hún til umráða og úthlutunar 50 millj., 1957 53, 1958 34, 1959 35 millj., 1960 70.7 millj., 1961 65.9 millj., 1962 86 millj., 1963 91 millj. og 1964 160.5 millj. kr., en verður væntanlega á þessu ári 260–270 millj. Með þessum auknu fjáröflunarmöguleikum hefur þá einnig verið talið mögulegt að hækka lánveitingar á hverja íbúð upp í 280 þús. kr.

Lán út á íbúð voru í upphafi ákveðin 100 þús. kr., en voru í tíð vinstri stjórnarinnar svokölluðu lækkuð í 70 þús. Síðan hafa þau verið hækkuð nokkuð aftur, fyrst í 100 þús. kr. og síðan í 150 þús. kr., en verða nú sem sagt hækkuð í 280 þús. eða ferfölduð frá því, sem þau voru 1957 og 1958. Byggingarkostnaður hefur að vísu hækkað mjög verulega síðan, en þó ekki svipað því eins og lánveitingar eru nú auknar. Byggingarkostnaðarvísitala hefur hækkað síðan 1958 um 77%, en kaupgjald og launatekjur hafa líka hækkað mikið á þessu tímabili. Til samanburðar má geta, að lágmarkskauptaxti Dagsbrúnar hefur hækkað á sama tíma um nákvæmlega sama hundraðshluta eða 77% og hafa þó ýmsar aðrar launatekjur hækkað verulega meira. Það má því segja, að á meðan byggingarkostnaðurinn hefur hækkað um 77%, hafa lánveitingarnar miðað við hið nýja frv. hækkað um 300%. Þetta má líka segja á annan veg þannig, að lánveitingarnar 1957 og 1958 munu hafa numið um 171/2% af byggingarkostnaðinum þá, en nema nú um 40% miðað við 350 m3 íbúð. Má því segja, að hér sé brotið blað og húsbyggjendum gert mun auðveldara fyrir en áður var.

Ég tel skylt að geta þess, að þessi lagasetning er að mestu leyti árangur af júnísamkomulaginu frá í fyrra, þótt byrjað hafi verið að undirbúa hana áður. Má af því sjá, að fleira en beinar kauphækkanir getur komið almenningi til góða. Ef um verulegar kauphækkanir hefði þá verið að ræða, hefði verið vafasamt, að ég tel, hvort hægt hefði verið að leggja hinn almenna launaskatt á og einnig vafasamt, að ríkissjóður hefði þá getað lagt fram þær millj., sem hann nú hefur gert. Ýmis atriði fleiri eru nýmæli í þessum lögum. Vextir eru lækkaðir á lánum um helming, en hins vegar eru þau vísitölubundin. Lánstíminn er lengdur úr 15 árum í 25 ár, og fyrsta árið er afborgunarlaust. Til þess að freista að koma byggingarstarfseminni í skipulegt horf, er það einnig sett að skilyrði fyrir lánveitingum, að lánsloforð hafi verið fengið, áður en bygging er hafin, til þess að jafna byggingarstarfsemina frá ári til árs.

Ýmislegt fleira mætti telja af nýmælum laganna, en ég skal láta þetta nægja. Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast á það, að þar er opnaður möguleiki fyrir sveitarfélög til þess að byggja leiguíbúðir, sem ekki var fyrir hendi áður, en það er út af fyrir sig mjög nauðsynlegt, sérstaklega fyrir ungt fólk, sem ekki hefur möguleika á að hefja strax byggingu eigin íbúða.

Í sambandi við hin almennu húsbyggingamál má einnig minnast á þær breytingar, sem gerðar hafa verið á lögum um verkamannabústaði á þessu þingi. Er þar um að ræða 50% hækkun lánsfjárins úr 300 þús. kr. á íbúð í 450 þús. Sömuleiðis hefur efnahagsmiðun sú, sem gilt hefur, verið rýmkuð, þannig að menn með 120 þús. kr. tekjur geta nú orðið meðlimir í byggingarfélögunum og má þó upphæðin hækka um 10 þús. kr. fyrir hvert barn.

Af öðrum lögum, sem þýðingu hafa fyrir stóran hóp manna, má nefna, að lögin um almannatryggingar hafa verið bætt verulega, þannig að bætur hækka nú samhliða því, sem grunnkaup verkamanna hækkar, án lagabreytingar, auk vísitöluálags, sem áður hafði verið ákveðið. Orlof hefur verið lengt úr 18 virkum dögum í 21 og greitt orlofsfé hækkað úr 6% í 7% og margt fleira mætti nefna, þó að hér sé ekki tími til þess nú.

Til viðbótar vil ég aðeins segja það, að yfirleitt var góð samstaða allra flokka um þessa lagasetningu alla. Hins vegar versnaði samkomulagið, þegar útvega átti ríkissjóði fé til að standa undir þessum útgjöldum. En vitanlega verður ríkissjóður að afla fjár til þeirra útgjalda, sem þessari lagasetningu fylgja, eins og til annarra útgjalda. Beitti stjórnarandstaðan sér hart gegn tekjuöfluninni, sem í raun og veru jafngilti því að vera á móti málinu, því að ekkert af þessu verður gert peningalaust.

Enn eru mörg mál og málsatriði óleyst á þessu sviði, sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni. En ríkisstj. mun fylgja í framtíðinni sömu stefnu og hingað til, til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu og helzt vildi ég segja: fyrir þá, sem lægst eru launaðir og með skerta vinnugetu. Þjóðartekjurnar hafa farið vaxandi undanfarin ár og það er enginn vafi á því, að afkomu þessa fólks má bæta verulega, ef skynsamlega er að því staðið. Á ég þar við fyrst og fremst, að þeir, sem hærra eru launaðir og betur settir í þjóðfélaginu, stilli sínum kröfum í hóf, meðan verið er að tryggja þeim lægstu sæmilega afkomu og hóflegan vinnutíma. Þetta mál kemur til með að verða ofarlega á baugi í samkomulagsviðræðum þeim, sem nú standa fyrir dyrum og veltur á miklu, að þær takist vel. Einnig verður á það að líta, sem er aðalatriði málsins, hvað er mögulegt og hvað er ómögulegt, því að engum er til hagsbóta að krefjast þess ómögulega.