10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

Almennar stjórnmálaumræður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Efnahagsmálin eru talin erfiðasta viðfangsefni íslenzkra þjóðmála. Ráðamenn þjóðarinnar og sérfræðingar þeirra þreytast aldrei á að brýna fyrir okkur þann mikla vanda. Og það virðist koma út á eitt, hvernig árar. Venjulegt fólk getur skilið, að vandi sé í þessum efnum í slæmu árferði, þegar þröng er í búi. En því reynist erfiðara að skilja, að vandinn sé engu minni í góðæri og uppgripum, eins og hér hefur verið undanfarin ár og fólk verði þá að herða sultarólina.

Efnahagsmál er mjög víðtækt hugtak og fá svið þjóðlífsins, sem það snertir ekki. En vandinn er ekki alls staðar jafnmikill. Okkur er ávallt sagt, að erfiðasti þáttur efnahagsmálanna sé kaupgjalds- og kjaramál hins vinnandi fólks. Umfram allt verði að gæta þess, að kaupmátturinn verði ekki of mikill, því að þá raskist allt jafnvægið í búskapnum. Þó að ráðamenn þjóðarinnar og sérfræðingar þeirra standi ráðalausir gagnvart mörgum vandamálum þjóðfélagsins, skortir þá aldrei hugkvæmni til að halda niðri kaupgetu launþeganna eða hrifsa aftur kauphækkanir, sem oft hefur kostað harða baráttu að ná fram.

Öll þekkjum við þær ráðstafanir, sem stjórnarvöldin grípa til í þessum tilgangi. Hér skal minnzt á nokkrar, sem segja má, að hafi verið burðarásinn í allri efnahagspólitík núv. ríkisstj.: gengisfellingar, hækkaður söluskattur og þyngri almennir skattar. Verðhækkanir í tíð núv. ríkisstj. hafa orðið svo miklar á helztu nauðsynjum fólks, að matvörur eru nú rösklega 100% dýrari en þær voru í ársbyrjun 1960. Á sama tíma hefur almennt kaup verkamanna aðeins hækkað um 68% og þyrfti því að hækka um 22% til að halda í við þessar verðhækkanir. Þessi stefna hefur svo magnað verðbólgubraskið og hvers konar okurstarfsemi, ekki sízt í húsnæðismálunum, en afleiðingar þess liggja nú með ofurþunga á launastéttunum.

Á valdatíma núv. ríkisstj. hefur hinn frjálsi samningsréttur launþegasamtakanna hvað eftir annað verið skertur með valdboði og nú síðast í flugmannadeilunni.

Á sama tíma og kaupmáttur launanna hefur sífellt rýrnað, hefur hvert góðærið af öðru gengið yfir land okkar. Aldrei hefur aflazt meira. Þjóðarframleiðslan eykst stöðugt. Verðhækkanir á útflutningsvörum hafa verið meiri en á innflutningi okkar. Heildarþjóðartekjurnar hafa því stöðugt farið vaxandi. Í nýbirtri skýrslu Seðlabankans er talið, að þjóðarframleiðslan hafi vaxið um rúman fimmtung á síðustu þremur árum og á siðasta ári jókst verðmæti útflutnings um 18% miðað við árið áður samkv. sömu skýrslu. En samtímis þessari þróun hefur verkafólkið þurft að leggja á sig stöðugt lengri vinnudag til að auka tekjur sínar og bæta upp minnkandi kaupmátt launanna. Þessa öfugþróun verður að stöðva og verkalýðshreyfingin er staðráðin í að beita afli samtakanna, til þess að svo megi verða.

Í lok s.l. marzmánaðar boðaði Alþýðusambandið til ráðstefnu um kjaramálin. Fyrir ráðstefnunni lágu ýmsar tölulegar upplýsingar um þróun þjóðarbúskaparins og launamálanna. Þar var m.a. sýnt fram á, að ef kaupmáttur tímakaups verkamanna hefði hækkað aðeins um 3% árlega síðustu 5 árin, ætti kaupið nú að vera um 30% hærra en það er í dag. Því hefur löngum verið haldið fram af sérfræðingum, að kaupið gæti hækkað í hlutfalli við þjóðartekjurnar. En þessi 3% árlega kauphækkun, sem dæmið var tekið um, er nokkru lægri en meðaltal árlegrar hækkunar þjóðarteknanna s.l. 5 ár. Kjararáðstefna Alþýðusambandsins var algerlega einhuga um að krefjast almennrar kauphækkunar og styttingar vinnuvikunnar í 44 klst. með óskertu kaupi í samningum við atvinnurekendur nú í vor. Jafnframt voru gerðar kröfur til ríkisvaldsins um félagslegar umbætur, einkum í skatta- og húsnæðismálum.

Það er nú tæpur mánuður, þar til júnísamningarnir frá því í fyrra renna út. Við túlkuðum þá samninga sem vopnahlé. Verkalýðshreyfingin frestaði í fyrra að mestu kröfum sínum um beinar kauphækkanir, en samið var um nokkrar kjarabætur á öðrum sviðum. En veigamesta atriði samninganna var verðtryggingin á kaupið, sem hæstv, forsrh. var áðan að hóta að taka aftur, ef verkalýðshreyfingin verður ekki að skapi hans í kröfum sínum.

Þá vil ég taka skýrt fram, að því fer víðs fjarri, að verkalýðshreyfingin viðurkenni framfærsluvísitöluna sem réttan mælikvarða á þróun verðlagsins. Má þar tilnefna húsnæðisliðinn, sem vísitalan telur aðeins hafa hækkað um 16% frá árinu 1959 og trúi því hver sem vill og til þekkir, að húsnæðiskostnaðurinn hafi ekki hækkað hér nema um 16% á s.l. 5 árum.

Forsenda júnísamkomulagsins var, að verðbólguþróunin væri heft, og grundvallaratriði samkomulagsins, að kjör launþega versnuðu ekki á samningstímabilinu. Hvorugt hefur staðizt. Verðbólguþróunin hefur haldið áfram, m.a. fyrir stórhækkaða skattheimtu ríkissjóðs, þ. á m. nýja hækkun á söluskatti. Kjör launþega hafa versnað, einkum vegna þeirra gífurlegu skattahækkana, er áttu sér stað s.l. haust og jafngiltu fyrir margan mann beinni kauplækkun. Einnig koma hér til verðhækkanir, sem koma ekki inn í vísitöluna, einkum á ýmissi þjónustu. Ég vil nefna sem dæmi, að á ódýrustu matsölustöðum hækkaði fæði um 20% um s.l. áramót. Nú er svo komið, að t.d. hafnarverkamaður hér í Reykjavík fer með um helminginn af dagvinnukaupi sínu fyrir eins dags fæði á matsölustað fyrir sig einan.

Eftir júnísamkomulagið í fyrra lögðum við ríka áherzlu á, að ríkisstj. og atvinnurekendur notuðu samningstímabilið vel til að vera við því búin að verða við óhjákvæmilegum hækkunarkröfum verkalýðsfélaganna í vor. Þótt þessir aðilar hafi ekkert gert til að búa í haginn og gera vandann auðleystari í vor, mun verkalýðshreyfingin ótrauð fylgja eftir kröfum sínum. Hún hefur rökin og réttlætið sín megin.

Ég gat þess áðan, að nú væri tæpur mánuður, þar til júnísamkomulagið rennur út. Einu viðræðurnar, sem verið hafa, eru við ríkisstj. um skattamálin. Við höfum flutt mál okkar, en litla áheyrn fengið. Nokkrar lagfæringar verða þó gerðar, einkum með hækkuðum persónufrádrætti við álagningu útsvara. En heildarútkoman mun verða sú, að flestir munu á þessu ári greiða hærri krónutölu í skatta en s.l. ár vegna hærri tekna, en nokkru minna hlutfall af tekjum sínum munu þeir greiða. Hér á Alþ. hefur stjórnarliðið fellt allar till. Alþb. um verulegar úrbætur á skattalögunum, þ. á m. till. um sérstakan frádrátt fyrir fólk, sem vinnur í fiskiðnaðinum, og hafnarverkamenn. Slíkur frádráttur, eins og sjómenn hafa nú, mundi nokkuð bæta samkeppnisaðstöðu þessara atvinnugreina og er auk þess fyllsta réttlætismál gagnvart því fólki, sem oft leggur nótt við dag við björgun mestu verðmæta þjóðfélagsins. Með afgreiðslu Alþ. á skattamálunum er augljóst, að þyngstu byrðarnar verða enn lagðar á almenning, en gróðarekstrinum hlíft. Slík stefna er ekki vænleg til sátta við launþegasamtökin og spáir ekki góðu um komandi samninga.

Vinnudagur verkafólks hefur stöðugt lengzt hin síðari ár. Nú er svo komið, að í ýmsum greinum hér í Reykjavík hafa verkamenn um helming tekna sinna fyrir yfirvinnu. Við slíkar aðstæður er vinnan orðin þrældómur, sem brýtur niður heilsu manna og dregur stórlega úr vinnuafköstum. Það er orðin brýn nauðsyn, að hér verði reistar skorður við með löggjöf og beitingu verkalýðsfélaganna. Sú ákvörðun hafnarverkamanna hér í Reykjavík að vinna ekki á sunnudögum í sumar er í þessu efni efni einkar ánægjuleg og uppörvandi og mætti verða öðrum að fordæmi. Félög ófaglærðs verkafólks eru nú orðin þau einu, sem hafa samninga um 48 stunda vinnuviku. En fólkið í þessum félögum er um leið lægst launað og situr á ýmsan annan hátt við minnst hlunnindi og lökust kjör. Þessu ástandi verður ekki unað lengur. Í samningunum núna verður að stytta vinnuviku þessa fólks í 44 stundir með óskertu kaupi. Undan því verður ekki vikizt. Almenn kaup verkamanna er nú 1.672 kr. á viku eða 7.250 kr. á mánuði. Kemur nokkrum manni til hugar, að þetta kaup verði ekki að hækka? Það er vonlaust að lifa á slíku kaupi, nema til komi mikil yfirvinna.

Verkalýðshreyfingin hefur nú reist kröfur sínar um almenna kauphækkun til þess að vega á móti minnkandi kaupmætti launanna og verkafólkið gerir einnig kröfur til að fá aukna hlutdeild í sívaxandi þjóðartekjum og það vill fá þá hlutdeild og á þann rétt án þess að gjalda fyrir það með fleiri vinnustundum. Kauphækkanir núna eiga að vera raunverulegar hækkanir, sem ekki verða settar út í verðlagið. Atvinnureksturinn og þeir, sem tekið hafa til sín bróðurpartinn af aukningu þjóðarteknanna, eiga að standa undir kauphækkunum. En til þess að það gerist, verður að breyta um stjórnarstefnu, og það er verkefni sameinaðrar verkalýðshreyfingar að knýja þá breyttu stefnu fram.