07.12.1964
Efri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

Olíugeymar í Hvalfirði

Á 27. fundi í Ed., 7. des., utan dagskrár, mælti Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár, er sú, að á föstudaginn var birtist opinberlega tilkynning frá utanrrn. þess efnis, að Atlantshafsbandalaginu hefði verið heimilað að gera tilteknar framkvæmdir í Hvalfirði. Hér er að vísu ekki spánnýtt mál á ferðinni. Það hefur lengi verið á döfinni, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt og það mátti því búast við því eftir það, sem á undan var gengið, að eitthvað frekara gerðist í því máli heldur en orðið var. En allt fram að þessu hefur þetta mál verið á umræðu-, athugana- eða áþreifanastigi. En nú er þetta mál komið á nýtt stig, þar sem ljóst er af þeirri tilkynningu, sem ég gat um, að hæstv. ríkisstj. hefur heimilað tilteknar framkvæmdir á þessu svæði.

Ég lít svo á, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að það sé vissulega full ástæða til þess, að Alþingi láti það til sín taka. Það er greinilegt, bæði af því, sem áður hefur gerzt í þessu máli, til að mynda hér á Alþingi í fyrra, svo og því, sem í ljós kemur af hinni opinberu tilkynningu frá því á föstudaginn, að núv. ríkisstj. er staðráðin í því að ganga fram hjá Alþingi í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Varðandi málið var flutt hér í sameinuðu þingi þáltill. í fyrra, en þannig fór um hana, að hún fékkst aðeins rædd, að því er mig minnir, á einum einasta fundi og síðan ekki söguna meir. Og enginn afstaða fékkst tekin til málsins á Alþingi.

Einhver kann nú að spyrja: Er þetta mál þannig vaxið, að sérstök ástæða sé til þess, að Alþingi hafi afskipti af því, eða er þetta mál, sem eðlilegt má telja, að ríkisstj. ein fjalli um og afgreiði? Þetta er spurningin um tvennt: Í fyrsta lagi um eðli málsins og í öðru lagi, hvort málið sé svo stórt, að ástæða sé til, að Alþingi láti það til sín taka. Hæstv: ríkistj. segist leyfa þessar framkvæmdir, sem hér er um að ræða, á grundvelli herstöðvasamningsins, sem gerður var við Bandaríkin árið 1951 og jafnframt leggur hæstv. ríkisstj. á það mjög ríka áherzlu, hefur gert það áður og gerir ekki síður nú, að hér sé um eitthvert smámál að ræða, þarna sé aðeins um það að ræða að endurnýja eigin olíubirgðastöð þá, sem hefur verið í Hvalfirði um tveggja áratuga skeið. Það eigi að byggja fjóra nýja olíugeyma; það eigi að smíða einn vatnsgeymi, það eigi að byggja nýja bryggju og staðsetja þarna nokkur legufæri. Og það kemur greinilega fram í tilkynningunni, að á þetta er litið af hálfu hæstv. ríkisstj. eða það á að láta líta svo út af hennar hálfu, að þetta sé ákaflega lítið mál og þar af leiðandi sé ekki aðra að spyrja um það og sjálfsagt, að því er virðist, að verða við svona lítilli bón.

Ég leyfi mér að fara örfáum orðum um þetta stóra mál hér utan dagskrár, en skal ekki fara mjög langt út í það að þessu sinni. Ég vil leggja á það höfuðáherzlu, að ég tel það skyldu Alþingis að gera sér ljósa grein fyrir því, hvað hér er raunverulega um að ræða eða a.m.k. hvað hér getur verið á ferðinni. Þetta mál verður að skoðast í því ljósi, hvað áður hefur gerzt. Það verður að skoðast í því ljósi einnig; hversu hæstv. núv. ríkisstj. hefur staðið að málum og það einmitt viðkvæmum utanríkismálum, málum, sem lúta að öryggi okkar og sæmd sem þjóðar.

Þetta Hvalfjarðarmál á langan aðdraganda, og ég ætla ekki að fara að rekja hann. Það munu vera allt að því 10 ár, síðan íslenzkum stjórnarvöldum bárust tilmæli um það, að því er ég hygg frá Bandaríkjunum, en e.t.v. á vegum Atlantshafsbandalagins, að mega koma upp í Hvalfirði öflugri og varanlegri flotastöð, mun jafnvel hafa verið imprað á því að fá leyfi um slíkt til 99 ára, þ.e. um óralanga framtíð. Það er einnig vitað, að hernaðarsérfræðingar og þá sérstaklega flotasérfræðingar hafa lengi haft augastað á Hvalfirði sem hentugri bækistöð fyrir herskipaflota. Eftir að kjarnorkuvopn komu til sögunnar, einkum eftir að kafbátar voru búnir slíkum tækjum, urðu þess háttar bækistöðvar herflota mjög viðkvæm og mjög erfið vandamál. Hættan af slíkum flotastöðvum var og er flestum ljós, svo og það, að því fleiri og því dreifðari sem þess háttar stöðvar yrðu, þá gæti það aukið á spennuna í alþjóðamálum og jafnvel aukið

líkurnar á því, að allt gæti farið í bál og brand. Þess vegna eru flestar þjóðir mjög á verði í sambandi við þessi viðkvæmu mál. Ég skal aðeins nefna frændþjóðir okkar, Norðmenn og Dani. Þær hafa margsinnis gefið yfirlýsingar í sambandi við þessi mál, sem benda á hina fyllstu varfærni af þeirra hálfu.

Þegar svo var komið, að menn gerðu sér ljóst, hversu stórlega aukin hætta gat orðið af því að hafa herbækistöð í landi sínu, þrengdist eðlilega um og var erfiðara að finna stöðvar fyrir slíkan flota. Og því er ekki að leyna, að af hálfu hinna stóru hernaðarþjóða hefur verið hafður sérstakur augastaður á Íslandi og þá e.t.v. alveg sérstaklega á Hvalfirði. Á því svæði, sem segja má, að væri hættusvæði í sambandi við hernaðarmannvirki eða herstöð af einhverju tagi í Hvalfirði, búa að vísu um eða yfir 100 þús. manns. Þetta er mikill eða lítill fólksfjöldi eftir því, hvernig á það er litið, hvort það er litið á það frá sjónarmiði stórra og mjög mannmargra þjóða eða hvort það er litið á það frá sjónarmiði okkar Íslendinga, að á þessu svæði býr hálf íslenzka þjóðin.

Tilmælunum um framsal eða leigu á landi í Hvalfirði undir flotastöð var á sínum tíma hafnað, undir flotastöð til langs tíma. Þeim tilmælum var hafnað. En málið var ekki þar með úr sögunni. Ég hygg, að það sé rétt, að þau tilmæli hafi verið ítrekuð og það hafi jafnvel verið leitazt við að finna nýjar leiðir til þess að koma málinu á einhvern hátt í framkvæmd, e.t.v. í minna mæli, e.t.v. í áföngum, ef ekki vildi betur til. Það, sem ég og ég hygg að margir fleiri óttist, er það, að nú sé ætlun a.m.k. vissra aðila að gera tilraun til þess að framkvæma einhverjar slíkar fyrirætlanir smátt og smátt í áföngum og að heimildin, sem nú hefur verið veitt af hæstv. ríkisstj., geti verið fyrsta sporið, fyrsti áfanginn á þeirri leið. Eins og ég sagði áðan, er reynt að láta líta svo út sem þetta sé ákaflega lítið mál, það sé í rauninni ekki um annað að ræða en, að manni skilst, næstum óhjákvæmilegt viðhald á þeirri olíubirgðastöð, sem þarna hefur verið síðan á styrjaldarárunum. Sú birgðastöð hefur þó verið í íslenzkri eigu hin síðari ár og hvers vegna á þá að leyfa erlendum aðila, leyfa herbandalagi að koma sér þarna upp slíkri olíu- og benzínbirgðastöð, svo að maður nefni nú það eitt? Hvers vegna endilega á þessum stað, þeim stað, sem erlendir herfræðingar hafa hvað eftir annað lagt sérstaka áherzlu á, að væri hentugur sem herskipa- og jafnvel kafbátahöfn? Og hvers vegna að heimila sama erlenda aðila jafnframt þessu bryggjugerð, staðsetningu legufæra og byggingu vatnsgeymis handa skipaflota? Ég held, að allir, sem hugsa þetta mál, sjái að hér býr eitthvað annað og meira undir heldur, en viðhald einnar olíubirgðastöðvar, hæfilega stórrar fyrir hið fámenna herlið á Keflavíkurflugvelli og jafnframt einhverrar varastöðvar fyrir íslenzka aðila. Ég lít þannig á, að Alþingi verði að krefjast skýrra svara af hæstv. ríkisstj.

um það, hvað raunverulega býr að baki þessum aðgerðum. Ég held, að það þurfi ekki að fara um það mörgum orðum, að það er algerlega rangt, sem verið er að láta skína í, að þarna sé um að ræða ósköp venjulegt viðhald þessarar olíubirgðastöðvar, sem þarna hefur verið.

Ég tel ástæðulítið að fara mörgum orðum um þá röksemd, ef röksemd skyldi kalla, sem helzt hefur verið hampað í stuðningsblöðum stjórnarinnar á laugardag og sunnudag, að þessar framkvæmdir séu í og með eða kannske einna helzt til þess gerðar að draga burst úr nefi Olíufélagsins h/f, sem hefur haft þarna olíu- og benzínbækistöð, og blöðin leggja á það áherzlu, að á þeim bæ séu nefnilega samvinnumenn og framsóknarmenn innan veggja og þess vegna komi vel á vondan, ef gróði þeirra í þessu efni minnkaði eitthvað verulega. Í fyrsta lagi hef ég nú haldið, að innan Olíufélagsins h/f væri slíkt samkrull mattadora, a.m.k. úr Framsóknar- og Sjálfstfl. eða sem tilheyra þeim flokkum, að það væri dálítið líkt á komið og hjá Molbúunum forðum — eða kannske hafa það verið Bakkabræður, sem þekktu ekki lengur í sundur á sér fæturna. Ég er enginn talsmaður Olíufélagsins h/f og ég mun ekki harma hlutskipti neins, sem kynni að missa af einhverjum hernámsgróða, stórum eða smáum. En væri það ekki nokkuð dýru verði keypt að koma upp nýrri herbækistöð á vegum erlendra aðila til þess að svipta Olíufélagið einhverjum gróðamöguleikum í sambandi við varnarliðið, sem svo er kallað? Ég held, að ef þetta hefði í og með eða jafnvel sérstaklega vakað fyrir ráðamönnum, væru til þess ýmis önnur ráð. Ég skal aðeins nefna tvö. Það gagngerðasta væri að sjálfsögðu að segja upp herstöðvasamningnum og lofa herliðinu að fara úr landi. En þeim hv. stjórnarsinnum, sem þykir þetta of róttækt, vil ég hins vegar benda á, að það væri vissulega hægt fyrir ríkið að taka birgðastöðina í Hvalfirði eignar- eða leigunámi og sjá síðan um rekstur hennar og það viðhald, sem nauðsynlegt kynni að þykja miðað við allar aðstæður og eftir mati íslenzkra aðila.

Nei, ég held, að staðhæfingin um það, að Atlantshafsbandalaginu sé veitt þessi heimild til þess að annast viðhald núverandi birgðastöðvar í Hvalfirði, eigi ekki að þurfa að blekkja nokkurn mann. Að svo miklu leyti sem þörf var og er á slíkri birgðastöð, er hægt að leysa það mál á allt annan og Íslendingum miklu hættu minni og geðfelldari hátt.

Í lok tilkynningar utanrrn., þeirrar sem ég nefndi hér í upphafi máls míns, er eins og varpað sé svolítilli birtu á það, sem hér er í rauninni verið að framkvæma. Þar segir í lokin, að tilgangur þessarar nýju mannvirkjagerðar sé sá, að þau mannvirki séu til taks, sem þarna á að byggja, ef til ófriðar kemur eða dregur. Og nú vil ég spyrja í sambandi við þetta, sérstaklega við þetta orðalag: Hver á að ákveða það, hvenær ástandið í heimsmálum er talið það alvarlegt, að heimilt sé og rétt samkv. þessu samkomulagi að nota þessa bækistöð, gera hana að herskipahöfn eða kafbátalægi raunhæfu? Varla eru það Íslendingar, sem koma til með að ákveða þetta. Ætli það séu ekki heldur hinir herfróðu menn, fulltrúar þess aðila, sem kemur til með að eiga þessa bækistöð fyrirhuguðu í Hvalfirði? Ætli það verði ekki þeirra mat á því, hvort styrjaldarhætta sé það mikil, að ástæða sé til að koma hingað með herskipaflota? í því sambandi má minna á það, að þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, var því á sínum tíma heitið, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Árið 1951 var íslenzkum ráðamönnum sagt, að nú væri hættuástandið svo mikið, nú væri ný heimsstyrjöld yfirvofandi og þess vegna yrði herinn að koma og hann hefur setið hér síðan samfellt í meira en 13 ár. Mundi ekki eitthvað slíkt, eitthvað svipað geta gerzt a.m.k. að því er varðar þessa fyrirhuguðu stöð í Hvalfirði?

Ég heiti á hv. alþm. aðgera sér ljósan kjarna þessa máls gera sér það fyllilega ljóst, að þetta er stórmál og getur verið örlagaríkt mál. Hér er allt annað og meira á ferðinni heldur en að viðhalda og endurnýja þessa olíubirgðastöð, sem verið hefur í Hvalfirði. Fram að þessu hefur þar ekki verið um annað að ræða, en allmarga olíu- og benzíntanka og aðeins aðstöðu fyrir venjulegt olíutankskip til þess að athafna sig á þessum stað. Nú er hins vegar stefnt að því að reisa þarna birgðastöð fyrir herskip, birgðastöð með sérstakri bryggju og legufærum, afgreiðslu olíu, vatns og þá vitanlega annarra vista, jafnvel gæti farið þarna fram afgreiðsla hergagna, ef því væri að skipta. Þetta nýja hernaðarmannvirki er að sögn sjálfrar ríkisstj. Íslands samkv. tilkynningunni á föstudaginn ætlað til notkunar í styrjöld eða þegar ráðamenn Atlantshafsbandalagsins telja, að til styrjaldar kunni að draga. Ég býst við, að það verði ekki aðrir en þeir, sem kveða upp úr um það, hvenær til styrjaldar kunni að draga. Ég ætla ekki að fjölyrða um hættuna, sem af þessu getur stafað, að hægt verði að breyta Hvalfirði svo að segja á einni nóttu í herskipalægi. Ég læt nægja um það efni að vitna til skýrslu, sem sérfræðingur hæstv. ríkisstj. um almannavarnir hefur samið og öllum er kunn síðan í fyrra.

Ég vil að síðustu segja það, að ég tel það furðu gegna, að hæstv. ríkisstj. skuli gera þetta samkomulag um auknar hernámsframkvæmdir hér í landinu, á sama tíma og friðarhorfur hafa þó farið verulega vaxandi og til að mynda Bandaríkin hafa nýlega ákveðið að leggja niður mikinn fjölda herstöðva víðs vegar um heim. Og það er ekki síður furðulegt, að hæstv. ríkisstj, skuli leyfa sér að gera að Alþingi forspurðu samning eða samkomulag við erlendan aðila um nýja herbækistöð, um afhendingu nýs landssvæðis, afhendingu aðstöðu til handa herskipaflota, að athafna sig í íslenzkri landhelgi og á íslenzku landi. Um það eru þó skýlaus ákvæði í stjórnarskrá okkar, að ekki megi semja við erlenda aðila um kvaðir á íslenzku landi, án þess að samþykki Alþingis komi til. Ég mótmæli því, að Alþingi og utanrmn. þess skuli sniðgengin og hunzuð hreinlega í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég lít svo á, að Alþingi beri skylda til að fjalla um málið, krefjast nauðsynlegra upplýsinga og taka síðan afstöðu til þess á þinglegan og lögformlegan hátt. Einhliða afgreiðsla þess af hálfu ríkisstj. er, að því er mér sýnist, gerræði og lögleysa, og því skal harðlega mótmælt.