22.10.1964
Neðri deild: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

12. mál, vaxtalækkun

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til 1. umr., miðar aðallega að tvennu: að vextir skuli færast í það horf, sem þeir voru fyrir vaxtahækkunina 1960 og að hætt sé að draga hluta af sparifjáraukningunni úr umferð með því að leggja hann inn í Seðlabankann. Hér er um mjög þýðingarmiklar ráðstafanir að ræða og þýðingarmikla þætti í þjóðarbúskapnum og efnahagsmálastefnunni og raunar einnig stefnunni í atvinnumálum. Ég vil leyfa mér að skýra viðhorf okkar með fáeinum orðum.

Þegar ný stefna var tekin upp í efnahagsmálum 1960, var hún miðuð við það að ná jafnvægi ó þjóðarbúskapnum út á við og inn á við með því að draga úr kaupgetunni, setja henni takmörk með ríkisafskiptum og á þá lund að láta verðlag hækka og kaupgjald hækka minna, en verðlagið, draga þannig inn kaupgetuna, enn fremur, að framkvæmdum yrði stillt í hóf með því að hækka vextina, gera lánsfé dýrara, en það var, draga saman lánastarfsemina með því að leggja hluta af aukningu sparifjárins inn í bankakerfið og láta það ekki vera í umferð, eins og áður var gert samkv. þeirri stefnu, sem áður var fylgt. Enn fremur var þeirri ráðstöfun bætt við að láta Seðlabankann endurkaupa minna af afurðavíxlum frá sjávarútvegi og landbúnaði, en áður tíðkaðist. Þannig var lánastarfsemin dregin mjög saman og hefur verið leitazt við síðan að halda þeirri stefnu og í stað þess, að áður var öll sparifjáraukningin venjulega höfð í umferð í útlánum til almennings og framleiðslunnar, er nú bundna spariféð í Seðlabankanum komið upp í nálega 1.000 millj. kr. Langsamlega mest af því hefur verið dregið raunverulega úr innanlandsumferðinni. En jafnframt hefur samdrátturinn orðið meiri, því að í stað þess, að áður voru endurkeyptir víxlar vegna landbúnaðar og sjávarútvegs, sem samsvaraði 67% af andvirði þeirra vara, sem út á var lánað, hafa þessi útlán nú verið dregin stórlega saman eða niður í 53–55%. Með þessu hefur verið ætlunin að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En frá sjónarmiði okkar flm. eru þessar hagstjórnaraðferðir óheppilegar og raunar óðfluga að verða úreltar, a.m.k. að hugsanlegt sé að halda jafnvægi í þjóðarbúskap og fá sæmilega útkomu með ráðstöfunum einvörðungu í peningamálum, eins og reynt hefur verið að gera hér á þá lund, sem ég hef verið að lýsa. Þetta er vegna þess fyrst og fremst, að slíkar ráðstafanir koma niður þar sem sízt skyldi og lama mjög þýðingarmikla þætti í þjóðarbúskapnum. Vil ég fara um þetta örfáum orðum.

Samdrátturinn á lánunum kemur niður fyrst og fremst, þegar til lengdar lætur, á framleiðslustarfseminni og unga fólkinu í landinu, sem þarf á lánsfé að halda til þess að koma sér fyrir í atvinnurekstri eða byggja upp sín eigin heimili. Það eru þessir aðilar, unga fólkið, sem er að koma sér fyrir og framleiðslan, sem mest þurfa á lánsfé að halda. Hinir, sem eru búnir að koma sér fyrir, — ég tala nú ekki um, þeir sem hafa mikil peningaráð, ráða yfir miklu fjármagni og auðmagni sjálfir, — þurfa minna á lánsfénu að halda. Þess vegna verður hækkun vaxta og lánasamdráttur fyrst og fremst vatn á myllu þeirra, sem eiga peninga, sem eiga fjármagnið, en kemur harðast niður á framleiðslunni og yngri kynslóðinni.

Fyrir framleiðsluna hefur þessi lánapólitík orðið alveg sérstaklega hættuleg og mætti nefna í því sambandi mörg átakanleg dæmi úr landbúnaði og sjávarútvegi, en efst er mér í huga að nefna eitt dæmi, sem hefur komið fyrir augu manna nú alveg nýlega. Vísa ég í því efni til rits, sem heitir „Íslenzkur iðnaður“. Þar er rætt um ástandið nú hjá vélsmiðjunum í landinu. Það eru fyrirtæki, sem hafa mikla framleiðslu og þyrftu að verða mjög vaxandi liður í okkar þjóðarbúskap. Þar er rætt um, að rekstrarfjárskorturinn sé versta vandamálið, bæði fyrir þessi fyrirtæki og ýmsar aðrar greinar iðnaðarins, og vísað í því sambandi á, að þeir eigi við að búa samkeppni erlendis frá, þar sem rekin er allt önnur vaxtapólitík, þar sem vextirnir eru miklu lægri og fyrirtækin eigi kost á miklu ríflegra rekstrarfé. Og síðan segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenzkir framleiðendur njóta engrar slíkrar fyrirgreiðslu og það sem verra er, þeim hefur ekki reynzt kleift að fá það rekstrarfé hjá viðskiptabönkunum, sem nauðsynlegt er til hagkvæms rekstrar fyrirtækjanna:

Í þessu sama blaði er viðtal við Svein Guðmundsson, forstöðumann öflugs fyrirtækis í þessari grein og hann segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarið höfum við orðið að framleiða með hálfum afköstum, fyrst og fremst vegna lánsfjárskorts og erfiðrar samkeppnisaðstöðu.“

Þetta gerist þegar sú lánapólitík er rekin, sem ég var að lýsa hér áðan. Þá segir þessi framkvæmdastjóri, að gefinn hafi verið ádráttur um að bæta úr þessu og verði reynt að fylgja fast eftir að það komist í framkvæmd og hann segir, að þegar það verður, muni vélaiðnaðurinn aftur geta rétt úr kútnum og haldið áfram að vera sú lyftistöng sjávarútvegsins, sem hann var orðinn. Það er ekki hægt að hugsa sér greinilegri vitnisburð, en þetta um þau áhrif, sem stjórnarstefnan hefur haft í atvinnulífinu. Hann ber það alveg ótvírætt með sér, að hér hefur hallað stórkostlega undan fæti og liggur við stóráföllum og ástandið hefur stórversnað frá því, sem það var orðið, því að framkvæmdastjórinn leggur áherzlu á, að þessi fyrirtæki hafi haft áður mun betri aðstöðu.

Þannig eru mýmörg dæmi úr atvinnulífinu, og menn geta svona hér um bil ímyndað sér, hvaða áhrif þessi stefna í lánamálum muni hafa á möguleika fyrirtækjanna til þess að innleiða aukna vélvæðingu og aukna framleiðni og aðrar ráðstafanir, sem þarf til þess að borga nægilega hátt kaup. En nú er ástandið orðið þannig, að ýmis fyrirtæki af þessu tagi telja sig ekki geta borgað hærra kaup en nú er greitt, þótt hér sé eitthvert lægsta kaup í Evrópu. Þó eru mikil uppgrip í þjóðarbúinu hér og því er einhvers staðar meira, en lítil skekkja í þessu öllu saman. Hún er svo m.a. í þessu fólgin, hvernig lánapólitíkin er, sem hefur verið rekin og vaxtapólitíkin, þótt fleira komi þar vitanlega einnig til.

Við þessu viljum við flm. frv. alvarlega vara og það er m.a. þetta, sem við höfum í huga, þegar við höfum verið að beita okkur á móti því undanfarin ár, að þessari lánastefnu yrði fylgt og viljað breyta til.

Með margvíslegu móti hefur þessi lánastefna og stefna hinna háu vaxta haft stórhættuleg áhrif í þjóðarbúskapnum. Dýrtíðaráhrif háu vaxtanna hafa orðið stórfelld og miklu stórfelldari, en forráðamenn stjórnarflokkanna hafa viljað viðurkenna, því að vextirnir spinna sig alls staðar inn í efnahagskerfið og áhrif þeirra verða keðjuáhrif, margföld í öllum greinum. Það er ekki aðeins, að vextirnir af lánunum komi þar til greina, heldur lagar allur fjármagnskostnaður, húsaleiga, gjöld eftir hvers konar eignir og það, sem reiknað er fyrir alls konar afnot af eignum, — það lagar sig allt eftir þeim vöxtum, sem í landinu gilda, þegar til lengdar lætur. Og þess vegna var það vafalaust m.a., að núv. ríkisstj. lét fylgja það fyrirheit, að hinir háu vextir skyldu ekki standa nema stutta hríð. Það skyldi verða breytt til, undireins og jafnvægi næðist í þjóðarbúskapnum. En henni hefur ekki heppnazt að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum, og háu vextirnir standa enn til stórtjóns fyrir framleiðsluna og hafa haft mjög mikil áhrif á þá dýrtíðarþróun, sem orðið hefur í landinu.

Fjármagnskostnaðurinn hefur orðið vaxandi baggi, bæði hjá einstökum heimilum, sem eru að brjótast í því að koma sér fyrir og eins hjá framleiðslufyrirtækjum, eins og þráfaldlega er sýnt fram á með einstökum dæmum og það af mönnum, sem hreint enga tilhneigingu hafa til þess að gera lítið úr núv. hæstv. ríkisstj. eða nokkra tilhneigingu til þess að deila á hana.

Þá er sá þáttur í þessari útlánastefnu, sem hefur orðið mjög örlagaríkur og hann er sá, að með því að draga inn í seðlabankakerfið hluta af sparifjáraukningunni, hefur stórfé verið dregið utan af landsbyggðinni, þaðan sem sízt skyldi og minnst fjármagn er fyrir og til frystingar í Seðlabankanum. Í því sambandi ber að minnast á þær fjárhæðir, sem dregnar hafa verið úr innlánsdeildum samvinnufélaganna og frá sparisjóðum víðs vegar um landið og eru þetta allt orðnar mjög háar fjárhæðir og hafa vitanlega lamað fjármálastarfsemi úti um land.

Þá kemur spurningin, sem oft hefur verið rædd á hv. Alþingi og hún er þessi: Er sú útlánastefna, sem mótuð er í þessu frv., sem við hér berum fram, verðbólgustefna í lánamálum? Við segjum, að svo sé alls ekki. Okkar stefna er miðuð við, að spariféð sé yfirleitt haft í umferð, eins og áður var og að Seðlabankinn taki a.m.k. ekki minni þátt í rekstrarfjáröfluninni í landinu, en áður var, með því að auka endurkaup sín á afurðavíxlum upp í það, sem áður tíðkaðizt. Við höldum því fram, að þessi stefna sé ekki verðbólgustefna, heldur muni slík útlánastefna þvert á móti ýta stórkostlega undir framleiðsluna í landinu og leysa rekstrarfjárvandamál atvinnuveganna mjög verulega, þannig auka framleiðsluna og verða til þess að stuðla að auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum og minni verðbólgu. Við álítum, að það muni sýna sig í framkvæmdinni, að það borgar sig ævinlega fyrir þjóðfélagið að trúa dugmiklu fólki fyrir sparifénu til ávöxtunar og því lánsfé muni reynast vel varið, sem fer til þess að sjá grundvallaratvinnuvegunum fyrir rekstrarfé. Við teljum, að það sé nauðsynlegt fyrir Íslendinga, sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða, að tjalda því sem til er í þessu efni og hafa fjármagnið í umferð, það muni styðja bezt þjóðarbúskapinn og teljum reynsluna ólygnasta í því efni.

Ég hef nú talið fram nokkra ókosti við þá lánastefnu, sem fylgt hefur verið og stefnu í vaxtamálunum og skal í framhaldi af því aðeins minnast örfáum orðum á það, sem formælendur þessarar stefnu hafa haldið fram um það, að óhjákvæmilegt væri að fylgja henni til þess að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Ég skal fara fáeinum orðum um þetta sjónarmið.

Þessum ráðstöfunum var ætlað að skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á peningamarkaðinum. Háu vextirnir áttu að tryggja þetta. En við bendum á, að ófullnægð eftirspurn eftir lánsfé muni aldrei hafa verið meiri en nú. Því fer fjarri, að þessu markmiði hafi verið náð með efnahagsmálastefnunni, sem þessi lánapólitík er sterkur þáttur í.

Þessum ráðstöfunum var ætlað að koma í veg fyrir verðbólguþróun, skapa stöðugt verðlag og jafnvægi í efnahagsmálum. Það dylst þó engum, að dýrtíðarflóðið hefur farið sívaxandi undanfarið og dýrtíðarvöxturinn hefur orðið margfalt meiri þann tíma, sem þessi útlánastefna hefur verið framkvæmd, en áður var. Um þetta hefur verið rætt hvað eftir annað á hv. Alþingi og sýnt fram á með óyggjandi rökum. Það breytir engu í þessu, þó að vexti verðbólgunnar sé núna leynt að sumu leyti um stundarsakir með síauknum niðurgreiðslum og mun það fljótlega koma í ljós, að þar hefur engin grundvallarbreyting á orðið.

Það var sagt, að þessar ráðstafanir væru alveg óhjákvæmilegar til þess að skapa grundvöll að fullkomnu viðskiptafrelsi. En í staðinn fyrir viðskiptafrelsið hefur þjóðin fengið lánsfjárhöftin, sem ég hef verið að lýsa, með þeim afleiðingum, sem það hefur haft fyrir atvinnufyrirtækin og almenning í landinu og skal ég ekki endurtaka það, sem ég er áður búinn að segja um það. Því fer þess vegna alls fjarri, að nokkurt frelsi hafi orðið árangur þessarar stefnu.

Í því sambandi leyfi ég mér að vísa aftur á dæmi úr atvinnulífinu. Í Morgunblaðinu, aðalmálgagni ríkisstj., 20. okt. 1964 er grein, sem heitir: „Á að eyðileggja tréskipasmíði Íslendinga?“ Hún er rituð af Hannesi Þorsteinssyni, sem er vel kunnugur þessum málum, og mun enginn væna hann um að rita þessa grein að ófyrirsynju, til þess að sverta ríkisstj. eða þá, sem að henni standa. Það er óhugsandi að bera honum slíkt á brýn. Hann er aðeins að, segja frá því, hvernig þetta verður í framkvæmdinni. Hann byrjar á því að segja, að „hér“, þ.e.a.s. í þeim iðnaði, sem hann er kunnugastur „eins og annars staðar í íslenzku atvinnulífi," — ég vil biðja menn að hlusta eftir þessu, — „er það fyrst og fremst rekstrarfjárskorturinn, sem er versti þröskuldurinn“ Það er í hans augum alveg eins og forstjóra Héðins rekstrarfjárskorturinn, sem er versti þröskuldurinn, og svo hvað rekstrarféð er dýrt. Síðan segir Hannes Þorsteinsson frá því, að hann var að glíma við að kaupa efni til skipabygginga, en þá hafi hann rekið sig á hinar ótrúlegustu tálmanir á þeirri leið. Fyrst og fremst var það rekstrarfjárskorturinn. En þá ætlaði hann að reyna að bæta úr því með því að fá lán erlendis til þess að kaupa þetta efni. Er það raunar gott dæmi um það, hvernig þessi lánasamdráttur hér heima fyrir hefur verkað í þá átt, að menn hafa orðið að safna lausaskuldum erlendis, eftir því sem þeir hafa getað, til þess að halda fyrirtækjum sínum gangandi. En þá rak Hannes Þorsteinsson sig á það, að á þeim tíma var ekki heimilt að stofna til langra vörukaupaskulda nema með leyfi bankanna. Síðan segist hann hafa farið á stúfana til þess að reyna að útvega sér leyfi til að bjarga sér á þennan hátt, því að rekstrarfé fékk hann ekki hjá íslenzkum viðskiptabönkum, auðvitað fyrst og fremst vegna þess, að verulegur hluti af sparifjáraukningunni er hreinlega tekinn af viðskiptabönkunum og lagður inn í seðlabankakerfið. Lýsir hann svo því, hvernig hann hafi reynt að fá því framgengt, að hann gæti tekið þetta rekstrarlán erlendis. Og hann segir orðrétt :

„En hver urðu svo viðbrögð bankayfirvalda,“ — ég skal taka það fram, að hann hefði náttúrlega alveg eins getað sagt ríkisstj., því að það er ríkisstj., sem setur bönkunum allar reglur í þessu efni, en hann segir nú bankayfirvalda, vegna þess, að það voru bankastjórarnir og bankamennirnir, sem hann átti samtöl við, en öll þessi stefna er ákveðin af stjórnarvöldunum, — hann segir: „En hver urðu svo viðbrögð bankayfirvalda, þegar þessum ósköpum hafði verið hleypt af stokkunum, sem sé að útvega íslenzkum skipasmiðastöðvum lán út á efnivöru, sem í flestum tilfellum nemur þó ekki meira en ca. 6—7% af endanlegu söluverði skips? Formsins vegna varð að veita þessi vörukaupalán á þriggja mánaða víxlum, sem síðar urðu framlengdir með öðrum víxlum, fyrst um þrjá mánuði og síðar um aðra þrjá mánuði. Samtals yrðu þá lánin 9 mánaða, eins og fyrr segir. Nú upphófst“ — og nú vil ég biðja menn að muna, að þetta er lýsing á frelsinu, eins og það er nú í framkvæm, og áreiðanlega ekki sagt af manni, sem vill gera hlut ríkisstj. verri en hann er. „Nú upphófst mikið þref og furðulegar Canossagöngur frá Heródesi til Pílatusar og síðan aftur frá Pílatusi til Heródesar. Sú saga er svo löng og furðuleg og mér liggur við að segja skringileg, að það væri farið út fyrir hinn alvarlega ramma þessarar greinar, ef allt yrði upp talið.“ Þannig gekk þetta í landi frelsisins, sem stjórnin segir að Ísland sé orðið í viðskiptalegu tilliti. „Og hver var svo árangurinn?“ Er áfram orðrétt. „Bankarnir leyfðu alls 6 mánaða greiðslufrest. Punktum og basta. Meira var ekki leyft. En hvers vegna ekki 9 mánaða greiðslufrest, þegar fullbúin skip fengust allan tímann flutt inn með 7 ára gjaldfresti á allt að 70% af kaupverðinu? Þessari spurningu er enn ósvarað," segir greinarhöfundur.

Það er sannarlega ekkert frelsi, sem menn búa við, eins og fullnægjandi kemur fram af þeim tveimur dæmum, sem ég hef tekið.

Þá var þessari nýju efnahagsmálastefnu ætlað að lækka skuldir landsins út á við. En nú hefur hún verið framkvæmd í nálega 5 ár og þessi 5 ár hafa verið allra mestu uppgripaár af náttúrunnar hendi, sem íslenzka þjóðin hefur nokkru sinni lifað. Skyldu menn nú halda, að það væri búið að lækka hressilega skuldir landsins út á við, því að það var beinlínis sagt, þegar til viðreisnarinnar var stofnað, að menn yrðu að taka á sig nokkra bagga til þess að lækka óbotnandi skuldir landsins út á við, sem orðnar væru vegna skakkrar stjórnarstefnu. En niðurstaðan er sú, að séu innistæður þær, sem landsmenn eiga, og þar með hinn margumtalaði gjaldeyrissjóður, dregnar frá skuldunum, eins og sjálfsagt er að gera, eru skuldir þjóðarinnar út á við nú miklu hærri en þær voru, þegar byrjað var að framkvæma þessa stefnu, mörg hundruð millj. kr. hærri og lausaskuldir hafa vaxið um mörg hundruð millj., þ.e. lán til stutts tíma hafa vaxið um mörg hundruð millj. kr., eins og ekki er óeðlilegt, þegar lánapólitíkinni er hagað þannig, að fyrirtækin verða annað hvort að draga reksturinn stórkostlega saman eða neyðast till að skrapa sér rekstrarlán til stutts tíma erlendis, að svo miklu leyti sem hægt er að fá leyfi til að gera slíkt.

Þá var þessum ráðstöfunum ætlað að afnema uppbætur í öllum myndum. En uppbætur og niðurgreiðslur eru nú orðnar stórfelldar og fara hraðvaxandi, eins og nógsamlega er kunnugt.

Það er því sýnilegt, að þessar aðferðir hafa alls ekki náð þeim tilgangi, sem upphaflega var álítið að þær ættu að ná, en á hinn bóginn hafa stafað af þeim mikil vandkvæði og þær hafa orðið mjög til tjóns á mörgum sviðum. Það er þess vegna mál til komið að okkar dómi að snúa hér við og breyta um stefnu í lána- og vaxtamálum. Ég skal bæta því við, að þessar ráðstafanir áttu að koma sparifjáreigendum mjög til góða og sú efnahagsmálastefna, sem hin mikla vaxtahækkun var liður í. En á þessum árum hefur rýrnun sparifjár, orðið meiri en nokkru sinni áður á jafnstuttum tíma og sú rýrnun á sparifénu hefur gert miklu meira, en éta upp þann stundarhagnað, sem sparifjáreigendur virtust hafa af hækkun vaxtanna.

Það sýnir sig einnig af þessu, sem hér hefur verið dregið fram, að sú pólitík að ætla sér að stjórna landinu með peningapólitískum ráðstöfunum af þessu tagi einum saman er alveg óframkvæmanleg hér, eins og dæmin sýna, m.a. vegna fjármagnsfátæktar Íslendinga. Það kemur sem sé í ljós ofan á allt annað, að bæði almenningur og sjálf ríkisstj., freistast til þess að taka þeim mun meira af lánum erlendis sem harðara er gengið fram í því að draga lánastarfsemina saman heima fyrir. Og niðurstaðan verður þess vegna sú, sem ég hef veríð að lýsa.

Við, sem stöndum að þessu frv., höldum því fram, að það sé eðlilegt og skynsamlegt að hafa sparifé þjóðarinnar í umferð í lánum, tjalda því, sem til er í þeim efnum, reyna að komast út úr þeim vanda, sem þjóðarbúið er í, með því að nota fjármagnið haganlega til að auka rekstrarfé atvinnuveganna og greiða fyrir þeim, sem þurfa að koma sér fyrir og af þessu muni verða framleiðni- og framleiðsluaukning, sem muni hjálpa stórkostlega til að leysa þann hnút, sem orðinn er í kjaramálunum. Þetta er í örfáum orðum það, sem fyrir okkur vakir og ég er alveg sannfærður um, að rás atburðanna hlýtur að þvinga þessa stefnu fram. Það hlýtur að verða að hætta þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í þessum efnum. En spurningin er bara: hversu lengi ætla menn að stimpast á móti?

Ég þykist vita, að það verður komið hér á eftir í þessum umr. eða öðrum umr. og sagt: Það á að auka útlán til iðnaðarins og sennilega verður sagt, að eitthvað af því fé, sem dregið er inn í Seðlabankann, eigi einmitt að nota í því skyni. Það var líka sagt í fyrra, þegar ráðstafanir voru gerðar til þess að taka meira fé af viðskiptabönkunum, en áður hafði verið gert. Mér er þó ekki kunnugt um, að neitt hafi enn verið framkvæmt í þá átt að greiða fyrir iðnaðinum í því tilliti. En e.t.v. er samt svolítið lát á stjórnarvöldunum í þessu efni eins og fleirum og má það teljast gott, ef svo væri. Þótt slíkt sé vitanlega ekki fullnægjandi, að látið sé undan að einhverju litlu leyti, en meginstefnunni haldið, er það árangur af baráttunni, ef lát er á þessu. En hér dugir ekki minna að dómi okkar flm. en að breyta alveg um stefnu, eins og stungið er upp á í frv.

Við höfum lagt fram hliðstætt frv. þessu á undanförnum þingum, en stjórnarflokkarnir lagzt á móti og hef ég nú rætt í leiðinni ýmislegt af þeim ástæðum, sem færðar hafa verið fram fyrir því, að ekki hefur verið á það fallizt. En nú á milli þinga í sumar hefur gerzt mjög merkur atburður, sem snertir þetta mál. Ríkisstj. hefur sem sé látið undan síga í vaxtamálunum á þann hátt, að heitið hefur verið að lækka vexti á íbúðalánum um 4% eða um helming, í 4% úr 8%. Er sanngjarnt að minnast þess í þessu sambandi, að framsóknarmenn sýndu fram á það með óyggjandi rökum á síðasta Alþingi, að kjaramálin voru þá orðin óleysanleg með öllu að óbreyttum þeim húsnæðiskostnaði, sem orðinn var, m.a. vegna óhagstæðra lána til íbúðabygginga. Ekki vildi ríkisstj. hæstv. á þetta hlusta þá og var þá kallað lýðskrum og yfirboð að berjast fyrir vaxtalækkun. En þegar kom fram á vorið eða fram á sumarið, kom það fram, sem framsóknarmenn höfðu bent á, að það var ómögulegt að koma á nokkrum kjarasamningum að óbreyttri stefnu í vaxtamálum. Og þegar ríkisstj. stóð frammi fyrir þessu, stóð frammi fyrir verkalýðsfélögunum og stóð frammí fyrir þessum óleysanlega vanda, reyndist allt í einu framkvæmanlegt að lækka vextina, sem áður var talið fjarstæða og algert brot á stjórnarstefnunni og mundi tefla jafnvægi efnahagsmála landsins í hættu. Og þá var hægt að lækka þá um hvorki meira né minna en helming, úr 8% í 4%.

Nú er alveg óhjákvæmlegt að lækka einnig vexti af öðrum stofnlánum, eins og við flm. leggjum til í þessu frv. og er það þáttur í baráttu okkar fyrir almennri vaxtalækkun. Ég nefndi dæmi úr iðnaðinum til þess að sýna, hvernig hin nýja vaxtapólitík ríkisstj., verkar fyrir þann atvinnuveg. Ég tek dæmi úr landbúnaðinum. Ég tek árgjald af 200 þús. kr. ræktunarsjóðsláni og 100 þús. kr. byggingarsjóðsláni. Vextir af þessum tveimur lánum voru áður rétt um 10.200 kr., en hafa nú hækkað um hvorki meira né minna en 5.500 kr. Þar að auki er svo launaskatturinn á bændurna til lánasjóðanna. Það er þá ekki um neinn smáræðisskatt að ræða á sveitaheimilin, sem fylgir hinni nýju lána og vaxtapólitík ríkisstj.

Ég nefni þetta dæmi til að sýna, hversu nauðsynlegt það er að halda áfram baráttunni fyrir lækkuðum stofnlánavöxtum í landbúnaðinum og öðrum greinum, til samræmis við það, sem nú þegar hefur náðst fram varðandi íbúðalánin.

Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. fjhn, að afloknum umræðum.