04.05.1965
Neðri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

66. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., skrifaði ég undir það með fyrirvara. Ég er alveg sammála því út af fyrir sig, að frv. verði vísað til ríkisstj., sem láti endurskoða þau lög, sem þarna er um að ræða, og þær ábendingar, sem fram koma í frv. sjálfu. Það var aðeins síðasta mgr. 1. gr., sem ég vildi vekja athygli á, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nú reynist ekki kleift að ná í skipstjóra þess skips, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum í landhelgi eða hann neitar að mæta fyrir rétti og er þá heimilt að stefna útgerðarfélagi skipsins, sem bera skal alla ábyrgð á brotinu.“

Mér finnst, að einmitt þetta atriði þurfi að skoðast alveg sérstaklega, hvort það getur talizt framkvæmanlegt, að útgerðarstjórn eins skips geti borið alla ábyrgð á broti, sem skipstjóri skipsins hefur framið. Það er vitað, að í l. er það, að verði sektir ekki greiddar innan tilskilins tíma, er um fangelsisrefsingu að ræða og hlýtur það að vera mjög óeðlilegt, að útgerðarstjórn, sem engan hlut á að brotinu, geti lent annaðhvort í hárri fjársekt eða þá að verða að sæta fangelsisrefsingu. Það var þetta ákvæði eða þessi mgr., sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á í sambandi við frv. nú við þessa umr.