15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil einungis til frekari áréttingar því, sem hæstv, sjútvmrh, sagði, taka fram það, sem raunar var nógsamlega útskýrt í umræðum um þessi mál á síðasta Alþingi, að sá ákvörðunarháttur, sem þá var hafður á um fiskverðið, er í samræmi við almenn dómsköp, sem óumdeilt hefur verið beitt alla tíð af íslenzkum dómstólum, og ég veit enga undantekningu þar frá, enda er ekki hægt að sjá, hvernig á að fara öðruvísi að, ef niðurstaða á að fást. Hitt er svo annað mál, að þetta kann mjög að ýta á aðila um að fá niðurstöðu og semja sín á milli, vegna þess að annars getur hvorugur með neinni vissu vitað, hver niðurstaðan verður. En ég held, að að l. óbreyttum sé ekki nokkur leið önnur til að fá úr þessu skorið. Mér er það a.m.k. dulið, og ég hef ekki getað fengið útskýrt, hvernig öðruvísi ætti að að fara, nema því aðeins að menn vilji fallast á það, að þessi fjölskipaði dómur geti haft leyfi til að komast ekki að niðurstöðu, en þannig er ekki um neinn dóm. Það hvílir á honum skylda að komast að niðurstöðu. Og þá eru þessar reglur viðurkenndar sem leiðin til þess, að niðurstaða verði fundin.

Þessi leið varð þess valdandi, að nokkur ágreiningur kom upp snemma á þessu ári um, hvort úrskurðurinn fengi staðizt. Ég minnist þess, að því var hreyft hér á Alþingi, hvort úrskurðurinn væri löglegur, og því var haldið fram af sumum, að hann fengi ekki staðizt og það mundi verða höfðað mál til að fá úrskurðinn ógiltan. Ég lýsti mig þá þess mjög hvetjandi, að slík málshöfðun yrði ákveðin, til þess að um þetta yrði ekki deilt. Það er auðvitað sjálfsagt, að um þessi efni gangi rétt lög í landinu. Og ef mönnum sýnist misjafnt um skilning á þessu ákvæði, hvort dómurinn hafi þarna farið út fyrir sitt valdsvið eða ekki, þá er rétta leiðin að bera það undir almenna dómstóla. En mér skilst, að enginn hafi orðið til þess, sjálfsagt af þeirri ástæðu, að þegar menn skoðuðu þetta nánar, þá hafa þeir sannfærzt um, að þetta er, eins og ég segi, í samræmi við hin almennu dómsköp. Og ef menn ætla sér að láta gerðardóm kveða á um þetta, þá er engin leið önnur til að komast að niðurstöðu. Hins vegar er eðlilegt, að hv. 5. þm. Austf., sem að meginstefnu til er því andvígur, að gerðardómur fjalli um þetta, vilji ekki, að þessi leið verði farin, vegna þess að þá gæti slíkt orðið til þess að gera lögin að engu. Þá gæti hvor aðili sem er, hvenær sem er, haft í hendi sér, að engin niðurstaða fengist.