11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir hans hógværu og viturlegu ræðu hér áðan. Meginuppistaðan að efni til í ræðu hans, þessa hv. þm., var það, að ég héldi fram útdauðum sjónarmiðum, sem hefðu átt helzt við hjá gömlum hreppstjórum og stórbændum, í öðru lagi, að ég mundi vera vel til fallinn að kenna unglingum 12–13 ára að stela, stofna þjófaskóla, skildist mér og verða skólastjóri, í þriðja lagi, að 13 ára drengur hefði beðið bana undir traktor, skildist mér. Þetta var aðalinntak ræðunnar. En það var ekkert hrakið af því, sem ég sagði, enda var það ákaflega erfitt, því að ég tók ekki nokkurn hlut fram nema það, sem var í frv. Ég las það upp, þannig að það fór ekkert á milli mála, þetta stóð þarna, þannig að efnislega hef ég ekki miklu að svara viðvíkjandi því, sem ég sagði. Það var allt óhrakið, enda allt satt.

Ég tek það mér til tekna að vera líkur hreppstjórum og stórbændum hér áður, því að það voru yfirleitt valdir mætustu menn í hverju sveitarfélagi til að vera hreppstjórar. Það voru yfirleitt menn, sem hjálpuðu heldur en hitt. Þetta voru menn, sem höfðu traust. Ég tel mér það ekki heldur til skammar að vera líkt við stórbændur. Þetta voru yfirleitt dugnaðar- og manndómsmenn. Náttúrlega voru misjafnir menn í þessum hópi, eins og gerist og gengur, og vafalaust hafa þeir haft sínar yfirsjónir og sínar syndir eins og aðrir menn. En það er ekki skammaryrði að líkja mér við þessa menn, og ég tek mér það til tekna. En viðvíkjandi því, að ég sé vel fallinn sem skólastjóri einhvers konar þjófaskóla, þá vil ég frábiðja mig þeim heiðri, því að ég tel mig ekki færan um það að kenna börnum að stela, ég hef enga æfingu í því.

Það kom fram hjá hv. ræðumanni, að hér væru unglingar að stela 12–13 ára. En af hverju eru blessuð börnin að stela? Það eru engar líkur til, að þetta séu fædd verri börn en gerist og gengur, svo er yfirleitt ekki um börn. Það eru flest börn góð og ég held, að flestir vilji vera góðir við börnin. En af hverju eru blessuð börnin að stela? Það er af því, að þau hafa ekki nóg að gera. Það er ráðið, sem drottinn fann út, þó að hæstv. menntmrh. og hv. 3. þm. Reykv. virðist ekki skilja það, — það er ráðið til að auka dyggðir, líkamlegt og andlegt heilbrigði, það er að vinna, en ekki að banna börnum að vinna. Annars hélt ég, að það þyrfti engan skólastjóra yfir neinum þjófaskóla hér á landi. Ég held, að þessir kommúnistaforingjar séu þar alveg nægilegir leiðbeinendur. Þar sem kommúnistar ná völdum, sem þessi hv. 3. þm. Reykv. hefur unnið ötullega að, þar er öllu stolið af öllum og það er ekki hægt að gera betur. Ég gæti ekki kennt unglingum að gera betur, mér væri það ómögulegt og ekki eins vel.

Barnavinurinn Stalín, sem lengst af hefur verið andlegur páfi þessa hv. þm., hafði það fyrir sið með þessa stóru bændur, sem kallaðir voru kúlakkar, ef þeir voru sæmilega bjargálna, að þeir voru teknir og fluttir til Síbiría, þ.e.a.s. ef þeir náðu lifandi þangað, ef þeim var ekki lógað áður. Börnunum var sleppt og þau fengu að vappa grátandi um. Ég hef lesið bækur um þetta. Þetta sögðu þessir hv. fulltrúar, þessi hv. 3. þm. Reykv., að væri tóm lygi, þar til Krúsjef sannaði þetta allt saman. Og það var ekkert verið að hirða um, þótt fólk dæi úr sulti í þessum blessuðum Ráðstjórnarríkjum. Það hrundi niður, þegar þeir voru að koma á samyrkjubúum bændanna, í milljónatali, fólkið í Úkraínu, úr hungri. Það var ekkert verið að hugsa um það, enda lýsti Krúsjef því yfir, þegar hann var að kaupa ameríska kornið, að fyrirrennari sinn, Stalin, mundi ekki hafa verið að því braski, heldur lofað því að sálast, fólkinu þar. Ég efa það ekki, að hv. 3. þm. Reykv. er mannvinur og vill allt vel. Þetta voru hans andlegu feður, sem gerðu þetta og það var allt gott hjá þeim. Ég er ekki að halda því fram, að hann sé neinn barnaóvinur, en það hef ég ekki ástæðu til að halda um aðra heldur. Ég held yfirleitt, að allt sæmilegt fólk sé gott við börn. Sem sagt, ég held, að það sé alveg óþarfi af ríkinu að fara að kosta neinn þjófaskóla hér á landi, því að það er allt í gangi, eftir því sem hægt verður, með þessari virðulegu kenningu. Það er stolið öllu af öllum og víð höfum ekkert til að jafna við nema aðfarir Húnanna, þegar þeir æddu yfir Evrópu. Þá fengu þeir að lifa, sem ekki óhlýðnuðust þeim í neinu, skrimta, en það var allt étið upp, sem þeir áttu, og þeir æddu yfir Rússland og fleiri lendur þá og komust alla leið til Frakklands einu sinni. Það sama var með nazistana, þeir fóru þannig með júðana, að þeir sálguðu þeim og rændu þá, og við höfum þar fordæmi. En þó að 12–13 ára börnum verði það á í iðjuleysi sínu að næla í eitthvað, ber ekki að taka það of alvarlega.

Þegar ég var unglingur, sagði mér einu sinni gamall bóndi, að þegar hann var drengur, varð honum það á að taka eitthvað, sem hann átti ekki og borða það. Það var ekki búið að skammta honum það a.m.k. Og þá sagði hann mér um konu þar á heimilinu, að hún hefði talað um það við sig, — hún sá til hans, — að hann skyldi nú aldrei gera þetta aftur. Hann minntist þess alltaf með hlýleik, hvað hún hefði farið vel og viturlega að þessu, hún sagði engum frá þessu og hann sagðist aldrei hafa gert þetta aftur. En samkv. þessum nýju barnaverndarlögum er þetta dálítið líkt kenningum nazista og kommúnista. Það var sem sagt, ef einhver drýgði einhvern glæp, sérstaklega gagnvart þessari göfugu stjórnmálastefnu, sem þeir ráku, var hans skylda að klaga og kæra og það er andinn í þessu frv. Ef einhverjum unglingi verður á einhver yfirsjón, er það skylda þeirra, — það er alveg skýrt tekið fram í frv., — þá er það skylda þeirra, sem vita um þetta, að kæra það og ef þeir ekki gera það, eru þeir orðnir sekir sjálfir. Þetta er alveg nýr andi, sem kemur þarna inn í nokkrar greinar í frv., andi, sem hefur ekki ríkt hér á landi og ég skil ekki fullkomlega. Og vera má, að þetta sé ný uppeldisaðferð, sem eigi að þroska og göfga ungdóminn í þessu þjóðfélagi. En það er hlutur, sem ég skil ekki. Ég held, að það sé réttara að nota aðrar leiðir en hlaupa til að klaga unglinga, þó að þeim verði eitthvað á, því að öllum verður eitthvað á.

Ég held, að það sé þá að mestu svarað þessum hávaða og látum í þessum hv. þm. Ég hélt, að þessi hv. þm. væri búinn að reyna það, að óp og læti þýða ekki mikið í þessum ræðustól, því að hv. þm. hefur iðkað þetta svo lengi án árangurs. En efnislega held ég, að það hafi ekki verið öðru að svara en þessu með stórbændurna og þjófaskólann. Þessi lög eru þannig, þau eru eins og ég las þau upp, það er refsivert allt lauslæti innan við 18 ára, það er refsivert að þegja yfir því, það er tekið alveg skýrt fram í 41. gr. frv., alger hámarksvinna barna 14–16 ára skal vera 8 stundir án undantekninga. Ef hæstv. menntmrh. vildi gera þarna einhverja breytingu á í reglugerð, stangast það við lögin, það er ekki hægt. Þetta má alls ekki koma fyrir.

Nú er með flesta bændur, að þeir eru að basla við búskapinn með börnum sínum. Ef aumingja bændurnir eiga nú að fara að smala um morgun, fara kl. 10 af stað, því að börn þurfa að sofa út, og fara svo að rýja og þeir hafa enga fjárhelda girðingu til að geyma féð í og verða að passa það, kl. 7 er þessi 8 stunda vinnutími búinn, maður gerir ráð fyrir, að það sé ekki eytt meiri tíma í mat en það, kl. 7 er vinnutíminn búinn, og þá geta grannarnir kært þennan bónda, ef hann sleppir ekki fénu órúnu eða er að láta börn snúast eitthvað, við mjaltir og ýmislegt fleira. Ég segi fyrir mig, ég hef búið með börnum mínum í 10 ár. Ef þessi lög eru samþ., verð ég bara að hætta að búa, ég sé enga aðra leið. Mér er ómögulegt annað.

Þá er nú ólukkans heyþurrkunin, þegar sólin fer að skína og maður hefur mikið að taka saman. Það er útilokað fyrir mig að vera búinn að taka saman kl. 5 að deginum, alveg útilokað. Ég verð að vinna, þangað til það er orðið blautt á að nóttunni. Ég má ekki sleppa einum einasta þurrksunnudegi. Ef ég geri það, verður heyið úti að haustinu. Krakkarnir hafa alltaf hjálpað mér. Nú vildi ég bjóða þessum hv. 3. þm. Reykv. að koma til mín að sumri. Ég skal taka eins vel á móti honum og ég mögulega get. (Gripið fram í: Fyrir fjósamann.) Og ég sýni honum krakkana til að vita, hvort hv. þm. finnst þau vera þrælkuð, beygð og heilsulaus af ofþrælkun. Þau hafa gert þetta. Þau hafa unnið fram á nætur með mér, þau hafa unnið á sunnudögum með mér í þurrki. Svo lofar maður þeim að vera inni, þegar rignir. Ef það hefði verið tekið fram, að þetta ætti bara við um verksmiðjuvinnu, — ég býst við, að þessi hv. þm. eigi talsvert í þessu frv., a.m.k. virðist þessi þm. vera mjög ánægður með það, — en ef þeir hefðu verið vitrir menn, hefðu þeir tekið fram, að þetta væri í fastri vinnu, daglegri, fastri vinnu og það innivinnu, — þá væri allt í lagi. En þetta er undantekningarlaust og ekki hægt að breyta þessu með reglugerð. Þetta er nefnilega ekkert smámál, því að ég sé ekki annað, en hér um bil allir bændur verði að hætta búskap, ef þetta verður samþ. Það má ekki senda börnin eftir kúnum eftir kl. 5. Þær eru venjulega ekki mjólkaðar fyrr en 7–8. Ég skil þetta ekki.

Ég veit, að þessi hv. 3. þm. Reykv. er gáfaður maður á ýmsum sviðum. En það er nú enginn alvitur. Hann er orðsnjall maður, talar gott mál, er næmur, sennilega minnugur líka. En að hann sé vitmaður, því hef ég aldrei haldið fram. Og ef hann hefði veríð vitmaður, hefði hann skotið þarna einhverju aftan við, svo að þetta væri nú föst, dagleg vinna í verksmiðjum.

Ég er ekki á móti því, að börnunum líði vel. En það er nú þannig í okkar landi, þessi atvinna, það er hafið og það er landið, sem fólkið verður að vinna við og það er ekki alltaf hægt að vinna við þetta. Við getum ekkert gert, þegar rignir. Við getum ekkert gert, þegar ósjór er. Og þá verður að vinna meira endranær. Og að það verði einhver sérstök uppeldisaðferð að banna börnunum að hjálpa mæðrum sinum að salta síld, eftir að klukkan er orðin 5, það skil ég ekki. Þau geta þá verið heima og lært að stela, það væri tækifæri fyrir þau, þegar þau væru foreldralaus heima, að læra hreinlega að stela og þyrfti þá ekki sérstakan skóla að öðru leyti, en sem kommar gætu þá kennt með sínum kenningum. Nei, það var ekkert ósatt í því, sem ég sagði, enda er allt óhrakið.

Svo stendur í þessari sömu gr.: „Stefna skal að því, að börn stundi ekki vinnu, frá því að þau hefja skólagöngu að hausti og þar til skólagöngu lýkur að vori,“ — undantekningarlaust yfir allt landið. Nú er það þannig, að menningu okkar hjá þessum hæstv. menntmrh. er ekki lengra komið en það, að við höfum ekki skóla t.d. í sveitinni nema 2–3 mánuði. Þau byrja á haustin, blessuð börnin, eru þar einn mánuð. Svo er bil á milli, 1–2 mánuðir, samkv. þessu er það bannað í lögum, að börnin geri nokkurt handtak þennan tíma. Og það er nú ef til vill af því, að þeim er haldið hér 7 mánuði í skólanum og læra lítið, því miður. Og sannleikurinn er sá, að það er hrein plága á börnunum þessi langa skólaganga. Og ég var sammála hv. 3. þm. Reykv., þegar hann var að tala um læknaskipunina og fór að tala um skólamálin, en það er hlutur, sem er mjög alvarlegur, hvað fólkinu er haldið lengi í skólum og þessir menn séu hreinlega orðnir of þreyttir, þegar þeir koma úr skólunum. Ég var að hugsa um að tala við þá umr., en það fórst þá fyrir. Ég var ekki við, þegar röðin kom að mér. En það er t.d. þetta menntaskólanám. Ég er sannfærður um, að það mætti gera það miklu hagnýtara, en það er. Er ekki hrein vitleysa að vera að skipa hverjum einasta stúdent að hafa lært mörg tungumál? Væri ekki miklu viturlegra, að þeir fengju val? Við vissa skóla væri t.d. kennd enska, franska eða þýzka, að þeir lærðu eitt af þessum tungumálum, sem aðallega er notað í heiminum, auk t.d. eins Norðurlandamálsins, en vera ekkert að baksa við að læra svona mörg tungumál og læra ekkert þeirra til hlítar. Þannig mætti lengi telja. Ég er sannfærður um, að skólanámið gætum við gert miklu hagnýtara, en það er nú.

Það er ótalmargt í þessu blessaða frv. þannig. Og svo þessi refsiákvæði, ákvæðin, sem ég las upp áðan, sem ég vil ekki fara að þreyta ykkur á. Það eru sektir, varðhald, tukthús eða þá enn þyngri refsing, sem mér skilst að sé dauðadómur eða limlesting.

Þá eru það höfuðglæpirnir. Það er drykkjuskapur og lauslæti, skilst mér, svo er eiturlyfjanotkun og eitthvað var það nú fleira í 26. gr., auk refsinga, sem varða við refsilög, sem mér skilst að sé þjófnaður, sem mér finnst nú satt að segja að hv. 3. þm. Reykv. ætti ekkert að vera að refsa fólki fyrir, þótt það fengi sér bita eða sopa hjá náunganum eða jafnvel fari á stefnumót. En þetta eru aðalatriðin. Og upp að 18 ára er þetta algerlega bannað. Ég er ekki að halda með því, að unglingar eigi að drekka og því síður að stúlkur eigi að fara að eiga börn innan 18 ára. Það er síður en svo. Það væri sannarlega, bót að því, ef það væri hægt að uppræta þetta allt saman. En ég vildi, að þessi hv. þm. vildi svara því : Hvað vill hann gera við stúlkur, sem eiga börn áður en þær eru 18 ára? Á að setja þær í tukthúsið? Á að setja þá í tukthúsið, sem hafa átt börnin með þeim? Á að setja þá í tukthúsið, sem hafa þagað yfir því, að þær hafi gert þetta? Samkv. þessum virðulegu lögum á að gera þetta allt saman. Þetta væri gott, ef hæstv. ríkisstj. gæti þetta, — það væri ærið verkefni fyrir hv. 3. þm. Reykv. að taka að sér að líta eftir öllu þessu, öllum stelpunum og öllum strákunum, að þetta drykki ekki, þetta hegðaði sér rétt og vel. Og ef hann gæti þetta, þessi hv. þm., þá skal ég bera lotningu fyrir honum, það skal ekki skorta.

Það var einu sinni hér dómur í þessu landi, sem var kallaður Stóridómur og gefinn út af einum dönskum kóngi. Og hann bannaði allt lauslæti og það mátti ekki eiga börn saman, ef skyldleiki væri, — ég held, að það hafi verið 3. eða 4. liður. Ef menn áttu barn með mágkonu sinni, var það dauðasök og það átti t.d. að taka höfuðið af bróður Árna Magnússonar. Hann var kvennamaður mikill og ólíkur Árna í því, að hann átti barn með þremur — tók víst þrisvar fram hjá karlgreyið. Árni bjargaði nú hans haus. En hvað um það, þetta var Stóridómur. Og þegar fólkið var að hrynja niður úr hungri hér á landi, höfðu þeir alltaf dugnað til þess að höggva einhvern á Alþ. fyrir lauslæti. Það var ekki nóg, að fólkið dæi úr hungri, heldur voru þeir að kála því svona. En fólkið var alveg jafnsyndugt eftir sem áður, þótt þessi Stóridómur væri. Það flýði á fjöll og faldi sig og allt gekk á, það var tekið af lífi, það syndgaði alveg jafnt. Hér á víst að fara að setja einn Stóradóm upp. Það er ekki talað um að hálshöggva fólk, heldur: „ef ekki liggur þyngri refsing við en fangelsi” — er talað um hér á einum stað. En það er nú aðallega fyrir að þegja yfir glæpum, skilst mér eða brjóta eitthvert bann gegn bíómyndum, sem eru óhollar. En þetta á að vera nokkurs konar Stóridómur, og það gæti farið eins og með þennan gamla, sáluga Stóradóm, að fólkið batnaði lítið við svona löggjöf.

Ef þetta tækist og hv. 3. þm. Reykv. vildi taka að sér að framkvæma þessi dásamlegu lög, væri ekkert nema gott um það að segja. En ég óska ekki eftir að hafa heiðurinn af því að greiða atkv. með þeim. Ég tek það hér fram, að ég óska eftir nafnakalli um þetta frv. og vona, að það farist ekki fyrir hjá hæstv. forseta og ég ætla að unna öðrum heiðursins af því að samþ. það. Svo ætla ég að skrifa ekkert ólaglega grein, — þó að ég sé ekki eins pennafær og hæstv. forsrh., get ég klúðrað samt þannig saman, að það sé lesið, — um þessa löggjöf, þessa viturlegu löggjöf hjá Alþingi. Og þeir mega hafa heiðurinn af því, sem eiga hann, að hafa samþ. þetta allt saman. Ég var að hugsa að koma með brtt. við þetta frv., en svo, þegar ég las frv., sá ég, að það var svo vitlaust, að það þyrfti alveg að umsemja það.

Reynslan í mínum búskap er þannig, að ég hef haft misjafna húskarla. Þeir ferðuðust á sunnudögum og jafnvel á virkum dögum líka. Ég varð þá að gera verkin þeirra, mjólka kýrnar og gefa kindunum og gera það, sem þeir áttu að gera. Oft voru þetta skemmtilegir og greindir menn. Þeir voru að líta eftir stúlkum eða fara á böll, eins og gerist og gengur, eða jafnvel að syndga. Ég álít forsrh. húsbónda á heimilinu. Ég held, að hæstv. forsrh. verði að hafa það eins og ég varð að hafa það við mína húskarla, þegar þeir ferðuðust mikið og gerðu ekki sín verk nægilega vel, hæstv. forsrh. verði að ganga í þessi verk. Og nú er það þannig með hæstv. menntmrh., ég spurði hann að því, hvort hann hefði lesið þetta frv. Þegar ég var búinn að lesa það, sá ég, að það var svo vitlaust, að ég varð alveg undrandi, ef menntmrh. hefði lesið það og mér skildist, að hann hefði hlaupið yfir það, en ekki lesið það vel. En það er skiljanlegt, því að hann ferðast ákaflega mikið, þessi hæstv. ráðh., til Japans og víðar og hann spilar á píanó í París og fleira og er hæfileikamaður, músíkalskur og skemmtilegur og ágætur maður á allan hátt. En hann hefur ekki haft tíma til að rannsaka þetta frv. nægilega vel, frekar en húskarlarnir mínir höfðu ekki ævinlega tíma til að mjólka kýrnar og gefa kindunum. Og mér virðist því, að þarna sé ekki um annað að gera, ef menn vilja einhverju breyta, heldur en þessi hæstv. húsbóndi á heimili okkar vildi nú haga sér eitthvað svipað og bændurnir verða að gera, þegar ráðsmennirnir hlaupa í burtu, að ganga í verkin og laga þetta allt til. Annars væri það velkomið, að ég lagaði frv., ef hæstv. ríkisstj. vildi þiggja það, það væri svo marg velkomið. En það hefur nú ekki verið mikið kvabbað á mér um lagasetningar hingað til og það lítið sem ég hef viljað af góðgirni benda þessari hæstv. ríkisstj. á, hefur verið illa þegið. En þó verð ég að segja það, að af sjálfstæðismönnum hefur það ekki ævinlega verið vanþakkað og einu sinni sagði Ólafur Thors mér, þegar ég kom með gengistill. mína, sem ég var einn með forðum, sem eðlilegt var, af því að það var vit í henni, þá sagði hann, að það, sem benti til þess, að ég hefði rétt fyrir mér, væri, að ég stæði einn. Hann var alltaf skilningsgóður, blessaður karlinn. Enda var hann, held ég, alltaf á því, að þetta væri ekki svo vitlaust hjá mér. En ef þessi hæstv. ríkisstj. hefði gert þetta og ekki farið að hækka vexti, sem var alveg gagnslaust, væri hún á þurru með allt saman og Thoroddsen gæti verið fjmrh. áfram. Það væri velkomið, að ég lagaði frv. Ég skal stytta það. Ég skal gera það þrefalt styttra og þrefalt skynsamlegra og skila því til hæstv. ríkisstj. eftir svona einn mánuð. En ég geri ekki ráð fyrir, að það verði þegið og þá sé ég ekki annað ráð, ef þingið vill ekki verða sér til skammar fyrir flónsku og heimsku, heldur en forsrh. sjái um, að þetta sé endurbætt og lagað allt saman, því að frv. er þannig, það er ekki gagn að neinum brtt., það verður að endursemja þetta allt saman. Það eru endurtekningar og bull og vitleysa í því. Það má stytta það og laga á allan hátt og það er sannarlega ekkert skemmtilegt fyrir þingið. Ég hef enga ánægju af því, að þm. verði sér til skammar með því að samþykkja einhverja vitleysu.

Það er t.d. með kvígufrv. Jónasar, 3. þm. Austf., að þetta var bara meinlaus vitleysa, sem ekki gerði neinum til. Hún var óframkvæmanleg. En þetta er alvörumál með uppeldi barna, það er alvörumál, þetta er stórmál. Og það er mesti misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. að halda það, að ég sé á móti barnavernd, ég vilji fara illa með börn, því fer fjarri. En ég vil bara, að hann komi til mín og sjái mín börn, hvort þau eru nokkuð illa með farin. Og eins skal ég vísa honum á fáeina stráka, sem hafa alizt upp hjá mér og bera mér allir gott orð og enginn gengið úr vist frá mér og allir verið heilsugóðir og enginn þeirra átt krakka, áður en hann varð 18 ára, það get ég upplýst. En það á nú ekki alls staðar það sama við. En svona löggjöf ætla ég ekki að vera með, þið getið haft heiðurinn af því.

Meðan ekkert er hrakið af því, sem ég hef sagt um, hvað stendur í þessu ágæta frv., sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meir. Ég frábið mig því að stofna þjófaskóla hér og álít hans ekki þörf, meðan kommar hafa annan eins meistara og þeir hafa hér á landi. En hitt vil ég taka fram, að ég álít ekki alla Alþb.-menn þannig. Þeir skiptast í tvo hópa, þessir Alþb.-menn. Sumir eru borgaralega sinnaðir og álíta, að menn eigi að vernda eignarréttinn og vilja sinni þjóð vel. Aðrir vilja breyta hér um stjórnarháttu og þá er það einföld aðferð. Það er að hafa löggjöfina sem vitlausasta og grafa allt í sundur og það er ekki hægt að gera betur en með frv. eins og þessu, að gera rétt alla þjóðina að tukthúslimum, það er anzi laglega að farið og gera svo að segja ómögulegt að reka nokkurn atvinnuveg hér á landi. Þetta er ekki óklókt og ég er ekkert hissa, þó að hv. 3. þm. Reykv. sé ánægður með þetta frv. ég er frekar hissa á því með hv. flokksbróður minn, Sigurvin Einarsson, en mér skildist á honum, að hann væri mjög ánægður með þetta frv. Hv. 3. þm. Reykv. var að hælast um, að allir flokksbræður mínir væru með þessu. Ég veit það ekki. Ég hef ekki verið á flokksfundi, þar sem það hefur verið tekið fyrir, ef það hefur verið minnzt á það. Ég skal ekkert um þetta fullyrða, það er alveg þeirra mál og mér óviðkomandi, hvort þeir eru með þessari speki eða ekki. En ég hef satt að segja enga trú á, að það sé. 4. þm. Reykn. sagði mér, að hann hefði ekki verið á fundi. Og einn minn allra bezti vinur, hv. 2. þm. Norðurl. v., var á fundi í annarri nefnd og ég held, að þetta sé bara ekki vel athugað, þetta frv. Þeir voru víst, hv. 3. þm. Reykv. og sennilega Sigurvin, eitthvað að dútla við þetta í nefndinni.

Að svo mæltu sé ég ekki frekari ástæðu til að ræða þetta í bili. En ég ætla, eins og ég er búinn að segja ykkur, að skrifa grein um, hve þetta er viturlega orðað allt saman og skynsamlegt og til heiðurs fyrir þetta þing, hvað það hefur gott vit á atvinnumálum. Það er svo mikil vizka í þessu frv.