18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. lýsti þeirri skoðun sinni í þeirri ræðu, sem hann var að ljúka við að flytja, að ástand barnaverndarmála hér á Íslandi væri bágborið og varð ræða hans eða niðurstaða hans ekki skilin á annan hátt en þann, að það, sem aflaga færi, væri ekki afleiðing ófullkominnar lagasetningar, heldur ófullkominnar framkvæmdar á ákvæðum gildandi laga og urðu ummæli hans ekki skilin á annan veg en þann, að þar væri fyrst og fremst við ríkisvaldið að sakast. En þessi niðurstaða, þessi ályktun gengur alveg fram hjá grundvallaratriði gildandi lagasetningar um vernd barna og ungmenna, — grundvallaratriði, sem engar brtt. hafa verið gerðar um á undanförnum áratugum og ekki eru enn gerðar neinar brtt. um, þ.e. því grundvallaratriði gildandi skipunar á barnavernd og unglinga, að ríkið hafi þar víssu, takmörkuðu hlutverki að gegna, en sveitarfélög öðru hlutverki að gegna, þ.e. ábyrgð á framkvæmdum og vernd barna og ungmenna hefur í gildandi l. frá upphafi hér eins og annars staðar verið skipt eftir vissum reglum milli ríkisvaldsins og hlutaðeigandi sveitarstjórna. Ég vil segja, að grundvallaratriði gildandi lagasetningar um þetta efni er, að meginvandinn varðandi framkvæmd barnaverndarmála er í gildandi löggjöf lagður á sveitarstjórnirnar, en ekki á ríkisvaldið. Eins og raunar kom fram í öðru sambandi í hans ræðu, er barnaverndarnefndum fyrst og fremst falið að hafa með höndum framkvæmd hinna almennu laga um vernd barna og ungmenna. Barnaverndarnefndir eru kosnar af sveitarstjórnum og starfa á ábyrgð og kostnað hlutaðeigandi sveitarstjórna. Ef hv. þm. telur, að framkvæmd þessara mála sé fyrst og fremst ábótavant, hefði hann átt að segja það alveg skýrt, að hans ádeila í þessum efnum beindist að sveitarstjórnunum, en ekki að ríkisvaldinu, en þannig varð þó ekki komizt hjá að skilja ummæli hans.

Sú skylda, sem á ríkisvaldinu hvílir, er að hafa almennt eftirlit með því, að gildandi lagaákvæðum sé fylgt og á vegum ríkisvaldsins starfar barnaverndarráð. Það hefur frá upphafi notið verulegra starfskrafta eins helzta sérfræðings okkar í uppeldismálum. Auk þess hvílir sú skylda á ríkisvaldinu að reka heimili, dvalarheimili fyrir unglinga, sem lent hafa á glapstigum, að því er segir í lögunum, a.m.k. eitt fyrir drengi og eitt fyrir stúlkur. Eins og ég gat um áðan, hefur starfað um allmargra ára skeið uppeldisheimili fyrir pilta, þar sem hægt er að vista milli 15 og 20 pilta, en uppeldisheimili fyrir stúlkur hefur ekki verið stofnað enn. Hv. þm. gagnrýndi mjög, að uppeldisheimili fyrir stúlkur hefði ekki verið komið á fót enn. Það stafar að sjálfsögðu af því, að fjárveitingavaldið hefur ekki verið reiðubúið til að veita þær fjárhæðir í þessu skyni, sem nauðsynlegar hefðu verið, til þess að unnt væri að hrinda þessum málum í framkvæmd.

Hv. þm. gat þess, að ég hefði næstum helming þess tíma, sem gildandi lög hefðu verið í gildi, farið með yfirstjórn þessara mála og lætur nærri, að það sé rétt. Ákvörðun um stofnun drengjaheimilisins hafði verið tekin skömmu áður en ég tók við yfirstjórn þessara mála, en fjárveitingar til heimilisins höfðu þó verið allsendis ófullnægjandi og þær voru enn allsendis ófullnægjandi fyrstu árin, sem ég fór með stjórn þessara mála. En þá vildi einmitt svo til, að hv. síðasti ræðumaður og ég vorum stuðningsmenn þeirrar samsteypustjórnar, sem sat að völdum, stjórnar Hermanns Jónassonar. En einmitt á valdatíma þeirrar stjórnar var mjög erfitt að fá samkomulag innan ríkisstj. og milli stjórnarflokkanna um að veita nauðsynlegt fé til fullbyggingar og rekstrar drengjaheimilis á Breiðuvík. Það var ekki fyrr, en eftir að sú stjórn var farin frá völdum, sem algerlega nauðsynlegar fjárveitingar fengust til þess að ljúka byggingu drengjaheimilisins í Breiðuvik, sem þó er skylt lögum samkv. að reisa, eins og hv. þm. sagði. Meðan við hv. 9. þm. Reykv. vorum sameiginlegir stuðningsmenn ríkisstj., fékkst ekki einu eyrir á fjárl. til að reisa heimili fyrir stúlkur á glapstigum. Sú litla fjárveiting, sem verið hefur á fjárl. undanfarin ár, fékkst ekkí í fjárl., fyrr en sú stjórn, sem við studdum sameiginlega á árunum 1956–1958, var farin frá völdum.

Raunar er það svo, að það þarf að leiðrétta, ef menn draga þá ályktun af ummælum hv. þm., að ríkisvaldið hafi ekkert gert til þess að sinna málefnum stúlkna, sem lent hafa á glapstigum. Fjárveitingar hafa að vísu ekki verið nægilegar til að reisa stúlknaheimili. Það, sem ríkisvaldið hefur gert í mörg undanfarin ár, er að vista slíkar stúlkur á dvalarheimilum erlendis. Það eru þegar nokkur ár síðan menntmrh. tókst að koma á samstarfi við hlutaðeigandi yfirvöld í Danmörku um að taka víð ákveðnum fjölda stúlkna árlega til dvalar á dvalarheimilum þar í landi. Samkv. þessu samkomulagi hafa stúlkur verið vistaðar til dvalar í Danmörku og mér er ekki kunnugt um, að nokkur barnaverndarnefnd eða barnaverndarráð hafi óskað eftir að vista stúlkur í Danmörku, en verið synjað um það sökum skorts á vistplássi þar í landi. Þvert á móti hefur það mörg árin verið þannig og ég veit ekki betur en svo sé nú, að Ísland eigi kost á plássi fyrir stúlkur á glapstigum í Danmörku samkv. gildandi samkomulagi, en noti sér það ekki, a.m.k. ekki að fullu. Það er því áreiðanlega ofmælt, að sú vanræksla, sem um hefur verið að ræða, ég mundi segja fyrst og fremst af hálfu fjárveitingavaldsins, um það að veita nægilegt fé til að koma á fót vistheimili fyrir stúlkur, hafi valdið sérstöku vandamáli hér innanlands, vegna þess að við höfum haft samkomulag um ráðstöfun á plássi annars staðar og a.m.k. sum árin ekki notað það pláss, sem við höfum átt kost á.

Hitt er svo annað mál, að nú eru í undirbúningi framkvæmdir í þessum efnum, sem vonandi munu bæta úr brýnni þörf í þessu efni. Velferðarsamtök hér í Reykjavik hafa í hyggju að reisa vistheimili fyrir stúlkur á glapstigum, sem sumpart er gert ráð fyrir að verði skólastofnun, og hefur hið opinbera veitt vissa aðstoð í þeim efnum. Sú reynsla, sem á þann rekstur fæst, á eflaust eftir að geta orðið mjög mikilvæg í sambandi við framkvæmdir hins opinbera í þessum efnum síðar. En ég tel sjálfsagt að halda áfram að vinna að því, að gildandi lagaákvæðum sé fullnægt, þannig að nægilegt pláss sé á vistheimilum hér innanlands bæði fyrir drengi þá og stúlkur, sem á glapstigum lenda.

Þá sagði hv. þm., að menntmrn. hefði ekki gefið út reglugerðir, sem það hefði heimild til að gefa út til að takmarka vinnu barna og unglinga. Samkv. gildandi reglum er það svo, að vald til að gefa út reglugerðir um barna- og unglingavinnu er í höndum sveitarstjórna, en þær séu staðfestar af menntmrn. Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að menntmrn. hafi aldrei, a.m.k. ekki síðan ég tók við forstöðu þess, nokkru sinni neitað að staðfesta reglugerð, sem sveitarstjórn hefur óskað eftir að fá staðfesta varðandi vinnu barna og ungmenna.

Að síðustu vil ég svo segja þetta í tilefni af fsp., sem hv. þm. beindi til mín í lok ræðu sinnar varðandi kvikmyndaeftirlit með Keflavíkursjónvarpinu.

Sjónvarpið í Keflavík heyrir ekki undir menntmrn. á sama hátt og ríkisútvarpið heyrir undir menntmrn. eða kvikmyndasýningar heyra undir menntmrn. Keflavíkursjónvarpið heyrir undir utanrrn., og sú löggjöf, sem um það mundi fjalla, er varnarsamningurinn og reglugerðir settar á grundvelli laga til staðfestingar á varnarsamningnum. Hitt er annað mál, að ég tel það alveg tvímælalaust vera á valdi íslenzkra stjórnvalda að hafa fullkomið eftirlit með þeim kvikmyndum, sem birtast í Keflavíkursjónvarpinu. Ég tel það tvímælalaust vera rétt íslenzkra stjórnvalda að hafa fullkomið eftirlit með þeim kvikmyndum, sem birtast í Keflavíkursjónvarpinu Mér hefur aldrei verið greint frá því og kvikmyndaeftirlitsmönnum ekki heldur, að í Keflavíkursjónvarpinu hafi verið sýndar kvikmyndir, sem íslenzkt kvikmyndaeftirlit mundi hafa bannað, og þangað til ég hef fregnir eða kvikmyndaeftirlitsmenn hafa fregnir af slíku, hef ég ekki talið og tel ekki ástæðu til neinna afskipta af minni hálfu um þetta efni. En jafnskjótt og ég fæ um það áreiðanlegar fregnir sem yfirmaður íslenzka kvikmyndaeftirlitsins, að sýndar séu í bandaríska sjónvarpinu kvikmyndir, sem íslenzka kvikmyndaeftirlitið hefði bannað eða mundi vilja banna, mun ég taka það mál til þeirrar athugunar og þeirra afskipta, sem ég tel rétt og heimilt.