17.12.1964
Neðri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

97. mál, heildarskipulag miðbæjarins í Reykjavík

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég vil taka það fram í byrjun míns máls, að ég flyt þetta frv. persónulega og það er ekki að neinu leyti á vegum Alþb. og það er aðeins mín persónulega skoðun, sem birtist í þeim till., sem þar koma fram. Ég hef áður flutt þetta frv. hér einu sinni og gerði þá nokkuð ýtarlega grein fyrir nauðsyninni, sem á því væri og get þess vegna verið mjög stuttorður um þann þátt þess.

Það er lagt til, að það skuli sérstök nefnd skipuð, eins og fyrir er mælt í 2. gr., til þess að ákveða heildarskipulagið í miðbænum og tilnefnd af þeim aðilum, sem sérstaklega hafa þar hagsmuna að gæta, Alþingi, ríkisstj., borgarstjórn Reykjavíkur o.fl. Það er sérstaklega í sambandi við þrjár byggingar opinberar, sem ég álít alveg óhjákvæmilegt að gera þetta. Það er í fyrsta lagi vegna stjórnarráðshúss, sem hugsað er að byggja við Lækjargötuna, það er í öðru lagi vegna alþingishúss, sem a.m.k. kemur vel til mála, að byggt verði á þessu svæði. Og það er í þriðja lagi vegna ráðhúss Reykjavíkur, sem bæjarstjórn Reykjavíkur hefur líka gert fyrir nokkru samþykkt, sem ekki hefur hlotið neitt fullnaðarsamþykki enn, um að byggja á þessu svæði. Ég býst við, að hjá hverri einustu menningarþjóð mundi ekki koma annað til mála, en ákvarðanir um þær höfuðbyggingar, sem eiga að setja svip sinn á þennan gamla miðbæ, mundu verða teknar í einu lagi, þannig að það rækist ekki hvert á annað. Það hafa að vísu verið til lög í 50 ár um heildarskipulag bæja á Íslandi, en engu að síður hafa þau verið framkvæmd svo hrapallega í Reykjavik, að það hefur ekki verið búið til neitt heildarskipulag að bænum. Hér í miðbænum hefur það verið þannig, að það hefur svo að segja hvert götuhorn eða hver lóð verið skipulögð út af fyrir sig, án þess að menn hefðu nokkra hugmynd um, hvernig umhverfið eigi að vera. Við skulum bara taka Morgunblaðshöllina sem dæmi. Aðfarirnar í þessum efnum eru svo hneykslanlegar og hafa miðazt svo mikið við duttlunga eða einkahagsmuni, að það er hverri höfuðborg til skammar að láta slíkt viðgangast. Og ég álít það því nauðsynlegt að fara að stöðva þetta, þannig að það verði ekki farið að skella niður einni stórbyggingunni enn þá, sem mundi gerbreyta öllu umhverfi hennar, án þess að það sé búið að gera samþykkt um heildarskipulagið. Við skulum segja sem dæmi, ef það ætti t.d. að setja ráðhúsið við Tjörnina, án þess að búið væri að hugsa um, hvar alþingishúsið ætti að vera. Og við skulum segja, að við tækjum einu sinni rögg á okkur á Alþ. og tækjum ákvarðanir t.d. um, að alþingishús skyldi byggt hérna á lóð, sem við um áratugi höfum átt. Við sæjum, hvernig þetta rækist á. Bæði húsin gætu ekki verið svo að segja á sama staðnum. Ákvörðun bæjarstjórnar Reykjavíkur um ráðhúsbygginguna rekst algerlega á allar hugmyndir, sem verið hafa uppi hjá Alþ. í þessum efnum. En þær hugmyndir hafa ekki enn þá fengið fast form, eins og það ætti að vera. Þess vegna álít ég þetta alveg óhjákvæmilegt og það verður stórhneyksli, ef ekki nú, þá síðar meir, ef ekki er hafður sá háttur á að hugsa um eins lítinn hluta og miðbæinn í Reykjavík, sem eina heild. Ég skal bara nefna sem dæmi, ef mönnum dytti nú í hug eftir nokkurn tíma í staðinn fyrir að setja ráðhúsið út í Tjörn og eyðileggja þar með svo og svo mikið, að setja það t.d. þar, sem gamli barnaskólinn er nú, raunverulega við endann á Lækjargötunni, þar sem það mundi blasa ákaflega vel við bæði Lækjargötunni og hafa sínar fögru hliðar líka út að Tjörninni, sem alltaf virðist vera sótt eftir. Það eru ótal möguleikar til, en það þarf bara að gefa sér tíma til að athuga alla þessa möguleika. Við höfum alþingishúsnefnd hér starfandi. Á allt í einu að vera búið að setja henni þannig stólinn fyrir dyrnar, að hún geti ekki haft alþingishúsið þar, sem henni þóknast? Alþ. er sá aðili, sem ræður þessum hlutum og hefur valdið til að ákveða það. Ég vil þess vegna eindregið leggja til, að það sé hætt þeim molbúahætti hér í höfuðborg landsins að skipuleggja eitt hús í einu, eina lóð í einu, eftir því, hvernig hagsmunir viðkomandi manns eru, eða eitt götuhorn í einu og mismunandi götuhornin við sömu götuna. Þið þurfið ekki að ganga nema Smiðjustíginn til þess að sjá, hvernig þar er farið að. Þetta handahóf verður að hætta. Þó að menn séu máske almennt á móti skipulagningu, er nú í 50 ár búið að viðurkenna, að það eigi að vera heildarskipulag af Reykjavík eins og öðrum bæjum og það er eftir 50 ár kominn tími til þess, að slík lög séu framkvæmd. Ég skal ekki eyða frekar orðum um þetta, en það er eitt annað, sem mig langar til að minnast á í sambandi við það.

Eins og fyrir er mælt í 4. gr., er lagt bann við að byggja í miðbænum, þangað til þessari heildarskipulagningu er lokið. Mér er ljóst, að lóðir í miðbænum kunni að falla í verði. Og ég held, að það sé engin goðgá. Lóðir í miðbænum í Reykjavík og þeirra háa verð, er ekki neitt verðmæti, sem þeir einstaklingar, sem eiga þær, hafa skapað. Það verðmæti, sem í þessum lóðum felst, er eingöngu skapað af þjóðfélaginu sjálfu. Það er eingöngu vöxtur Reykjavíkur, sem hefur skapað þetta. Ég veit ekki, hvort menn hafa athugað, hvers virði þessar lóðir eru. En ég lét fyrir nokkru tína saman, hvað lóðirnar í Austurstræti, Bankastræti og upp á Laugaveg 99, inn að Snorrabraut, mundu kosta, og þá tek ég fram: lóðirnar án húsanna, sem á þeim eru. Og mér telst til, með frekar lágu verði, þ.e. bara reiknað með 5, 6 og upp í 8 hundruð kr. m2 eftir því, hvar það liggur, þá mundu þessar lóðir kosta 335 millj. á söluverði núna. Ég hef að vísu ekki látið taka saman, hvað lóðirnar hérna í miðbænum, sem ráðhúsið þyrfti að kaupa meira eða minna upp eða breyta, mundu kosta, en ég er hræddur um, að það færi alltaf fram úr 100 millj. Það er rétt fyrir menn að athuga það um leið, ef menn hneykslast ekki neitt á milljónum lengur, hvað allar jarðir á landinu mundu kosta. Fasteignamat 1957 á öllum jörðum, t.d. í öllum sýslum á landinu, var 139 millj. og þá eru taldar með lóðir í ýmsum kauptúnum. Ég býst við, að ef maður ætti að meta söluverð allra jarða á landinu og þá er það án hlunnindanna og án húsanna, að jarðirnar, allar bændajarðirnar, þessar 6000, sem í landinu eru, færu ekki fram úr 200 millj. Allar jarðir á Íslandi eru á söluverði í dag ekki eins mikils virði og lóðirnar í Bankastræti, Austurstræti og upp á Laugaveg 99. Það þjóðfélagsverðmæti, sem skapað hefur verið í þessum lóðum í Reykjavík, ætti raunverulega að vera þjóðareign. Það ætti ekki að vera einstaklingseign. Og mikið okur viðgengst í sambandi við þessar lóðir, við vitum t.d., að smábúðarholur við Laugaveginn eru leigðar út á 20–30 þús. kr. á mánuði, eingöngu vegna lóðarinnar, sem þetta stendur á. Sjálf kytran, sem slíkar búðir eru í, er ekki mikils virði. Það er eingöngu legan, sem skapar þetta.

Ég held það væri út af fyrir sig þjóðþrifamál að banna í tíma byggingar í miðbænum í Reykjavík, meðan verið er að heildarskipuleggja hann, til þess að láta lóðirnar lækka í verði. Ég tala nú ekki um, ef það væri notað á sama tíma til þess að gera þær ráðstafanir, sem þyrfti til þess að taka þær allar eignarnámi. Ég vil minna á það, að 1947, þegar ríkisstj. Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl. tók við völdum undir forsæti Stefáns Jóh. Stefánssonar, þá var lagt fram stjórnarfrv. til skipulagslaga, þar sem m.a. var gengið út frá að setja 100% verðhækkunarskatt á lóðirnar og láta renna í skipulagssjóð. Eitt af því, sem er óþolandi og gerir allt heildarskipulagið í Reykjavík að fáti og vitleysu, er, að Reykjavíkurbær skuli ekki eiga allar lóðirnar í Reykjavík, allar lóðirnar innan Hringbrautar. Þetta er fyrsta skilyrði til þess, að nokkurt vit verði í heildarskipulaginu á Reykjavík. Og á meðan þetta er ekki gert, að Reykjavíkurbær eigi allar þessar lóðir, þá kemur öll heildarskipulagning og einstök skipulagning lóða og húsa til með að verða braskfyrirtæki. Ef t.d. á að staðsetja þetta og þetta stórhýsi á lóð, sem einstaklingar eiga, þá koma ótal einkahagsmunir þarna í spilið, sem gera að verkum, að endanleg skipulagning fer ekki eftir því, hvað skynsamlegast sé, fegurst eða bezt, heldur oft og tíðum eftir því, hverra einkahagsmunum er verið að þjóna með slíku. Þess vegna væri það út af fyrir sig heilbrigt, að það væri um tíma bannað að byggja á lóðunum á þessu litla, takmarkaða svæði í gömlu kvosinni, þangað til búið væri að búa til þessa heildarskipulagningu. Það væri mjög heppilegt, að þessar lóðir lækkuðu eitthvað í verði, ef svo gæti orðið, en sérstaklega væri þó nauðsynlegt, að það verði gerðar ráðstafanir til þess að koma á heildarskipulagningu og helzt um leið verðhækkunarskatti, sem væri mjög brýnn á þessum stað og mundi gefa stórfé í ríkissjóð án þess að valda verðbólgu, heldur þvert á móti hjálpa til að draga úr henni.

Það var háttur framsýnna manna um aldamótin að vinna að því, að bæirnir eignuðust sjálfir þær lóðir og þær jarðir, sem þeir væru byggðir á. Og margir bæir hafa eignazt það og það eru sérstök lög um, hvernig ríkið skuli aðstoða bæina við slíkt. En Reykjavíkurbær, sem hefur innan Hringbrautarinnar lóðir, sem eru líklega milljarða króna virði að söluverði núna, hann hefur ekkert gert í þessum efnum. Og skipulagið innan Hringbrautarinnar hefur þess vegna verið bæði til háborinnar skammar og stórskaða fyrir þjóðfélagið. Það er tími til kominn, að það verði bundinn endi á þetta. Og þetta frv. er flutt til þess að reyna að stuðla að því.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti að, að lokinni þessari umræðu sé þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. og ég vil um leið vænta þess, að þessi nefnd taki afstöðu um þetta mál og skili áliti um það. Ég býst ekki við, að mál eins og þetta eigi að þurfa að skipta flokkum endilega, menn geta verið hinna ýmsu skoðana án tillits til flokka, en ég kynni betur við, ef þetta frv. kæmi til afgreiðslu í þinginu, þannig að það sæist, hvernig menn stæðu í þessu máli.