09.04.1965
Neðri deild: 66. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

130. mál, loðdýrarækt

Björn Pálsson:

Herra forseti. Þess gerist nú ekki þörf, að ég tali mikið fyrir þessu frv., því að frsm. nefndar og flm. hafa gert það rækilega, en ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara. Annars var dálítið einkennileg afgreiðsla á þessu máli. Einn af flm., Jónas Pétursson, 3. þm. Austf., hespaði þessu nú eiginlega af og vildi enga breyt. heyra og það var ekki nema helmingur af fundarmönnum mættur, svo samdi hann nál. og kom með til undirskriftar. En hvað um það, ég skrifaði undir þetta með fyrirvara og býst þess vegna við að greiða atkv. með frv. En satt að segja finnst mér frv. ekki ýtarlegt. Segja má, að hægt væri að bæta úr því síðar. Náttúrlega má alltaf breyta lögum. En frv. er miklu óýtarlegra og ónákvæmara, en eldri lögin. Um það má vitanlega deila, hvort rétt sé að hafa lagabálkinn ýtarlegan eða bæta hann með reglugerð og taka þar nákvæmlega fram um hlutina.

Í öðru lagi álít ég, að það væri að mörgu leyti skynsamlegra að kynna sér málið betur áður. Við vitum það oft, að menn gera of mikið úr hagnaðinum, menn líta á brúttótekjurnar, en kynna sér ekki kostnaðarhliðina nægilega vel. Og það er nú þannig með okkur hér á landi, að við erum ekki inni í, hvorki að velja minkategundir né meðferð þeirra, nú sem stendur. Við höfðum minka fyrir allmörgum árum. Þá var líka allmikið um silfurrefi. Þeir lögðust niður. Norðmenn bösluðu áfram með sína silfurrefi, þó að það drægi eitthvað úr, en hjá okkur bar það sig alls ekki, þegar stríðið kom. Talsvert margir höfðu minkabú og minkarnir sluppu út. Ég vissi til, að það fuku búr og minkarnir sluppu á þann hátt út, þannig að ekki hefur verið nægilega tryggilega um þetta búið. Það er rétt, sem tekið hefur verið fram, að við höfum minkinn, og í raun og veru litlar líkur til, að okkur takist algerlega að útrýma honum, en vafalaust má halda honum töluvert mikið niðri. Og við vitum líka, að þetta er skaðvaldur, einkum upp á æðarvarp og jafnvel að hann éti úr silungsnetum og geri fleira illt af sér. En ég álít, að viturlegast væri að senda mann til þess að kynna sér þetta mál allt rækilega og hann yrði svo sem ár að því, hann kynnti sér, hvaða tegundir væri hentugast að kaupa, hefði sem sagt vit á að velja lífdýr, sem yrðu flutt til landsins og hann kynnti sér einnig fjárhagslegu hliðina á málinu og hvort líkur væru til, að um miklar nettótekjur yrði að ræða.

Ég dreg í efa, að hægt sé nokkurn tíma að fyrirbyggja með öllu, að minkar geti sloppið út. E.t.v. er það hægt með því að geyma þá í húsum. En ég skal ekki fullyrða um, hvort það er óhentugra vegna skinnanna að hafa þá inni, geri þó ráð fyrir, að skinnin verði betri, ef þeir eru ekki í lokuðu húsi. Við vitum, að í fyrsta lagi er það stormurinn hér á landi, sem víða getur verið átakamikill og í öðru lagi er snjórinn og búrin getur fennt í kaf, minkurinn getur þess vegna alveg eins grafið sig út um þakið á búrinu eins og annars staðar, þannig að ég hef litla trú á því, að það sé hægt að fyrirhyggja þetta öðruvísi, en hafa hann inni í húsi, þó skal ég ekki fullyrða það. Vafalaust má margt læra af nágrannaþjóðum okkar í þessu efni, því að þeir eru vafalaust komnir miklu lengra ,en þeir voru komnir, þegar við fengum minkana hjá þeim, bæði með val dýra, gæði dýra og eins með útbúnað í görðunum.

Í frv. er enn fremur ákvæði um, að það megi ekki hafa nema 5 minkabú til að byrja með. Segja má, að ef til vill væri nóg fyrsta árið að hafa 5 bú og lögunum er vitanlega alltaf hægt að breyta. En í framtíðinni er ógerlegt að hafa svo fá bú, það er ekki hægt að mismuna mönnum þannig. Ef það eru líkur til, að verði mikill hagnaður af þessu, má gera ráð fyrir, að mikið verði sótt eftir að fá leyfi til að reisa minkagarða og það er hreinn ójöfnuður að hafa bara 5 bú. Það væri það minnsta að hafa svo sem eitt í hverri sýslu, þannig að úrgangurinn frá frystihúsunum gæti þá gengið til þeirra búa, sem þar væru. En segja má, að þessu sé hægt að breyta í framtíðinni. Þá er bara spurningin, hvort það sé nokkur ástæða til að vera að ákveða það í lögunum, það yrði bara háð leyfi ráðh. og hann hagaði sér eftir aðstæðum í því efni.

Það kom hér fram rödd um, að það hefði verið lögbrot hjá n. að leita ekki álits náttúruverndarráðs. Vera má, að eftir ströngum bókstaf hefði það verið eðlilegt. En satt að segja geri ég ekki allt of mikið úr þessu áliti frá þessu náttúruverndarráði. Það er nú eitt, sem við höfum gert hér í þinginu, — það hafa náttúrlega orðið mörg mistök hér í þessari stofnun eins og annars staðar, — það er nú eitt, sem við gerðum hér fyrir fáum árum, það var það að banna að eitra. Það verður nú til þess, að svartbakurinn blæs út og hann er hrein plága, kannske ekki miklu betri. en minkurinn, bæði hvað snertir æðarfuglinn og eins laxa– og silungsseiði, sem hann étur. Ég var satt að segja lítið hrifinn af því að banna þetta algerlega og það er ábyggilegt, að eitthvað þarf að gera viðvíkjandi svartbaknum, annaðhvort verður ríkið að hlutast til um, að ungarnir séu drepnir, áður en þeir eru fleygir, eða gera einhverjar aðrar ráðstafanir, því að skotlaunin eru einskis virði, eins og þau eru núna, því að það er rétt fyrir skotinu og það er varla verra að fást við nokkurn fugl, en svartbakinn.

Ég hef ekki trú á því, að þessir aliminkar séu grimmari eða tímgist meira en aðrir minkar. Ég hef ekki satt að segja neina trú á því. Þeir ættu að hafa minni æfingu í því að veiða, en villiminkarnir og ég held, að tímgunareiginleikar þeirra geti ekki verið miklu meiri, þó að þeir sleppi út úr görðum.

Að þessu öllu athuguðu, eins og ég tók fram áðan, mun ég greiða atkvæði með frv. Mér er ljóst, að það er ekki um mikla atvinnuaukningu að ræða af þessu, því að það eru tiltölulega fáir menn, sem hirða stóra garða. En vera má, að þarna skapist nettótekjur, reksturinn verði hagkvæmur. Þó er það svo með þetta eins og annað, að það er vafalaust háð verðsveiflum og þegar framleiðslan eykst mikið, er hætt við, að verðið lækki, en um það er ómögulegt að segja fyrir fram. Og ég held, að áður en minkurinn er fluttur inn, sé það höfuðatriðið, að einhver einstakur maður, glöggur maður, kynni sér þetta mál allt rækilega, bæði fjárhagslegu hliðina og eins val dýra og meðferð þeirra og útbúnað á görðum og ég hygg, að það muni taka heilt ár fyrir mann að kynna sér þetta allt rækilega, því að við vitum það af reynslu, bæði þegar karakúlinnflutningurinn var og jafnvel refainnflutningurinn fyrst, að það voru ekki nægilega góð dýr, sem flutt voru inn og þarf að undirbyggja þetta mál eins og annað, sem ráðizt er í. Það þarf að undirbyggja það vel og skynsamlega. Sé það gert, getur vel verið, að þjóðin og einstaklingar geti haft hagnað af þess, og þá er ekki nema rétt að vera með því að mínu áliti, því að villiminkinn höfum við og e.t.v. skiptir þá ekki svo ákaflega miklu, þó að það vilji til, að nokkur dýr sleppi út. Það yrði ekki nema eins og 2–3 pör af villiminkum auka kyn sitt árlega.