18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

153. mál, lögtak

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Örfá orð. Það er rétt, sem hv. frsm. í þessu máli tók fram, að það gjald, sem rennur til þeirra sjúkrasjóða, sem hér um ræðir, er hluti af kaupgjaldi, sem á þennan hátt greiðist þeim, sem eru félagsmenn verkalýðsfélaganna. Þetta frv. hefur áður verið flutt hér á hv. Alþ., en ekki náð fram að ganga. Það má kannske segja, að það hafi fram til þessa ekki verið komin svo rík reynsla á innheimtu þessa gjalds til styrktarsjóðanna, að full ástæða hafi verið til að afgreiða þetta mál jákvætt. Það hefur verið sjónarmið æðimargra, að mér hefur fundizt, hér á hv. Alþ. En nú er svo komið, að það má telja, að nær öll verkalýðsfélög landsins séu komin með þennan hátt á styrktarsjóðum sínum, þ.e.a.s., að til þeirra skuli atvinnurekendur greiða vissan hluta af kaupinu, 1%, sem ekki greiðist sjálfu verkafólkinu, heldur á þennan hátt beint til félagssamtakanna, styrktarsjóða þeirra. Ég verð að segja það, að sú reynsla, sem verkamannafélagið Dagsbrún hefur haft af þessum hlutum, er á þann veg, að mikill meiri hl. atvinnurekenda greiðir þetta skilvíslega. Hins vegar er því ekki að neita, að það finnast alltaf nokkrir, sem draga við sig greiðslur á hverju sem er og reyna að komast hjá því í lengstu lög og því lengur sem viðurlög við drætti eru minni og þeir eiga hægara með að komast undan lögboðnum eða umsömdum greiðslum. Þannig hefur það því orðið, að þó að ekki sé um stórar upphæðir að ræða, er það þó þannig, að nú eru farnar að safnast fyrir hjá félögunum upphæðir, sem verða að fara í innheimtu á einhvern hátt og ég held, að það væri rétt af Alþ. að greiða fyrir þeirri innheimtu á þann veg, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, til þess að fara ekki að gera það allt of erfið og flókin mál. Við höfum reynt að byggja öll þessi kerfi upp þannig, að það yrði sem allra minnst skriffinnska í kringum sjálfa framkvæmd málsins, og ég held, að það væri einnig í fullu samræmi við þá skoðun, bæði okkar í verkalýðsfélögunum og eins atvinnurekenda, að þessi háttur yrði á hafður. Ég vil þess vegna taka undir með flm. þessa frv. og vænta þess, að það fái afgreiðslu hér á hv. Alþ.