25.11.1964
Sameinað þing: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

21. mál, aðstoð við þróunarlöndin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa mikilli ánægju yfir þeirri till., sem hv. 10. þm. Reykv. hefur flutt hér og ég vil taka mjög undir hans orð um, að okkur beri til þess siðferðileg skylda að reyna að hjálpa þeim þjóðum, sem nú eru að reyna að brjóta sér braut úr örbirgð fram til mannsæmandi lifnaðarhátta. Okkur ber því frekar skylda til þessa, sem við höfum sjálfir þekkt hlutskipti þessara þjóða og þurfum skammt að líta til baka til okkar sögu til að standa á sama stigi og þær stóðu og standa nú margar. Ég álít þess vegna, að það sé alveg rétt hjá hv. 10. þm. Reykv., að Alþingi og íslenzka ríkinu beri siðferðileg skylda til þess að reyna að hjálpa að sínu litla leyti til þess að leysa vandamál þessara þjóða. Það er máske ekki stórt, sem við getum gert, sérstaklega ekki á því efnahagslega sviði, en við höfum e.t.v. vegna okkar sögu og okkar aðstöðu betri aðgang að mörgum þessara þjóða, heldur en nokkur önnur Evrópuþjóð. Við erum ein af þeim fáu þjóðum Evrópu, sem sjálf hefur verið um langan aldur og lengri, en nokkur af þessum þjóðum nýlenduþjóð. Við höfum sjálfir orðið að horfast í augu við það, að okkar þjóð væri næstum útrýmt af fátækt og kúgun, þannig að hún væri ekki lengur til. Og við getum þess vegna komið til þessara þjóða svo að segja sem hafandi verið ein af þeim og við mundum ekki mæta neinni af þeirri tortryggni hjá þessum þjóðum, sem oft fylgir þeirri oft mjög ríflegu efnahagslegu aðstoð, sem ýmis stórveldi láta þessum þjóðum í té. En við skulum bara muna eftir, að á sama tíma sem ýmsum þessum þjóðum eru nú látnir í té, skulum við segja, margir milljarðar króna frá ríkum þjóðum í Evrópu og Ameríku og mikið um þá hjálp talað, þá er á sama tíma margfalt stærri upphæð tekin af þessum þjóðum með því að lækka verðið á hráefnunum, sem þær selja úr landi og hækka verðið á iðnaðarvörunum, sem eru seldar þangað. Það hefur ekkert af þessum stórveldum Evrópu, þar sem auðhringar ráða, veitt eins mikla aðstoð til þessara þjóða og samsvarar því, sem auðhringarnir í þessum löndum hafa á undanförnum árum aukið arðrán sitt á þessum þjóðum með og menn þurfa ekki annað en líta í þær skýrslur, sem fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hafa samið um rannsóknirnar í slíkum efnum.

Við Íslendingar ættum því, ef við gætum, að gera ofur lítið í þessa átt, sem hv. 10. þm. Reykv. leggur hér til. Við gætum áreiðanlega veitt þessum þjóðum nokkra hjálp. Það er rétt hjá honum, að í gegnum Sameinuðu þjóðirnar höfum við látið þarna nokkra sérfræðinga í té og eitthvað gætum við máske gert á því efnahagslega sviði. En ég held, eins og hann sagði réttilega, að það langsamlega þýðingarmesta, sem við gætum gert á þessu sviði, sé að veita þeim þekkingu og kennslu. Við getum máske lítið gert að því að senda menn til þeirra, ekki sízt vegna tungumálanna, þó gætum við nokkuð gert að því, en hitt væri e.t.v. enn þá þýðingarmeira, að við gætum boðið fólki frá þessum þjóðum hingað heim til þess að læra. Við verðum að gá að því, hve óskaplega erfið skilyrði það eru, sem þetta fólk á við að stríða. Ég veit, að sumir hv. þm. muna eftir því, að fyrir nokkrum árum kom hingað sendinefnd frá frelsishreyfingu frá einu þessara landa. Það hét þá Nýasaland, sú brezka nýlenda, ég held, að það heiti nú Malaví, ef ég man rétt, eftir að það varð frjálst. Það var til þess að biðja Alþingi Íslendinga um aðstoð, til þess að reyna að fá dr. Banda, sem nú er forsrh. þess lands, leystan úr fangelsi Breta. Og þessir þm. töluðu hér við okkur, fulltrúa frá öllum flokkunum og ég man eftir einni sögu, sem þeir sögðu okkur við kaffiborð hérna niðri í salnum, sögðu okkur frá því, að af því að það var enginn gagnfræða- eða menntaskóli til í þessu landi, þá höfðu nokkrir unglingar strokið burt frá Nýasalandi og gengið alla leiðina til Kairó, sem var um hálfs mánaðar ganga, til þess að komast þar í gagnfræða- og menntaskóla. Aðstaðan, sem hinir hvítu drottnar hafa búið þessum þjóðum í Afríku, er þannig, að þeir hafa haldið þeim niðri, þeir hafa ekki aðeins rænt þá þeirri menntun, sem þeir áður höfðu, heldur haldið þeim niðri og meinað þeim alla menntun, þannig að í sumum þessum ríkjum, sem nú voru að verða sjálfstæð, var hjá margra milljóna þjóð máske aðeins til einn einasti innfæddur læknir. Það er þess vegna hægt fyrir okkur hér heima á fjölmörgum sviðum að gefa þessum fulltrúum þessara þjóða aðstoð til þess að fá þekkingu, — ég tala nú ekki um önnur eins svið og læknisfræði eða annað slíkt, sem kannske yrði fulllangt nám fyrir marga þeirra hér. En bara strax í okkar landbúnaði, í okkar járniðnaði, skulum við segja, ég tala nú ekki um í okkar sjávarútvegi, eru alveg stórkostlegir hlutir, það er eins og að koma á annan hnött fyrir fulltrúa þessara þjóða að koma hingað til Íslands til þess að kynnast því ástandi, sem hér ríkir í sjávarútvegi, landbúnaði, ýmsum iðnaði og öðru slíku. Það þyrftu ekki endilega að vera menn, sem gætu gengið hér á háskóla, þótt það væri líka æskilegt. Það gætu líka verið menn, sem hefðu kannske svo að segja enga menntun og yrði að byrja á að kenna þeim að lesa og skrifa, því að þannig hefur nú verið skilið við þarna, að 90% af mörgum þessum þjóðum kann hvorki að lesa né skrifa. Við yrðum vafalaust að reyna að kenna þeim kannske í senn bæði ensku og íslenzku, til þess að þeir gætu haft gagn af slíkri dvöl hér, en það er ekki nema árs verk. En við gætum og það á mjög ódýran hátt fyrir okkur, hjálpað þannig þessum þjóðum til þess að skapa sér menntaða menn og iðnaðarmenn og lærða bændur og sjómenn. Og það er það, sem þessar þjóðir frekar öllu öðru þurfa.

E.t.v. hafa sumir þm. lesið sumt af þeim sögum, sem ritaðar hafa verið um ýmsa þá efnahagsaðstoð, sem hefur verið veitt. Ég man eftir einni sögu, sem var fræg á sínum tíma, þar sem einn amerískur rithöfundur er að hæðast að aðstoð Bandaríkjamanna við vissar þjóðir á þeim skaga, sem áður var kallaður Indókína., þar sem þeir voru að leggja í stórkostlegar tæknilegar framfarir, en höfðu engan skilning á því að hjálpa þjóð sem var 95% landbúnaðarþjóð, við að koma upp t.d. betra hænsnakyni, þar sem hænur urpu kannske áður 30 eggjum á ári, kenna þeim að komast upp í 200. Frásögur eru af því, hvernig amerískir bændur, sem komu þarna, fóru að kenna þessum þjóðum, en amerísku skriffinnarnir af skilningsleysi ráku slíka menn heim.

Það er hægt að hjálpa til með stórkostlegri efnahagslegri byltingu hjá þessum þjóðum með aðferðum, sem við skulum segja Torfi í Ólafsdal og aðrir slíkir voru að byrja á hér fyrir mörgum tugum ára. Það er þess vegna engum efa bundið, að ef við leggjum okkur eftir því og athugum þetta raunverulega, getum við hjálpað þessum þjóðum einmitt fyrst og fremst með þeirri þekkingu og kennslu, sem við getum veitt þeim.

Það er líka annað, sem ég tel rétt að við athugum í þessu sambandi. Ef ýmsir frá þessum þjóðum og sérstaklega er ég að hugsa þar um ýmsar þjóðir Afríku, kynntust Íslandi, okkar sögu og okkar atvinnulífi, þá mundu margar þeirra fá aukið sjálfstraust um, hvað hægt væri að gera hjá þeim, þegar þær fá að vita það, að við höfum á einni öld og raunar tæpri öld hafið okkur upp úr svipuðu ástandi og sumar þeirra lifa nú við, — það ástand er ákaflega mismunandi hjá þessum ýmsu þjóðum, — og upp til þess ástands, sem hv. frsm. var að lýsa. Það gæfi þessum þjóðum, ef þær kynntust slíku fordæmi, ákaflega mikla trú á hvað þær gætu gert sjálfar. Af okkar fordæmi gætu þær þess vegna lært mjög mikið í þessum efnum. Og við gætum þannig veitt þeim andlega og mér liggur við að segja siðferðilega og pólitíska hjálp, sem er þeim ekki síður mikils virði, en sú efnahagslega.

Ég veit ekki, hvað vel hv. þm. þekkja sögu þessara þjóða, en saga sumra þeirra er svo lík sögu okkar, að furðu sætir. Okkur var venjulega kennt, að þetta væru hálfgerðar villiþjóðir, en það er raunverulega fyrst á síðustu tveim til þrem áratugum, að sérstaklega brezkir fræðimenn hafa rannsakað sögu þeirra, þannig að hún er nú skrifuð á allt annan hátt en var, þegar við, sem erum að verða gamlir, vorum í barnaskóla eða jafnvel háskóla. Þjóðir, skulum við segja þær, sem byggja Ghana og ríkin þar í kring, lifðu við hámenningu á 10.–14, öld, á sama tíma sem við skópum einhverja merkilegustu menningu í Evrópu. Sú höggmyndalist, sem sköpuð var þá í þessum ríkjum, á sér enga líka í veröldinni nema þá grísku. Og þeir ferðamenn, sem komu til þessara landa þá, á staði eins og Timbuktu og aðra slíka, þeir fundu þar steinlögð stræti, glæsilegar hallir og hámenntaðar þjóðir. Ferðamenn, sem skrifa sína ferðasögu frá 14. og 15. öld, kunna þessa sögu að segja. Það, sem braut síðan niður menningu þessara þjóða, var þrælahaldið, þrælaveiðarnar, þrælaverzlunin, það, að kaupmennska Evrópu og Norður-Ameríku brauzt inn í þessi lönd, rændi þaðan þorra íbúanna og sérstaklega þeim yngstu og duglegustu og flutti þá burt og veitti þessum þjóðum slík ólífissár, að öll þeirra menning hrundi í rústir og hefur nú um 5 aldir verið þannig, að Evrópumenn hafa reynt að skapa þá hugmynd, að þarna væru raunverulega villiþjóðir, sem á allan hátt væru ekki til annars fallnar, en að vera raunverulega þrælar.

Við erum ein af þeim fáu hvítu þjóðum, sem höfum orðið fyrir svipuðum örlögum og þessar þjóðir, séð okkar menningu brotna niður, okkar þjóð svo að segja útrýmt og megininu af okkar dýrgripum meira að segja stolið eða flutta úr landi á annan máta. Það er þess vegna ekki aðeins, að það sé svo margt sameiginlegt í okkar sögu og því, hvernig við höfum brotizt áfram á þessari síðustu öld, sem gæti orðið þessum þjóðum til uppörvunar. Það er líka eitt, sem ég vildi leyfa mér að benda á. Sumt af þessum þjóðum Afríku, — eins og ég tók fram, er þeirra þjóðfélagsstig mjög misjafnt, — en sumt af þessum þjóðum Afríku stendur enn þá á því frumstigi ættflokka, sem við stóðum á að nokkru leyti, þegar okkar land byggðist. Eitt af þeim vandamálum, sem þessar þjóðir eru að glíma við, er að steypa þessum ættflokkum saman í þjóð. Og það er pólitískt atriði, sem leyst hefur verið á ýmsan máta í sögu þjóðanna. Sumar þjóðir reyna að leysa það að dæmi Haralds hárfagra í Noregi. Við Íslendingar erum ein af þeim fáu þjóðum veraldar, sem reynt hafa að leysa slíkt vandamál á friðsamlegan hátt. Sú þjóðfélagslega tilraun, sem hér var gerð hjá okkur á 10. og 11. öld, var að því leyti einstæð í veraldarsögunni, að það var gerð tilraun til þess að þróa ættflokka yfir í þjóð á friðsamlegan máta og það sem merkilegra er, við erum ein af þeim fáu þjóðum, sem eiga til sögu um, hvernig þetta var gert og þar að auki, sem einstakt er í öllum heiminum, við eigum til bókmenntir þar sem þessi þróun er höfuðatriðið í þjóðfélagslýsingunni, Íslendingasögurnar, þannig að við höfum alveg einstaka aðstöðu til þess að geta kynnt þessum þjóðum með fordæmi okkar þjóðar að fornu og nýju, á hvern hátt slíkar smáar þjóðir, þjóðir, sem hafa verið nýlenduþjóðir, eða þjóðir, sem standa t.d. á ættflokkastigi, geta reynt að leysa sín mál á friðsamlegan máta. Það hafa að vísu fleiri þjóðir reynt þetta og um nokkurn tíma með árangri, eins og við gerðum á 11. og fram á 12. öldina, t.d. indíánar. Þeir eiga enga sögu til um þetta. Hjá þeim birtist þetta einvörðungu, í þeirra goðsögn, sem Longfellow bjó til sitt fræga sögukvæði um.

M.ö.o.; aðstaða okkar Íslendinga vegna okkar framkvæmda nú á tímum, vegna okkar gömlu sögu er alveg einstæð til þess að kynna þessum þjóðum, ekki sízt Afríku, hana þannig að þær ekki aðeins gætu meðtekið frá okkur nokkra þekkingu á þeim sviðum, sem við nú búum yfir í atvinnugreinum, heldur og að okkar gamla fordæmi mætti verða þeim til nokkurrar leiðbeiningar um þá sögulegu þróun, sem þeir eru að reyna að ganga í gegnum. Hve margbrotin hún er, verður e.t.v. greinilegast, þegar menn hugsa út í það, að sumar af þessum þjóðum lýsa því yfir í dag, að þær ætli sér að reyna að skapa grundvöll fyrir sósíalisma í sínu landi, — þjóðir, sem jafnvel enn þá standa á ættflokkastigi. M.ö.o.: ef maður tæki þetta í mannkynssögustíl, þá væri það að leysa svo að segja sama verkefnið sem bæði Haraldur hárfagri og Lenin höfðu verið að glíma við. Þá sér maður bezt, hvílíkt óskaplegt verkefni það er, sem þessara þjóða bíður, og hve þekking, ekki aðeins á atvinnuvegum, heldur líka á sögu og þjóðfélagsþróun, er þeim nauðsynleg. Og þekking í þessum löndum er það, sem skortir hörmulegast af öllu, því að þótt Evrópuþjóðirnar, sem drottnuðu þarna, sæju rækilega um að halda þeim fátækum og kúguðum, þá sáu þær frekar öllu öðru um að halda þeim þekkingarlausum, gersamlega niðri í fáfræði, þannig að þeir fáu menn, sem nú eru forustumenn þessara þjóða, það eru menn, sem hafa venjulega brotizt kannske fyrst með því að komast á trúboðsskóla og síðan til Bretlands eða Bandaríkjanna og afla sér þekkingar og orðið síðan samsvarandi leiðtogar þessara þjóða og Jón Sigurðsson var hjá okkur, enda álíka trú og dýrkun á mörgum þeirra foringjum og er á honum hjá okkur.

Ég held þess vegna, að þau kynni, sem einstakir menn frá þessum þjóðum gætu haft af okkar landi, okkar núverandi atvinnugreinum, okkar reynslu um breytingu frá nýlenduþjóð og til tiltölulega velmegandi, bjargálna þjóðar og kynni af okkar sögu og þjóðfélagsháttum gætu orðið þeim álíka mikil lyftistöng í þeirra glímu við þeirra erfiðu viðfangsefni eins og sú efnahagslega og tæknilega þekking, sem við gætum veitt þeim. Ég vil þess vegna alveg sérstaklega taka undir þessa till. hv. 10. þm. Reykv. og vonast til þess, að sú nefnd, sem fær hana til afgreiðslu, taki hans hugmyndir til greina um að gera þessa till, ýtarlegri um, hvernig frá þessu skuli ganga, tryggja það, að fé sé veitt til þessara framkvæmda.

Ég hefði að vísu verið þeirrar skoðunar, að það hefði verið eðlilegast, eins og hann gat um, að þessi till. færi til utanrmn. En ég þykist vita, að hann hafi, eins og við höfum margir fleiri, jafnvel þótt við séum í þeirri hv. n., nokkuð mikla vantrú á að nokkuð komi aftur, sem til þeirrar n. fer. Það liggja öll spor inn í þann helli og ekkert út. En þó veit ég nú ekki, hvort ekki væri hugsanlegt, þegar annað eins mál er í veði og þetta, sem virðing okkar liggur við að við afgreiðum rausnarlega, að það væri hægt að vekja þá sofandi nefnd af sínum Þyrnirósarsvefni og fá hana til þess að afgreiða slíkt mál eins og þetta. Hún ætti að geta séð virðingu sína í því að taka þó einu sinni fyrir mál, utanríkismál, sem ég held að allir þm. ættu að vera sammála um. Við vitum, að það, hve mjög hún hefur lagzt á mál á undanförnum áratugum, hefur mjög stafað af því, að þangað hafa farið mörg mál, sem menn hefur mjög greint á um. Þegar nú einu sinni kemur mál, þar sem Ísland gæti bæði látið gott af sér leiða og um leið máske risið sem stærra og meira ríki og betra í augum margra þjóða heims, sem hjálpar þurfa við, þá held ég. að utanrmn. mundi finna til þess sóma síns að afgreiða svona mál vel og myndarlega.