11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

211. mál, umferðarkennsla

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Jafnframt því sem ég vil þakka hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann gaf við fsp. minni hér áðan, langar mig lítillega að geta þeirrar ástæðu, sem lá til þess, að ég bar þessa fsp. fram.

Ég sagði áðan, að það færi tvennum sögum af framkvæmd þeirra lagaákvæða, sem ég rakti úr umferðarlögunum frá 1958 og reglugerð frá 1960. Einmitt þetta kemur vel fram í grein, sem rituð var í septemberhefti Samvinnunnar af Baldvin Þ. Kristjánssyni, sem ég hygg að sé mjög vel kunnugur framkvæmd þessara mála vegna starfs síns um fjölda ára, en við lestur þeirrar greinar er ekki hægt að draga aðrar ályktanir en þær, að framkvæmdin um kennslu í umferðarmálum í barna- og unglingaskólum landsins sé meira og minna í molum. Með leyfi hæstv. forseta, langar mig til að lesa upp úr þessari grein, sem birzt hefur í opinberu blaði og getur þess vegna ekki talizt neitt leyndarmál, — blaði, sem lesið er af þúsundum landsmanna, og ég hef ekki orðið var við, að nein leiðrétting kæmi fram af opinberri hálfu á því, sem staðhæft er í þessari grein. Baldvin Þ. Kristjánsson segir í grein þessari m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað mundi nú líða framkvæmd þessara merku fyrirmæla,“ þ.e.a.s. fyrirmælanna, sem ég rakti hér áðan úr umferðarlögunum og úr reglugerðinni um umferðarkennslu í skólum landsins, — „hvað mundi nú líða framkvæmd þessara merku fyrirmæla á undanförnum árum og enn í dag? Það getur ekki heitið, að viðkomandi skólar viti af þeim nema fyrir afspurn. Þeir hafa ekki móttekið nein fyrirmæli opinberra aðila í áframhaldi af og til samræmis við þessi grundvallandi reglugerðarfyrirmæli. Það mun t.d. ekki finnast stakt orð, sem farið hefur skriflega á milli skólanna og fræðslumálastjórnarinnar í tilefni af setningu hinna nýju umferðarlaga og reglugerðar, þar sem ný skyldunámsgrein er þó fyrirskipuð. Hvað vilja menn nú hafa það betra og hvað geta þeir þá getið sér til um sjálft lífið og starfið að baki? Þetta er með öllu ótrúleg, en dagsönn saga. Í orði er fyrir mörgu séð, en sárafáu í framkvæmd. Þannig er allt í molum um gengi laga og reglugerðar í sjálfu því mannlífi, sem á að þjóna. Ég meira en efast um, að nokkur lagafyrirmæli frá upphafi Íslandsbyggðar hafi verið svo lengi og ferlega fótum troðin sem þessi og áreiðanlega engin með viðsjárverðari afleiðingum.“

Ég tel rétt, að þetta komi fram hér á hv. Alþingi í sambandi við þær umr., sem þegar hafa orðið út af þeirri fsp., sem ég bar fram og við höfum nú verið að ræða.