18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

107. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, er frv. þetta fylgifrumvarp frv. um söluskatt. Fjhn., sem hefur haft þetta til meðferðar, hefur eðlilega haft sömu afstöðu til þessa máls og söluskattsfrv., sbr. nál. meiri hl. á þskj. 186. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til þeirra skýringa við þetta frv., sem hæstv. fjmrh. gaf, þegar hann lagði það fyrir. En ég vil þó aðeins leyfa mér að vekja athygli á brtt. við frv. frá ríkisstj., sem flutt er á þskj. 194, af því að ég minnist þess ekki, að fyrir henni hafi verið talað sérstaklega, en þessi brtt. er eðlileg afleiðing þeirrar brtt., sem hæstv. ríkisstj. hafði flutt við söluskattsfrv., þannig að lækkun söluskattsins kemur fram sem tilsvarandi hækkun á þeim hundraðshluta, sem sveitarfélögunum er ætlaður. En þetta breytir ekki því grundvallarsjónarmiði, sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir, sem er það, að hlutur sveitarfélaganna í söluskattinum verði sem næst óbreyttur að krónutölu.