02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Árið 1949 voru sett hér á Alþingi lög um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins. Þessi lög giltu síðan með lítils háttar breytingum þar til á árinu 1962, að sett var í þeirra stað löggjöf um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Meginbreytingin, sem þá var gerð, var sú, að auk bátaflotana var nú ákveðið, að togararnir skyldu einnig verða aðilar að sjóðnum. Jafnframt var ákveðið að leggja fram úr ríkissjóði 37½ millj. kr. sem stofnfé til togaradeildar. Aflatryggingasjóður hefur síðan skipzt í 4 deildir: síldveiðideild, almenna deild bátaflotana, togaradeild og jöfnunardeild. Árlegar tekjur sjóðsins eru 1¼% af útflutningsverði íslenzkra sjávarafurða, svo og árlegt framlag úr ríkissjóði, sem nema, skal helmingi á móti útflutningsgjaldinu. Tekjurnar skiptast þannig milli deilda, að síldveiðideild, almenn deild bátaflotans og togaradeild fá hver um sig hálfar tekjur af útfluttum afurðum viðkomandi greinar, en hinn helmingurinn rennur í jöfnunarsjóð. Úr einstökum deildum og jöfnunarsjóði er síðan heimilt að úthluta eftir sérstökum reglum, sem ég fer ekki út í hér.

Árlegar tekjur aflatryggingasjóðs nema allhárri upphæð. T. d. er framlag ríkissjóðs í fjárlagafrv. fyrir árið 1965 áætlað 20 millj. kr., og er því ráð fyrir því gert, að heildartekjurnar nemi þrefaldri þeirri upphæð, eða 60 millj. Það er því vissulega ástæða til þess, að árlega sé gerð á opinberum vettvangi grein fyrir hag þessa sjóðs og einstakra deilda hans. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram á þskj. 111 svo hljóðandi fyrirspurn:

„1) Hve mikið fé hefur verið greitt úr aflatryggingasjóði á undanförnum 4 árum: a) í heild, b) úr hverri einstakri deild sjóðsins?

2) Hver er eign aflatryggingasjóðs nú og hverrar einstakrar deildar?

3) Hverjar eru áætlaðar árstekjur hverrar deildar um sig?“

Ég vænti þess, að það valdi ekki misskilningi þó að ég í fsp. nefni aðeins aflatryggingasjóð, en eins og ég sagði, þá er sjóðurinn með því nafni aðeins 2½ árs gamall, en hét áður hlutatryggingasjóður. Þetta ætti ekki að þurfa að valda misskilningi, vona ég, þar sem í rauninni er um sama sjóðinn að ræða.