02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3203)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það er náttúrlega enginn vegur að ræða þetta mál efnislega, sem hér var spurt um í upphafi, í fyrirspurnatíma. Til þess er ræðutími þm. allt of stuttur, þar sem ræðutími er ekki nema 5 mín. En ég vildi þó aðeins út af þeim athugasemdum, sem hér hafa komið fram, segja nokkur orð.

Því hefur verið haldið fram, að bátaútvegurinn standi aðallega undir togaraflotanum. Þetta er ef til vill rétt að nokkru leyti, en það er ekki rétt að öllu leyti. Í fyrsta lagi má segja það, að togararnir hafi verið hraktir af miðunum, hraktir af sínum gömlu miðum, til þess að bátarnir fengju þar einir að vera.

Þetta hefur orðið til þess, að afli togaranna, a.m.k. hér á heimamiðum, síðan landhelgin var færð út 1958, hefur orðið svo miklu minni en áður, að það er alls ósambærilegt. Fram til þess tíma var afli togaranna sum árin um og yfir 40% af heildarafla landsmanna. Eftir að þessi útfærsla var gerð, hafur aflinn komizt niður í 5–6–7% af heildaraflanum. Það er náttúrlega auðséð, að þetta kallar á aðgerðir og þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið til þess að aðstoða togarana, svo að þeir þyrftu ekki alveg að gefast upp, hafa að nokkru leyti verið þær, sem gerðar voru með frv. um breytingu á hlutatryggingasjóði. Mál togaranna hafa verið rædd hér á Alþingi áður og mér hefur skilizt á hv. alþm., að flestir þeirra gætu ekki hugsað sér, að togaraveiðar yrðu algerlega lagðar niður af Íslendingum. Það er, ég vil segja eini möguleikinn fyrir okkur til þess að sækja afla á fjarlæg mið t.d., ef möguleikar væru þar, en ekki eða minni á heimamiðum.

En eigi að síður, þessi athöfn, sem gerð var með útfærslu landhelginnar, hún er góð og þörf, — ég er ekki að mæla á móti henni, síður en svo, — en hún hefur haft þessar óhjákvæmilegu afleiðingar, að togaramiðin hafa færzt yfir á bátana. Og út frá því sjónarmiði væri kannske ekki alveg óeðlilegt að hugsa sér, að bátarnir létu eitthvað af höndum rakna til þess að bæta togurunum þetta upp. Þessi hugsun liggur sjálfsagt til grundvallar fyrir setningu aflatryggingasjóðslaganna að einhverju leyti.

En svo vil ég enn benda á það, að til aflatryggingasjóðsins nú er lagt miklu meira fé úr ríkissjóði, en áður var gert til hlutatryggingasjóðs, þannig að segja má, að kannske mestur hlutinn af því fé, sem gengur til togaranna, sé úr ríkissjóði kominn, en ekki frá bátunum. Hins vegar hefði vitaskuld, ef togarastyrkurinn þyrfti ekki að vera þetta mikill. meira fé getað runnið af ríkissjóðsframlaginu til báta, sem hefðu verið þurfandi fyrir það. En þetta er svo mikið vandamál, að það er ekki hægt að segja: Þetta má gera og hitt ekki gera, — því að hagsmunirnir hjá báðum þessum hópum, bátahópnum og togarahópnum, eru svo samtvinnaðir á einn veg og annan, að það er ekki unnt að veita öðrum, án þess að það að einhverju leyti geti snert hinn. Og það er það, sem raunar hefur verið gert.

Það hefur verið til hagsbóta fyrir bátana, að togararnir hafa verið útilokaðir frá miðunum. Þess hafa togararnir orðið að gjalda, en bátarnir notið. En hins vegar hefur aflatryggingasjóðsgjaldið runnið meira til togaranna en til bátann, og þess hafa togararnir notið í vandræðum sínum.

Hvað gera skuli við togarana, er líka vandamál, sem verður sjálfsagt ekki leyst hér. Það hafa verið settar nefndir til að athuga málið og það er ekki af því, að það skorti nefndir til þess að athuga hag togaranna, að farið hefur eins og gert hefur, heldur vegna hins, að það hefur ekki verið hægt að finna nein svæði handa togurunum til þess að fiska á, þar sem þeir hafa getað fengið nægilegan afla til þess að standa undir sínum rekstri. Og meðan við viljum hafa togaraútgerðina gangandi, þá verðum við að gera okkur þetta ljóst, að það verður að hjálpa þeim til þess að fá það, sem á skortir, að aflinn nægi fyrir rekstrinum.

Það eru líka aðrar athuganir, sem hafa verið í gangi, sem ég skal ekki koma inn á. Kannske gefa þær einhverja raun, en athuganir og það jafnvel stöðugar athuganir hafa farið fram á þessum málum, hvað hægt væri að gera fyrir togarana. Þó að það hafi verið nefnt að taka þá inn fyrir 12 mílna mörkin, þá er það mál líka svo flókið, að það hefur ekki fengizt enn þá krufið nægilega til mergjar, til þess að hægt hafi verið að gera ráðstafanir í því sambandi, sem sjálfsagt verða gerðar, hvort sem þær verða á þann veg, að togararnir verða lokaðir úti, eða þeim verður hleypt eitthvað inn fyrir. Þetta verður eilíft árekstramál og má sjálfsagt gera það að meira eða minna árekstramáli, en það verður ekki leyst nema með skilningi og samkomulagsvilja frá beggja hálfu.