02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það, sem mér finnst í rauninni varhugaverðast í sambandi við þessi mál, þ.e.a.s. varðandi það, hvernig á að taka á vandamálum togaranna er sú skoðun, sem kemur fram hjá ýmsum, sem um þessi mál ræða, og mér fannst að kæmi hér allmikið fram hjá hæstv. sjútvmrh., að binda sig við það, að vandamál togaraflotans íslenzka stafi eingöngu af útfærslu landhelginnar út í 12 mílur. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að þetta er rangt. Ég efast ekkert um það, að breytingin á veiðisvæðunum við landið hefur haft sín áhrif fyrir togarana. Það er enginn vafi á því, að rekstrargrundvöllur togaranna þrengist nokkuð við þessa útfærslu, en ég álit, að þar sé um miklu minna atriði að ræða en ýmislegt annað, sem þarna kemur inn í þetta vandamál. Ég held því, að það megi ekki á neinn hátt hugsa sér málið þannig, að annars vegar hafi bátafloti landsmanna fengið þessi veiðisvæði, sem hafi verið tekin af togurunum, tap togaranna stafi af þessu og af því verði að skattleggja bátaflota landsmanna, til þess að færa til baka aftur.

Þessi hugsun, sem að nokkru leyti kom fram í frv. til breytinga á hlutatryggingasjóðslögunum, var röng, hún var mjög hættuleg. Hún braut það prinsip, sem í gildi hafði verið áður, þegar menn höfðu slegið því föstu að skattleggja ekki í sambandi við aflatryggingasjóð einstakar og sérskildar greinar sjávarútvegsins fyrir aðrar. Þá var því slegið föstu, að það mætti ekki skattleggja síldveiðiflotann í landinu til þess að standa undir þorskveiðiútgerð og það mætti ekki heldur skattleggja þorskveiðiútgerð bátanna til þess að standa undir síldveiðiútgerð. En með þessari breytingu var farið inn á hina leiðina, að skattleggja raunverulega bátaútgerðina í landinu til þess að standa undir töpum togaranna.

Ég held, að það sé rétt, að það vanti nefnd frá hálfu Alþingis til þess að kanna alvarlega vandamál togaraflotans og leita þar samkomulags á milli þingflokkanna um úrræði í þeim efnum. Og mér er nær að halda, að þá mundu finnast ýmis úrræði, sem yrðu handbetri en þau, sem nú hafa verið framkvæmd, ef yrði stofnað til slíkrar rannsóknar af hálfu þingflokkanna út af þessu vandamáli. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þó að framlög ríkissjóðs hafi hækkað nokkuð til aflatryggingasjóðs, þá fer því auðvitað víðs fjarri, að það hafi verið hækkun frá ríkissjóði, sem standi undir þessum stórauknu greiðslum til togaranna. Það sést auðvitað bezt á því, að þegar bátaflotinn verður að borga mikinn meiri hl. af öllum tekjum sjóðsins, þá hefur hann eigi aðsíður ekki fengið nema tiltölulega litlar upphæðir, eins og upplýsingarnar hér áðan báru vott um, sum árin jafnvel aðeins 8.5 millj. kr. allur bátaflotinn í landinu og önnur á milli 20 og 30 millj. kr., en bátaflotinn borgar auðvitað í þetta kerfi miklum mun meira.

Ég vil sem sagt endurtaka það sem áskorun alveg sérstaklega til sjútvmrh., að hann íhugi það, hvort hann getur ekki fallizt á, að sett verði þingnefnd til þess að athuga þetta vandamál togaraflotans, svo að hægt verði sem allra fyrst að hverfa út af þessu kerfi, sem nú er í gildi, þar sem er um raunverulega fjárhagslega millifærslu að ræða á milli bátaflotans og togaraflotans.