03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

93. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki að ófyrirsynju, þó að spurt sé um starfsemi Tunnuverksmiðja ríkisins og þær fyrirspurnir komi frá þm., sem gæta hagsmuna Akureyringa og Siglfirðinga og hafa nú verið gefnar rækilegar upplýsingar um þessi mál. En þar sem ég á sæti í síldarútvegsnefnd og þar með í stjórn tunnuverksmiðjanna, því að ákvæðin eru þannig, að síldarútvegsnefnd skal jafnframt fara með stjórn tunnuverksmiðjanna, þá vil ég segja um þetta mál örfá orð.

Það hefur vafalaust vakið einna mesta athygli í þessum upplýsingum hæstv. ráðh., sem byggðar eru á skýrslu stjórnar tunnuverksmiðjanna, að íslenzkar tunnur eru dýrari, en norskar eða erlendar tunnur yfirleitt. Þá kemur upp í hugann: Á þá íslenzk tunnuframleiðsla rétt á sér, eða er hægt að bæta úr þessu, er hægt að framleiða tunnur ódýrar hjá okkur? Ég held, að það sé tvímælalaust rétta svarið, að við getum þarna á margan hátt úr bætt, þannig að okkar tunnuframleiðsla innanlands verði ódýrari. Í fyrsta lagi er það skoðun mín, að það er rangt skipulag og tryggir ekki örugglega fullnægjandi góðan rekstur tunnuverksmiðjanna, að það sé hjáverk síldarútvegsnefndar að stjórna verksmiðjunum. Ég held, að það sé ekki rétt. Í annan stað hefur það verið svo, að framkvæmdastjórn tunnuverksmiðjanna hefur verið einnig hjáverk framkvæmdastjóra síldarútvegsnefndar á Siglufirði. Vafalaust hefur hann rækt þetta starf eins vel og honum hefur verið unnt að gera það sem aukastarf, en honum hefur sjálfum fundizt þetta ófullnægjandi, því að hann sagði á s.1. ári þessu starfi upp sem framkvæmdastjóri tunnuverksmiðjanna. Þá var auglýst eftir verkfræðimenntuðum manni til þess að veita tunnuverksmiðjunum forstöðu, þ.e.a.s. taka að sér framkvæmdastjórn, en allar slíkar auglýsingar urðu árangurslausar, enginn verkfræðingur fékkst til þess að taka búsetu á Siglufirði til þess að vera þó, vissulega vel launaður framkvæmdastjóri. En ég álít, að það, að stjórn og framkvæmdastjórn Tunnuverksmiðja ríkisins sé aukaverk, hjáverk, það tryggi ekki nægilega, að þessum málum sé sinnt og reksturinn að öllu leyti verði hinn hagkvæmasti. Þarna held ég, að þurfi úr að bæta.

Í annan stað er það svo orðið ljóst, að verksmiðjan á Akureyri er ekki nema hálfgerð. Þar eru verksmiðjuhús og vélar, en engin geymsla. Þessi geymsluhúsaskortur á Akureyri veldur því í rekstri þessa fyrirtækis, að gífurleg útgjöld verða við flutning á efni og tunnum fram og aftur, eins og hv. fyrirspyrjandi lýsti átakanlega, því að það er svo, að tunnurnar eru fluttar frá Dagverðareyri til Akureyrar eða frá Akureyri til Dagverðareyrar og aftur til hafnar og efnið fram og aftur og tunnurnar til geymslu út um hvippinn og hvappinn, í hlöður og fjós hingað og þangað og að svo miklu leyti sem þær eru látnar vera úti á víðavangi, verða mikil vanhöld á tunnunum, stafir sífellt að springa og þarf viðgerð á tunnunum aftur. Þetta er vitanlega ófullnægjandi. Það má segja, að það hafi verið verkefni fyrir mörgum árum að byggja geymslu við verksmiðjuna á Akureyri, en það hefur nú dregizt úr hömlu, en nú s.l. ár t.d., þegar þetta mál hefur verið á dagskrá, hefur nokkuð dregið úr mönnum með það sökum aflaleysis síldar fyrir Norðurlandi og e.t.v. hefur hvarflað að mönnum, að í stað þess að byggja geymsluhús fyrir nokkrar milljónir við verksmiðjuna á Akureyri, væri réttara að flytja hana, það er ekki fyrir að synja, að þeirri hugsun hefur skotið upp, flytja hana t.d. til Austfjarða.

En hvað stendur í vegi fyrir því þá að flytja þessa hálfu tunnuverksmiðju frá Akureyri til Austfjarða og byggja þar við hana geymsluhús náttúrlega líka? T. d. það, að það mun vera leitun á plássi á Austfjörðum, sem hafi 40–50 starfandi karlmenn verklausa að vetrinum, þannig að hægt sé örugglega að tryggja slíkri verksmiðju þar vinnuafl. Verksmiðjan er því á Akureyri, en geymslulaus, og annað tveggja verður að gera að flytja hana á stað, þar sem minni flutningskostnaður legðist a.m.k. næstu árin á tunnurnar, þ.e.a.s. flytja hana meira í námunda við veiðisvæðin og ganga þar frá byggingu hennar, eða þá láta verða af því að byggja geymslur fyrir verksmiðjuna, því að svona er þetta óviðunandi og gerir tunnurnar miklu dýrari og verri vöru.

Í þriðja lagi mundi ég svo vilja segja það, að með því að reka verksmiðju eins og við gerum, bara að vetrinum, láta það liggja niðri að sumrinu, en atvinnulífi hefur lengstum verið háttað þannig, bæði á Siglufirði og Akureyri, að ekki hafa verið menn á lausum kjala að sumrinu til þess að vinna í þessum verksmiðjum, þá leggst verksmiðju vinna niður og þessar verksmiðjur þannig reknar aðeins að vetrinum, — þetta gerir það að verkum, að framleiðslan verður áreiðanlega dýrari.

Enn kemur það til, að þessi verksmiðjukostur og það fjármagn, sem í honum er bundið í húsum og vélum, er ekki hagnýtt nema með vinnu á einni vakt og það er enginn verksmiðjurekstur heldur. Og þetta er enn ein skýringin á því, að tunnur hjá okkur hljóta að verða dýrari, en í Noregi. En gildi það, sem okkar verksmiðjur og tilvist þeirra hefur þó er, að Norðmenn vita það, að ef þeir halda ekki niðri verðinu eins og þeim er mögulegt, getum við gripið til þess að framleiða okkar tunnur sjálfir og ég er fullviss, að tilvist tunnuverksmiðjanna á Siglufirði og Akureyri hefur haft þýðingu að því leyti, að við höfum fengið hagkvæmari samninga við erlenda tunnuframleiðendur.

Ég játa því fyllilega sem meðlimur í síldarútvegsnefnd, að mjög miklir gallar eru á þessum rekstri og þurfa úrbóta, bæði um stjórn og rekstur fyrirtækjanna og enn fremur, að mikill dráttur hefur orðið á umbótum og veldur þar vafalaust fyrst og fremst féleysi og þarf þarna úr að bæta. En samkeppnisfærir verðum við tæpast í tunnuframleiðslu, nema við höldum uppi þessum verksmiðjurekstri árið um kring og vinnum í verksmiðjunum á tveimur vöktum, en með einni vakt verður þessi framleiðsla alltaf dýrari, en í fullkomnum verksmiðjurekstri erlendis og er þá horfzt í augu við það, að hér eru vinnulaun mun lægri, en t.d. í Noregi.