14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

1. mál, fjárlög 1965

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Í framsögu hv, formanns fjvn. í dag kom fram, að fjárveiting til skólabygginga sé við það miðuð, að framlag ríkissjóðs sé að fullu greitt á 5 árum, frá því að bygging hefst. Til þess að svo megi verða, er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að miðað sé við kostnaðaráætlun, sem sé sem næst sanni, eftir því sem bezt má sjá fyrir á hverjum tíma. Í ræðu frsm. kom fram, að þetta hafi yfirleitt verið gert, og fjvn. umreiknar samkv. því þær tölur, sem fyrir liggja um fjárveitingar til skóla. Í einu tilviki er mér þó kunnugt um, að þetta hafi ekki verið gert og að till. fjvn. sé miðuð við eldri kostnaðaráætlun en fyrir hefur legið að undanförnu. Ég hef talið rétt að flytja till. um breytingu á fjárveitingu þeirri, sem hér er um að ræða. Það er brtt. við 14. gr. A, XIII, gagnfræðaskólahús á Selfossi, að í staðinn fyrir 875 þús. komi 2 millj. 625 þús. Sé miðað við, að byggingarkostnaður skóla sé 2200 kr. á rúmmetra, ætti fjárveitingin í ár að vera tvöföld sú upphæð, sem hér er tilgreind í till. fjvn. á þskj. 148, eða 1 millj. 750 þús. í stað 875 þús. Ef standast eiga ákvæði reglugerðar um greiðslu framlags til skóla á 5 árum, verður að bæta við þessa upphæð þeirri fjárhæð, sem vantalin var á fjárl. fyrir yfirstandandi ár, þ.e.a.s. 1964. Veitt var á þeim fjárl. 875 þús., og þyrfti þá að bæta við á fjárlög næsta árs jafnhárri upphæð, þ.e. 875 þús., til þess að unnt verði að láta greiðslurnar verða jafnar á 5 árum, sé miðað við 1964 sem fyrsta greiðsluár. Nú er við þetta enn að bæta því, að fyrsta fjárveiting til gagnfræðaskóla á Selfossi fór fram á árinu 1963, og voru þá veittar 500 þús. kr. til þessarar framkvæmdar. Ef miða ætti við 1963 sem fyrsta greiðsluár til þess skóla, ætti í árslok 1965 að vera lokið þriðja árinu, og þá þyrfti að bæta við enn þá í fjárl. næsta árs 1 millj. 250 þús., til þess að hlutur ríkissjóðs yrði þá talinn greiddur. Það er hins vegar ekki lagt til hér, að það verði gert, heldur aðeins að miðað sé við, að árið 1964 verði talið upphafsár. Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að sveitarsjóður á Selfossi mun vera reiðubúinn til þess að standa við sinn hluta af fjárveitingum til skólans.

Um þörf fyrir þessa hækkun þarf ekki að fjölyrða. Selfossbær er í örum vexti og nálgast nú 2000 íbúa. Nemendafjöldi gagnfræðaskólans hefur tvöfaldazt á fáeinum árum, en skólinn býr við allsendis ófullnægjandi skilyrði hvað húsnæði snertir. Hann hefst við í húsakynnum barnaskólans og hefur þar til umráða 3—4 kennslustofur. Gagnfræðaskólann sækja nemendur frá fleiri sveitarfélögum en Selfossi, og hann er eini skólinn á Suðurlandsundirlendi með 4. bekk gagnfræðastigs. Ætlað er, að hann verði eini verknámsskólinn á Suðurlandsundirlendi. Ef fjárveitingar verða ekki færðar upp til samræmis við það, sem hér er lagt til, má telja, að byggingartíminn dragist svo lengi, að til hreinna vandræða horfi. Ég vænti þess, að hv. Alþingi taki þessa ábendingu um hækkun til vinsamlegrar athugunar.