08.02.1965
Neðri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. var þeirrar skoðunar, að ríkisstj. hefði haft rangt fyrir sér, þegar hún hefði talið, að vörubílstjórar ættu sjálfir að greiða skattinn. Nú verð ég að segja það, að ríkisstj. hafði í sjálfu sér ekkert ákveðið um þetta. Það er hvergi sagt í l., hvernig með þetta atriði skuli fara. Hins vegar segir bæði í l. og reglugerðinni, hvernig með ágreiningsatriði skuli fara af ýmsu tagi, og þetta virðist hafa verið ágreiningsatriði, sem mátti túlka á fleiri en einn veg. Félmrn. hafði upprunalega þá aðferð við túlkun málsins, að þeir, sem væru tryggingagjaldskyldir, þeir skyldu einnig greiða skattinn, en hefur eftir atvikum fallizt á, þar sem þessi flokkur manna hefur sérstakan samning við atvinnurekendur, þá verði þeir skoðaðir sem launþegar og ekki látnir greiða skattinn, heldur þeir atvinnurekendur, sem þeir vinna hjá. Um þetta geta menn haft skiptar skoðanir, og þetta, hvor skattinn greiðir, kemur ekki í þága við neitt samkomulag, hvorki júnísamkomulagið né annað, vegna þess að á þetta er ekki minnzt í því, hvernig þessi greiðslumáti verður hafður á. En eftir atvikum þótti rétt, þar sem hér var um hreinan vinnusamning að ræða, svo sem liggur fyrir, að láta þetta þá gilda um vörubílstjórana á sama hátt og um aðra launþega, að atvinnurekandinn annaðist greiðsluna. En þessu fylgja talsverðir örðugleikar í framkvæmd, því er ekki að neita. Það er nefnilega þannig, að það eru ýmsir taxtar fyrir vinnu sjálfseignarvörubílstjóra, sem fara t.d. eftir því, hvað bíllinn er stór, og öðru þess háttar, þannig að launagreiðslur mannsins sjálfs eru ekki nema hluti af heildarkaupinu. Þannig verður það talsvert mikið verk fyrir skattstofuna að greina í sundur, hvað er greiðsla fyrir bifreiðina og hvað er kaupgreiðsla, handa manninum. Við þetta verður að sitja og freista þess að fá úr þessu skorið á sem réttastan hátt. En þó er þessum tveim greiðslum, bæði leigugreiðslunni fyrir bifreiðina og launagreiðslunni, talsvert blandað saman. En þessir menn vinna yfirleitt hjá fáum og stórum atvinnurekendum, og ætti þess vegna að vera hægara við það að fást heldur en á ýmsum öðrum sviðum.

Ef t.d. leigubílstjórar, fólksbílstjórar, ættu að vera undanþegnir skattinum, eins og hv. þm. vildi vera láta, mundi það þýða um leið, að skatturinn væri algerlega óinnheimtanlegur, því að auðvitað væri ekki hægt að innheimta þennan skatt hjá þeim, sem leigubíl taka hverju sinni, þannig að þar er um tvennt mjög ólikt að ræða. Innheimta skattsins af sjálfseignarvörubilstjórunum er þó tiltölulega auðveld á móts við það, ef ætti að fara að innheimta hjá öllum viðskiptamönnum fólksflutningabílstjóranna. Það er þess vegna ekki um annað að ræða en það, ef fólksbílstjórar eiga að vera undanþegnir greiðslu skattsins, að hann verði gersamlega felldur niður hjá þeim, og það er kannske það, sem hv. þm. vill. En þá kemur fjöldi manna á eftir, sem svipað er ástatt um, og um það fjallar 2. gr. l., hvernig með skuli fara þau tilfelli, þar sem svo er ástatt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — ég held, að ég hafi nú reyndar áður ítrekað þessa grein:

„Nú vinnur maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, og skal þá áætla skattstofn hans vegna þess starfs eftir því, sem ætla má, að laun hans hefðu orðið, ef hann hefði unnið starfið í þágu annars aðila?“

Þetta er sú meðferð, sem frv. gerir ráð fyrir að verði höfð hjá þessum mönnum.

Hvað því líður, að launaskattinum verði veitt út í verðlagið, get ég ekki sagt annað en það, að sumir hafa náttúrlega ástæðu til þess, þar sem ekki er undir neinu verðlagseftirliti, en hjá þeim, sem undir verðlagseftirliti eru, verður það á hverjum tíma að fara eftir því, sem verðlagsráð ákveður um það, hvor hátturinn skuli þar hafður á.