09.02.1965
Efri deild: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 9. þm. Reykv., að þetta atriði bar á góma. í hv. Nd. og var nokkuð rætt þar. Það liggur í augum uppi, að sú þjónusta eða sú framleiðsla, sem er ekki undir verðlagseftirliti, getur fengið á sig þann hluta af þessum skatti, sem þeim, sem greiðir hann, þykir hæfilegt. Hins vegar tel ég, að sú þjónusta og sú framleiðsla, sem verðlagseftirlit er á, hljóti að hlíta úrskurði verðlagsráðs eða verðlagsnefndar hverju sinni um það, á hvern hátt þessi skattur verði tekinn inn í verðlagið eða hvort hann verður tekinn inn. Þetta var það svar, sem ég gaf við þessari spurningu í hv. Nd., og ég get endurtekið það enn hér.

En þetta er þó nokkuð mismunandi vitaskuld; því að t.d. geta útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegurinn t.d., ekki velt skattinum, yfir á kaupendur sinnar vöru, vegna þess að þar er verðið fast.

Hins vegar kom til umr. í Nd. líka annað ákveðið tilfelli. Það var með leigubílstjóra, sem aka fólksflutningsbifreiðum. Þar geri ég ráð fyrir, að bifreiðastjórinn verði að borga skattinn. En sá eiginlegi vinnukaupandi þar og launagreiðandi er vitaskuld maðurinn, sem hann ekur í vagninum og hann tekur gjald fyrir að aka. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að skattinum verði í því tilfelli velt yfir á þann mann, sem vinnuna kaupir eða þjónustuna kaupir með því að taka launaskattinn að einhverju leyti upp í taxtann, sem greiddur er fyrir aksturinn.

Þetta er svo í ýmsum öðrum tilvikum líka, að það verður ekki hægt að innheimta skattinn nema í gegnum launþegann sjálfan, af því að það eru svo margir, sem njóta þjónustunnar. Það eru t.d. ýmsir iðnaðarmenn, sem vinna einir, og þá er ekki nema réttlátt að mínu viti, að í þeim tilfellum verði heimilað að færa launaskattinn frá launþeganum, sem í þessu tilfelli verður að borga hann, yfir á þann, sem þjónustuna eða vöruna kaupir, af t.d. einstæðum manni, sem vinnur einn að sinni framleiðslu, eins og við skulum segja t.d. skósmiður, sem vinnur einn og selur sína vinnu til margra. Það verður að innheimta hjá honum skattinn, og það er gert ráð fyrir því í frv. sjálfu, hvernig það skuli gert, það skuli ætla honum kaup, sem svarar því, sem hann mundi fá, ef hann væri í þjónustu annarra. Og ég tel ekki ósanngjarnt, að í þeim tilfellum verði heimilað að velta skattinum yfir á þann, sem raunverulega kaupir þjónustuna eða vöruna.