08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

102. mál, jarðræktarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu eða blanda mér mikið inn í þessar umr., en það var eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. landbrh., sem var á misskilningi byggt. Hann undraðist, að það skyldi ekki hafa komið fram fyrr en á s.l. hausti, að óskað hefði verið eftir því að taka upp styrk til vatnsveitna eða breyta l. um vatnsveitur. Þetta er ekki rétt, því að við hv. 4. þm. Sunnl. höfum flutt tvö undanfarin þing frv. til breyt. á l. um vatnsveitur, og á síðasta þingi var því máli vísað til hæstv. ríkisstj. Ég gerði fsp. um það um daginn, sem hæstv. félmrh. svaraði og gaf þær skýringar, sem hann taldi til framkvæmda í þeim málum, fólgnar í því að breyta túlkuninni á lögunum að því er varðaði dreifbýlið í sambandi við stofnæðina. Ef hæstv. landbrh. hefur mikinn áhuga á því að koma þessu máli áleiðis, eins og kom beint fram í ræðu hans hér áðan, þó að hann sé ekki undir það búinn að gera þá breytingu í sambandi við jarðræktarlagafrv., þá hefur hann möguleika til þess, þar sem þetta mál hefur ekki fengið afgreiðslu hjá hæstv. ríkisstj.

Það er svo með þetta mál sem önnur, að það er mjög á dagskrá í dag, vegna þess að þörfin fyrir stærri vatnsveitur til sveitabæjanna fer vaxandi eins og þörfin fyrir stærri vatnsveitur í kaupstöðum og kauptúnum. Það þarf því engan að undra, þótt þetta mál sé til meðferðar hér nú, m.a. vegna þess að það hefur ekki fengizt sú afgreiðsla á því gegnum breytingu á vatnsveitul., sem við lögðum til, ég og hv. 4. þm. Sunnl., með frv. okkar, sem við höfum flutt hér á tveim undanförnum þingum og hlaut þá afgreiðslu að verða vísað til hæstv. ríkisstj. á síðasta þingi, eins og ég áður sagði. Ég treysti því, að hæstv. ráðh. sýni þar áhuga sinn og fái einhverju áorkað til breytinga á vatnsveitul., fyrst ekki er hægt að koma málinu áfram í sambandi við jarðræktarlagafrv., eins og hann lét í veðri vaka.