29.03.1965
Neðri deild: 59. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

101. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til l. um lífeyrissjóð hjúkrunarfólks, en það heiti var þessu gefið í hv. Ed., þegar það var þar til meðferðar. Ég verð að segja það, að ég kann verr við þetta heiti á sjóðnum heldur en það, sem hann ber núna, sem er lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna. Þetta mál kom til meðferðar hjá hv. fjhn. í þessari deild. Ég var ekki á þingi, þegar það gerðist, og tók því ekki þátt í athugun nefndarinnar á þessu frv., en hún skilaði brtt. um það, að sjóður þessi skyldi heita lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna, en það er það heiti, sem frv. upphaflega bar. Nú finnst mér það dálítið skothent að setja í lög ákvæði um konur og menn, — konur og karlar hefði frekar getað staðizt, — en þar sem ég tel það miklu eðlilegra, að sjóðurinn haldi sínu gamla heiti og nefnist lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna, hef ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 351, sem fela þetta í sér. Nú hefur að vísu verið á það bent, að dæmi séu þess, að karlar séu farnir að læra hjúkrunarstörf og stunda þau. Ég vil nú vænta þess, að það séu undantekningar, en til þess að þeir verði ekki alveg utan við sjóðinn, legg ég til í 7. brtt. minni, að inn í frv. komi ný gr., þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvæði þessara laga gilda einnig um karla, er annast hjúkrunarstörf og hafa réttindi til þess skv. hjúkrunarlögum.“ Ég vil benda á það, að alveg hliðstætt ákvæði þessu er í frv. til hjúkrunarlaga, sem liggur fyrir. Í. 1.—6. gr. þess frv., eins og það nú er, er eingöngu talað um hjúkrunarkonur, en í 7. gr. frv. er ákvæði um það, að ákvæði frv. taki einnig til karla, sem ljúka hjúkrunarnámi og hafa þá rétt til að kalla sig hjúkrunarmenn. Nú geri ég ráð fyrir, að þetta verði samþykkt í hjúkrunarlögunum, og þá tel ég rétt að hafa alveg hliðstætt ákvæði í lögunum um lífeyrissjóð, þannig að karlar geti komið undir þau, ef þeir fást við þessi störf. Mættu þá allir vel við una. Ég geri ráð fyrir, að hjúkrunarkonur vilji helzt halda hinu gamla nafni á sínum lífeyrissjóði.

Ég vil gera ráð fyrir, og það er ákveðin von mín og ósk, að hér eftir sem áður verði það nær eingöngu konur, sem taka að sér hjúkrunarstörf. Það er svo gott að fá aðhlynningu frá góðri konu, þegar maður er sjúkur. Ég mundi alls ekki fella mig við það, að í stað konu kæmi karlmaður til að stumra yfir mér og hjálpa mér, þegar ég er lasinn. Á þessu tvennu geri ég ákaflega mikinn mun, því er alls ekki saman jafnandi. Ég vil því vænta þess, að það verði svo sjaldgæft, að til undantekninga megi teljast, að karlmenn fari að starfa á þessu sviði, — kann að vísu að vera, að þeir gætu snúizt eitthvað fyrir veikar konur á kvennadeildum sjúkrahúsa með sæmilegum árangri, — en fyrst og fremst og ég vil segja nær eingöngu eiga hjúkrunarstörfin að vera unnin af konum hér eftir sem áður, og því vil ég láta kenna lífeyrissjóð þennan við konur eins og áður og nefna hann lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna.