01.03.1966
Neðri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

12. mál, iðnfræðsla

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skilst, eftir að hafa farið yfir þetta frv., að það sé í meginatriðum gert ráð fyrir að haldist óbreytt það gamla fyrirkomulag á iðnfræðslunni, sem verið hefur, þ.e.a.s. menn þurfi að ráðast til náms hjá meistara, ef þeir vilja fá réttindi sem iðnaðarmenn. En þó er hér á einum stað í frv., sem ég tók eftir, það er í niðurlagi 13. gr., gert ráð fyrir því, að verknámsskólar, sem er nýjung samkv. frv. að setja upp, geti útskrifað menn alveg eða búið þá undir það að ganga undir próf í iðngreinum. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í iðngreinum, þar sem erfitt er að koma við námi á vinnustað, má á sama hátt ákveða, að námið fari að öllu leyti fram í verknámsskóla.“

Ég skil þetta þannig, að í þeim greinum, þar sem talið er, að erfitt sé að koma við námi á vinnustað, geti verknámsskólarnir annazt fulla kennslu og þeir menn, sem njóta hennar, þurfi þá ekki að ráða sig til iðnnáms hjá meistara eða iðnaðarfyrirtæki. Ég skil þetta þannig. En þetta sýnist mér eiginlega vera eina undanþágan frá þessari gömlu reglu. Nú skal ég ekki segja um hana annað en það, að hún er orðin nokkuð gömul, og mér finnst, að það hefði verið álitamál, hvort ekki hefði átt að hafa þessa heimild rýmri en þarna er, til þess að menn geti að öllu leyti stundað nám í verknámsskóla, úr því að þeir eru settir upp á annað borð. En trúlegt er, að þá hefði þurft að hafa ákvæðin um þá þannig, að það væri hægt að taka fleiri nemendur en mér sýnist eftir þessu frv. að gert sé ráð fyrir.

Ég ber enga brtt. fram við frv., ég vildi aðeins vekja athygli á þessu.

Enn vildi ég vekja athygli á einu atriði í sambandi við þetta, hvort það hefði ekki verið rétt að veita mönnum leyfi til þess að ganga undir verklegt próf og þá auðvitað munnlegt líka í iðngreinum, án þess að þeir hefðu stundað nám hjá meistara eða iðnaðarfyrirtæki. Við vitum, að það er til hér og hefur alltaf verið margt af mönnum, sem sagt er um, að það leiki allt í höndunum á þeim, og við þekkjum marga menn, sem hafa fengizt við ýmiss konar iðnaðarstörf, þó að þeir hafi ekki réttindi til þess, hafi aldrei fengið sveinsbréf, og þeir eru, því að þeir hafa stundað þetta meira og minna, jafnfærir í þessum greinum og margir hinna lærðu manna. Mér finnst, að þetta hefði komið mjög til álita, að gefa þessum mönnum kost á því að ganga undir próf í vissum iðngreinum, þó að þeir hafi ekki farið í gegnum þetta nám hjá iðnmeisturum. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, eins og ég sagði. Ég tel mig ekki undir það búinn að flytja hér á síðasta stigi brtt. við frv. um þetta, en mér finnst, að þetta sé mál. sem ætti að taka til athugunar hið fyrsta.