05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., heitir frv. til 1. um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík.

Því er haldið fram, að það sé óvirðing við Alþ., ef ekki beint þingræðisbrot, að samningur skuli vera lagður fyrir þingið, undirritaður af ráðh. Nú er mér ekki ljóst, með hverjum hætti er hægt að kanna vilja Alþ. í slíku efni á annan veg en þann, sem hér er gert. Það fer ekki á milli mála, að samningurinn tekur ekki gildi nema Alþ. samþykki, svo að úrslitaráðin eru hjá Alþ. Það er alkunnugt, að ekki aðeins hefur Alþ. sjálft þannig samþ. óteljandi samninga ýmislegs efnis, heldur ber slíkt við í hvers konar félagsskap, sem ákvarðanir þarf að taka. Það er ekki sízt lærdómsríkt fyrir hv. síðasta ræðumann, 5. þm. Vestf. (HV), sem er forseti Alþýðusambands Íslands og gerkunnugur starfsemi verkalýðsfélaga, að rifja upp fyrir sér hvernig samningsgerð er háttað af hálfu verkalýðsfélaganna. Yfirleitt er sá háttur á hafður, að mál er e.t.v. stundum rætt nokkuð almennt á félagsfundi í upphafi. Síðan er n. kosin til þess að eiga í samningum við gagnaðila. Sú n. hefur stundum fullt umboð og getur samið, án þess að það þurfi að berast undir fund í verkalýðsfélaginu, en hitt á sér einnig oft stað, að samningurinn sem slíkur er undirritaður af aðilum með fyrirvara um það, að félagsfundur samþykki, sem sagt nákvæmlega í því sama formi sem hér er gert.

Þetta mál hefur oft verið til umr. á Alþ. á undanförnum árum, svo að þar hefur komið fram vilji og afstaða þm., flokka og einstakra fulltrúa á Alþ., en auk þess hefur hæstv. iðnmrh. nú haft sér við hlið nokkuð á annað ár sérstaka n. þingmanna, sem hafa fylgzt með málinu í einu og öllu, svo að Alþ. hefur fylgzt mun betur með undirbúningi þessa máls heldur en nokkurs annars sambærilegs, er ég veit um af minni reynslu af þingstörfum, sem einnig er játað a.m.k. af sumum þeirra, sem í þmn. voru. Það er þess vegna gersamlega út í bláinn, þegar talað er um þingræðisbrot í þessu efni eða óvirðingu við Alþ. Það hefur verið haft nánara samráð og samvinna við Alþ. um þetta mál heldur en öll önnur sambærileg.

Eins og ég sagði, þá er frv. um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium. Þetta verður að hafa í huga, þegar meta skal þetta mál. Það vita allir, að þegar tveir óvandabundnir aðilar gera samning í viðskiptum og raunar um flest önnur málefni, þá gerir hvor um sig samninginn, vegna þess að hann hyggur samninginn vera í samræmi við sína eigin hagsmuni. Hann telur sig öðlast einhver hlunnindi eða réttindi með samningnum, sem hann ella mundi ekki fá, og hann er reiðubúinn til þess að gjalda í staðinn eitthvað af sinni hálfu, sem hann mundi ekki láta gagnaðilanum í té, nema hann fengi þessi tilteknu réttindi á móti. Slíkt er eðli allra slíkra samninga. Það er þess vegna mjög létt verk og sannast sagt algerlega út í bláinn að fjölyrða hér um það, að gagnaðili hafi fengið einhver tiltekin hlunnindi og réttindi í þessum samningi og við höfum afsalað okkur einhverju til hans með samningsgerðinni. Ef gagnaðili sæi ekki sjálfum sér hag í að gera samninginn, þá mundi hann að sjálfsögðu ekki hafa gengið að honum, alveg eins og við mundum ekki ganga að samningnum, nema því aðeins að við teldum okkur hag að samningsgerðinni. Samningurinn verður að vera hagkvæmur fyrir báða, til þess að von sé til þess, að þeir fallist á hann.

Það er svo alltaf álitamál. hvort hinu rétta jafnvægi hefur verið náð. Um slíkt má endalaust deila, en það eitt að bera það á borð og sýna fram á og þykjast ógnar mikill kappi af því, að komið sé í ljós, að gagnaðili hafi hlotið einhver hlunnindi með samningnum, sem hann ella mundi ekki njóta, slíkt er sá barnaleikur, að það er óvirðing við Alþ. að hafa uppi slíkan málflutning hér á Alþ. Íslendinga.

Því er einkum haldið fram, að því er mér hefur skilizt af þeim umr., sem staðið hafa yfir hér við 1. umr. málsins og raunar í útvarpinu á dögunum einnig, að það séu þrjú meginatriði, sem séu setjandi út á samninginn. Það er í fyrsta lagi, að orkuverðið sé of lágt, í öðru lagi gerðardómsákvæðið og í þriðja lagi, að samningurinn sé gerður til of langs tíma.

Auðvitað má endalaust deila um það, hvort orkuverðið sé of lágt eða ekki, en fullyrðingarnar um það ganga mjög á misvíxl, meira að segja hjá þeim sama, eftir því hvar hann er staddur í sinni löngu ræðu. Þannig talaði hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Vestf. (HV), ýmist um það af mikilli hneykslan, að verðið væri lægra en í Noregi, eitthvað 3 aurum lægra, og í hinu orðinu, þegar hann var nokkru lengra kominn fram í sínu máli, að stórlega væri misgert með því, að innlendir notendur yrðu að greiða 30 aura, þ.e.a.s., að verðið til útlendinganna væri 20 aurum minna en til íslenzkra kaupenda.

Nú er hér auðvitað alls ekki um sambærilegt að ræða, vegna þess að annar kaupir orkuna stöðugt, en innlendir notendur eftir því sem þeirra þörf segir til hverju sinni. En varðandi afstöðuna til Noregs, þá er það óumdeilt, að Norðmenn hafa náð í þessu, varðandi verðið eitt, hagkvæmari samningi heldur en við Íslendingar. Það er líka jafnljóst, að ef við hefðum ekki, ef svo má segja, undirboðið Norðmenn í þessum efnum, þá hefði gagnaðill okkar ekki samið við okkur um þetta efni. Því fer svo fjarri, að við höfum komið nokkuð knékrjúpandi til hans og beðið hann um að semja við okkur um þetta. Hann kom hingað fyrir allmörgum árum, leitaði eftir samningum, óskaði þá eftir enn þá lægra rafmagnsverði. Það var athugað hér, hvað við gætum bezt boðið, og þá komust menn smám saman að þeim tölum, sem nú er samið um, tölum sem eru lægri heldur en í Noregi, ámóta eins og víða annars staðar og hærri heldur en sums staðar í Norður-Ameríku og í Afríku.

Hv. 5. þm. Vesturl. (BGr) skýrði frá því í gær og hafði af því sannar sagnir, að fimm erlend álfélög hefðu horfið frá samningsgerð við Íslendinga, vegna þess að þau töldu rafmagnsverðið hér sér ekki nógu hagkvæmt. Ég get bætt sjötta félaginu við, fulltrúar þess leituðu til mín á sínum tíma. Það var Svenska Metallverken í Vesterås, sem fyrir nokkrum árum hafði mjög mikinn áhuga á því að koma hér upp álbræðslu. Viðtöl virtust gefa góðar vonir um, að samningur kæmist á, en áður en langt um leið, hurfu þeir þó frá, vegna þess að þeir höfðu náð hagkvæmari samningum í Noregi heldur en þeir töldu líklegt, að fáanlegir væru hér á landi.

Annað atriði, sem að er fundið, er gerðardómurinn. Hæstv. iðnmrh. hefur nú svo rækilega sýnt fram á, að það er síður en svo nokkur undantekning eða einsdæmi, að slíkir gerðardómssamningar séu gerðir, jafnvel á milli sjálfstæðra ríkja og einstakra fyrirtækja, — að um þetta eru óteljandi dæmi. Hv. I. þm. Austf. (EystJ.) vitnaði mjög í orð Ólafs Jóhannessonar, alþm. og prófessors. Ég er sammála hv. 1. þm. Austf. í því, að ég met prófessor Ólaf Jóhannesson mjög mikils. Ég mundi þó meta hann mjög miklu meir varðandi þessi efni, ef hann væri ekki þegar búinn að hlaupa illilega á sig hér á Alþ. varðandi einmitt svipaðar umsagnir, eins og hann að þessu sinni hefur látið leiða sig til. Ég minni á það, sem þessi hv. þm., Ólafur Jóhannesson, sagði hinn 14. nóvember 1960, hér á Alþ., með leyfi hæstv. forseta:

„Vissulega er það svo, að smáþjóð verður að varast það að ganga svo langt, að hún geti ekki alltaf verið við því búin að leggja mál sín undir úrlausn alþjóðadómstóls, því að sannleikurinn er sá, að smáþjóð á ekki annars staðar frekar skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hefur ekki valdið til að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin. Og þess vegna hefði. að mínu viti, hvert eitt spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls.“

Þetta sagði þessi hv. þm. hinn 14. nóvember I960. En þegar ríkisstj. samþ. að fallast á að bera hugsanlegan ágreining við Breta undir alþjóðlegan dómstól einmitt skv. þessari ráðleggingu, er gefin er í orðum prófessors Ólafs Jóhannessonar frá 14. nóvember 1960, þá tók hann undir áfellisdóm sinna félaga hér á Alþ. gegn ríkisstj. af þessum sökum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það framferði, en það er vissulega ekki til þess að auka álit á einmitt umsögn þessa annars ágæta manns í þessum efnum, þar sem hann lætur stjórnmálaáhugann ríða sinni góðu greind og glögga skilningi til glötunar.

Það er hins vegar rétt, að hér stendur öðru vísi á heldur en í landhelgissamningnum, því að hér yrði um að ræða deilu milli ríkisstj. og einstaklings, og hv. þm. sagði í sinni útvarpsræðu, að það væri þó alveg fráleitast af öllu, að útlendur dómur ætti að fjalla um mál milli svokallaðs íslenzks réttaraðila eins og ISAL og íslenzku ríkisstj. og það var hneykslunin yfir þessu ákvæði, sem varð orsök til hans áfellisorða gegn hæstv. iðnmrh.

En er það þá einstakt, að Íslendingar hafi afsalað sér dómsvaldi yfir íslenzkum borgurum í deilum þeirra við íslenzka ríkið, jafnvel í deilum, sem sjálfir íslenzku dómstólarnir eru búnir að fjalla um? Nei, því fer fjarri, að svo sé. Ég minnti á það þá þegar, að við erum aðilar að mannréttindasamningi, sem gerður var á vegum Evrópuráðsins. Þessi samningur var fyrst undirritaður 1950 og gerður við hann viðbótarsamningur 1952. Hann var lagður fyrir Alþ. Íslendinga 1951, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Við vorum þá saman í ríkisstj., ég og hv. 1. þm. Vestf. (HermJ), og hann var mjög áhugasamur um störf Evrópuráðsins. Ég man það glögglega, að hann leitaði til mín og bað mig að hlutast til um það, að samningurinn yrði framlagður og fengi staðfestingu Alþ. Fulltrúar Evrópuráðsins höfðu talað við hann og sagt, að treglega gengi að fá staðfestingu einstakra ríkisstj., en mikilsvert væri af ýmsum ástæðum, að samningurinn hlyti gildi. Að athuguðu máli þá varð ég við þessari ósk. Málið var borið undir Alþ. aftur 1952 og samþ. í einu hljóði hér á Alþ., ekki neitt atkv. á móti, og síðan var samningurinn staðfestur. Ég flýtti mér ekki sérlega með málið, ég verð að játa, að ég hafði ekki sérstakan áhuga fyrir því, og það var ekki fyrr heldur en í júní 1953, sem samningurinn var undirritaður af forseta Íslands, þó að Alþingi hefði samþ. hann í desember 1952. Í samningnum var fyrirvari um það, að dómsvald þessa erlenda dómstóls, sem situr suður í Strasbourg, skyldi ekki ná til ríkja nema þau semdu sérstaklega um það eða gæfu um það einhliða yfirlýsingu, eins og segir í 45. gr., 46. gr. og 48. gr. Meðan ég var utanrrh. og síðar dómsmrh., þá var þetta ákvæði ekki notað, þá féllumst við ekki á að ganga undir lögsögu dómsins, en ég hef hér afrit af till. til forseta Íslands um að viðurkenna lögsögu mannréttindadómstóls Evrópu. Hún hljóðar svo:

„Í 46. gr. samnings Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem Ísland er aðili að, er ákvæði um mannréttindadómstól Evrópu, sem settur skal á stofn, þegar átta aðildarríki hafa viðurkennt lögsögu hans. Með því að dómsmrh. telur ekkert því til fyrirstöðu, að Ísland viðurkenni lögsögu dómstólsins, leyfi ég mér hér með að leggja til að þér, herra forseti, samþykkið að viðurkenna fyrir Íslands hönd lögsögu mannréttindadómstóls Evrópu til þriggja ára frá deginum í dag og að þér undirritið hjálagða yfirlýsingu þar að lútandi.

Utanríkisráðuneytið, 21. ágúst 1958.

Allra virðingarfyllst.“

Það er ekki tekið fram á þessu skjali, hver var þá utanrrh. né hver var þá dómsmrh., en þingheimur veit ofur vel, að það var Guðmundur Í. Guðmundsson, sem var utanrrh. og Hermann Jónasson, sem var dómsmrh., þannig að það var Hermann Jónasson og vinstri stjórnin, sem lýsti yfir því, að Ísland skyldi vera bundið af lögsögu erlends dómstóls jafnvel í þrætumáli íslenzks borgara, sem íslenzkir dómstólar væru búnir að leiða til lykta, í deilu hans við íslenzka ríkið. Ég held, að þeim mönnum, sem eiga þátt í slíkri samningsgerð, farist ekki að tala um landráð, — gera lítið úr sjálfstæðishug annarra, — sem fallast á jafnalgengt ákvæði í framkvæmdasamningum eins og gerðardómsákvæði, eins og gert hefur verið að þessu sinni í þeirri samningsgerð, sem nú er til ákvörðunar.

Það lýsir svo hins vegar vel heilindum þeirra manna, sem stóðu að því, að við gerðumst skilyrðislausir þátttakendur í þessum mannréttindadómstól, að þegar einn hópur manna hér undir forustu Páls nokkurs Magnússonar lögfræðings tók sig til og stefndi íslenzku ríkisstj. fyrir þennan alþjóðadómstól út af lögmæti stóreignaskattsins, sem allir vita, að prófessor Ólafur Jóhannesson hafði staðið fyrir að semja frv. um, þá ætluðu framsóknarmenn að ærast, m.a. hér á Alþ. og töldu það fáheyrðan ódrengskap og landráð af þessum herrum að fara þannig að, að ætla að bera íslenzka þrætu undir erlendan dómstól. –Það lýsir svo hins vegar Páli þessum ósköp vel, að nú er hann genginn í lið með Framsókn til þess að mótmæla gerðardómsákvæðinu og telur það einstakt hneyksli. Já, bæði eru skæðin góð.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Hannibal Valdimarsson, talaði um, að það væri of mikið gert úr þessum gerðardómssamningi, sem nú hefur verið lagður fram til lögfestingar í Ed. og að seint gengi með fullgildingu á honum og vildi bera mig og hæstv. iðnmrh. sökum í öðru orðinu, þó að hann tæki það nú aftur í hinu, um það, að við hefðum gefið einhverjar villandi upplýsingar um þetta. Ég hef einungis sagt það, sem ég hafði frá góðum heimildum, hversu margir aðilar hefðu undirritað samninginn. Ég hef leitt hjá mér að tala um, hversu margir hefðu fullgilt hann enn, og ég veit ósköp vel. að þetta er sitt hvað. Á hitt er skylt að benda, að þessi samningur var fyrst undirritaður eða frá honum gengið, að því er mér er tjáð, fyrir eitthvað rösklega ári og það vita allir, sem þekkja þvílíka alþjóðlega samningsgerð, að það tekur yfirleitt mörg ár, þangað til samningar eru undirritaðir, hvað þá fullgiltir. — Eins og kom fram í því plaggi, sem ég lýsti áðan, þá er ekki að sjá svo að mannréttindadómstóllinn í Strasbourg hafi hlotið fullgildingu eða samþykki nógu margra aðila, til þess að hann tæki formlegt gildi, fyrr heldur en eitthvað átta árum eftir að samningurinn var fyrst undirritaður af þeim, sem ætluðust til þess, að hann væri settur á stofn. Þetta verða menn auðvitað að hafa í huga, ef þeir vilja tala um þetta mál af sanngirni.

Varðandi tímalengd samningsins, þá er það rétt, að ætlazt er til, að hann gildi 25 ár skilyrðislaust og þó með vissum breytingarheimildum og gagnaðili hefur rétt til framlengingar um önnur 20 ár. Það má vel segja um þetta atriði svipað eins og um rafmagnsverðið, að auðvitað hefðum við óskað eftir því að fá hærra rafmagnsverð og auðvitað hefðu margir óskað eftir því, að þessi samningur yrði gerður til eitthvað skemmri tíma. En það kom á daginn, að ef menn vildu ná samningum, varð ekki lengra komizt í þessum efnum heldur en gert var.

Ég vil líka benda á, að 45 ár, svo að við tökum þau í heild, eru ekki langur tími í þjóðarsögu. Það var ekki ófróðlegt að heyra hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hér fyrir skemmstu í Sþ. tala um Atlantshafsbandalagið. Mér finnst það nú líkast eins og það hafi verið fyrir einni næturvöku, sem við vorum að þræta um það mál hér á Alþ. Síðan eru þó liðin l7 ár. Enn eru á þingi höfuðforkólfar þeirra, sem stóðu að samningsgerðinni annars vegar og hins vegar hinna, sem voru harðastir á móti og þó einkum hv. 3. þm. Reykv. Nei, slíkur tími liður áður en varir, eins og örskot í sögu heillar þjóðar.

Það er hins vegar eðlilegt og hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, færði að því nokkur rök, þegar hann talaði um, hversu mikið fjármagn er fest í þessum framkvæmdum, að okkar gagnaðili hafi óskað eftir löngum samningstíma. Þetta verðum við að skilja og viðurkenna. Hv. 3. þm. Reykv. gat líka um það, sem alveg er rétt að hafa í huga, að Íslendingar hafa auðvitað í hendi sér að taka þessi mannvirki fyrr, ef þjóðarþörf krefur. Það er á valdi þeirra, sem með löggjafarvald fara hér hverju sinni, að meta það eftir grundvallarreglum íslenzkra laga og þá á gagnaðilinn vitanlega bótarétt í staðinn.

Ég tel slíkt ekki svo mikla hættu, vegna þess að þegar menn eru að tala um gerðardómsákvæði, að leggja mál undir alþjóðadómstól og annað slíkt, tala þeir um það sem einhver óskapa binding sé gerð á Íslendingum, slíkt sé svívirðing við íslenzku þjóðina. Ég segi þvert á móti. Það er svívirðing við íslenzku þjóðina að ætla henni það, að hún hegði sér þannig, að hún geti ekki sótt mál sitt og staðið fyrir því fyrir hvaða hlutlausum dómstóli sem er. Íslendingar eru enginn löglaus uppþotslýður, sem þarf að skammastsín fyrir sín lög eða sitt réttarfar. Það stenzt hvar sem er.

Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. lærir þetta, áður en langt um líður. Það getur kannske tekið hann ein 17 ár, eins og það sýnist hafa tekið hann 17 ár að komast til rétts skilnings á Atlantshafsbandalaginu, því að hér á dögunum fór hann að tala um það, að það gæti komið eitthvað töluvert verra en Atlantshafsbandalagið. Þá skildi hann, að Ísland mundi fyrst lenda í verulegum vanda, ef Atlantshafsbandalagið liðaðist í sundur og við stæðum frammi fyrir því, hvernig við ættum að tryggja öryggi landsins, ef Bretar, Kanada og Bandaríkjamenn einir legðu áherzlu á það að fá okkur í lið með sér. Það er nokkuð langt í ævi Einars Olgeirssonar, að það skuli hafa tekið hann 17 ár að skilja, hvílikt öryggi felst í því fyrir sjálfstæði Íslands að vera í Atlantshafsbandalaginu. En það er ekki langur tími í þjóðarsögunni, og batnandi manni er bezt að lifa.

Þáð var sagt, — ég held ég megi segja frá því, ég hef kannske sagt frá því áður, — en eitt af því, sem McMillan á sínum tíma sagði við Ólaf Thors úti á Keflavíkurflugvelli, var, að hann spáði því, að áður en langt um liði mundu Rússar sækja um inngöngu í Atlantshafsbandalagið til verndar gegn Kínverjum.

Það skyldi þó aldrei vera, að ástæðan til þess, að oddviti liðsins austan frá léti uppi þennan betri skilning á Atlantshafsbandalaginu nú en ella, væri sú, að þeir verði ætið fleiri og fleiri, sem skilja, hvílíkt öryggi og trygging fyrir friðnum Atlantshafsbandalagið er.

Við getum talið, að það hefði verið betra að fá hærra rafmagnsverð. Við getum deilt um þennan gerðardóm út af fyrir sig, það er umdeilanlegt mál. Það varðar ekkert sjálfstæði Íslands eða neitt slíkt, en það er umdeilanlegt mál. Það er umdeilanlegt mál, til hve langs tíma gera eigi samninginn. Það fer vitanlega eftir því, hvað við teljum okkur sjálfa vinna við samningsgerðina. Það er ósköp eðlilegt ef hv. 3. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson,þorir ekki framar að koma til Hafnarfjarðar, af því að hann heldur, að hann falli niður dauður, ef hann kemur þar á götu. — (Gripið fram í.) — Já, en eftir að álbræðslan er komin. — Það er ósköp eðlilegt, að slíkir menn séu á móti samningnum. Þetta liggur í augum uppi. En þótt við metum líf hv. þm. mikils, þá held ég, að það sé ekki í bráðri hættu og sker ótti hans þess vegna ekki úr.

Vitanlega verður, eins og glögglega kom fram, t.d. hjá hv. l. þm. Austf., að lita á þetta mál frá háum sjónarhól. Það verður að gera sér grein fyrir þessu máli í ljósi sögunnar og framþróunar. Það dugar ekki að líta á það eins og hv. 5. þm. Vestf. gerði eingöngu frá dægursjónarmiði vegna vinnuaflsörðugleika í bili. Við verðum að skilja, hvaða þýðingu þetta mál hefur fyrir framþróun Íslands, ég vil segja um aldir. Samningurinn gildir nærri því í hálfa öld, og ég hef trú á því, að þetta mál hafi mikla þýðingu fyrir framtíðarsögu íslenzku þjóðarinnar.

Sumir segja og hv. I. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, var að fara í kringum það, að við, sem vildum virkja vatnsorkuna og nota hana til þess að mala gull eða verðmæti handa þjóðinni, að við tryðum lítið á landið, og hv. 5. þm. Austf., hv. þm. Lúðvík Jósefsson, talaði mikið um það, að við værum andstæðir öðrum atvinnuvegum og þó einkanlega sjávarútveginum.

Nú má auðvitað endalaust deila um trú hvers og eins á landið. Víst lítum við misjafnlega á okkar aðstöðu hér og það getur verið, að okkar kreddur blindi okkur nokkuð og geri okkur einsýna. En því lærdómsríkara er að heyra, hvað þeir, sem standa utan við deilurnar, segja um þetta efni. Ég rakst á það í Morgunblaðinu 2. marz s.l., að alþekktur fræðimaður. náttúrufræðingur ágætur, Jón Eyþórsson, skrifaði þar ritdóm um Ferðabók Ólafs Olaviusar. Hann segir, ég held í niðurlagi sinnar greinar:

„Þjóðskáldið okkar Davíð Stefánsson komst svo að orði, að líf íslenzku þjóðarinnar sé eilíft kraftaverk. Ég skal játa það, að þessi orð hafa verið mér ofarlega í huga, síðan ég lauk við að lesa ferðabók Olaviusar annars vegar og hins vegar hinar gagnmerku ritgerðir Þorkels Jóhannessonar, Plágan mikla og Við Skaftárelda, í bók hans Lýðir og landshagir.“

Þetta segir Jón Eyþórsson, sem vitnar þarna til þjóðskálds og eins bezta sagnfræðings Íslendinga.

Ég held, að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að átta okkur á byggðasögu Íslendinga og fólksfjölda á Íslandi fyrr og síðar. Ég hygg, að það sé komizt næst sanni, að því er ég hef getað fengið fregnir af, að á 13. öld hafi Íslendingar verið kringum 80 þús. manns. Þeir urðu ekki svo margir aftur fyrr heldur en um síðustu aldamót. Þeir voru tæplega 80 þús. um aldamótin 1900. Hvernig halda menn, að á þessu hafi staðið? Á þessu eru auðvitað margar skýringar. En ein er sú, sem fólst í orðum þjóðrækins Íslendings snemma á 18. öld. Hann sagði, að bæir og kaupstaðir á Íslandi mundu verða til þess, eins og hann sagði orðrétt: „að sumir verði örsnauðir, sumir flugríkir eins og í öðrum löndum en ei nær svo jafnríkir sem nú.“ Þetta sagði þjóðrækinn maður snemma á 18. öld. Þetta er alveg sami hugsunarhátturinn og við heyrðum enn í dag. Menn fárast yfir þéttbýlinu, menn fárast yfir þeim mikla auði, sem þar sé safnað saman og telja, að hann verði til þess að gera aðra landshluta verr stæða. Þetta kom m.a. mjög glögglega fram, þessi hugsunarháttur, þótt ótrúlegt sé, í ræðu síðasta hv. ræðumanns, 5. þm. Vestf., Hannibals Valdimarssonar. Hann fór að vísu ekki rétt með sumar staðreyndir m.a. þær, sem hann ætti glögglega að þekkja. Hann sagði t.d., að aðstreymið hingað suður hefði hafizt í seinni heimsstyrjöldinni með hinu mikla vinnuafli, sem þá hefði þurft til hernaðarframkvæmda hér. Ef hv. þm. vill kynna sér fólksfjöldann í sínu eigin kjördæmi og það er eini landsfjórðungurinn, sem fækkað hefur í frá því á aldamótum, þá sér hann, að breytingin verður miklu fyrr heldur en með seinni heimsstyrjöldinni. Flestir verða Vestfirðingar á þessari öld 1920, et talið er í tugum. Þeim er farið að fækka 1930. Þarna eru aðrar ástæður að verki heldur en hv. þm. vildi vera láta.

En þessi ótti við það, að menn hverfi úr vissum byggðum, hann hefur verið mjög ríkur í mönnum. Við þekkjum glögglega, jafnvel fram á okkar daga, skáld, sem bæði í kvæðum og ótal skáldsögum, svo að ekki sé talað um málflutning stjórnmálamanna, sem hafa talið það mikla ógæfu, ef menn hyrfu úr sveitum landsins til kauptúnanna, jafnvel þó að í næsta nágrenni væri. Menn tala um það sem sérstaka dyggð að búa í sveit umfram það að eyða árum sínum á mölinni. Nú er hollt fyrir okkur að hugleiða: Hvernig værum við staddir, ef ráði hins þjóðholla Íslendings á 18. öld hefði verið fylgt og við byggjum allir í sveitum enn þá? Ætli það væri ekki rétt, að við værum allir nokkurn veginn jafnríkir, þ.e.a.s. jafnfátækir. Landbúnaðurinn helzt nú orðið uppi á hinu innlenda þéttbýli. Velferð hans er nátengd því, að menn hafa flutt sig saman, og við værum í algjörum vandræðum með landbúnaðarframleiðsluna, ef við hefðum ekki þennan stóra innlenda markað. Þetta blasir algjörlega við. Ég hef ekki á móti íslenzkum landbúnaði, því fer fjarri, ég tel hann þjóðarnauðsyn, sjálfsagðan, en við verðum að gera okkur grein fyrir í hverju hans styrkleiki og veikleiki liggur og að hann brauðfæðir Íslendinga ekki lengur.

Þá segja menn og einkum lagði hv. 5. þm. Austf.. Lúðvík Jósefsson, á það ríka áherzlu, að við ættum að setja allt okkar traust á sjávarútveginn. Það er rétt, að sjávarútvegurinn hefur gefizt okkur vel, en það þurfti líka mikla baráttu til þess að fá Íslendinga til þess að skilja þýðingu hans. 1834 gaf einn fremsti Íslendingur, sem þá var uppi, út bók um fólksfjölda á Íslandi og fjárhagsástæður þess. Í riti þessu varpar hinn fjölfróði höfundur m.a. fram þeirri spurningu, hvort Ísland sé fært um að fæða af sjálfsdáðum þann fólksfjölda, sem þá var í landinu og hvort menn eigi, ef svo sé, að óska, að hann fari vaxandi, þ.e.a.s. fram úr liðlega 54 þús. manns. Höfundúrinn telur að vísu, að Ísland sé fært um að ala þennan fólksfjölda, en honum þykir ekki æskilegt, að fólksfjöldinn vaxi og leiðir rök til þess af því, hvernig bjargræðisvegum sé háttað á Íslandi og hvað þeir séu stopulir. Orðrétt segir hann:

„Þegar á allt þetta er litið ásamt á það, hve Ísland einkanlega er ákaflega langt frá Danmörku, svo að öll hjálp getur þess vegna verið ómöguleg, þegar mest þarf á henni að halda, þá sýnist mér það mjög efasamt, hvort Íslandi er gagnað með verulega meiri fólksfjölda en nú er þar, hversu æskilegt sem manni við fyrstu sýn kann að virðast það.“

Þetta sagði þessi ágæti maður orðrétt. Efnislega hélt hann áfram og sagði, að landbúnaður hlyti að vera undirstaða jafnrar velmegunar og fólksfjölda í landinu, en sé þó ærið stopull. Iðnaður og sjálfstæð verzlun sé ekki til á Íslandi og muni naumast nokkru sinni verða til. Um fiskveiðarnar segir hann, að þar sé ágóðinn svo óviss, að ekki sé á hann að ætla að aldrei auðgi þær nema einstaka menn, sem hafi vit og efni á að fylgja þeim fram. Þar á ofan fari svo margir í sjóinn, sem hafa af þessu alvinnu og aðrir, langtum fleiri, verði letingjar og óreglumenn.

Þetta var mat mjög fróðs Íslendings, sem ritaði 1834. Það má segja, að þangað til þilskip komu og síðan togarar, hafi þessi skilningur verið nær alls ráðandi á Íslandi. Tilraun Skúla fógeta fór út um þúfur og það var ekki fyrr heldur en um aldamótin síðustu, að þilskip fóru að geta góðan árangur og síðan komu togararnir. En var þá togurunum tekið fagnandi? Hverjir eru það af okkur, sem ekki hafa heyrt talað um Grimsby-lýðinn? Ætli við höfum ekki heyrt, hvernig þaut í skjánum hjá mörgum landsmönnum til þeirra, sem stunduðu sjóinn, fyrst þeirra sem öfluðu togaranna og sigldu á þeim til Englands, einkanlega til Grimsby? Síðar, eftir að togaraútgerðin hafði þó fest sig í sessi, þá var lagzt á móti þeim, sem veiddu síld, þeir svívirtir á allan veg og talað um þann áhættuleik, sem væri í því fólginn að hætta fé sínu til slíkra fjárglæfra. Allt þetta könnumst við mjög vel við. Þó er enginn vafi á því, að efnahagsleg undirstaða framfara okkar á þessari öld hefur sjávarútvegurinn verið.

Hv. I. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, fann að því um daginn, að ég hefði hér í umr. um annað mál sagt, að það hefði orðið afturkippur hér á árunum milli 1930–1940 og vildi ekki viðurkenna þetta. Nú má auðvitað endalaust um þetta deila, en eftir því sem fróðir menn hafa komizt að niðurstöðu um, þá telja þeir, að á þessu tímabili hafi hagvöxtur hjá þjóðinni, meðaltal á ári, verið 0.7%. Á síðasta tímabili, 1961–1965, eykst þjóðarframleiðslan um 6.5% á ári og ef þjóðartekjurnar eru teknar, um 7.7%. Hér er vissulega mjög verulegur munur, því tjáir ekki að neita.

Mér kemur ekki til hugar að halda því fram, að erfiðleikarnir á þessum árum hafi fyrst og fremst, hvað þá eingöngu, verið að kenna þáverandi hv. ríkisstj., en það er alveg víst, að hún réði ekki við þá örðugleika. Það má deila um tölur eins og í þessum hagfræðiútreikningum, en það stendur óhaggað eftir, að meira atvinnuleysi var á þeim árum heldur en nokkru sinni fyrr eða síðar í sögu íslenzku þjóðarinnar.

Á tímabilinu frá 1934 fram til 1939 er hæsta tala skráðra atvinnuleysingja hvert ár hér í Reykjavík. Hún er hæst 1938, 804 manns, og lægst 1934, 719. Á þessu tímabili skilst mér, að láti eitthvað nærri, að hún sé að meðaltali kringum 737. Ef við segjum, að hver atvinnuleysingi, sem skráður er, hafi haft fyrir að sjá 5 manna fjölskyldu, þá felst í þessum tölum, að meira en 10. hver fjölskylda í Reykjavík hafi þá átt við þau kjör að búa, að fjölskyldufaðirinn var atvinnulaus. Það er engin ástæða fyrir þá, sem öðrum fremur bera ábyrgð á því stjórnarfari, sem á þessum árum ríkti, að vera að rifja upp og ögra manni til umræðna um þessi efni í einstökum atriðum.

Ég veit, að hv. l. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, vildi vel á þessum árum og reyndi að gera sitt bezta, en hann taldi nú ekki mikið í það varið, þó að þessi nýi Atvinnujöfnunarsjóður ætti að fá fjármagn til þess að geta útvegað svo sem 2 báta á ári til þeirra héraða, sem illa eru stödd. Mér skilst, að í þeim landshlutum, sem þessi sjóður mundi liðsinna, sé í hæsta lagi kringum 50 þús. manns, þó sennilega ekki nema 40 þús. manns. 50 þús. manns er tæpur helmingur af tölu allra Íslendinga á þeim stjórnarárum hv. þm., sem við nú erum að tala um. Og hver skyldi nú aukning fiskiskipaflotans hafa verið að meðaltali á þessu tímabili? Samkvæmt þeim tölum, sem ég hef og sé enga ástæðu til að vefengja, þá var meðalaukningin á ári frá og með 1934–1939 214 smálestir. Þetta átti að nægja sem aukning handa þjóð, sem var yfir 100 þús. manns. Nú þykir hv. þm. skömm og skítur til þess koma, að hægt sé að útvega úr einum viðbótarsjóði til nokkurs hluta landsmanna þó andvirði þriggja slíkra báta á ári. Það má segja um þennan þm., eins og hv. 3. þm. Reykv.,. batnandi manni er bezt að lifa, og það væri vissulega rétt, ef þessi stórhugur kæmi fram í öllu, bara að hann birtist ekki einvörðungu í kröfugerð til annarra.

Hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, talar mikið um það, að við séum sinnulausir um sjávarútveginn. Það er þó staðreynd, að á okkar stjórnartímabili hefur árleg aukning smálestafjöldans í fiskiskipum verið þrefalt meiri heldur en hún var á þeim tíma, þegar þessi hv. þm. var sjútvmrh.

Nú veit ég ósköp vel, að allar þessar tölur eru hæpnar að því leyti, að það fer nokkuð í rykkjum, hvernig menn kaupa fiskiskip til landsins og það er meira og minna tilviljun, hvenær í þau kaup er ráðizt. Og eins veit ég það, að báðir þessir menn vildu vel, en þeir eiga ekki að vera að skamma aðra, sem hafa gert miklu betur en þeir sjálfir, fyrir viljaleysi. Þeir geta skammað okkur fyrir það, að okkur hafi tekizt illa og margt sé hér aflaga, en þeir eiga ekki að vera að skamma okkur fyrir viljaleysi, þegar við einmitt á þeim grundvelli, sem þeir sjálfir velja sér til ádeilu á okkur, höfum afrekað svo miklu meira heldur en þeim tókst á sínum tíma. Vitanlega er eftirspurnin eftir bátum mikil núna, en henni hefði ekki verið fullnægt ef efnahagslífi þjóðarinnar hefði ekki verið forðað úr þeirri hættu, sem það var komið í í árslok 1958, ef ekki hefði verið hægt að útvega lán til þessara skipakaupa erlendis og Fiskveiðasjóður og stofnlánadeild sjávarútvegsins hefðu ekki verið efld svo, að þessar stofnanir hafa fyllilega getað, ekki einungis fullnægt eftirspurn, heldur haft forustu um þá stórkostlegu uppbyggingu, sem í þessum efnum hefur átt sér stað. Enda er það óhagganlegt, að þegar litið er á raunveruleg verðmæti, þá hefur fjármunamyndun á föstu gengi verið árlega a.m.k. 50% meiri í þessum atvinnuvegi á stjórnartíma þessarar ríkisstj. heldur en á tímum vinstri stjórnarinnar, sem þó óumdeilanlega lagði mikið kapp á það að efla sjávarútveginn og vildi gera það. Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki komizt. Við skulum svo einnig viðurkenna, eins og ég segi, að hvorki dugnaður sjómanna né forusta eða atbeini ríkisstjórnar dugar, nema aflabrögð séu sæmileg. Þetta er óumdeilanlegt og tjáir ekki að vefengja það. Ein af ástæðunum til þess, að mjög erfiðlega gekk á árunum 1934–1939 var sú, að þá brást þorskafli mjög illilega. Verð var lágt og markaðsörðugleikar miklir. Síldveiðar voru þá hins vegar mun meiri heldur en höfðu verið næsta tímabil á undan.

Allt þetta sýnir, hversu erfitt er að áætla í þessum efnum og hversu varlega menn eiga að fara í að vera með fullyrðingar, eins og t.d. hv. 3. þm. Reykv. hér í öðru sambandi á dögunum, þegar hann hældi sér af því, að hans ræðuflutningur hér um nýsköpun væri undirstaða okkar velmegunar. Nú geri ég alls ekki lítið úr þýðingu nýsköpunarinnar fyrir íslenzkt efnahagslíf og okkar þjóðlíf í heild, það var nauðsynlegt átak og hv. 3. þm. Reykv. á þakkir skildar fyrir sitt framlag til þess. En við skulum líka játa, að margt, sem þá var gert, hefur enn í dag ekki svarað sínum tilgangi, vegna þess að aflabrögðin urðu önnur heldur en menn höfðu vonað. Mikið af því fé, sem þá var fest í síldarverksmiðjum, öðrum síldarmóttökutækjum og jafnvel í síldarskipum var lengi gjörsamlega glatað fé. Enn er mjög slæmt ástand á stað eins og Skagaströnd, sem byggður var upp fyrir forustu nýsköpunarstjórnarinnar. Og það er athyglisvert, að þó að atvinnuleysi hafi aldrei verið jafn magnað og langvarandi böl á Íslandi eins og á tímabilinu frá 1930 til 1940, þá var atvinnuleysi hér einnig á árunum 1950–1952 og 1953. Tölur segja um það: 1947 er atvinnuleysi sáralítið, 71 maður skráður í Reykjavík, 1948 eru það 42, 1949 135, 1950 251, 1951 418, 1952 718, svo fellur það niður 1953, eru þá skráðir 98 og hefur ekki verið teljandi síðan. Ég rifja þessar tölur upp vegna þess, að þær sanna okkur, að hið mikla átak, sem gert var með nýsköpunarframkvæmdunum náði ekki tilgangi sínum, vegna þess að sá fiskur, sem einkum var ætlað að byggja velsældina á, brást. Síldin sýndi sig ekki.

Og þó að það komi ekki okkar almennu atvinnuuppbyggingu við, þá megum við vel hafa það í huga, að breytingin til bóta 1953 verður vegna þess, að þá eykur varnarliðið mjög sínar framkvæmdir. Hv. framsóknarmenn hafa mjög legið mér á hálsi fyrir mína frammistöðu í ýmsum samskiptum við varnarliðið, og ég skal ekki deila um það, það er sögunnar að dæma um, en ég man, að einn af þeirra áhrifaríkustu mönnum, ég skal ekki nefna hann nú, hann kom til mín, hann var þm. úti á landi, og sagði: „Þú verður að fara í varnarliðsformennina og fá þá til þess að herða á framkvæmdum, til þess að menn úr mínu byggðarlagi geti fengið atvinnu. Það er algjört neyðarástand, ef ekki verður við bjargað.“ Þá fjölgaði á skömmum tíma stórlega í varnarliðsvinnu, og þar urðu yfir þrjú þúsund vinnuþegar um nokkurt bil. Þeir hafa ekki festst þar. Nú er mér sagt, að það séu milli 400–500 manns, sem vinni hjá varnarliðinu sjálfu á Keflavíkurflugvelli og eitthvað í kringum 400 manns hjá Aðalverktökum. Þetta er álitlegur hópur, það er rétt. En það er ekkert sambærilegt við það, sem var. Ástæðan til þess, að við höfum getað tekið við þessu aukna vinnuafli er fyrst og fremst bættur afli og betri hagnýting aflans. Við skulum líka játa það, að í bili björguðum við okkur út úr sárum vandræðum og hættu með þessari tilfallandi vinnu. Síðan er haldið áfram uppbyggingu í sjávarútvegi af öllum aðilum, sem þar gátu lagt lið sitt til, en það dugði ekki til. Jafnvel á því góða ári 1958, þegar meiri afli var heldur en nokkru sinni hafði áður verið á Íslandi, voru þó enn nokkrar leifar atvinnuleysis hér í Reykjavík. Síðan hefur enginn verið skráður.

Sjávarútvegurinn er vissulega okkar undirstöðuatvinnugrein ásamt landbúnaði og iðnaði, getum við sagt, en til gjaldeyrisöflunar er hann auðvitað langsamlega þýðingarmestur og verður aldrei ofmetinn; það er rétt. Þess vegna verður vissulega að gera honum kleift að starfa og njóta sín, en við megum ekki gleyma þeim hættum, sem sjávarútveginum eru samfara og þeim sveiflum, sem hann er háður. Við skulum ekki fara út í neinn tölulestur. En hyggja menn ekki, að það sé nokkur munur á aðstöðu nú eða var 1951–1955, þegar samtals veiddust af síld og loðnu 55.836 tonn, eða á árinu 1965, þegar veiðin er 812.602 tonn? Það tjáir ekki að segja: Það eru betri tæki. Það er rétt, það eru betri tæki og betri möguleikar til að taka á móti. Það eru vísindamenn, sem hafa komið okkur til hjálpar. En við höfum enga tryggingu fyrir því, að blessuð síldin haldist við okkar strendur. Ég veit a.m.k. að hinn ágæti þingkennari, hv. 3. þm. Reykv., er svo vel að sér í sögu, að hann kannast við það, að sagt er, að Hollendingar hafi fyrst komizt til álna við síldveiðar, síðan er sagt, að Suður-Svíþjóð hafi fyrst efnazt á síldveiðum, þar sem þessum fiski var ausið upp nærri takmarkalaust á vissum tímabilum. Á hvorugum þessum slóðum sést síld, svo að heitið geti nú, hún hefur farið annað.

Hv. 5. þm. Austf. á ekki nógu sterk orð til að ásaka sjálfstæðismenn fyrir það, að nokkrir þeirra fluttu á sínum tíma till. um það, eins og hann segir, að reka íslenzka fiskiskipaflotann til stranda Afríku. Við skulum nú sjá hvernig þessi till. var í raun og veru. Með leyfi hæstv. forseta, þá hljóðar hún svo:

Till. til þál. um athugun á möguleikum til fiskveiða við vesturströnd Afríku.

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvaða möguleikar eru á, að íslenzk fiskiskip geti hafið fiskveiðar við vesturströnd Afríku. Leiði sú athugun í ljós, að möguleikar á slíkum veiðum séu fyrir hendi, beiti ríkisstj. sér fyrir því, að tilraun verði gerð.“

Hvaða synd er að hafa flutt svona till.? Er það glæpur, að Rússar senda síldveiðiskip upp að Íslandsströndum? Er það glæpur, að hinn mikli afli íslenzku togaranna 1958 og fyrri hluta árs 1959 fékkst vestur undir Nýfundnalandi? Er það glæpur, að jafnvel enn í dag fara íslenzkir togarar stundum upp með austanverðum Grænlandsströndum og afla þar? Verða Íslendingar ekki, eins og aðrir, að elta fiskinn, meðan þeir lifa á honum? Og á þessu tímabili, þegar þessi till. var flutt, þá höfðu menn ekki enn uppgötvað hina miklu síldarstofna, sem nú er ausið upp. Hvort þeir voru þarna eða ekki, skal ég ekki segja; — menn vissu ekki um þá og það var ljóst, að skipin, yfir 100 og 150 tonn, þau höfðu ekki nægu verkefni að gegna við þorskveiðar, ef þau gátu ekki haft aðrar veiðar sér til uppbætis. Menn komast ekkert áleiðis, nema þeir prófi eitthvað nýtt, og það er hættan við það að lifa veiðimannalífi, að menn verða að hegða sér eins og veiðimenn. Menn verða að elta veiðina þar sem hún er, en ekki þar sem þeim þóknast, að hún sé.

Það er ekki vegna þess, að ég geri lítið úr landkostum Íslands, en ég segi, að við verðum að vita, hverjir landkostirnir eru, og við verðum að kunna að nota þá. Við höfum séð það, að sjávarútvegurinn er eilífum sveiflum háður. Hann hefur gert okkur efnaða í bili. Við skulum vona, að það standi sem lengst, en það er hygginna manna háttur að hugsa fyrir morgundeginum. Jafnvel á dögum faraóanna töluðu menn um og dreymdi jafnvel um sjö feitar kýr og sjö magrar. Og veröldin er undarlega breytt og orðin betri á ellidögum, eins og hv. 3. þm. Reykv. og hv. I. þm. Austf., ef hún hefur breytzt svo, að þessi regla gildi ekki lengur. En eins og ég er hræddur um, að þessara hv. þm. bati sé nokkuð skammvinnur, þá held ég, að við verðum að vera viðbúnir ólíkum íslenzkum aflabrögðum héðan af eins og hingað til.

Það er of seint og það segi ég við forseta Alþýðusambands Íslands, það er of seint að ætla að fara að bjarga atvinnunni t.d. með slíkum framkvæmdum eins og þessum, þegar neyðin er skollin á. Ég man það vel, — og ég man það, að faðir minn var ekki mjög hrifinn af því, það mun hafa verið 1923, þegar núv. forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, var kosinn á þing, — að þá voru nýkjörnir þm. kvaddir niður í Stjórnarráð og lögð fyrir þá beiðni frá Hafnfirðingum um það, að þeir mættu leyfa erlendum veiðiskipum aðsetur í Hafnarfirði. Þeir, sem voru varfærnari í þessum efnum, eins og faðir minn, létu sér fátt um finnast og töldu, að það væri ekki víst, að ástæða væri til að hleypa útlendingum inn. Ásgeir Ásgeirsson svaraði þá: „Á að bíða eftir því, að beinagrindur séu lagðar með sem fylgiskjal.“ Þetta þótti nokkuð ungæðislega mælt, en hefur verið sagt af fullri alvöru, a.m.k. er mér þetta minnisstætt sem hatrammt svar við þófi á móti máli, sem þá var nauðsynlegt, að næði fram að ganga. Þá varð ekki ráðið fram úr atvinnuerfiðleikum Hafnfirðinga með öðru heldur en þessari neyðarráðstöfun.

Nú er ekki neyðarástand á Íslandi, sem betur fer, en við höfum of oft, ég og hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, og of lengi kynnzt atvinnuleysi og þeim hörmungum, sem því fylgja, til þess, að það sé verjandi af okkur að nota ekki hvert það tækifæri, sem tæst, til þess að koma í veg fyrir, að það böl herji Íslendinga oftar. Ég veit, að þessi samningur einn leysir ekki þann vanda, en hann mun eiga sinn þátt í að leysa hann með því að skapa hér öruggara og sveifluminna atvinnulíf heldur en við höfum hingað til átt við að búa. Ekki vegna þess, að þetta sé svo stórt í sjálfu sér varðandi þann mannafla, sem þarna fái vinnu. Það er talað um, að á fyrsta stigi verði þarna að staðaldri um 300 manns, siðan upp í 450 manns. Hv. 5. þm. Austf. talar um þetta sem hreint böl, að menn eigi að fá vinnu þarna. Hann gáir þó ekki að því, að talið er, að í lok þessa tímabils verði komnir 17 þús. manns fleira á vinnumarkað heldur en eru í dag, 17 þús. manns jafnvel þó að við gerum ekki ráð fyrir neinu aðstreymi annars staðar frá, og við skulum reyna að vinna á móti því eftir föngum, þá skulum við einnig gera okkur grein fyrir því, að það fólk, sem þegar er hingað komið, þarf vinnu hér. Fjöldi þessara verkamanna er ekki svo ýkja mikill miðað við ýmis önnur fyrirtæki. Menn tala um þetta sem risa, er muni kollsteypa okkar þjóðfélagi. Ég játa, að það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að fjárfestingin er mikil, en það er alls ekki síður við, sem fáum vald á þeirri fjárfestingu, heldur en fjárfestingin á okkur. Þessir menn eiga að lúta íslenzkum lögum og eins og hv. þm. drap á, þá er eignarnámsheimild fyrir hendi, ef allt um þrýtur. Þessir menn verða engir alræðisherrar hér. Það er vegna þess, hversu mikið þeir leggja hér undir okkar lögsögu, sem við fáum stórkostlega sterka aðstöðu gagnvart þeim í allri okkar viðureign við þá, einmitt vegna þess, hversu miklu fé þeir hafa fórnað í þetta, en þeir að vissu leyti halda ekkí uppi nema mjög takmarkaðri vinnu fyrir okkur, sem við skulum þó ekki gera lítið úr. Það er engan veginn lítið gerandi úr því, að 450 manns fái örugga, góða vinnu til frambúðar. Það hefur verið sagt, að það safnist töluvert í kringum þann hóp á ýmsa vegu. Enginn vafi er á því, eins og hv. 5. þm. Austf. gat um, að þetta eru lágmarkstölur. Ég reikna með því, — ég tel víst, — að ef við leggjum áherzlu á, þá getum við fengið þá til þess að hafa minni véltækni í þessu og fengið fleiri mönnum vinnu, ef við kjósum það. En jafnvel nú í dag, þá eru allmörg, a.m.k. nokkur fyrirtæki, sum stærri, önnur, sem slaga fyllilega upp í álbræðsluna. Sambandið eitt, ásamt sínum dótturfyrirtækjum, ekki kaupfélögin talin með eða Olíufélagið eða þau önnur, sem hafa aðra meðeigendur, — heldur einungis þau, sem eru talin bein dótturfyrirtæki, er skv. síðustu skýrslu með alls í vinnu 1366 menn. Loftleiðir er talið að hafi innanlands 532 menn í vinnu í árslok 1965. Eimskip samtals um 700. Flugfélagið eitthvað rúm 300. Fjöldi annarra fyrirtækja hundrað, tvöhundruð, upp undir þrjú hundruð manns, — fjöldi fyrirtækja.

Álbræðslan er enginn slíkur risi, að hún muni kollkeyra allt hér á Íslandi. Það er góðra gjalda vert og mikilsvert að fá öruggan vinnuveitanda fyrir þennan hóp. Úr því skulum við sannarlega ekki lítið gera. En hann er ekki slíkur risi, að hann drepi allt niður í kringum sig. Þvert á móti höfum við, vegna þess að þeir hafa látið fjármagnið eftir í landinu, þessa sterku aðstöðu, sem ég áðan drap á.

Það er svo annað mál, að það þarf fleiri menn á meðan verið er að koma þessu mannvirki upp. Það er heldur engan veginn nýjung, að erlendir verkamenn séu hér. Á dögum nýsköpunarstjórnarinnar á árinu 1946 voru hér fyrir utan Dani og Færeyinga taldir 933 útlendingar, sem höfðu atvinnuleyfi. Árið 1947 voru hér 713 útlendingar, hvort Danir og Færeyingar eru taldir þar með eða ekki kemur ekki ljóst fram í þessari skýrslu. Á dögum vinstri stjórnarinnar voru hér færeyskir sjómenn og landverkamenn í fiskvinnslu. Árið 1956 eru þeir 943, 1957 1344 og 1958 900. Síðan fækkar þeim. Árið 1965 eru atvinnuleyfi alls 1320, þar af um 580 Færeyingar. Ég segi, það er bitamunur en ekki fjár, hvort nokkrir, ég vil segja nokkur hundruð manns, koma til viðbótar eða ekki, dvelja t.d. í skipi suður í Straumsvík, meðan verið er að taka mesta kúfinn af vinnuaflsskortinum, meðan verið er að koma þessum framkvæmdum áleiðis. Þeir þurfa ekki á nokkurn hátt að trufla okkar atvinnulíf eða verða neinum til miska.

Ég veit það, að ef það á fyrir okkur að liggja, hv. 5. þm. Vestf. og mér, að vinna saman að framkvæmd þessara mála, þá höfum við leyst þyngri þraut en þá að ráða fram úr þeim vanda. En ég segi: Úr því að hér er ekki um meira atriði að ræða varðandi vinnuafi en þetta, af hverju leggja menn þá kapp á að koma þessu áleiðis? Fyrir mér er það fyrst og fremst vegna þess, að ég er sannfærður um það, að íslenzku þjóðarinnar biði ómæld hagsæld í hagnýtingu auðlinda, bæði vatnsorku og hita. Ég er sannfærður um það, að það verður miklu örðugra að ráðast í Búrfellsvirkjun, velti menn því fyrir sér, hvernig sem þeir vilja, — ef við getum ekki selt þessu erlenda stóriðjufyrirtæki verulegan hluta aflsins um árabil til þess að borga niður fyrir okkur kostnaðinn. Með því er ekki hallað á aðra atvinnuvegi, með því er sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði gert mögulegt að fá meira og ódýrara rafmagn en þeir ella mundu fá, og enginn af þessum atvinnuvegum getur staðizt nú nema með því að njóta rafmagns. Það er þess vegna ekki verið að halla á þá, það er beinlínis verið að vinna fyrir þá með því að gera mögulegt að ráðast í stórvirkjun og selja rafmagnið ódýrara verði heldur en ella.

Og þó er það minnst um vert, sem kemur fyrst í ljós. Mest um vert er, að þarna er ráðizt í virkjun stórfljóta landsins og þá kemur eitt af öðru. Ef við berum gæfu til þess að samþ. þetta nú, sem ég örugglega treysti, er ég öruggur um það, að hv. þm., Gísli Guðmundsson, á eftir að sjá þann draum sinn rætast, að Dettifoss verði virkjaður. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er það þéttbýlið, sem verður að leggja til aflið í það að standa undir þessum stóru virkjunum, gera hina stóru hluti hér á landi og beita sínu afli til þess, að byggð geti haldizt út um allt land. Ef við höfum ekki skilning á þessu og gerum það ekki, erum við vissulega illa farnir, ef staðið verður á móti því, að þéttbýlið fái þetta afl og þennan möguleika eða ef þéttbýlið fyllist svo af þráa og hroka, að það fæst ekki til þess að skilja, að það eru fleiri til en það eitt. Ég er alveg sannfærður um það, að eins og það er undirstaða undir landbúnaði, að þéttbýli hefur skapazt á Íslandi, er það undirstaða undir virkjun stórfljóta landsins, þar með Dettifoss, og hagnýtingu þessa mikla afls, sem runnið hefur ónotað frá upphafi vega, að við ráðumst í stórvirkjun, séum ekki hræddir, treystum okkur á við aðra og temjum þennan fák til framsóknar og hagsældar íslenzku atvinnulífi. Og það er ekki eingöngu, að þetta muni verða, — ég er sannfærður um, að það verður, — heldur kemur strax frá álvinnslunni margs konar annar atvinnurekstur. Þar með fæst efnivara í landið, sem gerir margs konar annan iðnað hér mögulegan og skapar bjargræðisvegi, sem ella og áður voru ekki fyrir hendi.

Upp við hitt tjáir ekki að kippa sér, þó að menn verði fyrir nokkru aðkasti, þegar í slíkt stórvirki er ráðizt eins og þetta. Um það má vitna til ýmissa góðra manna, og ég ætla ekkert að gera upp á milli manna eftir flokkum, en við munum ósköp vel, að það var fullyrt, að þegar sementsverksmiðjan yrði reist, myndi fiskur hverfa úr Faxaflóa, a.m.k. úr stórum hluta hans. Það var einnig sagt, að sementsrykið myndi gera fiskverkun á Akranesi ómögulega. Ég man það, að ágætur maður hélt því fram, að áburðarverksmiðjan, byggð með þeim hætti, sem gert var, væri stórhættuleg. Hún framleiddi sprengiefni, sem gæti leitt til þess, að Reykjavík yrði lögð í rústir, áður en varði. Ég man eftir því, þegar ráðizt var í hitaveituna, að á síðasta stigi, þegar verið var að semja með þeim hætti, að það tókst þó að hrinda því máli fram að nokkru leyti meðan á stríðinu stóð, þá var einn góður bæjarfulltrúi, sem taldi samninginn við verktaka og lánin, sem þar voru, svo harðan og að mörgu leyti særandi fyrir íslenzku þjóðina, að erfitt væri undir að búa. Hver finnur nú til þeirra særinda, sem hitaveitan hefur lagt á Íslendinga?

Það er talað um, að það sé ekki meira að ráðast í Búrfellsvirkjun nú en Sogsvirkjunina á sínum tíma. Hún þótti ekki lítið stórvirki á sínum tíma. Hinn 22. apríl 1931, þá var í blaði einu skrifuð grein, sem spurði: Hvað er í húfi fyrir bændur landsins? „Samsæri gegn sveitunum“ og var sagt byggt upp á samningi milli sameinaðra fjendaflokka Framsóknar. Fyrst er talið, að fjölga eigi þingmönnum Reykjavíkur. Annað, að ríkissjóður skyldi vera látinn taka á sig 7 millj. kr. ábyrgð fyrir Reykjavík til Sogsvirkjunarinnar. Þetta er talið eitt af fjórum atriðum í „samsærinu.“ Síðan segir: „Rísi bændur landsins ekki gegn tilræði samsærismannanna nú við næstu kosningar og hnekki því rækilega, mun þeim ekki gefast tækifæri til þess síðar.“ Þá var það samsæri og svik að reyna að virkja Sogið.

Það er að vísu oft búið að vitna í símann, en ég get þó ekki látið vera, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp ræðu, sem gæti að verulegu leyti verið haldin í dag. Á Alþ. 1905 sagði mjög mikilsvirtur þm.:

„Ég lít svo á sem 12. ágúst 1905 muni verða talinn allmikill merkisdagur í sögu hinnar íslenzku þjóðar. Hvort að því leyti, að með honum hafi oss hlotnazt nokkurt hnoss, þori ég ekki að fullyrða, — sagan sker úr því. En dagurinn mun þó engu að síður þykja merkilegur, því með honum hefst á nýjan leik nýr kafli í einokunarsögu Íslendinga. Sú hlið málsins er þó dýpst og stórkostlegust, því ég býst við, að það gripi dýpst og lengst inn í líf þjóðarinnar.“

— Síðan sleppi ég nú úr, en aftur kemur:

„Þó Danakonungar hafi ekki allir verið stórmerkilegir, þá hafa þó margir þeirra verið velviljaðir í garð okkar Íslendinga og sýnt það í mörgu, en sumt snerist þó í hendi þeirra í gagnstæða átt, af því þá sjálfa og ráðgjafa þeirra brast þekkingu á högum vorum. Eins hygg ég að verði með ritsímasamninginn, — ég er viss um, að hann er gjörður í góðu skyni, en ég held, að hann verði ekki til að glæða sjálfstæði vort. Það hefur rétt verið sagt og ekki að orsakalausu, að árið 1262 hafi verið eitt hið mesta óhappaár í sögu vorri, því þá glötuðum við sjálfstæði voru og frelsi. En það er annað ártal, sem í mínum augum er engu bjartara, það er 20. apríl 1602. Það er einhver sá dekksti dagur, sem Íslendingar eiga í sinni sögu. Margir munu vita, hvað þá skeði, það voru liðug 300 ár í vor, síðan það varð, en þann dag var dönskum verzlunarmönnum í fyrsta skipti gefið svokallað „privilegium,“ þ.e. einkaleyfi yfir íslenzkri verzlun.“

Þá rekur ræðumaður, að það hafi í fyrstu einungis átt að standa í 12 ár. Skal ég ekki fara lengra út í það. En síðan talar ræðumaður um, að einokunin hafi staðið í 186 ár og segir:

„Það þarf ekki að lýsa því, hve miklu miskunnarleysi og harðýðgi var beitt við íslenzku þjóðina á þeim tímum, því síður eitrun þeirri, sem læsti sig um allan þjóðarlíkamann út frá einokunarmeininu. Einokunin ól upp óráðvendni, heigulsskap og ósjálfstæði í þjóðinni, og landinu og öllum atvinnuvegum þess varð hún til niðurdreps. Þegar vér nú höfum þetta fyrir augum, og vér hugsum um sögu vora, mun fleirum fara eins og mér, ég hefi ekki getað að mér gert, að mér iðulega hefur dottið óöld þessi í hug, þegar ég hefi lesið ritsímasamninginn.“

Enn segir ræðumaður:

„Samningurinn við Stóra norræna á nú að gilda, ekki í 12, heldur 20 ár, og eftir þau 20 ár mun sjálfsagt svo fara, að hann verði endurnýjaður og enginn, sem hér er inni, er vist svo fróður eða framsýnn, að hann geti sagt, hvað úr honum spinnist, en ekki veldur sá, er varir, þótt verr fari. Ég segi þetta af því, að við, að því er einkaleyfin snertir, erum brennt barn, við höfum stórskaðað okkur á einokunareldinum, og við ætlum því nú að hafa vit á að forðast þann eld. Ég lit svo á, að öll einokun hafi dauða í sér fólginn. Öll einokun heftir einhverja eðlilega blóðrás, einhverjar framfarir í lífi þjóðanna, og því eigum við nú að rísa á móti ritsímasamningnum við Stóra norræna, því hann getur orðið að helsi og hlekk á hálsi þjóðarinnar. Það stendur að vísu í samningnum, að við getum orðið meðeigendur að sæsímanum að 20 árum liðnum, en aðeins ef félagið skaðast á honum og vill ekki eiga hann áfram, því sé nokkur arðsvon af honum, verða Danir auðvitað ekki svo náðugir að sleppa honum, en samningurinn verður endurnýjaður.“

Síðan talar ræðumaðurinn um, að hann vilji segja allt gott um Dani, en við eigum ekki að vera í vasa þeirra og heldur áfram:

„Við eigum að sýna þeim vinsemd í hvívetna, en við eigum alls ekki að leyfa þeim að rýja okkur. Við eigum sjálfir að gjöra sem mest við getum, en við eigum ekki að láta okkur sæma að lifa á annarra náð. Það er vegurinn til þess að verða að sönnum manni: Þroska- og sæmdarvegurinn jafnt fyrir einstaklinginn sem þjóðina. Við eigum sjálfir að brjóta okkur braut frelsis og sjálfstæðis. Það hefur verið margsýnt, bæði við 2. og 3. umr., að við getum einnig tekið þetta mál svo, að við verðum húsbændur á okkar heimili. Þessi leið liggur upp á við til framfara og sjálfstæðis, öll önnur leið niður.“

Þetta er sem sagt hin leiðin, sem ræðumaðurinn þarna vísar á.

Síðan segir hann, þegar hann talar um brtt.:

„En sú brtt. táknar það eitt í mínum augum, að við eigum að fresta málinu. Ég er sannfærður um, að það er skynsamlegasti og viturlegasti vegurinn og sá vegur, sem þjóðin vill. En þar með er ekki sagt, að málið eigi að deyja, það á aðeins að deyja á grundvelli ritsímasamningsins við Stóra norræna. Ég veit raunar, að sumir segja, að það sé ekki rétt hermt, að þjóðin sé á móti honum og allur andróðurinn gegn honum sé að kenna æsingum einstakra manna, er séu stjórninni mótfallnir. Þetta getur verið. En þá er til glöggur vegur til þess að komast fyrir sannleikann í þessu efni, sá vegur, að leysa nú upp þingið og stofna til nýrra kosninga á þessum grundvelli. Fyrir þá, sem vilja vita vilja þjóðarinnar, er eðlilegast að fresta málinu og gjöra þetta, en ef menn eru hræddir við, hvað þjóðin muni segja, þá er eðlilegt, að þeir vilji ekki fresta málinu. En ég mun greiða atkv. mitt með því að málinu sé frestað. Einhver hv. þm. talaði á þá leið, að þingið ætti engan dómstól yfir sér.“

Hann hefur verið eins og hv. þm. Helgi Bergs, sem vill vera dómari yfir kjósendum. Nú, en þessi ræðumaður heldur áfram:

„En ég álít, að dómstóll þjóðarinnar sé yfir þinginu. Vitaskuld getur þingið um stundarsakir drifið áfram mál í trássi við þjóðina, en þegar þingmannsumboðinu er lokið, gengur þingmaðurinn fyrir dómstól kjósenda sinna, og þá stendur hann eða fellur. Ég er nú hræddur um, að ef þetta mál verður drifið í gegn á þinginu, verði dómur þjóðarinnar ekki að vilja þeirra, sem það gjöra. Það er ekki viturlegt að knýja málið áfram með afli á móti vilja þjóðarinnar. Ég er sannfærður um, að margt illt sprettur af því. Það getur komið sá dagur, að þm. þeir, sem eru máli þessu fylgjandi, sjái og reyni, að jafnvel ekki íslenzka þjóðin lætur að sér hæða. Það er alltítt í sögunni en næsta alvarlegt, þegar þjóðirnar sjálfar setjast á rökstóla og dæma þá, sem hafa setið þeim á hálsi. Af því hafa risið ógnir og blóðsúthellingar.“

Nú byrjar Hannibal að hlusta.

„Ég geri nú ráð fyrir, að hér fari allt friðsamlega, en ég efast ekki um, að einnig þessi litla þjóð getur kveðið upp sinn dóm yfir þeim, sem ekki vilja láta að vilja hennar.“

Ég hygg, að hv. þm. gætu ekki komizt nær í stælingu á ræðu, þó að þeir hefðu allir lesið þessa ræðu fyrirfram og keppzt við að semja hana hver með sínu orðalagi.

Ég bíð óhræddur dóms sögunnar.