15.11.1965
Efri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ræða hv. 3. þm. Norðurl. v. gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs, en hæstv. fjmrh. hefur nú tekið að vissu leyti af mér ómakið. En ég vil aðeins víkja enn nokkrum orðum að ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v.

Hann sagði, að frv. það, sem hér er til umr., væri til staðfestingar samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar í sumar. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En hv. þm. virðist ekki hafa lesið eða athugað þetta frv. gaumgæfilega. Auk þess sem í frv. eru ákvæði um sexföldun fasteignamatsins, sem hér hefur verið ýtarlega rætt og ekki er í sambandi við samkomulagið í sumar, eru í þessu frv. önnur atriði, sem að sjálfsögðu standa ekki í neinu sambandi við samkomulagið í kaupgjaldsmálunum í sumar. Ég nefni í því sambandi ákvæði í upphafi þessa frv., 1. mgr. 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að það skuli breytt orðunum „skipulagsnefndar ríkisins“ í „skipulagsstjórn ríkisins“. Auðvitað er þetta ekki í neinu sambandi við samkomulag verkalýðsfélaganna á s.l. sumri. Þetta er hér tekið upp vegna þess, að skipulagsnefnd ríkisins heitir það ekki lengur, heldur heitir hún skipulagsstjórn ríkisins. Á sama hátt er í 5. gr. þessa frv. gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir orðin „undirskattanefndum“ og „undirskattanefndar“ skuli koma „skattstjórum“ og „skattstjóra“. Auðvitað stendur þetta ekki í neinu sambandi við samkomulag verkalýðsfélaganna á s.l. sumri. Þess vegna er það furðuleg staðhæfing, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., þegar hann talar sem svo, að það sé einhver goðgá, að hér sé á ferðinni eitthvað, sem ekki hafi verið staðfest í samkomulagi verkalýðsfélaganna á s.l. sumri. Nú skal ég ekki neita því, að ég met mjög mikils samkomulagið, sem gert var á s.l. sumri, og hlut ríkisstj. sérstaklega í því. En ég get ekki metið það svo mikils, að ég telji, að það sé óleyfilegt, að það komi inn í þetta frv. einhver atriði, sem ekki beint varða samkomulagið. Á það verður ekki fallizt.

Hv. þm. var með hugleiðingar um það, algerlega að tilefnislausu, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, hvort þessi aukna fjáröflun til íbúðalánanna stæði í sambandi við þá ákvörðun að hækka lán út á byggingarframkvæmdir, sem hafnar eru á tímabilinu frá 1. apríl s.l. til síðustu áramóta, úr 150 þús. kr. á hverja íbúð. Það var algerlega ástæðulaust fyrir hv. þm. að vera með einhverjar bollaleggingar um þetta í þessu sambandi og þeim mun fremur þar sem ég í framsöguræðu minni fyrir áliti meiri hl. heilbr.- og félmn. tók það alveg skýrt fram, að ríkisstj. vært meira að segja búin að útvega þetta fé, um 30 millj. kr. Þetta vekur því nokkra undrun, að hv. þm. skuli vera með slíkan málflutning sem þennan hér í þessum umr. Hann fór einnig, mörgum orðum um það, hvílík óvissa hvíldi yfir því, hvað sexföldun fasteignamatsins mundi auka mikið tekjur ríkissjóðs í þessu skyni. Það er enginn ágreiningur um það, að það er óvissa um þetta. Fyrir því höfum við m.a. orð hæstv. fjmrh. hér í umr. áðan. Það er enginn ágreiningur um þetta. En ég spyr: Kemur það nú ekki kannske líka oftar fyrir en í þessu tilfelli, að það sé nokkuð erfitt að kveða alveg nákvæmlega á um það, hvað einn tekjustofn gefur? Ég hygg, að það sé engin goðgá, þó að það geti komið fyrir. Heyrum við ekki, að tekjur ríkisins fara oft og tíðum fram úr áætlun og einstakir liðir verulega fram úr áætlun? Nei, ég held, að það þurfi ekki að ræða um þessa staðreynd sem nokkurt hneykslismál í þessu sambandi.

Hv. þm. segir, að hér sé um að ræða hreina tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Og það er hinn óttalegi leyndardómur í þessu máli, hvað skeður, ef svo skyldi vilja til, að þessi tekjuöflun yrði í framkvæmd nokkru meiri en ráð var fyrir gert, þ. e. í ríkissjóðinn kæmi eitthvað fram yfir 40 millj. kr. Allar umr. um þetta atriði hljóta að snúast fyrst og fremst um þetta atriði. Hver verður skaðinn? Hver er óhæfan við þetta? Það er greinilegt, hvað það er. Þessi skattur er lagður einungis á þá skattborgara landsins, sem ekki búa í sveitum. Bændur eru sérstaklega undanskildir. Ef það koma inn tekjur til ríkissjóðs umfram 40 millj. með sexföldun fasteignamatsins, þýddi það, að viss hluti skattborgaranna legði fram fjármagn, sem væri varið eða væri greitt úr ríkissjóði til hagsbóta fyrir skattborgarana almennt, þ.e.a.s. í þessu tilfelli gæti þetta þýtt það, að bændur högnuðust eitthvað. Þetta er það skelfilega, sem mundi ske. En hvernig stendur nú á því, að hv. þm., sem telja sig sjálfskipaða forsvarsmenn bænda í þessu landi, skuli vera með allt þetta veður út af þessu máli? Hvernig stendur á því? Ég leyfi mér að efast um, að þeir hafi gert sér grein fyrir þessu. Mér finnst málflutningur framsóknarmanna hér í þessum umr. um of mótast af smámunasemi og smánaggi um aukaatriði í þessum þýðingarmiklu málum, sem við erum hér að fjalla um.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. var eitthvað að tala um reiðinga, og það var skáldlega og fallega mælt, eins og hans er venja. En við erum ekki í dag á reiðingsöldinni. Við erum komnir af því tilverustigi, og það er ekki síður á sviði húsnæðismálanna en í mörgum öðrum málum. Menn verða að skilja, að á undanförnum árum hefur verið gert stórátak í húsnæðismálunum, og það hljóta allir sanngjarnir menn að viðurkenna. Það er verið að skapa nýjan grundvöll til þess að leysa þessi vandasömu mál með nýja og sterka tekjustofna. Og þetta hefur tekizt með samstilltu átaki og m.a. í samvinnu við verkalýðshreyfingu landsins. Það er þýðingarmikið, að við gerum okkur grein fyrir þessu, ekki til þess að þakka einum eða neinum, heldur til þess að vera viðbúnir því að halda þessu verki áfram. Við megum ekki enn þá tala og hugsa eins og gert var, þegar íbúðalánin námu í heild árlega eitthvað milli 40 og 50 millj. á ári, þegar gert er ráð fyrir, að verði úthlutað 310–320 millj. kr. á einu ári. Ég skal ekki fara mikið út í tölur hér. Ég veit, að nú hugsar einhver: Byggingarkostnaðurinn hefur vaxið svo mikið, að þessi hækkun íbúðalánanna gerir ekki einu sinni að mæta hækkun byggingarkostnaðarins, hvað þá heldur meira. En þetta er ekki rétt. Fyrst við erum farin að tala um tölur, verðum við að hafa það, sem rétt er í þessu efni. Árið 1958 voru húsnæðislánin 100 þús. á hverja íbúð. Þá var byggingarvísitalan 134 stig. Í dag eru íbúðalánin 280 þús. á íbúð, og hafa því byggingarlánin hækkað um 280%. Byggingarvísitalan hækkaði um 133 stig á tímabilinu frá 1. nóv. 1958 til 1. nóv. s.l., eða um 99.3%, á sama tíma sem íbúðalánin hækka úr 100 þús. í 280 þús. eða um 180%.

Mér dettur ekki í hug að halda, að það sé ekki margt ógert í húsnæðismálunum. Auðvitað er margt ógert. En við skulum reyna að ræða þessi mál með það í huga, að það hafa verið gerð stórátök á síðustu árum til úrbóta, og við verðum að hafa það í huga, ef við ætlum að halda áfram að byggja á þeim grundvelli, sem lagður hefur verið nú hin síðustu ár.